Þegar þetta er skrifað laust fyrir hádegi miðvikudaginn 6. apríl er óvíst hvernig munu enda þeir stórviðburðir sem spilltir og veruleikafirrtir stjórnmálamenn hafa kallað yfir okkur. Þetta er þó þegar ljóst:
Ekki er nóg með að Panamaskjölin hafi gert okkur að viðundrum í augum umheimsins með þeim miklu umsvifum sem þessi litla þjóð reyndist hafa á aflandseyjum, og þeirri víðtæku pólitísku spillingu sem þau umsvif gefa til kynna, eða hafa altént boðið upp á.
Nei.
Nú erum við líka orðin að pólitískum viðundrum.
Og ekki fyrst og fremst vegna skrípaleiksins „Hver er forsætisráðherra?“ sem stendur sem hæst meðan þetta er skrifað.
Heldur miklu fremur vegna þess stóra hneykslis að þegar stærsti mótamælafundur Íslandssögunnar krefst tafarlausrar afsagnar ríkisstjórnar og kosninga í kjölfarið, þá skuli ríkisstjórnarflokkarnir ætla að bregðast við með mestu hrossakaupum þeirrar sömu sögu.
Þegar þjóðinni er sem sagt ekki bara sýndur fingurinn, eins og það heitir nú á dögum, heldur er henni beinlínis gefið á kjaftinn.
Og ég gæti jafnvel tekið enn dónalegar til orða.
Ég er mikill bjartsýnismaður og lifi í þeirri trú að ekki verði af þeirri skrípamynd af „nýrri“ ríkisstjórn sem Sigurður Ingi Jóhannsson hefur nú verið fenginn til að „leiða“.
(Maðurinn sem sagði: „Ja, einhvers staðar verða peningar að vera.“ Og: „[Tortóla-málið] sýnir fyrst og fremst hvað það er flókið að eiga peninga á Íslandi.“ Á slíkur maður að verða forsætisráðherra í landi sem er í sárum eftir uppljóstranir um aflandsviðskipti æðstu ráðamanna?)
En jafnvel þótt takist að koma í veg fyrir þetta – sem ég ætla rétt að vona að verði raunin – þá hefur þessi tilraun stórskaðað stjórnmálalífið í landinu.
Og traustið til stjórnmálamanna, sem gat vart minna orðið, hlýtur nú að verða nánast að engu.
Því nú vitum við þetta.
Að háværri kröfu um traust er svarað með hinum lægstu undirferlum.
Að þingflokkur Framsóknarflokksins (nema einn þingmaður að því er virðist) sá ekkert athugavert við að forsmáður forsætisráðherra, maður sem er að hrökklast úr embætti vegna spillingarorðs og lyga og vanhæfni, fengi sjálfur að handvelja eftirmann sinn.
Og nú vitum við að stjórnmálamaður eins og Sigurður Ingi er tilbúinn að kaupa skammvinn völd með því að svívirða vilja þjóðarinnar.
Og við vitum líka að sumir sjálfstæðismenn eru tilbúnir að fara fram á að Einar K. Guðfinnsson – einn örfárra sjálfstæðisþingmanna, sem njóta þolanlegrar virðingar – að hann fórni því orðspori sínu og sómatilfinningu með því að takast á hendur að verða forsætisráðherra, ef Sigurði Inga verður þrátt fyrir allt hafnað.
Ég ætla rétt að vona að Einar ljái ekki máls á því, en bara sú staðreynd að einhverjir félagar hans hafi látið sér detta þetta í hug sýnir hversu lágt þeir meta heiðarleika og sjálfsvirðingu, úr því þeir telja að Einar hljóti hiklaust að fórna þessu fyrir skammlíf völd.
Og við þekkjum nú Bjarna Benediktsson betur en áður.
Við vitum nú að formaður Sjálfstæðisflokksins, maður sem sjálfur liggur undir ámæli fyrir aflandseyjaviðskipti, sá ekkert athugavert við að hans flokkur og Framsóknarflokkurinn – stórkostlega skaddaðir eftir Tortóla-málið – héldu áfram í ríkisstjórn, í staðinn fyrir að taka kurteislega pokann sinn og leggja málið í hendur þjóðarinnar.
Nei – öll þessi stjórnmála-„elíta“ ríkisstjórnarflokkanna sá ekkert athugavert við að ganga gersamlega í berhögg við augljósan vilja þjóðarinnar. Einmitt þegar æ háværari kröfur eru uppi um gegnsæi og heiðarleika, þá er gripið til allra lúalegustu bragðanna í bakherbergjunum.
Ég hugsa svei mér þá að Bjarni Benediktsson og Sigurður Ingi hafi meira að segja kveikt sér í vindli, bara svo andrúmsloftið væri örugglega nógu reykfyllt og subbulegt upp á gamla móðinn í bakherberginu.
Athugasemdir