Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra gefur sig út fyrir að vera sérlega þjóðrækinn maður. En í hverju flest sú þjóðrækni?
Ekki felst hún í að styrkja íslenska tungu.
Í gær felldi ríkisstjórnarmeirihlutinn tillögu um að veita 170 milljónum aukalega í að gera íslensku gjaldgenga í stafrænum heimi. Engum blandast hugur um að eigi tungumál okkar að eiga minnstu möguleika á að lifa af 21. öldina, þá þarf að veita almennilegum fjármunum í einmitt þetta verkefni - en stjórn Sigmundar Davíðs hafnaði tillögunni. Hún ætlar að setja 30 milljónir í verkið, sem ekki er upp í nös á ketti.
Ekki felst þjóðrækni Sigmundar Davíðs í að styrkja íslenska menningu með þeim hætti að gera Ríkisútvarpinu kleift að sinna með skikkanlegum brag sínu mikla menningarhlutverki.
Þvert á móti virðist eiga að skera enn niður hjá Ríkisútvarpinu, sem þar með horfir fram á enn meiri uppsagnir og enn meiri útþynningu dagskrár.
Að ekki sé minnst á minni möguleika Ríkisútvarpsins til að styrkja íslenska tónlist.
Og ekki felst þjóðrækni Sigmundar Davíðs í að styðja við íslensk fræði. Úti á Melum gapir enn grunnur fræðahússins, sem þar átti að rísa.
Nei - þjóðrækni Sigmundar Davíðs felst bersýnilega í hálfgeggjuðum gæluverkefnum á sviði skipulags- og byggingamála.
Það er fleygt peningum í að undirbúa viðbyggingu Alþingis samkvæmt 100 ára gömlum teikningum. Það er svo vond hugmynd að það er ástæðulaust að tala einhverja tæpitungu um það.
Hugmyndin er einfaldlega galin.
Og svo á að henda 500 milljónum (sem svo sannarlega væri þörf á annars staðar) í að varðveita einhvern 70 ára hafnargarð, sem ekkert - nákvæmlega EKKERT - menningarsögulegt gildi hefur.
Í þessu felst þjóðrækni Sigmundar Davíðs.
Grjóti.
Athugasemdir