Afhjúpanir síðustu vikna á viðskiptum Íslendinga við aflandsfélög hafa vakið upp gamalkunnar umræður um kosti þess og galla að stjórnmálamenn séu auðugir. Einfalda svarið við spurningunni um hvaða afleiðingar efnahagsleg staða fólks eigi að hafa fyrir þátttöku þess í pólitík er að hún eigi engar afleiðingar að hafa, hvorki góðar né slæmar því efnahagslegur ójöfnuður megi ekki valda pólitískum ójöfnuði. Ég ræddi aðeins um þetta í pistli sem Stundin birti fyrr í vor.
Peningar breyta hegðun
En þessi umræða vekur líka aðra spurningu, jafnvel áleitnari, um áhrif peninga á hegðun fólks og hugsunarhátt. Nokkrir íslenskir blaðamenn hafa haldið því fram að peningar hafi góð áhrif á breytni. Þannig reyndi Þorbjörn Þórðarson að sýna fram á það í grein í Fréttablaðinu að efnað fólk væri síður líklegt til að láta sérhagsmunaöfl hafa áhrif á sig þar sem það þyrfti ekki á fjárstuðningi að halda: „Fjársterkur einstaklingur sem fer í stjórnmál er ekki fjárhagslega háður öðrum,“ segir Þorbjörn. „Minni líkur eru á því að hægt sé að hafa áhrif á viðkomandi með styrkjum eða gjöfum. Bæði þegar beinir styrkir eru annars vegar en einnig þegar um er að ræða mögulegar hagsbætur í framtíðinni. Til dæmis þegar ferli í stjórnmálum lýkur. Þegar fólk tekur ákvarðanir litast þær oft af eigin hagsmunum í framtíðinni og það getur mengað dómgreindina.“
Þetta er sérkennileg röksemd, aðallega vegna þess að ólíkum hlutum virðist vera blandað saman. Eitt er spurningin um fjárhagslega afkomu fólks eftir að það hættir í pólitík og vissulega kann að vera að minni líkur séu á því að einstaklingur sem þarf engar áhyggjur að hafa af afkomu sinni freistist til að falbjóða sig hagsmunaaðilum sem geta tryggt honum eða henni framfærslu eða sterka stöðu eftir að pólitískum ferli lýkur. Spurningin um styrki til að reka stjórnmálabaráttu er hins vegar allt annars eðlis. Þeir sem hafa nóg fyrir sig að leggja og þurfa ekki að hafa áhyggjur af eigin afkomu geta samt freistast til að þiggja styrki til að fjármagna kosningabaráttu eða ráða aðstoðarfólk. Fólk sem getur varið háum upphæðum til stjórnmálabaráttu, langt umfram hinn venjulega þingmann, er þá ekki aðeins vel stætt heldur væntanlega stóreignafólk. Þótt hugsanlega sé hægt að fallast á að það sé kostur fyrir stjórnmálamann að vera þannig efnum búinn að ekki þurfi að hafa áhyggjur af persónulegri afkomu, er öllu langsóttara að stóreignafólk, sem getur eytt tugum milljóna í stjórnmálastarf sitt, sé af þeim sökum heppilegir eða eftirsóknarverðir stjórnmálamenn.
„Fjársterkir einstaklingar“ og heilbrigð stjórnmál
Í rauninni verður að hafna röksemd Þorbjörns alfarið. Það er einfaldlega mjög hæpið að halda því að það kunni að vera mikilvægt til að stuðla að heilbrigðum stjórnmálum eða koma í veg fyrir spillingu að fá „fjársterka einstaklinga“ í pólitík. Stundum er að vísu reynt að rökstyðja þetta á annan hátt en Þorbjörn gerir, það er, með því að halda því fram að líklegt sé að fólk í góðum efnum hafi til að bera mannkosti og hæfileika sem geta nýst í pólitík og þess vegna sé mikilvægt að slíku fólki þyki spennandi að vera í stjórnmálum. Ég veit ekki um neitt sem bendir sérstaklega til að þetta sé rétt. Efnað fólk er jafn fjölbreytt að hæfileikum og kostum og annað fólk enda verður fólk efnað af ólíklegustu ástæðum.
„Sú viðleitni foreldris að fá börnin sín til að lesa með því að borga þeim fyrir það haft öfug áhrif.“
Það sem ætti hins vegar að vera aðalatriðið – ætti að vera byggt inn í leikreglur stjórnmálanna, skráðar og óskráðar, og verklag stjórnsýslunnar – er að stjórnmálafólk sé fjárhagslega sjálfstætt í þeim skilningi að það sé ekki á kafi í skuldum eða fjárhagslegum skuldbindingum sem gera það sérstaklega viðkvæmt fyrir afskiptum og áhrifum hagsmunaaðila. Með öðrum orðum sé ekki í flóknum og erfiðum fjárhagslegum aðstæðum, ekki skuldugt, ekki tengt einstökum fyrirtækjum um of eða á kafi í viðskiptum. Því aðalmálið hlýtur jú að vera að það geti sinnt sínu hlutverki án þess að hagsmunatengsl og hagsmunaárekstrar komi í veg fyrir eðlilegt traust á milli þeirra og almennra borgara.
