Stóra málið hans Sigmundar í pólitík undanfarin ár hefur snúið að uppgjöri þrotabúa föllnu bankanna og því hvernig meðhöndla skuli kröfuhafa. Sem forsætisráðherra hefur hann leikið lykilhlutverk í ferlinu. Til þess var hann kosinn.
Oft hefur Sigmundur verið sakaður um vanefndir. Þegar samkomulag um stöðugleikaframlag lá fyrir síðasta sumar kom mörgum á óvart hve ánægðir kröfuhafar slitabúanna virtust vera. „Er það vegna þess að íslenska ríkið samdi af sér?“ var spurt. Og á endanum fannst vinum Sigmundar í InDefence-samtökunum að kröfuhöfum hefði verið sýnd full mikil linkind.
Nú liggur fyrir að allan þann tíma sem slitameðferð bankanna stóð yfir hefur Sigmundur Davíð átt stórkostlegra fjárhagslegra hagsmuna að gæta af afdrifum málsins. Valið milli ólíkra leiða snerti fjárhag Sigmundar og eiginkonu hans með beinum hætti. Sú ákvörðun að semja við kröfuhafa um greiðslu stöðugleikaframlags, í stað þess að láta stöðugleikaskatt nægja, munar milljónum í heimilisbókhaldinu. Sigmundur hafði óteljandi tækifæri til að upplýsa um þennan æpandi hagsmunaárekstur en kaus að gera það ekki.
Ef legið hefði fyrir, í aðdraganda þingkosninganna 2013, að eiginkona Sigmundar Davíðs væri kröfuhafi í þrotabú föllnu bankanna upp á mörghundruð milljónir króna í gegnum skattaskjólsfélag á Bresku jómfrúareyjunum – hefði Framsóknarfokkurinn þá unnið kosningasigur og Sigmundur Davíð orðið forsætisráðherra Íslands?
Ef svarið er nei, þá má velta fyrir sér hvort forsætisráðherratíð Sigmundar Davíðs hafi kannski allt frá upphafi verið einn allsherjar forsendubrestur.
Athugasemdir