Ég er að leika í sýningu í Þjóðleikhúsinu sem heitir Álfahöllin. Þar erum við að beina kastljósinu að því að það eru um 6.000 börn sem lifa í fátækt á Íslandi í dag, þar af um 1.500 sem lifa í sárri fátækt. Ef við sjáum það fyrir okkur þá eru þetta allir íbúar Akraness og vel það, og allir sem búa í Ólafsvík. Hvernig má þetta vera? Hver er þá eiginlega heildartalan?
Ég fékk það verkefni í nóvember að kanna fátækt á Íslandi, til að vinna með fyrir Álfahöllina. (Bíddu, er hún þá bara að auglýsa sýningu sem hún leikur í? Alveg róleg, þegar þessi grein kemur út verður kannski ein sýning eftir.) Ég átti mjög erfitt með að fara af stað. Auðvelt hefði verið fyrir mig að kanna bara tölur og skoða skýrslur og greinar á netinu, en ég vildi fá þetta óþvegið. Hvar í ósköpunum átti ég að byrja? Ég fór í Rauða krossinn og bauð fram hjálp mína og endaði á námskeiði fyrir fólk sem vildi gerast stuðningsfjölskylda fyrir kvótaflóttafólk. Þetta var fræðandi, en kannski ekki það sem ég var að leita að. Ég fór hingað og þangað, og talaði meðal annars við prest í Breiðholti. Hann sagði að viku, tíu dögum fyrir hver mánaðamót streymdi til hans fólk að biðja um hjálp. Þetta væru öryrkjar, ellilífeyrisþegar, einstæðir foreldrar, oftast mæður, líka einstæðir karlar og foreldrar með stóra barnahópa. Hann sagði að þessi hópur færi stækkandi og að þetta fólk ætti ekki fyrir mat síðustu daga mánaðarins. Getið þið sett ykkur í þessa stöðu? Skömmin sem fylgir fátæktinni er gífurleg. Ég spurði eina konu, sem fer í hverjum mánuði í matarúthlutun, hvernig það hefði verið að fara í fyrsta skipti. Hún sagði að hún hefði verið lengi að mana sig upp í það, síðan hefði hún tekið þessa litlu sjálfsvirðingu sem eftir var, hent henni í gólfið og lagt af stað, fyrir börnin.
„Það er þvílíkt sársaukafullt að geta ekki veitt barninu sínu það sama og konan í næsta húsi.“
Við vitum öll hvað algjör fátækt er, en svo er líka til nokkuð sem heitir afstæð fátækt. Þá áttu kannski fyrir fæði og húsnæði, en síðan ekki söguna meir. Börn sem lifa við þannig aðstæður, eiga ekki sömu möguleika og önnur börn. Það er hægt að nota frístundakortið til að borga fyrir íþróttir eða tónlistarnám, en það eru ekki til peningar til þess að klára málið. Þau þurfa að klæðast réttu búningunum og ef þeim gengur vel í íþróttum þá er farið í keppnisferðalög og annað, og börn sem eru í þessari stöðu fara víst að stýra sér ósjálfrátt út úr íþróttinni. Af því að þau skammast sín.
Ég kynntist fjögurra barna einstæðri móður sem á 40 þúsund eftir þegar hún er búin að greiða allt sem hún þarf að borga um hver mánaðamót. Hún getur ekki leyft börnunum sínum að stunda íþróttir því hún hefur ekki efni á því. Þetta er manneskja sem vinnur 100 prósent vinnu, og hún segist verða fyrir gífurlegu skilningsleysi af hálfu annarra foreldra. Það er þvílíkt sársaukafullt að geta ekki veitt barninu sínu það sama og konan í næsta húsi.
Íþróttir og tónlistarnám á að vera ókeypis fyrir börn. Við vitum öll hve þroskandi og eflandi þetta er á allan hátt og hjálpar til við hið almenna nám. Þetta vinnur svo vel saman. Auðvitað kostar það eitthvað, en þegar til lengdar lætur þá kemur það út í gróða fyrir þjóðfélagið.
Athugasemdir