Þegar ég var tíu ára fór ég í sveit norður á Strandir á bæinn Stóru-Ávík í Árneshreppi. Ég þekkti fólkið á bænum ekki neitt og var svolítið feiminn svo það tók mig góða stund að átta mig á hver var hver.
Einkum og sér í lagi vafðist fyrir mér karl nokkur þarna á bænum, hann var rúmlega sextugur svo hinum tíu ára mér fannst hann auðvitað vera ansi aldraður, enda var hann ristur djúpum hrukkum í andliti og veðurbarinn, hendurnar sérlega hrjúfar, það vantaði meiripartinn af tönnunum.
Hann sagði fátt þetta fyrsta kvöld mitt í Stóru-Ávík en var furðu kvikur í hreyfingum og hafði hlýlegt handtak.
Og honum tókst einhvern veginn að vera í senn brúnaþungur og fjarska góðlegur.
Hver skyldi hann vera?
Hann var með virðulegt kaskeyti, svo það hvarflaði fyrst að mér að hann væri líklega bóndinn á bænum. Kannski gengu bændur í Árneshreppi alltaf með kaskeyti, hvað vissi ég?
En svo rann nú brátt upp fyrir mér að hann gat ekki verið bóndinn á bænum. Þegar hann tók til máls heyrðist alveg að þótt hann væri óaðfinnanlega máli farinn, þá var hann greinilega dálítið sérstakur í hugsun.
Daginn eftir mannaði ég mig upp í að spyrja annan af táningsstrákunum á bænum hver hann væri þessi maður. Var hann vinnumaður? – því það fór ekki milli mála að hann gekk til starfa af miklum dugnaði.
„Þetta er nú bara hann Guðmundur okkar Steindórsson,“ var mér sagt. „Ja, hvað er hann? Vinnumaður? Ja, einhvern tíma var það kallað niðursetningur. En það var í þá daga. Nú býr hann bara hérna hjá okkur. Hann er voða góður kall, hann Gvendur.“
Og það reyndist hann sannarlega vera. Guðmundur Steindórsson er einn eftirminnilegasti kaflinn af mörgum góðum í sögu minni norður á Ströndum. Hann kenndi mér umburðarlyndi og vonandi væntumþykju í garð þeirra sem eru svolítið öðruvísi en við flest.
Guðmundur Steindórsson var einstaklega duglegur og iðjusamur og hafði heilmikið verksvit við flestöll störf, og var svo sem meira og minna sjálfbjarga þótt hann þyrfti iðulega og kynni bara vel við svolitla leiðsögn.
Hann átti ríka sjálfsvirðingu og þó nokkurt skap en hafði líka mikinn húmor og mátti ekkert aumt sjá, þótt hann kynni ekki alltaf að láta huga sinn í ljósi.
Að sumu leyti var Guðmundur Steindórsson eins og barn í hugsun og það gat verið óborganlega skemmtilegt að hlusta á hann fabúlera um heiminn og mannfólkið, því hann var alls ekki alltaf jafn fámáll og fyrsta kvöldið mitt í Stóru-Ávík. Það var oft alls engin vitleysa sem hann sagði, þótt tengingar og röksemdafærslur og ályktanir gætu verið afar óvæntar; það var fyrst og fremst bara svo innilega öðruvísi.
Til dæmis hafði hann heilmiklar áhyggjur af því hvort hann þyrfti ekki að fara að gifta sig úr því nú væri hann alveg að komast á giftingaraldur, vel rúmlega sextugur. Og það var augljóst að það óx honum töluvert í augum að gifta sig, þótt í aðra röndina hlakkaði hann til.
Og stundum duttu upp úr honum viturleg hlýleg orð sem maður fann að voru sprottin úr lífsreyndri sál sem hafði margt séð og alltaf hugsað sitt.
Hann flíkaði yfirleitt ekki tilfinningum sínum en þó átti hann sínar viðkvæmu stundir. Og á slíkum stundum, þá sagði mér oftar en einu sinni hvað hann væri feginn að vera þarna í Stóru-Ávík en hafa ekki þurft að fara á Kópavogshælið eins og einu sinni hefði staðið til.
Það er til Guðmundar Steindórssonar sem ég hugsa þegar ég les um skýrsluna um Kópavogshælið.
Ég les um hryllinginn sem þar viðgekkst og samfélagið lét viðgangast, og ég reyni að sjá fyrir mér hvernig Guðmundur Steindórsson hefði passað þar inn í. Ég man til dæmis eftir þeim ógleymanlegu og fallegu stundum þegar tókst að fá þessa trúu og góðu sál til að syngja, og hann söng fyrir okkur: „Brimsorfna kletta, bárurnar skvetta“ með alveg einstakri rödd og tilfinningu – og ef ég reyni svo sjá hann fyrir mér lokaðan inni á Kópavogshælinu, ég sé hann fyrir mér einan, vinalausan, aleinan úti í horni að söngla, bara lágt svo enginn heyri, svo enginn komi askvaðandi, kannski með hönd á lofti, kannski að meiða hann … nei, ég get ekki hugsað lengra.
Núna erum við líklega flest voðalega hissa á þessari skýrslu og því sem hún lýsir.
