Umræðan um fréttir Fréttablaðsins og vísis.is um rithöfundalaunin fyrr í mánuðinum byrjaði mjög snögglega að snúast um allt annað en það sem var inntak þeirra. Þau fyrirsjáanlegu viðbrögð einhverra lesenda við þessum fréttum voru á þá leið að þessir rithöfundar væru afætur og að listamannalaunin væru tímaskekkja. Til varnar tóku ýmsir rithöfundar og fólk sem er fylgjandi lista- og rithöfundalaunum sem benti á menningarlegt, huglægt og efnahagslegt gildi slíkra launa frá ríkinu. Umræðan um fréttirnar varð sem sagt í allt of miklum mæli strax svart-hvít á milli fólks sem er mótfallið listamannalaunum og svo þeirra sem telja þau mikilvæga forsendu fyrir skapandi fólk til að sinna störfum sínum.
„Ónytjungar“, „ástsælir“, „gullöld“
Svo gripið sé niður í handhófskennda, ómálefnalega athugasemd á samfélagsmiðlum gegn listamannalaunum við eina af fréttunum: „Hætta þessu launabulli strax … Ef þetta fólk er einhvers virði, getur það haft ofaní sig og á, eins og aðrir … En er upp til hópa ónytjungar.“
Sem dæmi um verjanda listamannalauna þá gagnrýndi Guðmundur Andri Thorsson rithöfundur Fréttablaðið meðal annars fyrir að birta myndir af rithöfundum sem fengið hafa starfslaun og eins höfundum sem sitja í stjórn rithöfundasambandsins: „Birtar eru myndir af ágætum og ástsælum höfundum eins og um sakamenn sé að ræða og laun þeirra séu ránsfengur.“ Þannig virðist umfjöllun fjölmiðils um starfslaun rithöfunda og myndbirtingar af þessum höfundum vera túlkuð sem árás á þessa höfunda og menninguna sem slíka í huga einhverra. Egill Helgason sjónvarpsmaður talaði líka um fréttaflutninginn í því ljósi að „gullöld“ væri í bókmenntum á Íslandi og að umfjöllun og myndbirtingar Fréttablaðsns væru ósiðlegar. Ég veit ekki hvaðan sú ranghugmynd kemur að myndbirtingar af fólki í fjölmiðlum feli í sér að verið sé að segja að viðkomandi sé glæpamaður jafnvel þó myndbirtingin sé í gagnrýnu samhengi – þessi gagnrýni byggist á yfirdrifinni tilfinningasemi gagnvart rithöfundum.
Stundum er eins og „milliregistur“ vanti í umræðuna á Íslandi, svo notað sé lýsandi orð úr ágætri bók eftir Guðmund Andra sem kom út fyrir jólin. Umræða sem ætti að snúast um tæknileg atriði og verklag byrjar að snúast um grundvallaratriði eins og réttmæti listamannalauna og atriði eins og það hvort rithöfundar á starfslaunum séu „ónytjungar“ eða „ástsælir“ og hvort nú sé „gullöld“ í bókmenntum eða ekki.
Sjálfur er ég eindreginn stuðningsmaður listamannalauna, mér finnst sumir íslenskir rithöfundar vera ástsælir – meðal annars Guðmundur Andri Thorsson – og það eru til merkilega margir góðir rithöfundar á Íslandi miðað við stærð landsins þannig að kannski má tala um gullöld í bókmenntum en það skiptir bara engu máli í þessari umræðu.
Um þessa umræðu má segja upp á ensku, „The devil is in the detail“, þar sem hún snýst í raun ekki um það sem hún þó byrjaði að snúast um: Réttmæti listamannalauna. Af því að umræðan fór strax að snúast um þetta grundvallaratriði var farið á mis við þau tvö aðalatriði sem að mínu mati eru kjarninn í fréttunum hjá Fréttablaðinu.
Aðferðin aldrei hafin yfir vafa
Bent var á það atriði í fréttunum að stjórn Rithöfundasambandsins velur sjálf úthlutunarnefnd rithöfundalauna. Einnig var á það bent, án þess að sagt væri að spilling hefði átt sér stað, að allir fimm rithöfundarnir í stjórn Rithöfundasambandsins hafi fengið úthlutað tólf mánaða rithöfundalaunum frá þessari nefnd. Það gengur auðvitað ekki að sömu einstaklingar og eru í hópi umsækjenda um starfslaun frá ríkinu skipi einnig nefndina sem tekur ákvörðun um að veita þeim þessi laun.
