Í Morgunblaðinu um helgina var viðtal við Sigmund Davíð þar sem hann mun hafa farið með himinskautum. Óvæntasta fullyrðing hans var sú að hann hefði viljað fá þingrofsréttinn frá forseta Íslands á þriðjudaginn til að hjálpa Bjarna vini sínum Benediktssyni í valdabaráttu hans innan Sjálfstæðisflokksins.
Bjarni átti sem sagt að geta notað það sem svipu á illskeytta keppinauta sína að ef þeir væru ekki þægir, þá gæti hans góði vinur Simmi rofið þing hvenær sem er.
Skemmst er frá því að segja að enginn kannast við að hafa heyrt á þessa valdabaráttu innan Sjálfstæðisflokksins minnst.
Bjarni Benediktsson kom algjörlega af fjöllum, og í þetta sinn hneigist ég til að trúa honum.
Engin valdabarátta sé innan Sjálfstæðisflokksins.
En af hverju sagði Sigmundur Davíð þetta þá í viðtalinu?
Hér kemur þrennt til greina.
Í fyrsta lagi:
Sigmundur Davíð var bara að ljúga þessu.
Svo sem ekki í fyrsta sinn sem hann fer frjálslega með sannleikann.
Í öðru lagi:
Sigmundur Davíð trúði þessu sjálfur.
Þá er það til marks um svo tröllslegt dómgreindarleysi að við það verður eiginlega ekki unað.
Í þriðja lagi:
Þetta var allt satt og rétt og það er Bjarni Benediktsson sem er að ljúga því að engin valdabarátta sé innan Sjálfstæðisflokksins.
Það bætir raunar hlut Sigmundar Davíðs ekki hót.
Þá er hann svo siðlaus að hann er til í að veifa þingrofi og kosningum sem tilfallandi vopni í innanflokksbaráttu – og það í öðrum flokki en sínum eigin!
Lýðræðið er leiksoppur flokksbrodda.
Sem sagt:
Hinar dularfullu fullyrðingar Sigmundar Davíðs í Moggaviðtalinu eru til vitnis um að hann sé eitt af þrennu:
Lyginn, dómgreindarlaus eða siðlaus.
Hvað af þessu er hið rétta má eiginlega liggja milli hluta.
Því Sigmundur Davíð er einhvern veginn nú þegar orðinn eins og frekar slæm minning aftan úr grárri forneskju. Hlutirnir hafa gerst svo hratt. Það á eftir að gera þá minningu upp, en hún skiptir litlu máli fyrir samtíðina.
Nema að einu leyti.
Af hverju situr lýðveldið Ísland nú uppi með bæði forsætisráðherra og utanríkisráðherra sem voru handvaldir af lygnum, dómgreindarlausum og/eða siðlausum forsætisráðherra á furðulegu spani síðustu klukkustundir sínar í embætti?
Af hverju þurfum við að sitja uppi með svo afdrifaríkar ákvarðanir þessa óhæfa manns?
Athugasemdir