The Better Angels of Our Nature: Why Violence Has Declined (2011), eftir sálfræðiprófessorinn Steven Pinker við Harvard-háskóla, er einhver áhugaverðasta en jafnframt umdeildasta bók síðari ára. Bókin dregur fram staðtölur úr opinberum skýrslum frá ýmsum heimshlutum sem sýna að nánast hvernig sem við metum félagslegar framfarir – í lægri glæpatíðni, rénandi stríðsátökum, minni bláfátækt, aukinni menntun, minnkandi barnadauða o.s.frv. – þá hafi heimurinn verið í stöðugri framför, að minnsta kosti frá lokum síðari heimsstyrjaldar. Þetta gengur hins vegar í berhögg við þá, að því er virðist, almennu skoðun að allt í heiminum sé að fara fjandans til með viðeigandi fyrirsjáanlegum friðslitum og heljarþröm.
Ef ég hefði verið spurður um ástæður þessa misræmis milli „staðreynda“ úr tölfræðiskýrslum og ímynda mannshugans, áður en ég las bók Pinkers, hefði mér líklega dottið tvennt í hug. Hið fyrra er hungur fjölmiðla í neikvæðar fréttir og sókn eftir hinu óvenjulega sem „fréttnæmu“. Hið síðara er skortur á tölfræðilæsi sem sænski læknirinn og talnagúrúinn Hans Rosling hefur afhjúpað svo eftirminnilega í fjölda sjónvarpsþátta sem aðgengilegir eru á Youtube. Rosling sýnir þar meðal annars fram á að ósamræmi milli ímynda almennings og veruleikans eykst fremur en minnkar með vaxandi menntun. Meirihluti menntaðra Breta álítur til dæmis að meðalbarnafjöldi á fjölskyldu í Bangladesh sé milli 5 og 6 þó að hann sé í raun kominn undir 3. Framvarpanir Roslings leiða í ljós að fólksfjölgun í heiminum hættir að vera vandamál um eða fyrir næstu aldamót; úrlausnarefni næstu aldar verður fremur fólksfækkun. Þá sýna þær einnig að sárafátækt, skv. skilgreiningu SÞ, er á svo hröðu undanhaldi að hún verður nánast úr sögunni í heiminum eftir 30–40 ár, og raunar miklu fyrr ef pólitískur vilji og einurð væru fyrir hendi.
Viðtöl við sænska lækninn Hans Rosling um hvernig staða fólks í heiminum er betri en við höldum.
Kosturinn við bók Pinkers er að hann seilist mun dýpra en þessar skýringar gera. Fyrir Pinker væru tölfræðiólæsið og neikvæðni fjölmiðla einungis birtingarmyndir afturfarargoðsagnarinnar fremur en skýringar. Pinker stingur upp á þremur djúpstæðari skýringum sem runnar eru frá sálfræði, siðfræði og líffræði (þróunarfræði). Sálfræðiskýringin er þátíðarþrá mannskepnunnar. Það virðist hafa verið innbyggð í okkur frá örófi alda einhver nostalgía eftir glötuðum heimi þar sem allt var betra („í gamla daga“) en það er nú. Þess vegna höfðar boðskapur um „framfaragoðsögn“ (sbr. nafnið á þekktri bók finnska heimspekingsins G. H. von Wright; til á íslensku sem Lærdómsrit HÍB) miklu sterkar til okkar en staðreyndir um betri heim. Ef til vill á þessi hvöt rót í þrá einstaklingsins eftir afturhvarfi til eigin glataðrar æsku: jafnvel til sjálfs móðurlífsins. Siðfræðiskýringin er sú að það virðist lýsa siðlegu kaldlyndi að svara kalli einstaklinga, fjölskyldna eða þjóða sem eiga bágt með því að benda á að í heild sé nú heimurinn samt á réttri leið. Slíkar athugasemdir yrðu að minnsta kosti skjótt túlkaðar á samfélagsmiðlum sem merki um vöntun á samlíðan og hluttekningu. Tilhneigingin er því sú að taka undir kall um hjálp gegn böli með því að benda á annað meira allt í kring. Líffræðiskýringin er sú að homo sapiens hefur þróað með sér ofurnæmi gegn hættum og áskorunum – aðstæðum sem þarf að flýja eða andæfa. Við höfum því mun þroskaðra skyn á hið illa en hið góða: tökum jafnvel ekki eftir hinu síðarnefnda. Í þessu sambandi má líka minna á að við höfum margfalt fleiri hugtök um neikvæðar tilfinningar en jákvæðar. Það er eins og við getum verið óhamingjusöm á hundrað ólíka vegu en aðeins hamingjusöm á einn.
Rétt er að taka fram að Pinker setur ekki fram neina skýra kenningu um siðferðilega framför einstaklinga. Ef hann þekkti ljóð Stephans G. gæti hann hugsanlega tekið undir það sjónarmið að hugur hafi „risið eins hátt“ í fornöld og það sé aðeins „menningin út á við“ sem hafi aukist, aðallega vegna samfélagslegra framfara fremur en einstaklingsbundins siðvits. Hann afneitar ekki heldur þeim hættum sem steðja að mannkyni í formi alls kyns náttúrulegra váboða, en hann myndi líklega segja að samanlögð hætta þeirra hafi haldist nokkuð stöðug í gegnum mannkynssöguna. Þótt ein hafi aukist, t.d. möguleg ofhlýnun jarðar, þá hafi dregið úr öðrum, til dæmis hættu á pestum sem legðu allt mannkyn í rúst. Ef til vill hefði hann mátt velta meira fyrir sér eflingu ofsatrúar í heimi nútímans. Tölfræðilíkön Roslings sýna til dæmis að Evrópa 22. aldar verður líkari bókstafstrúarbeltum Bandaríkjanna en veraldarhyggjulöndunum sem við þekkjum í dag – og sumum hrýs hugur við þeirri tilhugsun. En Pinker er enginn sérstakur spámaður um framtíð næstu alda; hann sýnir einfaldlega í hvaða átt heimurinn hefur stefnt síðustu 75 ár eða svo.