Slík aðferð við að útdeila almannafé er ótæk af því hún býr til kjöraðstæður fyrir möguleika á spillingu og verður aldrei hafin yfir gagnrýni jafnvel þó hvorki rithöfundarnir né meðlimir úthlutunarnefndarinnar hafi neitt misjafnt á samviskunni. Allar niðurstöður sem eru afleiðingar af slíku verklagi eru því gagnrýni undirorpnar og vafi og spurningar sitja eftir. Hvaða samband og tengsl eru á milli þeirra sem sitja í stjórninni og þeirra sem sitja í úthlutunarnefndinni? Voru þeir sem stjórnin valdi til að sitja í úthlutunarnefndinni að launa þeim fyrir val þeirra á nefndinni með því að veita þeim starfslaun í heilt ár? Var þessi rithöfundur eða hinn valinn fram yfir einhvern annan af því hann er í stjórn Rithöfundasambandsins? Slíkar spurningar koma óhjákvæmilega upp í hugann og það er ekki hægt að kveða þær niður eða útrýma gruninum um ógagnsæi sem af þeim leiðir af því að aðferðin við að skipa í úthlutunarnefndina er svo gölluð.
„[H]ér þarf að lengja arminn.“
Viðbrögð stjórnar sýndu að umræða var réttlætanleg
Ef það er erfitt fyrir einhvern að ímynda sér að tilteknir rithöfundar geti gerst sekir um spillingu þá nægir að ímynda sér einhvern annan hóp fólks í sömu eða svipaðri stöðu. Stjórn ímyndaðra samtaka alþingismanna skipar þriggja manna úthlutunarnefnd sem veitir ákveðnum þingmönnum starfslaun til tiltekinna starfa utan hefðbundins vinnutíma; stjórn Blaðamannafélags Íslands, sem í sitja blaðamenn, skipar nefnd sem veitir ákveðnum blaðamönnum starfslaun til greinaskrifa og geta stjórnarmennirnir sjálfir sótt um; stjórn Viðskiptaráðs Íslands, sem í sitja framkvæmdastjórar og fyrirtækjaeigendur, skipar nefnd sem veitir tilteknum fyrirtækjum styrki úr potti með fjármunum ráðsins og svo framvegis.
Engar aðrar reglur gilda um „ástsæla“ rithöfunda að þessu leyti frekar en um ástsæla þingmenn, ástsæla blaðamenn eða ástsæla fyrirtækjaeigendur. Þeir sem sjálfir geta sótt um peningana í potti mega ekki skipa þá sem útdeila þessum fjármunum. Verklagið við útdeilingu gæðanna þarf alltaf að vera gagnsætt og hlutlægt og hafið yfir allan vafa. Rithöfundar eru ekki undanþegnir almennum reglum um gagnsætt verklag við útdeilingu fjár úr opinberum sjóðum.
Slíkt vinnulag við að úthluta peningum úr sameiginlegum sjóðum almennings eða tiltekinna samtaka verður aldrei hafið yfir gagnrýni sama hvaða hópur fólks á í hlut. Raunar voru ein fyrstu viðbrögð stjórnar Rithöfundasambandsins á þá leið að þessi breyting yrði gerð: „Ekkert vinnulag er fullkomið og þaðan af síður endanlegt. Sífelldrar endurskoðunar er þörf og hér þarf að lengja arminn þótt ljóst megi vera að stjórnarmenn og framkvæmdastjóri hafi unnið sína vinnu af nákvæmni, hlutleysi og heilindum,“ sagði í tilkynningu frá stjórninni.
Þegar aðili sem hefur verið gagnrýndur fyrir fjárveitingar af opinberu fé sendir frá sér tilkynningu um að hann þurfi að gæta armslengdarsjónarmiða er alveg ljóst að hann hefur viðurkennt óhepilegt verklag, mistök sín eða yfirsjón. Rithöfundasambandinu má hæla fyrir þetta jafnvel þó sambandið hafi líka gagnrýnt Fréttablaðið fyrir að benda á þetta atriði: „Það er einnig mjög alvarlegt að saka fagfólkið, sem tók að sér vanþakkað starf úthlutunarnefndar hjá Stjórn listamannalauna, um að vera á mála hjá stjórn RSÍ.“ Þannig viðurkenndi sambandið gagnrýnina á verklagið með fyrirvörum um að ráðist hefði verið að úthlutunarnefndinni með gagnrýni á brogað verklag. Sjálfsgagnrýni Rithöfundasambandsins fól því líka í sér gagnrýni á árásargirni Fréttablaðsins.
Hver er „andi laganna“ um listamannalaun?
Hitt atriðið snýr að því hvort ekki sé eðlilegt að tekjutengja listamannalaun. Í skýringum með frumvarpi Katrínar Jakobsdóttur, þáverandi menntamálaráðherra, um listamannalaun frá árinu 2009 er gefið í skyn oftar en einu sinni að hlutverk listamannalaunanna sé að gera listamönnum kleift að sinna list sinni með því að veita þeim starfslaun í formi framfærslu úr ríkissjóði. Í lögunum er ekki tekið fram að þeir listamenn sem eru með þokkalegar, góðar eða jafnvel mjög góðar tekjur fyrir megi ekki sækja um listamannalaun og geti ekki fengið þau. Þó má segja að „andi laganna“ um listamannalaun sé sá að þau séu fyrir tekjulága listamenn en ekki tekjuháa; að þau séu fyrir þann sem er með 150 þúsund í mánaðarlaun og reynir að fara upp í 500 þúsund frekar en þann sem er með 600 þúsund og reynir að fara upp í 950 þúsund eða þann sem er með 1,5 milljón og vill komast upp í 1,9 milljónir.
