Síðan þeir Halldór Ásgrímsson og svo einkum Sigmundur Davíð Gunnlaugsson keyrðu Framsóknarflokkinn langt til hægri, þá berst flokkurinn nær eingöngu um fylgi við Sjálfstæðisflokkinn.
Það kom skýrast í ljós um daginn, þegar skoðanakannanir sýndu að fylgi Framsóknarflokksins hrundi í kjölfar hneykslismáls Sigmundar Davíðs en stór hluti kjósenda flokksins flutti sig þá fyrirhafnarlaust yfir til Sjálfstæðisflokksins.
Nú er hernaðaráætlun Framsóknarflokksins skýr. Hún snýst um að halda lífi í flokknum með því að ná aftur fylginu frá Sjálfstæðisflokknum.
Áætlunin gengur út á að tefja, tefja, tefja.
Reyna að láta grillreykinn í sumar hylja hneykslismálið í huga kjósenda, og gá hversu vel Sigurður Ingi dugar í hlutverki Halldórs Ásgrímssonar sem hinn þungi og eilítið drumbslegi en um leið traustvekjandi leiðtogi.
(Það hlutverk dugði Halldóri Ásgrímssyni sjálfum ekki til lengdar, en þetta er það eina sem sem framsóknarmenn hafa upp á að bjóða í bili, meðan þeir reyna að ala upp Lilju Alfreðsdóttur í hlutverk Hillary Clinton.)
Svo þegar loks dregur að kosningum vonast framsóknarmenn til þess að fjármálamenn flokksins - menn eins og Gunnlaugur Sigmundsson, Finnur Ingólfsson og Ólafur Ólafsson - geti kostað nýja leiftursókn í kosningabaráttunni og varpað ryki í augu kjósenda rétt eins og 2013.
Og svo vonast menn náttúrlega til að forsetaframbjóðandi flokksins skili sínu.
Þannig vonast þeir til að flokkurinn vinni aftur nógu marga kjósendur frá Sjálfstæðisflokknum til að hann geti fagnað einum af sínum frægu „varnarsigrum“.
Þetta er auðvitað skammarlegt plan sem gengur út á að blekkja fólk, en frá sjónarhóli samviskulausra leikjafræðinga er eflaust heilmikil glóra í þessu.
En af hverju sjálfstæðismenn ætla að leyfa þeim þetta, það er meiri spurning.
Athugasemdir