Ég á afmæli í dag. Slíkir dagar eru auðvitað fyrst og fremst persónulegir áfangar; maður lítur til baka, og svoleiðis ...!
En maður skoðar líka stöðu sína í samfélaginu - hvað er maður að vilja hér? Og hvernig getur maður helst gert gagn, bæði sínum nánustu og (ef maður er heppinn) öðrum.
Undanfarið hef ég ásamt mörgum öðrum mætt á Austurvöll daglega til að fara fram á að ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks segi af sér. Hún er rúin trausti og það er algjörlega útilokað að hún geti öðlast það aftur.
Þá á hún ekki að þrjóskast við að sitja - enda er tilgangurinn með því augljóslega sá einn að gera úrslitatilraun til að maka krókinn og kaupa kjósendur til fylgis við örvasa stefnu sína.
Þetta segi ég ekki í einhverjum flokkspólitískum tilgangi. Andófið gegn ríkisstjórninni nú er ekki leitt af stjórnarandstöðunni, og sjálfur veit ég ekki ennþá hvað ég mun kjósa í næstu kosningum.
Mér finnst einfaldlega að nú verði lýðræðið að fá ráða og við þurfum nýtt upphaf.
Þess vegna fer ég á Austurvöll klukkan fimm. Og ég vonast til að sjá ykkur sem flest.
Sólin sem skín svo glaðlega á þessum afmælisdegi verður víst horfin bak við ský, en það á að verða milt veður.
Mætum nú sem flest.
Athugasemdir