Í skýringunum segir meðal annars: „Misjafnt er hvaða möguleika listamenn hafa til að afla sér tekna með listsköpun sinni. Í flestum tilvikum eru tekjumöguleikar takmarkaðir og því hafa starfslaun listamanna skipt sköpum fyrir mjög marga þeirra og ekki síst fyrir þróun og eflingu listgreinanna.“ Svo segir líka: „Eins og áður segir búa listamenn við misjafna möguleika til að afla sér tekna með listsköpun sinni. Ljóst er að sú fjárhæð starfslauna sem lögð er til með frumvarpinu veitir ein sér takmarkaða möguleika fyrir listamenn til þess að helga sig að fullu listsköpun, en getur þó með öðru skipt sköpum í þessu samhengi.“
Tilgangur listamannalauna virðist vera að stuðla að því að þeir listamenn sem ekki hafa marga aðra tekjumöguleika geti átt í sig og á en ekki að hífa dágóðar tekjur þekktra listamanna enn frekar upp. Þessi andi laganna um listamannalaun virðist gefa tilefni til að breyta því hverjir geta sótt um listamannalaun og á hvaða forsendum.
Rithöfundar verða að þola gagnrýni
Rithöfundar og listamenn, rétt eins og fólk í öðrum starfsgreinum í samfélaginu, þurfa að þola gagnrýna umfjöllun um störf sín og sitt starfsumhverfi. Ekki síst þegar um er að ræða fjárveitingar úr ríkissjóði til þessara aðila. Og fjölmiðlar eiga að fjalla um slíkar fjárveitingar með gagnrýnum hætti og rýna í þá verkferla sem notast er við til að útdeila þessum efnislegu gæðum.
Umfjöllun Fréttablaðsins er meðal annars réttlætanleg, þó kannski megi deila um framsetningu einstakra frétta eins og gengur, vegna þess að stjórn Rithöfundasambandsins brást samstundis við því að gangast við því að verklagið við val á úthlutunarnefndinni væri ekki heppilegt og að „lengja“ þyrfti „arminn“.
Ef rithöfundar, sem öðrum þræði að minnsta kosti vinna við að greina og gagnrýna samfélag sitt í skáldskap og/eða ýmis konar non-fiction skrifum, þola ekki borðleggjandi gagnrýni á sjálfa sig og eigin fagsamtök þá geta þeir heldur ekki ætlast til þess að þeir stjórnmálamenn og þær valdastofnanir sem þeir gagnrýna taki mark á þeirra – ef svo ber undir – réttmætu og hlutlægu gagnrýni. Hvert er umræðan í samfélaginu þá komin? Þegar meira að segja rithöfundar grípa til vænisýki þegar fagsamtök þeirra eru réttilega gagnrýnd opinberlega.
Í mínum huga er þessi fréttaflutningur dæmi um vel heppnaða vinnu fjölmiðils af því að hann leiddi samstundis til breytinga til hins betra eða viðleitni í þá átt. Bent var á gallað fyrirkomulag við að útdeila almannafé; aðilinn sem skipuleggur hvernig peningunum frá ríkinu er varið brást strax við. Barið var í bresti gallaðs og ógagnsæs kerfis.
Kannski mun fréttaflutningurinn svo leiða til þarfrar umræðu um að tekjutengja þyrfi listamannalaun – kannski þannig að styrkþegi fari með starfslaununum ekki yfir 700 eða 800 þúsund í mánaðarlaun eða eitthvað slíkt. Þetta getur svo aftur haft jákvæð áhrif í lista- og menningarlífið í landinu þar sem fleiri yngri og óþekktir höfundar geta fengið tímabundin laun til að koma undir sig listamannafótunum, og fá viðurkenningu og klapp á bakið, í stað þeirra sem löngu hafa skapað sér nafn og eru með tekjur fyrir sem nema kannski tvöföldum, þreföldum eða fjórföldum listamannalaunum. Slíkt væri í anda laganna um listamannalaun og þannig verða kannski til enn fleiri frambærilegir rithöfundar á Íslandi.
Vel er hægt að vera bæði fylgjandi listamannalaunum en svo einnig því sjónarmiði að breyta þurfi verklagi við úthlutun rithöfundalauna og að tekjutengja þurfi þau. Ég held að margir hljóti að deila þeirri skoðun að sá sem fær starfslaun frá ríkinu eigi ekki að vera hátekjumaður eða -kona fyrir.
Hvort listamannalaun eru réttlætanleg sem slík eða ekki er svo bara allt önnur umræða.
Athugasemdir