Kristín Eiríksdóttir skrifar grein í Stundina (6. tbl. bls. 62-63) um tjáningarfrelsið (Landið þitt er ekki til. Hola.) og Ásmund Ásmundsson, eins vel það passar nú saman, en þar kem ég óvænt fyrir og alls ekki verðskuldað. Hún segir þar í löngu máli að sýningin Koddu hafi haft mikil áhrif á allt og alla, en það held ég að sé ofmat. Sýningin var alls ekki sú versta sem hér hefur verið gerð, en hún markar þó engin tímamót að mínu mati. Hún var of græðgisvædd, peningadrifin og sjálfhverf svo ég geti flokkað hana sem meiriháttar afrek. Á henni voru samt ágæt verk innan um og saman við. Það er önnur umræða og ég fer ekki í hana hér og nú, en ég þreytist seint á því að rifja upp skörpustu gagnrýni sem ég hef heyrt á nokkra sýningu og er einmitt um hana þessa. Snorri Ásmundsson sagði einfaldlega: Farðu Koddu!
„Hún var of græðgisvædd, peningadrifin og sjálfhverf svo ég geti flokkað hana sem meiriháttar afrek.“
Kristín kafar ekki djúpt í málin, en virðist samt hafa ákveðinn skilning á málefninu tjáningarfrelsi og ritskoðun, en það eru fyrst og fremst almennar hugleiðingar og með kennslukonutóni á milli línanna. Hún gefur texta sínum fræðilegt yfirbragð og jafnvel skáldlegt á köflum og vill eyða úr honum öllum persónulegum vísunum og vill nýja nálgun á málið. En hún heldur það ekki út og dregur mig að ósekju til sögunnar, en þá fellur hugmyndin um sjálfa sig. Ég sé hinsvegar áhugaverða þætti í greininni og hún vakti eiginlega fleiri og dýpri spurningar en ég hef þurft að spyrja að undanförnu í öllum hálfvitaganginum sem gengið hefur yfir, en ég ætlast eiginlega ekki til þess að þeim verði svarað, enda tel ég mig vita hvernig það yrði gert.
Í bakgrunni skrifanna er umfjöllun um Fallegustu bók í heimi, verk Ásmundar Ásmundssonar og Hannesar Lárussonar. Í greininni er látið líta svo út að þeir sem gagnrýndu verk þeirra félaganna séu ritskoðarar og óvinir frjálsrar og róttækrar listsköpunar og taki málin of persónulega í heift sinni. Og að þeir vilji ekki nálgast þolmörk listarinnar. Sjálfur fjallaði ég nokkuð um þetta verk á sínum tíma og þá speki sem hlaðið var utan á það. Það gerði ég út frá þeim umræðupunktum sem lágu á borðinu, en það var ekki tilraun til ritskoðunar, heldur gagnrýni. Alls staðar þar sem ég hef fjallað um þetta verk hefur komið fram að það sé bjargföst sannfæring mín að original listaverk eigi ekki að eyðileggja og þá skipti engu máli hvort þau séu til í einu eintaki eða 10 eða 500. Upplagið er alltaf takmarkað og heimurinn er ekkert betri ef eitt eða fleiri þeirra eru eyðilögð og það er ekkert meira mál- og tjáningarfrelsi í heiminum við þá fækkun. Þetta er lögmál, ef ég má nota það orð, sem gildir jafnt um listir og annað. Hversu lengi var í lagi að drepa Geirfugla? Hvað má fækka verkum Dieter Rot mikið áður en fullu tjáningarfrelsi er náð? Hvenær mundi Kristín grípa inn í við eyðileggingu á Flora Islandica? Þegar við værum komin undir 100 eintökin eða 12 eintök? Hvað má ég eyðileggja mörg eintök af Flateyjar-Frey fyrir augnunum á Kristínu Eiríksdóttur áður en hún biður mig að hætta? Það er fágætt listaverk í takmörkuðu upplagi, en samt ekki númerað og signerað. Er ekki hreinlegt og ágætt að hafa þá afstöðu að það sé vond iðja að eyðileggja listaverk? Ég hef ekki þá afstöðu vegna þess að mér sé illa við tjáningarfrelsið, mér er illa við þetta vegna þess að mér þykir það skipta máli. Mér finnst það hreinlega oflátungsháttur ef listamenn telja sig geta tekið það vald að eyðileggja listaverk annarra en sjálfs sín. Má skilja grein Kristínar Eiríksdóttur þannig að hún telji þetta sjálfsagt mál? Mér er til efs að þeir listamenn sem börðust hve harðast fyrir tjáningarfrelsi hafi haft það sem lokamarkmið að þeir mættu eyðileggja listaverk hvers annars eða heimsmenninguna ef út í það er farið. Í þessari umræðu voru Talibanar nefndir, þótt ég hafi ekki gert það. Sem myndlistarmaður lít ég á það sem atvinnu mína að skapa þá hluti sem ekki eru til í heiminum, en ekki með því að eyða listaverkum annarra í leiðinni. Ég get ráðist gegn hugmyndum annarra, jafnvel ákveðnum listaverkum annarra, en að ég þurfi endilega að eyðileggja þau í leiðinni í nafni tjáningarfrelsisins er heint og klárt bull. Hvaða bókabrennur eru réttlætanlegar í sögunni? Hvaða pólitískar ofsóknir standast skoðun? Hvenær og hvernig kaupir maður réttinn til að eyðileggja listaverk, en það hefur hingað til verið helsta réttlætingarmantran sem notuð hefur verið? „Við keyptum verkið og máttum gera það sem okkur sýndist!“ Hvar endar svona óskapnaður, getur Kristín svarað því? Er það virkilega orðið þannig að besta vopn róttæka og óþæga listamannsins sé peningar og eignarhald? Maður kaupir ekki réttinn til að eyðileggja listaverk, heldur fylgir því skyldan til að varðveita það.
