Af hverju langar mig svo til þess að sú tilraun heppnist sem nú er að hefjast, að fimm flokkar myndi ríkisstjórn? Já, af hverju geri ég beinlínis þá kröfu til þessara fimm flokka að tilraunin takist?
Er það bara af því þannig tækist að halda Sjálfstæðisflokknum og Framsóknarflokknum utan stjórnar næstu fjögur árin og þá myndi mér líka lífið sem andstæðingi þessara flokka?
Það er nú reyndar ekkert „bara“.
Það er í sjálfu sér heilmikils virði að stjórnsýslan, samfélagið og landstjórnin fái að anda um stund án þessara flokka.
Helmingaskipti þeirra hafa, grunar mig, verið landi og þjóð skaðlegri en við getum ennþá með góðu móti áttað okkur á.
En burtséð frá þeim góða kosti við fimmflokkastjórn, þá væri það svolítið ævintýri í íslenskri pólitík ef hér tækist að mynda samhenta, samstíga stjórn um að leysa helstu mál sem að kalla á nýjan hátt, með nýjum aðferðum og nýrri hugsun.
Það væri heilmikil frelsun fólgin í því.
Frelsun frá hinu gamla hugarfari sem hefur verið viðloðandi öll mín fullorðinsár: Að pólitík sé refskák, valdabandalag, hagsmunagæslufélag.
Ef flokkarnir fimm koma sér saman um stefnu í helstu málum, koma sér saman um að ástunda heiðarleg og gegnsæ og uppbyggileg vinnubrögð, þá væri mikið unnið.
Og ég veit raunar ekki af hverju það ætti ekki að takast.
Það er nefnilega ekki til svo mikils mælst.
Því til þess arna eru þingmenn reyndar kosnir, þegar að er gáð.
Við þurfum að fara að hugsa sem samfélag, já, samfélag okkar allra, og ef það lukkast, þá lukkast líka þessi stjórnarmyndun og getur orðið nýr áfangi í stjórnmálasögunni - já, jafnvel Íslandssögunni.
Gangi ykkur vel!
Athugasemdir