Við sambýlismaður minn eigum saman fjögur börn. Bráðum verða þau fimm. Tvö þeirra gekk ég með og fæddi í þennan heim. Tvö þeirra var ég svo heppin að fá í meðgjöf þegar ég eignaðist kærasta sem svo varð sambýlismaður minn. Aðra hverja viku vöknum við sex saman á morgnana, við tekur erilsamur dagur með skóla, íþróttum, hljóðfærum og heimalærdómi þegar heim er komið. Við eldum og borðum saman kvöldmat, það eru oftar en ekki skrílslæti í yngsta fólkinu, það er legið í fletinu og lesið Andrésblað, suðað um tölvuna og unglingurinn stingur stundum af inn í herbergi til að fá að vera í friði. Þið vitið hvernig þetta er. Fjölskyldulíf.
Við erum nefnilega búin að ákveða að vera fjölskylda. Þegar við ákváðum að vera saman gáfum við hvort öðru ekki bara hvort annað heldur líka hlutdeild í lífi barnanna okkar. Það var bæði stærsta gjöf sem ég hef gefið og tekið við. Það er ekki einfalt að bræða tvær litlar fjölskyldur saman í eina stórfjölskyldu. Það er risastór breyting fyrir alla. Samsuðan hefur sýnt mér hvað það er foreldrum eins og okkur mikilvægt að aðrir líti á okkur sem fjölskyldu. Meinleysislegar athugasemdir geta meitt, eins og þegar fólk án þess að hugsa telur ekki stjúpbörnin með til barna minna eða man ekki hvað þau heita. Á sama hátt er góð tilfinning að finna viðurkenningu. Þegar amma segir í óspurðum fréttum: „Ég á tíu barnabörn“ og er búin að hækka barnabarnatöluna um tvo krakka, án þess að nokkur bæði hana um það. Það gleður og þessir hlutir skipta máli, fyrir okkur foreldrana en ekki síður fyrir börnin.
Hið opinbera viðurkennir ekki fjölskylduna
Við erum búin að ákveða að vera fjölskylda og við viljum að aðrir – samfélagið – líti okkur sömu augum, því það er það sem við erum. Nema hvað. Samkvæmt fjölskyldunúmerinu, sem Þjóðskrá ánafnar okkur fyrir hönd hins opinbera, erum við þrjú í fjölskyldu: Ég, sambýlismaður minn og blóðsonur minn. Frammi fyrir hinu opinbera má því segja að börnin hans tvö og dóttir mín séu ekki hluti af okkar fjölskyldu. Samt sem áður förum við sameiginlega með forræði allra barnanna með okkar fyrrverandi mökum, frábæru fólki sem er sammála okkur um að við ætlum að halda áfram að ala upp börnin okkar saman. Kerfið, eins og það er í dag, hefur hins vegar skikkað okkur til þess að velja þeim eitt lögheimili. Það er út af þessu sem við erum smáfjölskylda frammi fyrir hinu opinbera þótt við séum stórfjölskylda í raun.
„Frammi fyrir hinu opinbera má því segja að börnin hans tvö og dóttir mín séu ekki hluti af okkar fjölskyldu.“
Borgarbúar eru eindregið hvattir til að sinna samskiptum sínum við borgina í gegnum Rafræna Reykjavík. Þar, eins og í Þjóðskrá, stendur stórum stöfum að fjölskyldan mín samanstandi af þremur manneskjum. Það er óþægileg tilfinning að skrá sig inn á opinberan vef og sjá þar hvergi merki um helming fjölskyldu sinnar. Það stingur. Skildi ég við dóttur mína, þegar ég skildi við pabba hennar? En það eru ekki bara tilfinningarök að baki því að finnast eitthvað mikið bogið við þetta kerfi. Þvert á vilja samlyndra fráskilinna foreldra hefur lögheimilisforeldri meira um líf barna sinna að segja en svokallað umgengnisforeldri. Lögheimilisforeldrið getur tekið einhliða ákvarðanir um í hvaða leikskóla eða skóla börnin ganga og hvort þau stundi tómstundir. Það hefur líka lagalegan rétt á meðlagi frá hinu foreldrinu og fær greiddar barnabætur.
Kerfið býr til ógnarjafnvægi um börn
Þegar við maðurinn minn fyrrverandi slitum samvistum vorum við sammála um að halda áfram að ala upp börnin okkar tvö saman og hafa þeirra hag að leiðarljósi. Til að hafa hlutina sem jafnasta tókum við ákvörðun um að annað barna okkar skyldi hafa lögheimili hjá mér og hitt hjá honum. Með þessu sköpuðum við ákveðið ógnarjafnvægi í okkar samskiptum. Hann hefur meiri völd yfir dóttur okkar. Ég hef meiri völd yfir syni okkar. En af hverju þetta valdabrölt, þegar við viljum gera þetta saman? Algengara er að systkini hafi lögheimili á sama stað og oftast hjá móðurinni. Hugsið ykkur hvað það eru margir feður úti um allan bæ sem hafa aldrei séð bréf stílað á barnið þeirra koma inn um lúguna hjá sér.
Stjórnarsáttmáli nýrrar ríkisstjórnar gefur tilefni til að trúa því að þetta sé að breytast. Mörgum þykir hann rýr en hann er skýr þegar kemur að því að bæta þjónustu samfélagsins við börn, unglinga og fjölskyldur þeirra. Í honum stendur að samfélagið eigi að styðja ólíkar fjölskyldugerðir og hvetja til þess að foreldrar, sem ekki búi saman, ali upp börn sín í sátt. Að réttur barna til að verða skráð í skipta búsetu á tveimur lögheimilum verði tryggður og aðstaða umgengnisforeldra og lögheimilisforeldra jöfnuð. Þetta er gott, því það á ekki að þvinga foreldra barna til þess að veita öðru þeirra meiri völd yfir þeim. Við sambýlismaður minn erum heppin, því allir í okkar foreldrasúpu eru sammála um að mömmur og pabbar séu jafnmikilvægt fólk. En þetta mál á ekki að snúast um heppni.
Helmingur barnanna í bekknum á tvö heimili
Það er 21 krakki í sex ára bekk yngstu dóttur okkar. Helmingur þeirra býr á tveimur heimilum. Hin venjulega kjarnafjölskylda er ekki í meirihluta lengur. Svona er raunveruleikinn í dag og kerfið á að endurspegla hann, ekki hvetja til ósættis, aðstöðumunar og ranglætis.
Þannig ætti fjölskyldunúmer í Þjóðskrá Íslands að endurspegla hverjir tilheyri viðkomandi fjölskyldu. Ef börn eiga tvær fjölskyldur eiga þau að vera á tveimur fjölskyldunúmerum. Það kann að vera að þetta sé flókið úrlausnar en það skiptir engu máli. Breytum þessu bara. Svo gefur augaleið að Icelandair-auglýsing næstu jóla verði hugljúf saga úr hversdagslífi samsettrar fjölskyldu. Þið hafið þetta á bakvið eyrað, þið sem búið þær til.
Athugasemdir