Möguleikarnir á EM eru þessir:
1) Ísland tapar fyrir Austurríki.
Þá er Ísland einfaldlega úr leik. Ef Portúgal tapar fyrir Ungverjalandi, þá gæti Ísland að vísu náð þriðja sæti riðilsins á markamun, en aðeins með tvö stig - sem dugar ekki til að komast áfram.
2) Ísland gerir jafntefli við Austurríki.
Þá kemst Ísland áfram, þar eð Austurríki mun þá óhjákvæmilega sitja í fjórða sæti riðilsins, og Ísland í versta falli í þriðja sæti með þrjú stig.
Og núll í markamun. Þrjú jafntefli fela sjálfkrafa í sér að liðið hefur skorað jafn mörg mörk og það hefur fengið á sig, og markamunur er því núll.
Það dugar til að komast áfram, þar sem Tyrkland og Albanía yrðu - hvað öðru liði - alltaf neðar en Ísland með sín þrjú stig en tvö mörk í mínus úr riðlakeppninni.
En hvort Ísland lendir þá í öðru eða þriðja sæti riðilsins veltur á því hvernig fer í leik Portúgals og Ungverjalands.
Ef Portúgal vinnur Ungverjaland verður staðan í riðlinum svona: 1. Portúgal 5, 2. Ungverjaland 4, 3. Ísland 3, 4. Austurríki 1.
Þá er þriðja sætið sem sagt okkar og við komumst í 16 liða úrslit og lendum þá á móti Króatíu.
(Sumir telja að við gætum lent á móti Þýskalandi. Ég fæ ekki séð að það sé mögulegt, en þori nú ekki alveg að hengja mig upp á það.)
Ef Portúgal gerir jafntefli við Ungverjaland á sama tíma og við gerum jafntefli við Austurríki, þá snýst keppnin um annað sætið í riðlinum um hvað hvort liðið skorar (og fær á sig) fleiri mörk.
Eins og er, hefur Ísland vinninginn með marktöluna 2-2 en Portúgal er með 1-1.
Ef leikirnir enda báðir 0-0 eða með sömu markatölu (1-1, 2-2, etc) þá heldur Ísland öðru sætinu. Og sömuleiðis ef Ísland skorar fleiri mörk en Portúgal í sínum jafnteflisleik.
Þá er sem sé annað sætið í riðlinum okkar, og við spilum á móti Englandi í 16 liða úrslitum.
Það þætti ugglaust ýmsum spennandi tilhugsun.
Ef Portúgal skorar hins vegar einu marki meira í sínum jafnteflisleik en við í okkar jafnteflisleik, þá er jafnt á öllum tölum með okkur og Portúgal - og mér sýnist að þá ráðist sætaskipun í riðlinum af því hvort liðið hefur fengið fleiri eða færri gul og rauð spjöld.
Og sé þetta rétt skilið, þá er Ísland í vondum málum með (eins og er) fimm gul spjöld en Portúgal aðeins tvö.
Þótt engin leið sé að segja til um hvað gerist í síðustu leikjum liðanna.
En ef Portúgal gerir jafntefli við Ungverjaland með markatölunni 2-2 eða hærri, en við gerum 0-0 jafntefli við Austurríki, þá fara Portúgalir einfaldlega upp fyrir okkur í markafjölda og taka því annað sætið, en við verðum í þriðja sætinu og spilum sem fyrr segir við Króatíu.
3) Ísland vinnur Austurríki.
Ef við vinnum Austurríki og Portúgalir vinna Ungverjaland með sama mun eða minni, þá vinnum við einfaldlega riðilinn.
Þá verður staðan: 1.-2. Ísland og Portúgal 5, 3. Ungverjaland 4, 4. Austurríki 1 - og við verðum með sama (eða betri) markamun og fleiri skoruð mörk en Portúgal, og hreppum því efsta sætið.
Þá munum við spila við liðið í öðru sæti í E-riðli. Það verður sennilega Belgía en gæti þó orðið Svíþjóð, ef Zlatan fer hamförum gegn Belgum í kvöld.
Ef við vinnum Austurríki en Portúgalir vinna Ungverjaland með meiri markamun þá verður annað sætið okkar hlutskipti.
Og leikum við England í 16 liða úrslitum.
Ef við vinnum Austurríki og Portúgalir og Ungverjaland gera jafntefli, þá verðum við efst í riðlinum ásamt Ungverjum - bæði lið með fimm stig. Þá mun efsta sætið ráðast af markamun.
Þar hafa Ungverjar vinninginn í bili með tvö mörk í plús. Ef við vinnum Austurríki með eins marks mun verðum við í öðru sæti og spilum við England.
Ef við vinnum Austurríki með tveggja marka 2-0 mun verður allt jafnt og þá munu líklega spjöldin ráða.
Ef við skorum fleiri mörk verður hins vegar sennilegt að við náum annaðhvort betri markamun eða meiri markafjölda en Ungverjar, og tækjum því af þeim efsta sætið.
Ef Ungverjaland vinnur hins vegar Portúgal, þá verðum við í öðru sæti þrátt fyrir sigur á Austurríki.
Og leikum við England.
En allar þessar vangaveltur snúast að sönnu um að íslenska landsliðið tapi ekki gegn Austurríki.
Og það getur orðið þrautin þyngri.
Athugasemdir