Samt höfum við í rauninni vitað þetta allan tímann.
Guðmundur Steindórsson hrósaði alla ævi happi að hafa ekki þurft að fara á Kópavogshælið.
Hann hafði aldrei komið þangað, hann hafði aldrei svo sem mikið sem farið suður.
Samt vissi hann fullvel fyrir áratugum að Kópavogshælið var ekki góður staður og hann þakkaði ævinlega fyrir að hafa losnað við að lokast þar inni.
Og ég tíu ára barnið skildi hann líka alveg og hrósaði líka happi fyrir hans hönd, úff, hvað hann hefði átt illa heima á Kópavogshælinu.
Því við vissum.
Við vissum þetta alveg.
Kannski var skelfingin þarna ennþá meiri en okkur óraði fyrir, en við vissum þetta samt.
Í stórum dráttum.
Alveg eins og við vissum að Breiðavík var vondur staður, að börn hefðu aldrei átt að vistast á Kumbaravogi hér á sínum tíma, að krakkarnir í Heyrnleysingjaskólanum áttu slæma vist.
Svo fátt eitt sé talið.
Við vissum þetta mest allt en við gerðum ekkert og eftirlit ríkisins var í algjörum molum og skeytingarleysi hins opinbera var kuldalegra og grimmara en nokkurn grunaði.
Og þöggun samfélagsins almennt.
Svo seint sem 1994 sendi ég fimm ára dóttur mína í Landakotsskóla. Enginn kennari við skólann, ekkert foreldri, enginn gamall nemandi kom til mín og sagði mér að ég ætti ekki að gera það.
Það var stúlkan sjálf sem fann strax á sér að þarna vildi hún ekki vera.
Enginn sagði okkur það. Þó vissu svo margir hvað í gangi var þar.
Rétt eins og Guðmundur Steindórsson vissi á sínum tíma að á Kópavogshæli vildi hann ekki fara, ekki undir nokkrum kringumstæðum.
Hann slapp við það, svo var hinu góða fólki í Stóru-Ávík fyrir að þakka.
Það kunni að sýna honum virðingu, og hlýju, og gefa honum hlutverk og sjálfstraust í lífinu. Því fékk Guðmundur vinur minn Steindórsson lifað góðu lífi.
Ég lagði mig aldrei eftir að kynnast fortíð hans.
Ég vissi bara að hann var fæddur á bæ í sveitinni árið 1907, hann var af fátæku alþýðufólki, hjónin áttu mörg börn og réðu ekki við þetta.
Einhvern tíma leystist upp heimilið.
Á alveg sérstaklega viðkvæmri og alveg ógleymanlegri stundu í herberginu hans í Stóru-Ávík sagði Guðmundur Steindórsson mér að upplausn heimilisins hefði verið sér að kenna.
Barn að aldri hefði hann farið með logandi kerti út í hlöðu, og svo illa tókst til að hann missti kertið.
Hlaðan brann, gott ef ekki bærinn líka, lífsbjörgið fuðraði upp.
Ég veit ekki hvort það er rétt að þessi atburður hafi skipt svo miklum sköpum í lífi þessarar fátæku fjölskyldu. Það kann að vera, en Guðmundur Steindórsson skildi hlutina líka stundum sínum eigin skilningi, svo ég veit það ekki.
En hvað var hann að gera með kerti út í hlöðu?
„Mig langaði bara svo að sjá kettlingana. Því kisa var með kettlingana úti í hlöðu,“ sagði hann og tárin streymdu niður hrjúfa og hrukkótta vangana við að rifja upp þessa nærri sextíu ára gömlu minningu.
Ég ítreka: Ég kann ekki sögu hans. Í Íslendingabók kemur fram að hann hafi verið skráður tökupiltur á Seljanesi þar í sveitinni árið 1930, þá var hann 23ja ára. Einhvern tíma eftir að Kópavogshæli var stofnað árið 1952 hefur átt að senda hann þangað, þá rúmlega fertugan.
Sem betur fer varð ekkert af því.
Fólkið í Stóru-Ávík tók hann að sér.
Jújú, hann var kallaður niðursetningur, ef gefa þurfti einhverjar skýringar á tilveru hans, en þegar ég kom í Ávík var hann ósköp einfaldlega einn af heimilisfólkinu, hann var ekki aðeins vinur fjölskyldunnar heldur tilheyrði fjölskyldunni.
Fólkið í Stóru-Ávík var fólkið hans.
Þegar ég les hrylling eins og þá sem skýrslan um Kópavogshælið er, og heyri vitnisburð fólks sem þar vann eða átti ástvini, þá kvikna ýmsar tilfinningar.
Persónulega skammast ég mín fyrir að hafa ekki staðið mig við að upplýsa og uppræta slík og önnur viðlíka mein úr samfélaginu og hef ég þó haft áratugi og góða aðstöðu til þess.
En aðallega verður mér hugsað svo sterkt til vinar míns Guðmundar Steindórssonar og ég get ekki lýst því hvað ég er feginn að þessi saklausa, blíða sál skyldi sleppa við skelfingarnar á hælinu.
En jafnframt er þeim mun sorglegra að aðrar sálir jafn fallegar sluppu ekki.
Athugasemdir