Þessi grein birtist upphaflega í Stundinni fyrir meira en 5 árum.

Afríkuveiðar Samherja og spillingin í Namibíu

Ný gögn um starf­semi Sam­herja í Namib­íu sýna hvernig fyr­ir­tæk­ið kemst yf­ir fisk­veiðikvóta með mútu­greiðsl­um til spilltra stjórn­mála- og emb­ætt­is­manna og flyt­ur hagn­að­inn í skatta­skjól. Vegna gruns um pen­inga­þvætti hafa er­lend­ir bank­ar stöðv­að milli­færsl­ur Sam­herja.

Afríkuveiðar Samherja og spillingin í Namibíu

Tímalína

Afríkuveiðar Samherja og spillingin í Namibíu

2007–2019

18. maí 2007

Greint frá því í fjölmiðlum að Samherji hafi keypt Afríku­útgerð Sjólaskipa sem gerð var út frá Kanarí­eyjum. Kaupverðið var um 16 milljarðar króna og var fjármagnað af Glitni, síðar Íslands­banka. Útgerðin er nefnd Katla Seafood.

16. desember 2010

Starfsmenn Samherja, Aðalsteinn Helgason, Jóhannes Stefánsson og Sigurður Ólason, funda með Ólafari Ragnari Grímssyni, forseta Íslands, til að biðja um liðsinni hans við sjávarútveg og viðskipti félagsins í Marokkó.

30. desember 2010

Katla Seafood á Kanaríeyjum sækir um banka­reikning fyrir félagið Cape Cod FS í skattaskjólinu Marshall-eyjum hjá DNB NOR bankanum í Noregi. Brynjar Thorsson, starfsmaður Kötlu Seafood, er einn þeirra sem hefur heimild til að nota banka­reikninginn. Reikningurinn er notaður til að greiða laun sjómanna Samherja í Afríku.

28. mars 2011 – 2. apríl 2011

Jóhannes Stefánsson ferðast til Namibíu til að kanna aðstæður í landinu vegna mögulegra fjárfestinga Samherja þar.

16. desember 2011

Samherji, í gegnum Esju Mar Fishing, gerir ráðgjafasamning við Tamson Hatukulipi, tengdason sjávarútvegs­ráðherra Namibíu, um að hann veiti félaginu aðstoð við að komast yfir aflaheimildir í landinu.

28. febrúar 2012

Samherji hefur veiðar á hestamakríl í Namibíu eftir að hafa keypt kvóta af tveimur kvóta­­höfum. Um þetta segir í fundar­gerð frá stjórnenda­fundi Samherja: „Niður­staðan varð sú að við sömdum við tvö JV og Fish Consumption Trust um alls 28.000 tonn fyrir afar hátt verð.“

29. febrúar 2012

Samherji fer í skuldabréfaútboð í gegnum dótturfélag sitt Kaldbak og lætur fisksölufyrirtæki sitt á Kýpur, Esju Seafood, fjárfesta fyrir 2,4 milljarða í bréfunum í gegnum fjárfestingarleið Seðlabanka Íslands. Þannig kemur Samherji ríflega tveimur milljörðum króna frá Kýpur til Íslands með 20 prósent afslætti.

27. mars 2012

Seðlabanki Íslands og sérstakur saksóknari framkvæma húsleit á skrifstofum Samherja vegna gruns um meint brot á gjaldeyrishaftalögum vegna fisksölu frá Íslandi.

18. apríl 2012

Samherji greinir frá því að Kýpur sé ekki skattaskjól eftir að DV fjallar um eignarhaldsfélög Samherja á Kýpur. Bankagögnin um Kýpurfélög Samherja, Esju Seafood og Esju Shipping Limited, sýna nú hvernig þessi félög og önnur Kýpurfélög eru miðpunkturinn í aflandsviðskiptum Samherja, meðal annars í gegnum skattaskjól eins og Máritíus, Dubaí og Marshall-eyjar.

