
Nýverið lækkaði flugvallarstjórinn á Vagar flugvelli við Þórshöfn gjaldskrána í von um að einhver erlend flugfélög myndu sýna Færeyjum áhuga. Í dag er Atlantic Airways, flugfélag heimamanna, næstum það eina sem nýtir völlinn og níu af hverjum tíu vélum sem taka þar á loft setja stefnuna á Danmörku. Svo er flogið til Íslands og Skotlands. Meira er það eiginlega ekki og eyjaskeggjar þurfa því oftast að millilenda í Kaupmannahöfn þegar þeir ætla út í heim.
Vissulega eru Færeyingar fámennari en Íslendingar en framboð á flugi frá Keflavíkurflugvelli er margfalt meira en frá Þórshöfn. Í ár munu hátt í tuttugu flugfélög bjóða upp á áætlunarflug héðan til um sextíu áfangastaða og úrvalið og samkeppnin eykst ár frá ári. Ástæðan fyrir þessu mikla framboði er ekki ferðagleði Íslendinga heldur miklu frekar vinsældir landsins meðal túrista. Öll útlendu flugfélögin sem hingað fljúga auglýsa til dæmis ekki þjónustu sína á hér á landi og íslenskir flugfarþegar virðast því vera algjör afgangsstærð. En við njótum hins vegar góðs af þessum stórbættu samgöngum til og frá landinu og ekki skemmir fyrir að farmiðaverð á mörgum flugleiðum hefur lækkað síðustu ár. Fargjöldin frá Íslandi til Danmerkur eru til dæmis oftast nokkru lægri en gerist og gengur í flugi frá Færeyjum til herraþjóðarinnar.
„Þessar tíðu brottfarir gera líka búsetu hér fýsilegri því eins og einn helsti listamaður þjóðarinnar sagði þá er forsenda þess að búa á Íslandi sú að komast reglulega í burtu.“
Þessar tíðu brottfarir gera líka búsetu hér fýsilegri því eins og einn helsti listamaður þjóðarinnar sagði þá er forsenda þess að búa á Íslandi sú að komast reglulega í burtu. Undir það taka sennilega ófáir og geta þakkað vinsældum landsins meðal útlendinga fyrir að flogið er oft á dag til Kaupmannahafnar, London, Ósló, Parísar og Boston og daglega til mýmargra annarra borga. Það er hins vegar útlit fyrir að Færeyingar verði áfram að stoppa í Kastrup á leið út í heim því ennþá hefur ekkert nýtt flugfélag stokkið á tilboðið sem færeyski flugvallarstjórinn bauð í byrjun árs. Á sama tíma hafa tvö af stærstu flugfélögum Evrópu ákveðið að hefja áætlunarflug til Íslands yfir vetrarmánuðina og fleiri hafa bæst í hóp þeirra sem fljúga hingað yfir aðalferðamannatímabilið. Það er því ekki útlit fyrir að við lokumst inni á næstunni, alla vega ekki á meðan útlendingarnir halda uppi fluginu til og frá Íslandi.
*Grein Kristjáns Sigurjónssonar er innlegg í umfjöllun um ferðamannaiðnaðinn á Íslandi sem birt er í júníblaði Stundarinnar.
Athugasemdir