„Hversu lengi var í lagi að drepa Geirfugla? Hvað má fækka verkum Dieter Rot mikið áður en fullu tjáningarfrelsi er náð?“
Kristín heldur að ég hafi rekið Ásmund og Hannes Lárusson úr Myndhöggvarafélaginu í Reykjavík og gefur í skin að ég hafi „skert möguleika þeirra til afkomu“. Hvernig fær hún það út? Ég sat ekki aðalfund MHR, ég greiddi ekki atkvæði um brottvikningu þeirra, ég hafði engin áhrif á skoðanir annarra félagsmanna á málinu og ég held að mér sé óhætt að fullyrða að það var ekkert óvænt við að tillaga um brottvikninguna yrði lögð fram á fundinum. Það hlaut að gerast. Ég held að Kristín viti ekkert um MHR og hvernig það félag er hugsað og hún hafi hlustað of mikið á söguburð frá óáreiðanlegum heimildarmönnum. MHR er vinnustaður þar sem myndlistarmenn hafa aðstöðu til listsköpunar. Þar var ekki vinnufriður svo mánuðum skiptir og það keyrði um þverbak þegar þeir töpuðu málinu gegn mér í Hæstarétti. Þar var ég dæmdur saklaus af ávirðingum Ásmundar og við það verða þeir félagarnir að búa, en ekki leggjast á dauða hluti og lifandi á vinnustað annarra listamanna. Hversvegna beina þeir ekki reiði sinni að Hæstarétti? Hversvegna fjallar Kristín ekkert um hæstaréttardómarana ef dómurinn var rangur? Það er eins og sumir listamenn séu ekkert nema gegnmassívir þverhausar sem hafa ákveðið að kynna sér aldrei mál til hlítar, sama hvað á gengur og engir eru meiri lögspekingar en þeir. Ég get hinsvegar vel hugsað mér að fara í umræðu um það hvort hæstaréttardómarar hafi skilning á listum (ég lagði t.d. fram tillögu þess efnis að listasaga yrði kennd í Lögregluskólanum fyrir 25 árum síðan, en þá var ég handtekinn og færður til yfirheyrslu vegna verka minna), en þeir virðast skilja tungumálið ágætlega og dómurinn snérist um notkun þess og heimild mína til að hafa ákveðnar skoðanir. Ég varði þær skoðanir og hef aldrei og hvergi bannað mönnum að hafa aðrar, ólíkt þeim kumpánum Hannesi og Ásmundi. Ofan á þetta er það fullkomlega rangt að félagsmenn í MHR hafi verið að losa sig við óþægilega listamenn til að skapa sér einhver þægindi - þeir voru að reyna að skapa sér vinnufrið. Þetta mál hefur aldrei snúist um listsköpun. Kristínu má vel finnast að Ásmundur Ásmundsson sé ekki þægilegur listamaður og á sama hátt mega félagsmenn í MHR vera þeirrar skoðunar að hann sé ekki þægilegur maður. Þeim gæti jafnvel fundist hann og Hannes óþolandi, án þess að ég viti nokkuð frekar um það. Varla er það svo að 168 félagsmenn í MHR séu skyldugir til að vera í sama félagi og þeir? Ég held að Kristín, Ásmundur og Hannes verði að sætta sig við að lýðræðið sé eins og það er og það byggir á þátttöku og atkvæðum og niðurstaðan stenst auðvitað alla skoðun.
