„Að hugleiða steina,“ heitir ljóðabók eftir Sigfús Daðason. Og undanfarin dægur hef ég einmitt verið að hugleiða steina. Og fram á síðustu stund hef ég ekki trúað mínum eigin augum, né eyrum.
En nú verð ég víst að trúa.
Alþingi Íslendinga ætlar í alvörunni að hlýða skipun Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra um að varðveita skuli og færa til gamlan grjótgarð við Reykjavíkurhöfn sem gæti haft í för með sér kostnað upp á hálfan milljarð króna.
Hálfur milljarður eru 500 milljón króna.
Á sama tíma kveinar heilbrigðiskerfið undan fjárskorti. Menningarstofnanir ganga horgirtar. Aldraðir og öryrkjar fá ekki þær sömu kjarabætur og aðrir fá, þar á meðal ráðherrar ríkisstjórnarinnar, þar á meðal Sigmundur Davíð sjálfur.
En það á sem sagt í alvöru að henda allt að 500 milljónum í að færa til þennan grjótgarð.
(Ég veit að það er deilt um hvort upphæðin verði á endanum 500 milljónir eða eitthvað lægri. En söm er gjörðin: Þeir sem samþykkja verkefnið hafa í reynd lýst sig tilbúna til að sjá á eftir þessum peningum í það.)
Eins og sést á myndinni hér að ofan (og er af vefsíðu RÚV), þá er þetta ekki fallegur garður. Og hann er ekki einu sinni gamall. Þetta er sjötíu ára gamalt klastur sem aldrei kom að neinum notum.
En það á í alvöru að henda 500 milljónum ... já, þið skiljið.
500 milljónum í þetta gæluverkefni Sigmundar Davíðs.
Látum vera þótt honum sjálfum þyki meiri ástæða til að eyða þessum hálfa milljarði í kubbaleik en heilbrigðiskerfið. Því Sigmundur Davíð er náttúrlega eins og hann er.
En Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra? Finnst honum þessum peningum vel varið?
Guðlaugur Þór, hinn aðhaldssami varaformaður fjárlaganefndar, sér hann engin betri not fyrir féð?
Elín Hirst - þú ert væntanlega mjög ánægð með að sjá peningana fara í grjótgarðinn en ekki heilbrigðiskerfið eða menninguna eða örykjana?
Þú greiddir þessu atkvæði.
Frosti - þú bíður líka spenntur eftir því að sjá þennan garð á nýjum stað og ert alveg til í að eyða 500 milljónum til þess.
Brynjar Níelsson, Valgerður Gunnarsdóttir, Birgir Ármannsson - þið fílið öll þennan grjótgarð.
Þórunn Egilsdóttir - þú sérð engin betri not fyrir þessar 500 milljónir í samfélaginu?
Ég hélt lengi vel að þetta væri eins konar grín. Allar milljónirnar sem menn virtust til í að leggja í þennan ljóta grjótgarð, þetta ætti líklega að vera skiptimynt í einhverjum pólitískum hrossakaupum.
Á síðustu stundu yrði bakkað með allt saman og milljónirnar lagðar í eitthvað þarfara.
En svo virðist ekki munu fara.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson er nú í þann veginn að eignast þann minnisvarða um pólitískan feril sinn sem sæmir honum vel.
Það er þessi grjótgarður.
Skítt með heilbrigðiskerfið, menninguna, öryrkjana, gamla fólkið, já, skítt með það.
Grjótgarðurinn blífur.
En það er ekki bara Sigmundur Davíð einn sem er ábyrgur fyrir þessu rugli, sem væri hlægilegt ef það væri ekki svona sorglegt að sjá peningum ríkisins svo illa varið.
Hver einn og einasti þingmaður stjórnarflokkanna á nú sinn stein í grjótgarði Sigmundar.
Við hin fáum kannski að kasta í hann beinunum okkar.
Athugasemdir