Menn kannast flestir við orðið „ónytjungur“, sem þýðir „sá sem ekki er til neins nýtur“. En þeir þekkja örugglega ekki nýyrði mitt „ónýtungur“. Ónýtungar standa á því fastar en fótunum að allt sé ónýtt á Íslandi. Í þessari grein hyggst ég hrekja málflutning þeirra og segja að þótt víða sé pottur brotinn þá sé íslenskt samfélag hreint ekki ónýtt. Greinin er samantekt á þremur löngum bloggfærslum sem bera sama heiti.
Lífsæld mikil á Íslandi
„Íslenskum karlmönnum vefst ekki tunga um tönn“ syngja Stuðmenn. Enda lifa þeir lengur en karlar í öðrum Evrópulöndum. Auk þess er ungbarnadauði á Íslandi með því minnsta sem um getur. Samkvæmt alþjóðarannsóknum er hvergi betra að vera kona en á Íslandi. Önnur rannsókn á að sýna að Íslendingar séu næst-hamningjusamasta þjóð heims. Enn ein alþjóðarannsókn sýnir að Ísland sé fjórða besta land heimsins fyrir ellilífseyrisþega. Bendir það til þess að lífeyrissjóðirnir séu alveg mislukkaðir, jafnvel arðræningjabæli?
Tekjum ekki ójafnt skipt, kaupmáttur jafn mikill og 2007
Ónýtungar tönnlast á því að tekjum og auði sé mjög ójafnt skipt á Íslandi. En staðtölur ýmsar sýna að Ísland er með tekjujöfnustu löndum heimsins. Flest bendir til að eigna- og auðsdreifing sé álíka jöfn eða ójöfn og í velferðarsæluríkjunum Danmörku og Svíþjóð, samkvæmt m.a. tölum frá fjármálaráðuneytinu. Nýjar tölur frá hagfræðideild Landsbankans sýna að kaupmáttur launa sé orðinn ögn meiri en á blómaskeiðinu meinta, árið 2007. Hagfræðideildin segir líka að launamunur hafi minnkað, kaupmáttur láglaunafólks sé nú meiri en 2007, kaupmáttur hátekjufólks heldur minni.
En á þetta vilja ónýtungar ekki hlusta. Þeir vilja bara hlusta á sig sjálfa segja hvað þjóðin sé fátæk og arðrænd, hlusta á sitt eigið sjálfsvorkunnsemis-væl. „Human kind cannot bear very much reality“, yrkir nóbelsskáldið T.S. Eliot.
Lág grunnlaun og meintur vinnuþrældómur
Þá spyrja ónýtungar hvers vegna dagvinnulaun séu svo lág á Íslandi. Er það ekki vegna þess að „the usual suspects“ (sægreifar, bankamenn o.s.frv.) arðræna aumingja alþýðuna? Svar: Það er ekki gefið, ein af ástæðunum fyrir þessu er lítil framleiðni á unna klukkustund, varla getur það stafað af arðráni. Arðræningjar hafa jú hag af að reka menn áfram, láta þá framleiða sem mest á sem skemmstum tíma. Það er ekki einu sinni víst að Íslendingar búi við vinnuþrældóm, gagnstætt því sem ónýtungar segja. Samkvæmt rannsókn OECD-stofnunarinnar vinna Íslendingar minna en meðaltalið í OECD, minna en Írar, Kanar og Ítalir en álíka mikið og Kanadabúar.
Græðgisþrælar
Séu Íslendingar þrælar einhvers þá eru þeir þrælar eigin græðgi. Valdsmenn og auðkýfingar eiga auðveldar með að fá útrás fyrir græðgina en meðal-Jón(a). Spilling þessara pótintáta birtist m.a. í markrílkvótagræðgi sægreifanna og skelfilegri stefnu ríkra-ríkisstjórnarinnar. Það er sannleikskjarni í málflutningi ónýtunga.
Dæmi um græðgi íslenskrar alþýðu er sú staðreynd að íbúðir eru mun stærri á Íslandi en í Svíþjóð. Staðtölur sýna að meðal-Íslendingur hefur til umráða tíu fermetrum meira íbúðarrými en meðal-Svíinn. Íslenska vísitölufjölskyldan hefur því fjörutíu fermetrum meira íbúðarrými en sú sænska. Til þess að fjármagna þetta flennistóra húsnæði verða menn að skuldsetja sig upp yfir haus. Ekki bætti úr skák að útrásarbankamenn lofuðu mönnum gulli og grænum skógum ef þeir tækju verðtryggð lán og/eða myntkörfulán í stórum stíl. Alþýðan kokgleypti loforðaruglinu, tók slík lán og lenti í skuldafeni eftir hrunið. Rétt eins og alltof margir Norðmenn eftir bankahrunið norska árið 1990. En íslensk alþýða ímyndar sér að skuldavandinn sé séríslenskur. Hún heldur líka að verðtryggð lán séu liður í arðránsbrellu bankanna. En hagfræðingurinn Már Wolfgang Mixa segir að á tímabili (1999-2007) hafi verðtryggingin verið lántökum í hag vegna þess að þá hækkuðu laun mun meira en verð (af hverju láðist bönkunum að arðræna lánþega á þessu tímabili?). Hrunið hafi valdið því að staðan breyttist skyndilega, laun stóðu í stað en verðlag hækkaði og fólk með verðtryggð lán lenti í vondum málum. Sem sagt, sérstakar aðstæður valda skuldavandanum, ekki ónýtungs-eðli íslenskra bankamanna.
Lokaorð
Ég mun ekki afla mér vinsælda með skrifunum um ónýtunga. En ég er vanur hafa storminn í fangið, ég varaði við útrásinni í Silfri Egils fyrir tæpum áratug og fékk bágt fyrir. Ég sagði að útrásarbankaliðið vantaði reynslu af alþjóðaviðskiptum, því væri líklegt að illa færi. Einnig benti ég hvað eftir annað á aukið vald auðsins, fyrst í Moggagrein árið 2004 þar sem ég fordæmdi jafnt Davíðs- sem Baugsliða. En það mátti ekki nefna auðvald á útrásarárunum fremur en snöru í hengds manns húsi. Og alls ekki um aukna misskiptingu auðs. Nú má ekki tala um annað.
Múgheimska ónýtunga er ekkert annað en spegilmynd af múgheimsku útrásaráranna.
Athugasemdir