Ég hef verið að hugsa um það í allan vetur hvað mér finnist um að matvörubúðum verði leyft að bjóða upp á áfenga drykki. Ég verð að viðurkenna að mér finnst fjandi erfitt að komast að niðurstöðu um þetta. Kannski sé mér bara alveg sama – eða hvers vegna ætti það að vera eitthvert stórmál hvernig staðið er að því að selja áfenga drykki, hvort maður kaupir þá með kjötfarsinu, eða fer í sérstaka ríkisbúð til þess?
Sennilega skiptir þetta ekki sköpum um neyslu þar að auki – jú jú fólk mun hella eitthvað meira í sig, en varla þannig að til vandræða horfi fyrir framtíð samfélagsins (Danmörk er ekki hrunin). Ætti fólk ekki bara að átta sig á því að það gengur ekki að ríghalda í takmarkanir á verslun með áfenga drykki, fólk vill geta umgengist vín eins og sjálfsagða neysluvöru. Er maður ekki bara eins og Steingrímur að tala um bjórinn ef maður heldur því fram að best sé að breyta engu?
Frelsi upphafið og því svo hafnað
En það er þrátt fyrir allt ákveðin ástæða fyrir því að þetta mál kemur alltaf sömu umræðunum af stað, í hvert sinn sem einhverjum dettur í hug að leggja fram frumvarp um að breyta lögum í þessa veru. Ég verð að vísu að viðurkenna að mér er hulin ráðgáta hvers vegna ungur þingmaður, uppgjafalögreglumaður og bindindismaður geri þetta næstum að sínu stærsta máli (nema það sé satt sem rógtungurnar segja að einhver hafi bent honum á að þetta kæmi honum rækilega í sviðsljósið). En það er ekkert skrítið að málið dúkki upp aftur og aftur.
Staðreyndin er nefnilega sú að þessi einfalda spurning snertir ræturnar að þeim skilningi á frelsi sem er ríkjandi í samfélaginu og ástæðan fyrir því að málið verður alltaf svona umdeilt er einmitt að það afhjúpar ákveðna þversögn í því hvernig frelsi er skilið og valdi beitt í venjulegu vestrænu samfélagi eins og okkar.
Í hversdagslegum skilningi birtist frelsi í því að maður geri það sem manni sjálfum sýnist. Ýmsar takmarkanir á þessu stafa af þeim hindrunum sem aðstæður hvers og eins skapa, en almennustu rökin fyrir bönnum eru óréttlætanlegt tjón sem við annars völdum öðrum. Þessi almennu frelsisrök gera að verkum að tjón sem við völdum okkur sjálfum getur ekki verið ástæða fyrir frelsisskerðingu af hálfu yfirvalda.
En þó að þetta sé ríkjandi skilningur á frelsi, fer því fjarri að hann einkenni beitingu valds í jafnvel frjálsustu samfélögum. Þótt Bandaríkjamenn tali sumir af mikilli fyrirlitningu um afskiptasemi ríkisins á Norðurlöndum (Marco Rubio sagði um daginn að Bernie Sanders yrði prýðilegur forseti – í Svíþjóð) þá er jafnvel bandarískt ríkisvald ekki saklaust af því að leyfa lagasetningu sem strangt tekið varðar ákvarðanir fólks fyrir sjálft sig. Í stuttu máli má segja að ríkjandi skilningur á frelsi sé formlegur frekar en eiginlegur og þetta veldur stöðugri togstreitu, þar sem margir stjórnmálamenn benda á hræsnina við að upphefja frelsið í orði en hafna því í raun.
Hinar einfaldari sálir meðal þingmanna láta ekki hafa sig út í rökræður um dýpri þversagnir frelsishugtaksins en horfa þess í stað á samfélagið í heild sinni, eins og Frosti Sigurjónsson gerði um daginn þegar hann tíundaði fyrirsjáanlegar lýðheilsuafleiðingar þess að bjóða upp á vín í venjulegum búðum. Allt sem hann sagði var rétt, við getum næstum reiknað út hvað tiltekin breyting á fyrirkomulagi vínsölu kostar vegna félagslegra og heilsutengdra vandamála sem aukin neysla leiðir til. En gagnvart frelsisrökunum eru lýðheilsurökin máttlaus, nema maður samþykki fyrst að það megi banna fólki að vinna sjálfu sér tjón.
Snýst þetta kannski bara um verslunarfrelsi
Einn ágætur heimspekingur reyndi í fyrra að gera greinarmun á einstaklingsfrelsi og verslunarfrelsi í sambandi við áfengissölu og benti á að takmarkanir á verslun með áfengi vörðuðu sölu þess frekar en kaup. Slíkar takmarkanir, reglur um hverjir megi stunda ákveðna verslun, hvar og hvenær, gilda á öllum sviðum, án þess að það þyki tiltökumál. Þær eru ekki í neinum beinum skilningi skorður við frelsi einstaklingsins til að gera það sem hann vill, heldur reglur sem hið opinbera setur til að haga verslun og viðskiptum þannig að samfélaginu komi það best í víðum skilningi.
