Það er fullkomlega ástæðulaust að reyna einu sinni að breiða yfir það, já, þetta er sárt.
Að eftir að hafa í áratugi fylgst með íslenskri pólitík og loksins þegar er dauðafæri að gefa rækilegt rothögg sérhagsmuna- og ríkramannaflokknum í samfélaginu -
Að þegar ekki er bara innan við áratugur síðan sá flokkur olli hruni á Íslandi með því að leyfa bankakerfinu að þenjast hér alltof mikið út -
Þegar aðeins eru örfá ár, mánuðir, vikur og nánast dagar síðan í ljós kom að flokkurinn hafði ekkert lært, heldur haldið áfram glaðbeittur öllu í senn: borgunarspillingunni, auðmannadekrinu og sægreifaþjónkuninni -
Að þegar bæði formaður og varaformaður þessa flokks eru gripnir með puttana á aflandseyjum, þá skuli Sjálfstæðisflokknum ekki bara látið órefsað í kosningum, heldur skuli hann AUKA fylgi sitt.
Já, það er sárt, ég sé enga ástæðu til að reyna að fela það.
Það er sárt þegar maður horfir upp á vel smurða kosningavél telja fólki trú um - jafnvel fólki sem ég veit að er vænt fólk, jafnvel fólki sem ég veit að vill flestum vel - þegar maður horfir upp á vélina telja fólki trú um að hugmyndin um samfélag sé einskis virði, því allir skuli hugsa eingöngu um sjálfa sig, og skattar séu blótsyrði.
Það er sárt, já.
Og það er sárt að eftir að hafa í áratugi talið sig berjast fyrir einhvers konar mannúðarstefnu í þessu samfélagi, og stutt af alefli þá krafta sem eru á sams konar róli, þá skuli eftir alla þessa áratugi þrír menn af hverjum tíu sem maður mætir á götum úti hafa hafa kosið til valda flokk sem hefur einstaka fyrirlitningu á vilja almennings - nema það eru skreyttar handa honum kökur rétt fyrir kosningar.
Það er líka sárt að horfa upp á hrunflokkinn mikla skreyta sig með stolnum fjöðrum frá þeim sem þurftu að reisa við Ísland upp úr rústum hans, og standa nú uppi sem haninn á haugnum.
Það er sárt að horfa upp á gott fólk, sem hefur aldrei gert neinum mein í sinni pólitík, niðurlægt af þeim hroka sem stafar frá Valhöll - „Nú förum við alla leið!!“
Og það er sárt að horfa upp á sundrungarhyggju á miðjunni og vinstri vængnum enn eina ferðina skilja við Sjálfstæðisflokkinn í kjörstöðu til að deila og drottna, maka sinn krók, þjóna sínum sægreifum.
Ég skal bara fúslega viðurkenna það, þetta er sárt, já, ansi sárt.
En svo bítur maður á jaxlinn, marghrjáðan jaxlinn, það sem hann hefur mátt þola gegnum tíðina.
Og maður hugsar: Þótt þrír af hverjum tíu úti á götu hafi kosið hrunflokkinn mesta, þá eru þeir þó aðeins þrír.
Og þarna eru sjö aðrir.
Við skulum taka Framsóknarmanninn til hliðar, hann er í sárum; það eru samt eftir sex.
Sex Íslendingar sem vilja ný vinnubrögð, nýjan heiðarleika, nýtt samfélag.
Sex Íslendingar af hverjum tíu.
Og þeir geta ráðið því sem þeir vilja.
Gleymið því ekki.
Athugasemdir