„Þar var ekki vinnufriður svo mánuðum skiptir og það keyrði um þverbak þegar þeir töpuðu málinu gegn mér í Hæstarétti.“
Með þessum skrifum sínum, sem í upphafi áttu að vera ný nálgun, hefur Kristín tekið grjótharða afstöðu í máli sem aldrei hefur verið einfalt. Það merkilega við kærumálið er að það var alla tíð listræns eðlis, en ekki persónulegt, og þessi brottrekstur úr MHR var persónulegur, en ekki listrænn. Samt setur Kristín þau undir sama hattinn og þar liggur feillinn. Hún hefur þar með skipað sér í grátkór með Ásmundi og Hannesi sem jafna örlögum sínum við ofsóttustu listamenn sögunnar. Ég hef verið kallaður ljótum nöfnum og sagður jafningi nasista í skoðanakúgun og stunda bókabrennur út af því einu að ég rifjaði upp „listrænan“ gjörning þeirra félaga. Ásmundur, sem aldrei fær nóg af því að tjá sig opinberlega um þessar ofsóknir mínar, kallar það í Fréttablaðinu nýlega „eitt mest umtalaða og mikilvægasta listaverk síðustu ára. Ég get ekki verið óánægður með það.“ Hvað segir Kristín við því og hvernig heldur hún að mér þyki að lesa þessa játningu í samhengi við það að vera stefnt fyrir að segja það sama? Ég sagði að Ásmundur væri kunnastur fyrir þennan verknað. Hvort finnst Kristínu líklegra að afkomumöguleikar Ásmundar hafi skerst vegna þess að hann gerði það sem hann gerði eða vegna þess sem ég sagði? Hverjir eru annars þessir afkomumöguleikar? Eru þeir félagarnir hættir að geta skapað sína myndlist eða hefur þeim verið bannað það? Ná réttindi þeirra og atvinnumöguleikar út fyrir einhver önnur mörk? Í þessu samhengi má líka kalla það furðulegt að varðstaða Ásmundar um ráðningu rektors við LHÍ og stuðningur hans við forseta Bandalags íslenskra listamanna í því máli hafi enn ekki skilað sér í vasana hjá honum. Hann stóð sig afbragðsvel í því máli og mér finnst hann verður góðrar afkomu þess vegna, bæði sem kennari og viðfangsefni í Listaháskóla Íslands. Ég mundi frekar kalla það aflabrest en nokkuð annað, enda réri hann þar á gjöful og góð fiskimið.
„Ég hef verið kallaður ljótum nöfnum og sagður jafningi nasista í skoðanakúgun og stunda bókabrennur.“
Kristín segir í grein sinni sögu af því að listaverk eftir Ásmund Ásmundsson og Libiu Castro og Ólaf Ólafsson hafi verið ritskoðuð út af sýningunni Sjónarhorn í Safnahúsinu við Hverfisgötu. Það er ljót saga ef hún reynist sönn, en um þetta veit ég lítið enn sem komið er. Ég veit heldur ekki hvaða réttindi voru þarna tekin af Ásmundi, en það hlýtur að skýrast. Það sem hinsvegar er áhugavert við þá frásögn er að hún tvinnar sögu mína og Ásmundar saman við þennan atburð. Er það virkilega svo að Kristín sjái ekki muninn á þessum málum? Mér sýnist á öllu að Kristín hafi ekki lesið dóma héraðs- og hæstaréttar í málinu, en þar er sérstaklega fjallað um tjáningarfrelsið út frá málavöxtum. Mér var stefnt og ég þurfti að verja skoðanir mínar. Það var engum til höfuðs - það var vörn. Hversvegna ræðst Kristín ekki á þá sem ritskoðuðu þessa Sjónarhornssýningu og af hverju eru þeir ekki nafngreindir? Af hverju er málið ekki reifað og látið sverfa til stáls? Þarna er konkret mál sem vel má taka afstöðu til í upplýstri umræðu, en hún fjallar um það eins og sjóðandi heita kartöflu sem hún vill ekki snerta, en setur mig í skotlínuna. Hvaða skoðun hefur hún á verki Christoph Büchel í Feneyjum? Hefur einhver þeirra sem eru nafngreindir í þessari grein skoðun á því verki eða er það of langt frá naflanum á þeim?
