Þegar þetta er skrifað var ég að enda við að lesa nýja frétt Morgunblaðsins um að tveir menn hefðu verið handteknir og yfirheyrðir vegna rannsóknar á hvarfi Guðmundar Einarssonar árið 1974. Og þótt best sé að setja alla hugsanlega fyrirvara – því meira veit ég ekki um þetta í augnablikinu – þá hvarflar óneitanlega að manni von um að hér kynni að vera upphaf þess að martröð Guðmundar- og Geirfinnsmálanna verði létt af þjóðinni eftir meira en 40 ár.
Og hugsanlega takist ekki einungis að sanna réttarmorðin sem framin voru á þeim einstaklingum sem dæmdir voru í málunum, heldur verði jafnvel hugsanlega ef til vill kannski mögulegt að komast að því hvað kom í rauninni fyrir hina ógæfusömu tvímenninga.
Það væri nú aldeilis.
Það er nú þegar löngu ljóst, og mun svo koma enn betur í ljós þegar sagan um Guðmundar- og Geirfinnsmálin verður endanlega skráð, að öll möguleg tækifæri til að leysa málin á sínum tíma liðu hjá eins og vélarvana skip í þungum straumi – af því rannsóknarmenn voru ekki starfi sínu vaxnir, og af því hleypidómar þeirra og nær fullkomin vanhæfni festu þá strax frá upphafi á einni tiltekinni rannsóknarbraut.
Þetta vekur raunar mesta athygli manns, þegar maður les skjöl um málin tvö: Hin ótrúlega vanhæfni sem alls staðar blasir við.
Og það er verulega hrollvekjandi að það hafi nú þegar tekið meira en fjóra áratugi að mjaka íslensku réttarkerfi í átt til þess að leiðrétta þá óhæfu sem framin var.
Tökum bara Geirfinnsmálið.
Maður í Keflavík hverfur við undarlegar aðstæður. Hann virðist hafa verið á leið til fundar við ókunnan mann og haft varann á sér af einhverjum ástæðum. Svo sést hann aldrei meir. Og hvað er líklegt að hafi komið fyrir?
Nú vill svo til að lögreglan í Keflavík (og ekki bara þar) hefur þá mjög haft hugann við smygl á spíra sem grunsemdir eru um að sé stundað í stórum stíl og tengist veitingahúsinu Klúbbnum í Reykjavík. Lögreglumenn telja að spírabrúsum sé kastað úr flutningaskipum sem sigla framhjá Keflavík og einhverjir sjómenn þar sæki brúsana þar og komi þeim til Klúbbsins.
Mjög snemma virðist lögreglan hafa verið algjörlega sannfærð um að hvarf Geirfinns hljóti að tengjast þessu máli. Hafði hún eitthvað fyrir sér? Nei. Geirfinnur hafði vissulega komið í Klúbbinn, en það höfðu þúsundir annarra gert líka. En hann var ekki sjómaður, hafði engan aðgang að bát til að sækja spírabrúsa og varð ekki með nokkru móti tengdur þeim mönnum sem lögregluna grunaði um smyglið. Og hann hafði alls engin „tengsl við undirheima“. Að vísu var talið mjög grunsamlegt að hann hefði einhvern tíma staðið í einhverju svolitlu heimabruggi – en hvernig það tengdist þrælskipulögðum innflutningi á eimuðum spíra frá útlöndum, því svaraði lögreglan aldrei.
Í staðinn bjó hún til hátimbraðar kenningar um að nokkur ungmenni – sem var ekki heldur vitað til að tengdust Klúbbmönnum neitt, höfðu aldrei komið nálægt spírainnflutningi, áttu heldur ekki bát og komu yfirleitt ekkert málinu við – hefðu drepið Geirfinn í einhverjum erjum út af spírasmyglinu ímyndaða.
Úff – hvað þetta var allt saman heimskulegt! Og úff – að það sé ekki búið að spúla út þessu rugli eftir alla þessa áratugi.
Sérstaklega í ljósi þess að við lögreglunni blasti miklu nærtækari og skiljanlegri skýring á hvarfi Geirfinns en þetta spírarugl.
Kona Geirfinns stóð í framhjáhaldi með ungum manni. Þar var gengið svo langt að ástmaðurinn gisti á heimilinu nóttina áður en Geirfinnur hvarf – án þess að Geirfinnur vissi, að því er sagt var! En þessi heimiliskross var aldrei rannsakaður af neinu viti. Auðvitað veit ég ekkert um hvort skýringin á hvarfi Geirfinns liggur í þessum anga málsins. Kannski kom þetta ekkert málinu við. En bara sú staðreynd að þetta var aldrei rannsakað í neinni alvöru, heldur í staðinn ofinn svo fáránlegur fíflavefur um spírasmygl að kónguló á sýru hefði verið fullsæmd af – sú staðreynd sýnir hve ömurlega illa var að verki staðið.
Og rannsóknin á máli Guðmundar var engu skárri. En tíðindi vikunnar benda þó til þess að loksins sé eitthvað að gerast. Það er mikill léttir – en af hverju þurfti þetta að taka fjóra áratugi?!
Athugasemdir