Mér finnst fín hugmynd að Píratar (og þá Samfylking líka) styðji minnihlutastjórn VG, Bjartrar framtíðar og Viðreisnar án þess að eiga aðild stjórninni.
Hafi það verið niðurstaða kosninganna – eins og mér sýnist æ fleiri vera orðnir sammála um – að kjósendur hafi verið að kalla á breytingar en þó ekki byltingu, þá gæti slík stjórn verið mjög góð niðurstaða.
Sú niðurstaðan væri að minnsta kosti þúsund sinnum betri en Engeyjarstjórn Sjálfstæðisflokksins og Viðreisnar og svo Bjartrar framtíðar. Enda veit ég ekki af hverju Björt framtíð ætti að taka þátt í slíkri stjórn.
BF fengi í mesta lagi Akurey til ábúðar í slíkri stjórn.
Þeir sem hafa hræðst fimm flokka stjórn vegna þess að Píratar væru svo óútreiknanlegir, þeir geta hins vegar sofið rólegir á nóttunni ef Viðreisn, VG og BF mynduðu stjórn án Pírata en þó með stuðningi þeirra.
Stjórnin myndi byrja með góðum byr, þar eð allir flokkarnir og leiðtogar þeirra allra njóta heilmikilla vinsælda - og búa ekki við óvinsældir og tortryggni.
Ólíkt bæði Sjálfstæðisflokknum og Pírötum sem eru tortryggðir hvor af sínum vængnum.
Og ríkisstjórnarflokkarnir þrír í stjórn Bjartrar framtíðar, VG og Viðreisnar myndu vita að ef stuðningur frá Pírötum (nú, eða Samfylkingu) skilaði sér ekki í einhverju mikilvægu máli, þá væri þeim í lófa lagið seinnameir að kippa Sjálfstæðisflokknum inn í stjórnina.
En reyndar eru Píratar svo ábyrgir, þvert oní það sem margir virðast ímynda sér, að þeir myndu örugglega ekki hlaupa neitt út undan sér.
Ef þetta yrði niðurstaðan myndi ég persónulega vonast til þess að stjórnarskrármálinu yrði komið í einhvern góðan farveg sem þýddi að farið yrði eftir bókstaf þjóðaratkvæðagreiðslunnar 2012 – um að stjórnarskrártillaga stjórnlagaráðs yrði grundvöllur nýrrar stjórnarskrár – en samt þannig að hinir hófsamari í þeim efnum fengju áreiðanlega um að véla og ekki yrði að neinu flanað!
Píratar gætu svo einbeitt sér að því að sinna sínum fjölmörgu góðu framfaramálum, en mál eins og ESB, fiskveiðistjórnarkerfið og örlög krónunnar myndu stjórnarflokkarnir þrír bara gera út um sín á milli og bera svo upp á þinginu.
Athugasemdir