„Það er á margan hátt auðvelt að slá því fram að í þessu samfélagi sé ríkjandi skoðanakúgun og ritskoðun, en málin geta vandast þegar á að nefna dæmi.“
Það er á margan hátt auðvelt að slá því fram að í þessu samfélagi sé ríkjandi skoðanakúgun og ritskoðun, en málin geta vandast þegar á að nefna dæmi. Þegar þau hinsvegar finnast er komið tækifæri til að láta til skarar skríða. Dómsmálið gegn mér var aldrei þannig mál hvað Ásmund snerti og það er fáránlegt að halda því fram að brottreksturinn úr MHR sé þannig vaxinn. Ásmundur og Hannes spáðu menningar- og samfélagshruni ef þeir töpuðu málinu gegn mér, en hvar eru þeir nú? Ég sé ekki betur en þeir séu í öllum fjölmiðlum að gráta eigin örlög og enginn mannlegur kraftur virðist geta komið í veg fyrir þau leiðindi. Þar tuddast þeir gegn mér, þeim eina sem hefur verið dæmdur sýkn saka í þessu absúrdleikriti? Eru dómstólarnir þá marklausir þegar hentar, Kristín?
Ég held að Kristín sé á hálum ís þegar hún gefur í skyn að hægt sé að fjalla um þessi mál með því að draga egóið frá listrænni umræðu. Það er útilokað að fjalla um listir á hlutlægan hátt og allar tilraunir í þá áttina eru marklausar. Hvernig á sá uppskurður og krufning eiginlega að fara fram? Hvernig á að ræða þetta án þess að taka til þess afstöðu? Svoleiðis æfingar gætu í besta falli leitt til þess að menn færu að draga hugtökin per se fyrir dóm, en ekki fólk. Það mætti þá stefna íhaldsseminni fyrir að vera of róttæk og róttækninni fyrir að vera of íhaldssöm. Það sér auðvitað hver maður að listin verður ekki skorin frá manneskjunni á einhverju skilgreiningarskurðarborði. Listsköpun er athæfi sem er svo nátengt því að vera manneskja að þetta verður ekki í sundur skilið, sama hversu skilgreiningaráráttan kemst á hátt stig.
„Það er eins og sé verið að tala um offitusjúkling á þrekæfingu. Snýst þetta um þolmörk listarinnar?“
En til að klára þetta á jákvæðum nótum, þá vil ég hafa orð á ákveðinni tilhneigingu sem mér finnst áberandi meðal listamanna um þessar mundir, en það er sú árátta að vilja endilega útkljá listræn álitamál fyrir dómstólum. Mér finnst það jákvætt vegna þess að það lýsir ákveðinni örvæntingu hjá þeim sem vita ekki hvernig þeir eiga að tækla þessi mál og geta ekki sofið heila nótt án þess að velta þessu fyrir sér og vilja lögbundna leiðsögn á hálum vegi listarinnar. Það lýsir syfjulegum vilja til að þroskast. Það örlar á þessu í grein Kristínar þar sem hún fjallar um Fallegustu bók í heimi, en hún telur að í umræðunni um það verk hafi mæst þannig sjónarmið að úr hefði getað orðið athyglisvert dómsmál. Það má vel vera, en hversvegna henta dómsalir betur fyrir þá umræðu en listrænn vettvangur? Mér sýnist á þessari umræðu að snilldin í Fallegustu bók í heimi felist aðallega í því að verkið var gert að lögfræðilegu álitamáli. Hversvegna er okkur ekki frekar sagt frá því hvað er svona listrænt og stórkostlegt við Fallegustu bók í heimi? Ég skrifaði í gamalli grein um hugmyndalega veikleika verksins, en það virðist enginn geta sagt mér neitt annað en að það sé goðsagnakennd snilld eða eitthvað álíka og það sé á einhverjum þolmörkum. Þolmörkum hvers eða hverra? Ég viðurkenni fúslega að þetta rugl allt saman er komið að einhverjum þolmörkum hjá mér, en væntanlega er það ekki málið. Gátu listamennirnir ekki gert betur - þraut þá örendi? Það er eins og sé verið að tala um offitusjúkling á þrekæfingu. Snýst þetta um þolmörk listarinnar? Hvað sér Kristín þá handan þessara marka, fyrst þau eru fundin? Þarf að leita til lögfræðinga og dómara til að skera úr því hvort verkið er listaverk eða ekki? Það gæti staðið tæpt. Allt sem listamenn gera í listrænu samhengi hefur merkingu og því finnst mér það lýsa hreinni og tærri snilld að leita til íhaldssömustu stofnana samfélagsins til að fá staðfesta róttækni í listum.
Athugasemdir