Engin ástæða er til að gera lítið úr því frábæra gengi sem Vinstri græn njóta nú í skoðanakönnunum. Ýmsir á vinstrivængnum höfðu nokkrar efasemdir um framgöngu VG í stjórnarmyndunarviðræðunum í haust og vetur, og vildu kenna flokknum um að ekki varð af fimmflokkastjórninni, sem hefði - ég sný ekki aftur með það - getað orðið ferskur blær í helstil fúlu andrúmslofti hefðbundinna íslenskra stjórnmála.
Ugglaust var sú gagnrýni allan tímann ósanngjörn. Eftir á að hyggja verður ekki betur séð en formaður Viðreisnar hafi einfaldlega allan tímann verið staðráðinn í að mynda stjórn með Sjálfstæðisflokknum, og eftir að hann hafði óvænt eignast viljalaust verkfæri í Bjartri framtíð, þá kom kannski aldrei neitt annað til mála.
En látum það liggja milli hluta - þrátt fyrir fyrrnefndar efasemdir um VG, þá virðist flokkurinn ekki hafa beðið neitt tjón af í vitund kjósenda. Og Katrín Jakobsdóttir nýtur greinilega enn yfirburðafylgis af íslenskum stjórnmálamönnum.
Vel gert hjá flokknum, og formanninum.
Það sem ég vildi sagt hafa er að þrátt fyrir að maður viðurkenni fúslega að flokkurinn njóti vinsælda að eigin verðleikum, þá held ég það hljóti samt að liggja í augum uppi að fljúgandi gengið í þeirri skoðanakönnun, sem hér er sagt frá, það hlýtur í og með að stafa af óánægju með nýju ríkisstjórnina, og löngun kjósenda til að snúa frá hægri - og til vinstri.
Það er deginum ljósara að meirihluti íslenskra kjósenda styður EKKI þá hægristefnu sem Bjarni Benediktsson ætlar með góðu og illu að koma hér á - með auknum skattalækkunum fyrir ríka fólkið, ljúfara lífi fyrir sægreifana og einkavæddu heilbrigðiskerfi.
Og sá óheiðarleiki sem stjórnmálamaðurinn Bjarni Benediktsson hefur nú aftur og aftur og aftur gert sig beran að (sjá til dæmis hér), hann bætir auðvitað ekki úr skák. Og þaðan af síður yfirgangur hans við fjölmiðla - nú síðast í Silfrinu, þar sem hann svaraði naumast einni einustu spurningu, heldur talaði bara um eitthvað sem kom honum betur.
Þessi Viðeyjarstjórn er skelfileg mistök, sem mér sýnist að allir flokkarnir í stjórninni séu þegar byrjaðir að súpa seyðið af.
Og Viðreisn og Björt framtíð gætu verið að rjúka fram af bjargbrúninni í þessu samkrulli sínu við Sjálfstæðisflokkinn.
Einhvers staðar sá ég reyndar að þegar ráðherrar Viðreisnar og Bjartrar framtíðar sæju hve mikil hætta væri á að þeir féllu af þingi ef boðað yrði fljótlega til nýrra kosninga vegna óvinsælda ríkisstjórnarinnar, þá myndu þeir hanga eins og hundar á roði á stjórninni - og gera hvaðeina til að framlengja líf hennar.
Ég trúi því reyndar ekki upp á þessa ráðherra. Slíkt væru klækjastjórnmál í andstöðu við vilja kjósenda og eingöngu með þeirra hagsmuni að leiðarljósi.
Svoleiðis vilja þeir ekki vinna, eða hvað?
Athugasemdir