Eins og allir vita sem horft hafa á mafíumyndir, þá eru nýliðar í mafíunni látnir gangast undir eldraun eða þraut áður en þeir verða innvígðir og innmúraðir.
Eldraunin er fólgin í að fremja glæp sem gerir nýliðann þaðan í frá samsekan mafíuforingjunum. Þaðan í frá geta þrautspilltir foringjarnir sagt: „Þú ert eins og við.“
Ég get skýrt fram að ég ætla ALLS EKKI að líkja saman framferði mafíunnar annars vegar og íslenskra stjórnmálasamtaka hins vegar.
En aftur á móti gilda, trúi ég, ósköp svipaðir mannasiðir í öllum þröngum valdaklíkum.
Og það læðist að mér sá grunur að þegar hinir þrautreyndu spillingarforingjar Sjálfstæðisflokksins stóðu á þingi í gær og horfðu glaðir á bragði á fólk skila sér í nafnakallinu um réttarklám Sigríðar Andersen - þegar þeir horfðu á fólk eins og Theódóru Þorsteinsdóttur greiða atkvæði eins og fyrir hana var sett, og þeir horfðu á fólk eins og Pawel Bartoszek og Hönnu Katrínu Friðriksson og Jón Steindór Valdimarsson koma léttfætt koma í pontu og fara með fleipur, og þeir horfðu jafnvel á Hildi Sverrisdóttur úr sínum eigin flokki, þá hafi þeim kannski liðið ekki ósvipað og klíkuforingjum eftir vel heppnaða vígsluathöfn nýliða.
„Nú er búið að fá þau öll til að taka þátt í spillingunni, sérhagsmunagæslunni. Við erum búin að fá þau til að tala sér þvert um hug, réttlæta lygar og málaflækjur, fúsk og valdníðslu.
Nú eru þau loksins útskrifaðir stjórnmálamenn.
Nú eru þau orðin eins og við.“
Athugasemdir