Eitt helsta hlutverk dómsmálaráðherra er að sjá um að réttarkerfið í landinu sé sómasamlegt.
Samkvæmt þeim mælikvarða hefur Sigríður Á. Andersen nú þegar brugðist - algjörlega.
Raunar ætla ég að leyfa mér að fullyrða - og þessi fullyrðing er ekki út í loftið - að Sigríður Á. Andersen hafi nú þegar tryggt sér sess sem einhver versti ráðherra Íslandssögunnar.
Því hún hefur að eigin frumkvæði og algjörlega að óþörfu hulið skít og drullu nýtt og mikilvægt dómsstig í landinu sem átti að verða til svo mikilla bóta.
Hún hefur dregið úr trú og trausti fólks á réttarkerfið í landinu.
Og dregið úr trú á Alþingi - sem var nú ekki mikil fyrir.
Og dregið úr trú okkar á stjórnsýslunni yfirleitt.
Og ekki nóg með stofnanir - Sigríður hefur líka farið sem eldvarpa yfir einstaklinga.
Hún hefur stórskaðað orðspor og faglegan heiður þeirra umsækjenda um dómarastöður sem hún hafnar að geðþótta sínum.
Og ekki bara þeirra.
Hún hefur skaðað álíka mikið eða jafnvel meira orðspor og faglegan heiður þeirra fjögurra umsækjenda sem hún virðist ráðin í að troða í djobb.
Og hún er á góðri leið með að ata skít orðspor fjölda þingmanna sem hún ætlast til að „kyngi ælunni“ eins og nú er greinilega komist að orði (eða var það „ærunni“?) bara til þess að hennar geðþótti fái að ráða.
Ég mun að minnsta kosti ekki litið margt af því fólki sama auga ef það samþykkir þennan gjörning. Af hverju ætti það að fórna réttsýni sinni fyrir hrokagikksháttinn í Sigríði Á. Andersen? Það mun ég aldrei skilja, ef af verður - en ekki gleyma því heldur.
En svo er eitt.
Landsrétturinn var sérstakt áhugamál Ólafar heitinnar Nordal innanríkisráðherra. Ég var ekki alltaf sammála Ólöfu um allt, en það fór aldrei milli mála að hún leitaðist við að undirbúa stofnun réttarins af fádæma heiðarleika og metnaði og fagmennsku.
Finnst Sjálfstæðismönnum að þeir heiðri minningu Ólafar með því að taka þátt í að hrokagikkir ati réttinn hennar skít og drullu?
Um Bjarta framtíð og Viðreisn tjóir ekki að ræða. Þar gerist margt orðsporið heldur vesældarlegt ef þau ætla að styðja geðþóttavald Sigríðar Andersen.
Athugasemdir