Þetta er góð tilraun, en á endanum held ég dæmd til að mistakast. Við getum ekki bæði aðhyllst almennu frelsisskilgreininguna, ætlast til þess að hún sé mælikvarði á lagasetningu og samþykkt lagasetningu sem kemur í veg fyrir að fólk geti keypt og selt algenga neysluvöru með sama hætti og aðrar hversdagsþarfir.
En ætti maður þá hugsanlega að efast um þennan skilning á frelsi? Á síðustu öld gerði heimspekingur nokkur sérstakan greinarmun á tvennskonar skilningi á frelsi, hinum frjálslynda annars vegar, hins vegar samfélagslegum skilningi. Sá frjálslyndi lýsir frelsi neikvætt: Það felst í því að yfirvöld halda aftur af sér, láta ógert að setja boð eða bönn sem varða aðeins þá sem fyrir þeim verða. Sá sem lætur sér umhugað um samfélagið lýsir frelsi jákvætt: Það felst þá í því að yfirvöld skapa með boðum sínum og bönnum umhverfi þar sem einstaklingarnir geta notið sín eins og best verður á kosið.
Við þessu eru til einföld og mjög sterk mótrök: Það er stórhættulegt að yfirvöld hafi umboð til þess að ákveða hvers konar umhverfi er best til að einstaklingarnir geti notið sín. Það endar með ósköpum, í harðstjórn eða jafnvel alræði þar sem einstaklingurinn er múlbundinn á klafa samfélagslegra hagsmuna sem valdsmenn skilgreina. Þessi mótrök hafa reynst frjálshyggjumönnum drjúgt veganesti í gegnum tíðina.
Að vernda frelsi með því að skerða frelsi
Það er til önnur leið. Við ættum líka að spyrja okkur að því hvort almenna (neikvæða) frelsisskilgreiningin hjálpi okkur til að koma auga á allar tegundir ófrelsis sem við viljum geta rætt um og komið í veg fyrir. Þegar við einblínum á þann skilning á frelsi bindum við frelsisskerðingu við það sem yfirvöld gera. Vissulega hafa þau jafnframt það hlutverk að framfylgja reglum sem vernda frelsi einstaklinganna, en meginmarkmið frjálslynda skilningsins er að setja ríkisvaldinu mörk.
Á síðustu árum hefur hins vegar skilningur á valdatengslum, ofbeldi og nauðung aukist. Við vitum miklu betur í dag heldur en fyrir nokkrum áratugum að leiðirnar til að stjórna fólki, stýra hegðun þess og beita það nauðung eru miklu fleiri heldur en yfirborðssamskipti gefa til kynna. Þess vegna geta yfirvöld heldur ekki lengur látið duga til að vernda frelsi borgaranna að framfylgja reglum sem varða aðeins tiltekið yfirborð samskipta. Eigi frelsi að vera verndað ekki bara í orði heldur í raun, þurfa því að vera til boð og bönn og ýmis úrræði sem í ljósi almennu skilgreiningarinnar fela í sér skerðingu á athafnafrelsi.
Þessi hugsun um ábyrgð yfirvalda beinir athygli okkar að því hvers konar stýring og nauðung kunni að vera fylgifiskur þess að láta almennu skilgreininguna ráða löggjöf um hver megi selja áfengi og hvenær. Hún svarar ekki spurningunni, en hún breytir því hvernig best er að hugsa um hana.
Það getur verið hjálplegt að bera saman lög um áfengissölu og um vændi til að átta sig betur á því sem í húfi er. Lög sem banna vændi í einhverjum skilningi, hafa þann tilgang að vernda viðkvæman hóp fólks sem annars væri útsettur fyrir valdbeitingu af ákveðnu tagi. Við getum deilt um hvort lög þjóni þessum tilgangi betur en aðrar leiðir, en þetta er tilgangurinn og hann réttlætist af ábyrgð yfirvalda til að vernda frelsi.
Staðreyndin er sú að almenni, formlegi skilningurinn á frelsi sem hér var lýst, er hvorki fullnægjandi skilningur á frelsi, né er hann í rauninni sá skilningur sem býr að baki lagasetningu. En þess vegna er líka til lítils að vera að hamra á rökum einstaklingsfrelsis þegar menn eru að reyna að sýna fram á að vín verði að fást í marvörubúðum. Það er jafn fánýtt að lýsa samfélagslegu tjóni – enda auðvelt að benda á að til séu leiðir, aðrar en bönn til að draga úr því.
Eina leiðin til að sýna fram á að lögin um áfengissölu eigi að vera óbreytt er að benda á að með því að breyta þeim séu yfirvöld að bregðast þeirri ábyrgð sinni að vernda frelsi viðkvæms hóps í samfélaginu. Væru þau að gera það? Það er stóra spurningin – það er að segja sú spurning í þessu máli öllu sem er í raun og veru áhugaverð.
Athugasemdir