Í kvöld klukkan átta verður jólavaka í Hafnarfjarðarkirkju. Kórar syngja og hljóðfæri verða slegin. Boðið verður upp á kakó og piparkökur, og kveikt verður á kertum kirkjugesta í myrkraðri kirkjunni. Þetta verður áreiðanlega falleg og hátíðleg stund.
Svo stígur Ólöf Nordal í ræðustól.
Og þá verður ögurstund. Ótrygg ögurstund.
Ekki aðeins á þessari jólavöku. Og ekki aðeins í pólitísku lífi Ólafar Nordal stjórnmálamanns.
Heldur líka - og ekki síst - í lífi og heilsu tveggja smádrengja suður í Albaníu og fjölskyldna þeirra.
Ólöf Nordal gerði hræðileg mistök í liðinni viku. Hún lét líðast að Útlendingastofnun tæki kolvitlausa ákvörðun í málum tveggja albanskra fjölskyldna sem hingað voru komnar og vildu vinna fyrir sér og búa börnum sínum hér skjól.
Ákvörðunin var ekki aðeins siðferðilega röng, hún braut í bága við lög.
Það var nefnilega engin skylda að vísa albönsku fjölskyldunum úr landi, eins og sumir virðast halda og meira að segja löglært fólk eins og Ólöf Nordal.
Þvert á móti.
Þótt núgildandi lög um útlendinga séu að ýmsu leyti forpokuð og ómannúðleg, þá er þar þó að finna eina grein, hina tólftu, þar sem segir beinlínis að veita megi fólki hæli á Íslandi af mannúðarástæðum og þar er tiltekið að það megi gera af heilsufarsástæðum.
Og þar er sérstaklega tekið fram að þetta skuli gera þegar um börn er að ræða!
Verður það öllu skýrara?
En ákvörðun Útlendingastofnunar braut ekki aðeins í bága við íslensk lög að þessu leyti. Hún braut líka í bága við sjálfan barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Þar er tekið fram að í ákvörðunum sem varða börn skuli ávallt hafa hagsmuni barnanna í fyrirrúmi.
Það var ekki gert í tilfelli þeirra Kevis og Arjens frá Albaníu.
Hvað köllum við ríki sem brjóta barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna?
Skyldi Ólöf Nordal ætla að fjalla um það í Hafnarfjarðarkirkju í kvöld?
Af einhverjum mér óskiljanlegum ástæðum hafa ýmsir góðir menn komið Ólöfu Nordal til varnar á þeim forsendum að „hún hafi ekki haft neina aðkomu að þessu máli“ og menn hafa spurt: „Viljum við að geðþótti ráðherra ráði ferðinni í svona málum?“
Þetta eru skrýtnar röksemdir, því hér hefur aðeins verið farið fram á að Ólöf Nordal gæti þess að fylgt sé íslenskum lögum og barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.
Og að hún láti ekki stofnun sem heyrir undir hana valta yfir varnarlausar fjölskyldur með langveik börn.
Það er komið í ljós að fullyrðingar Útlendingastofnunar um að rækilega hafi verið kannað hvort heilbrigðiskerfi Albaníu myndi sinna sómasamlega um þá Arjen og Kevi eru rangar. Alrangar. Forstjóri Útlendingastofnunar vissi ekki einu sinni að í Albaníu er heilbrigðiskerfið einkarekið - sem auðvitað skiptir öllu máli þegar um er að ræða fátækt fólk eins og fjölskyldur drengjanna tveggja.
Og læknar hafa stigið fram sem hafa lýst því yfir hve skammarlegt og hættulegt það sé að drengirnir hafi verið sendir úr landi.
Allt þetta vissi Ólöf alveg áreiðanlega. Hún hlýtur að hafa vitað að forstjóri Útlendingastofnunar réði ekki við starf sitt. Hún hlýtur að hafa kannað heilsufarsástand drengjanna tveggja. Hún hlýtur að hafa íhugað málið vandlega, enda fékk hún síðustu dægrin áður en fjölskyldurnar voru sendar úr landi mörg bréf þar sem hún var hvött til að beita sér.
Það veit ég því ég skrifaði nokkur þeirra sjálfur.
Undirskriftasöfnun er nú farin af stað þar sem Ólöf Nordal og/eða önnur íslensk yfirvöld eru hvatt til að leiðrétta hin hörmulegu mistök sín með því að ná í fjölskyldurnar tvær og fá þær aftur hingað til Íslands.
Ég bið ykkur - nei, ég eggja ykkur lögeggjan að skrifa undir hérna.
Og ég bið ykkur líka að leggja eyrun við því sem Ólöf Nordal segir í Hafnarfjarðarkirkju í kvöld.
Það á ekki að kosta eina manneskju mikið átak að leiðrétta svo skelfileg mistök sem Ólöf gerði í vikunni, þegar hún kaus að skipta sér ekki af málum þeirra Kevis og Arjens. Sómasamlegt fólk sem er staðið að slíkum mistökum leiðréttir þau fyrirhafnarlaust og við fyrsta tækifæri.
Ég treysti því líka að Ólöf Nordal geri það - skýrt og afdráttarlaust.
Á jólavöku sem haldin er til minningar um fæðingu lítils drengs kemur varla annað til mála.
Það dugar ekki að fabúlera um að „við þurfum öll að læra af þessu“ og nú skuli lögin endurskoðuð.
Það verður að leiðrétta - og leiðrétta strax - mistökin sem gerð voru 10. desember.
Og senda flugvél eftir fjölskyldunum tveir.
Við látum það ekki um okkur spyrjast að við sendum úr landi veik börn sem hingað hafa leitað.
Athugasemdir