Á ég að fara að röfla um það að krakkar á Íslandi hafi ekki jafna möguleika til að stunda íþróttir eða tónlistarnám, eftir að hafa lesið grein um það hvernig krakkar hafa það í Bangladesh? Sigríður Thorlacius fór þangað, sem erindreki Unicef, og segir frá því í viðtali að krakkar þar, um milljón talsins, séu í þrælkunarvinnu. Allt frá fimm ára aldri. Það er auðvitað hryllingur og hitt bara hluti af köku (piece of cake). Oft heyrir maður fólk segja: Eigum við ekki fyrst að hugsa um okkar eigin börn áður en við förum að hjálpa börnum í öðrum löndum? Við þurfum ekki að velja. Við gerum bara bæði. Já sem sagt. Ég ætla að halda áfram að tala um það að krakkar hafa ekki jafna möguleika til að efla sig og þroska.
Nú er það mismunandi hvað Frístundakortið dekkar mikið íþróttanám hjá krökkum. Það fer eftir því hvaða íþróttafélagi barnið æfir hjá. Sums staðar gengur þetta upp, en annars staðar þurfa að koma til peningar frá foreldrum. Svo eru það búningarnir og keppnisferðirnar. Hvað þarf eiginlega oft að kaupa nýjan búning? Svarið er misjafnt eftir því hvern maður spyr. Ég talaði við einn föður, sem er með strákinn sínn í fótbolta, og hann sagði árlega. Og hvað?
Er þá alltaf verið að koma með nýja hönnun? Já, eða nýja auglýsingu á bakið á krakkanum, svaraði pabbinn. Það verður að hafa rétta auglýsingu á bolnum. Íþróttafélögin gera samning við heildsölur og samningurinn er auðvitað mismunandi. Hjá einni heildsölu sem ég talaði við þá er samningurinn þannig að íþróttafélögin kaupa búninga af heildsölunni, en í staðinn fá þjálfarar, starfsfólk og meistaradeildin gefins búninga. Hvert rennur innkoman af auglýsingunni? Ég gleymdi að spyrja um það. Þessi faðir talaði líka um pressuna að vera í öllu rétta outfittinu. Úlpa, húfa, hanskar, flísbuxur og eitthvað fleira. Hélt hann að þetta væru um 100 þús. þegar allt væri tekið.
Börn sem koma af fátækum heimilum líða fyrir þetta. En maður spyr sig: Þarf alltaf að vera að koma með nýjan búning? Þarf þetta að rúlla svona? Hverra hagur er það að vera alltaf að skipta um treyju? Er það fyrir heildsöluna? Er það fyrir íþróttafélögin? Er það fyrir fyrirtækin sem auglýsa? Ég veit það ekki.
„Þá er það barn ekki að fara að biðja um eitthvað sem það mögulega, mögulega gæti verið án.“
Sem betur fer er til svo mikið af góðu fólki sem er með annan fótinn eða báða í þessu íþróttastarfi. Og það er reynt að sjá til þess að barn þurfi ekki að hverfa úr íþróttum vegna peningaleysis. Hjá sumum íþróttafélögum er til ákveðinn sjóður, þar sem foreldrar geta sótt um rafrænt og farið er með umsóknina sem trúnaðarmál. Það sem manni finnst samt svo fúlt er það að barn þurfi að vera meðvitað um fjárhag foreldra sinna ef það ætlar að stunda íþróttir eða annað. Trúðu mér, barn er það. Ef barn kemur frá heimili, þar sem verið er að spá í hverja krónu til að dæmið gangi upp, þá er það barn ekki að fara að biðja um eitthvað sem það mögulega, mögulega gæti verið án. Það reynir að vera eins lengi í úrsérgengnum fótboltaskónum og hægt er.
Það er nú svo að börn velja sér ekki foreldra. Og sum börn eru bara ekki heppin með foreldra. Ég talaði við konu sem vinnur í grunnskóla uppi í Breiðholti og hún sagði mér að hjá sumum krökkum væru skólinn og íþróttasalirnir helstu griðastaðir þeirra. Þjálfarar og kennarar eru misjafnir, en mikið gríðarlega er maður þakklátur fyrir þá sem hafa fallegt hjartalag í þessu starfi. Því fólkið býr til starfið. Þú ÞARFT ekkert að hafa áhyggjur af barni sem kemur úr erfiðu umhverfi og skipta þér af því.
Ókei, hér eru nokkrar tillögur í þessu máli:
1. Frístundakortið er látið duga ALVEG fyrir íþróttafélagsgjöldunum og búningurinn væri innifalinn í félagsgjöldunum. Sem sagt íþróttafélögin mega ekki rukka hærra en því sem frístundakortið nemur.
2. Stofna sjóð sem öll íþróttafélögin eru aðilar að til að láta dæmið ganga upp.
3. Við gáfum Costco hundruð milljóna króna í startkosnað. Hvernig væri að seld væru skírteini á sama verði og ágóðinn færi í þennan sjóð?
4. Þegar barn fer í keppnisferðir, þá er fjármagnsmöguleiki að selja lakkrís og klósettpappir. Í flestum tilfellum þarf barnið að stóla á foreldra sína til að selja þessar vörur. Nú, sumir foreldrar eru ekki að standa sig í þessum málum. Hvernig væri að fólk gæti skráð sig á lista og þá væri hægt að leita til þeirra? Einn myndi hjálpa einu barni. Ég veit um fullt af fólki sem hefði bara gaman af því.
5. Skylda fyrirtæki sem borga sér x mikið í arð að þetta mörg prósent af arðinum fari í þennan umrædda sjóð. Bingó.
Einhverjum finnast þetta kannski hlægilegar tillögur. En þær kveikja kannski á betri tillögum.
Athugasemdir