Góðvilji efnamannsins
Í lýðræðislegu samfélagi eiga allir að hafa jafnan rétt til þátttöku og aðkoma ólíkra hópa á að vera sem jöfnust. Því fer fjarri að svo sé í raun, og þótt ekki sé um formlega útilokun að ræða eiga ólíkir hópar misgreiðan aðgang að valdastofnununum samfélagsins. Fyrir þá sem búa við góðan efnahag er þessi aðgangur í flestum tilfellum greiður. Það er einmitt athyglisvert við röksemdir fólks eins og Þorbjarnar Þórðarsonar sem trúir á getu hinna ríku, að það hefur ekki áhyggjur af því að ríkt fólk fari ekki pólitík vegna þess að aðrir útiloki það, heldur vegna þess að það hreinlega nenni því ekki, eða finnist það á einhvern hátt fyrir neðan sína virðingu.
En stóra spurningin er hvort einhver áhugaverð rök séu fyrir því að dekstra efnað fólk til að taka þátt í pólitík. Ef horft er til sálfræðilegra þátta, frekar en beinna hæfileika mætti kannski láta sér detta í hug að hinir efnuðu hefðu tækifæri til að rækta með sér ýmsa eiginleika sem öðrum tekst síður, svo sem víðsýni, velvilja, glöggan mannskilning og þor. Ötulasti talsmaður frjálshyggju hér á landi, Hannes Hólmsteinn Gissurarson, hefur verið óþreytandi að ræða um þetta. Hann smíðaði fallegar lýsingar á sumum helstu athafnamönnum landsins fyrir hrun eftir þessari hugmynd. Starfsemi Björgólfs Guðmundssonar mótaðist í hans augum af góðvilja víðsýns manns sem hefur náð langt, en býr yfir nægum vitsmunum til að elda ekki grátt silfur við nokkurn – ekki einu sinni öfundarmenn sína.
Ruðningsáhrif peninganna
Margar skemmtilega hugsaðar tilraunir í sálfræði gefa tilefni til efasemda um þessi áhrif peninga á hegðun og hugsunarhátt. Til dæmis hefur því verið haldið fram á grundvelli slíkra tilrauna að fjárhagslegir hvatar hafi ruðningsáhrif: Fólk sem venst því að láta slíka hvata stýra hegðun sinni reynist iðulega dofna fyrir hvötum af öðru tagi. Svo tekið sé einfalt dæmi þá getur sú viðleitni foreldris að fá börnin sín til að lesa með því að borga þeim fyrir það haft öfug áhrif ef börnin missa þá allan áhuga á lestri nema greitt sé fyrir. Þannig eru greiðslurnar ekki hjálpartæki til að auka áhuga á lestri, heldur draga þær úr líkum á því að sjálfstæður lesáhugi myndist. Áhuginn á peningum eykst aftur á móti.
Það hefur líka verið sýnt fram á að peningar draga úr áhuga fólks á samvinnu við aðra, auka löngun til að vera út af fyrir sig og taka ákvarðanir í einrúmi án samráðs við aðra, styrkja sjálfstraust í þá átt að gera fólk ónæmara fyrir ábendingum og gagnrýni annarra og minnka vilja fólks til að setja sig inn í og meta reynslu annarra. Þannig hafa þeir sem komast í álnir sterka tilhneigingu, samkvæmt rannsóknum af þessu tagi, til að ofmeta eigin hugmyndir og lausnir.
Vont veganesti
Til að gera langa sögu stutta langar mig að benda á nokkur atriði sem sýna að það er mjög hæpið að fólk sem hefur tamið sér viðhorf af þessu tagi sé vel til þess fallið að vera í pólitík. Í fyrsta lagi er sjálfstraust þess iðulega byggt á ákveðinni skekkju sem veldur því að það á sérlega erfitt með að vera gagnrýnið á sjálft sig. Þessi skekkja er kölluð staðfestingarskekkja. Hulda Þórisdóttir fjallaði um þátt hennar í hruninu í eftirminnilegum viðauka við áttunda bindi Rannsóknaskýrslu Alþingis. Gagnrýnisleysi af því tagi er eitthvert versta veganesti stjórnmálamanns. Í öðru lagi byggja stjórnmál á samvinnu þar sem ólíkir hópar koma saman og þurfa að vinna að sameiginlegum lausnum. Peningar virðast hins vegar efla þá hugsun að pólitík snúist um að hafa sitt fram án tillits til andstæðra sjónarmiða. Í þriðja lagi ætti stjórnmálaumræða að vera til þess fallin að veita reynslu og þekkingu sem flestra inn í stefnumótun og ákvarðanir. Áhrif peninganna eru hins vegar að minnka áhuga á þessu en auka áhuga manna á ákvarðanir séu teknar af „til þess bærum“ einstaklingum, helst sem allra fæstum.
Þegar öllu er á botninn hvolft er engin ástæða til að ætla að það sé sérstaklega eftirsóknarvert að fá fjársterka aðila í pólitík. Þvert á móti. Það er eðlilegt og í fullu samræmi við sálfræðilega þekkingu að gjalda varhug við of mikilli þátttöku hinna efnameiri. Það er þá í rauninni gott mál að áhugi þeirra sé minni en annarra – aðgangur þeirra er greiðari og því getur enginn haldið því fram að þeir búi við ranglæti.
Athugasemdir