Pinker eyðir miklu rými í að setja fram mögulegar skýringar á framförunum. Þær spanna vítt svið, allt frá framgangi femínísks mannskilnings og alþjóðahyggju í siðfræði, til aukins þroska sammannlegrar skynsemi, þróun nútíma ríkisvalds og viðskiptahátta. Ég verð að viðurkenna að mér þykja skýringar Pinkers á framförunum ekki eins sannfærandi og skýringar hans á afturfarargoðsögninni. Á nútíma íslensku mætti segja að hann „taki Hegel á þetta“. En hann svarar til dæmis ekki með nógu afgerandi hætti rökum marxista og frjálshyggjumanna (sem eiga sameiginlega sögulega efnishyggju um samfélagslegar breytingar) að skýringanna sé einungis að leita í breyttri efnahagsgerð nútíma samfélaga.
Steven Pinker, höfundur bókarinnar The Better Angels of Our Nature: Why Violence Has Declined, ræðir um minnkandi ofbeldi í heiminum.
Margir hafa orðið til að andmæla boðskapnum í bók Pinkers; og mér virðist sem unnt sé að skipta efasemdunum í fjóra meginflokka. Fyrsta mótbáran varðar sjálfan tölfræðigrunninn. Bent hefur verið á að greiningarmark glæpa hafi hækkað á Vesturlöndum og opinberar tölur gefi því ekki endilega rétta mynd af óáran samfélaga. Samstafskona mín í Birmingham vaknaði t.d. einn morgun fyrir nokkru við að nýi bíllinn hennar úti á plani hafði verið sundurhlutaður og „tekinn í varahluti“; eftir stóð aðeins strípuð grind. Þegar hún hringdi örvingluð í lögregluna var henni sagt að ekkert tóm væri lengur til að sinna svona smámálum, þau væru of algeng, og hún skyldi bara snúa sér til tryggingarfélags síns. Þessi ábending gæti skýrt hví tíðni smáglæpa virðist fara hraðminnkandi, en hún nægir ekki til að skýra fækkun líkamsárása og manndrápa sem virðist vera hneigðin nánast hvar sem litið er (ef örfá stríðshrjáð lönd eru undanskilin). Önnur og heimspekilegri mótbára kveður á um að Pinker yfirsjáist að farsæld/vansæld hefur ekki aðeins „magn“ heldur „gæði“. Þegar föðurafi minn á Langanesströnd missti þrjú börn sín úr barnaveiki í sömu vikunni um aldamótin 1900 var það vissulega skelfilegt áfall, en hann eignaðist 14 í heild með tveimur konum svo að gæðarofið við að missa þrjú var hugsanlega ekki meira en við missi nútímaforeldra á einbirni. Þegar grannt er skoðað er þessi mótbára þó ansi viðsjál. Hún virðist gera ráð fyrir einhvers konar Parkinsonslögmáli um vansæld, um að vansæld hafi ákveðið fyrirframgefið rými í mannssálinni sem hún fylli upp í, óháð raunverulegu „magni“ ólánsins. Þetta gefur undir fótinn hugsun sem meistari Þórbergur afgreiddi snyrtilega sem „heimspeki eymdarinnar“.
Þriðja og fjórða mótbáran eru skeinuhættari. Marxíska kenningin um „falska vitund“ kveður á um að kapítalískir framleiðsluhættir síðustu áratuga hafi þróað nýjar leiðir til að undiroka og mergsjúga almenning án þess að svelta hann beinlínis eða berja í hel eins og lýst er til dæmis í sögum Dickens frá Lundúnum 19. aldar. Staðtölur – sem aðeins mæla ytri merki áþjánar – gefi því alranga mynd af kúgun og volæði í heiminum. Póstmódernistar ganga enn lengra og færa rök að því að sjálft framfarahugtakið sé sögulega skilyrt og afstætt. Það hafi til dæmis nánast verið búið til úr engu á tímum endurreisnar og upplýsingar. Vegna þessa sé allur sögulegur samanburður út í hött og þjóni aðeins hagsmunum í valdsorðaskaki þrýstihópa. Allir svokallaðir „hlutlægir mælikvarðar“ á farsæld – og þar með framför hennar eða afturför – séu annaðhvort ómeðvitað eða útspekúlerað sjónarspil.
Það er ekki tóm til þess að rökræða þessar mótbárur hér. Einungis skalt bent á að bæði marxisminn og póstmódernisminn ganga út frá umdeildum þekkingarfræðilegum viðmiðum: póstmódernisminn til dæmis út frá róttækri afstæðishyggju sem margir myndu gjalda varhuga við. Stundar-pistill er ekki heppilegur vettvangur fyrir djúpa heimspeki. Tilgangur þessarar hugvekju minnar var einungis að hvetja sem flest ykkar til að lesa bók Pinkers, enda er hún skrifuð fyrir almenna lesendur fremur en fræðimenn. Hvort sem boðskapurinn kætir eða ergir þá lofa ég því að bókin verður ykkur hugkveikja.
Athugasemdir