17. maí 2012

Þorsteinn Már Baldvinsson, Aðalsteinn Helgason og Jóhannes Stefánsson funda með sjávarútvegsráðherra Namibíu, Bernhardt Esau, á búgarði í eigu ráðherrans. James og Tamson Hatuikulipi eru einnig viðstaddir fundinn.

30. maí 2012

Greint frá því í DV að Samherji hafi fest kaup á 30 þúsund hesta­makrílskvóta í Namibíu og hafið veiðar þar fyrr á árinu.

10. apríl 2013

Seðlabanki Íslands kærir Samherja til embættis sérstaks saksóknara vegna meintra brota á gjaldeyris­haftalögum.

1. júní 2013

Jóhannes Stefánsson tekur við sem framkvæmdastjóri Arcticnam Fishing í Namibíu.

20. júní 2013

Samherji selur Afríkuútgerðina Kötlu Seafood til rússneska útgerðarfélagsins Murmansk Trawl Fleet fyrir 20 milljarða króna.

1. janúar 2014

Tamson Hatuikulipi, tengdasonur sjávarútvegsráðherra Namibíu, gerir ráðgjafasamning við Kötlu Seafood Namibia, sem Jóhannes Stefánsson undirritar fyrir hönd Samherja, í gegnum félag sitt Erongo Clearing and Forwarding um að hann sjái til þess að reyna að tryggja Samherja fiskveiðikvóta í Namibíu og Angóla. Í samningnum á Tamson að „veita ráðgjöf varðandi samskipti við lykilmenn og kvótahafa í Namibíu og Angóla“.

25. febrúar 2014

Sacky Shangala sendir tölvupóst með orðunum: „Gentlemen, we are in business“ til Jóhannesar og viðskiptafélaga sinna James og Tamson eftir að ljóst var að Namgomar fengi veiðileyfi í Angóla á grundvelli milliríkjasamnings Namibíu og Angólu.

24. maí 2014

James Hatuikulipi stofnar aflandsfélagið Tundavala Invest Limited í skattaskjólinu Dubai í Sameinuðu arabísku furstadæmunum. Félagið tekur við hundruð milljóna króna mútugreiðslum frá félagi Samherja á Kýpur. Esju Seafood, á næstu árum.

„Kvótinn er kominn fyrir Namgomar verkefnið“

7. júlí 2014

Staðfesting frá sjávarútvegsráðuneyti Namibíu berst til Jóhannesar Stefánssonar um að ráðuneytið hafi úthlutað 7 þúsund tonna hestamakrílskvóta til fyrirtækisins Namgomar. „Kvótinn er kominn fyrir Namgomar verkefnið,“ skrifar Jóhannes í tölvupósti til Þorsteins Más Baldvinssonar og Aðalsteins Helgasonar.

18. ágúst 2014

James Hatuikulipi, Tamson Hatuikulipi og Sacky Shangala koma til Íslands í vikulanga heimsókn. Erindið er meðal annars að ræða um Namgomar-verkefnið, samstarfsverkefni á milli Namibíu og Angóla, um veiðar á hestamakríl í löndunum tveimur. Félag Samherja í Namibíu veiddi fiskinn í samstarfsverkefninu.

20. ágúst 2014

James Hatuikulipi, Tamson Hatuikulipi og Sacky Shangala funda með Þorsteini Má Baldvinssyni og Jóhannesi Stefánssyni á skrifstofu Samherja í Katrínartúni. Sacky Shangala flytur erindi sem sýnir hvernig hægt er að úthluta nýjum hestamakrílskvóta á grundvelli milliríkjsamnings við annað Afríkuríki, svokallað Namgomar-verkefni sem Samherji naut góðs af. Kristján Þór Júlíusson, þáverandi menntamálaráðherra, kemur í heimsókn á sama tíma og heilsar upp á þremenningana.

Lesa meira

22. ágúst 2014

Samherji, í gegnum félagið Esja Holdings Ltd., gerir samning um að veiða hestamakrílskvóta sem úthlutað er til félagsins Namgomar, félagi sem stofnað er á grundvelli milliríkjasamstarfs á milli Namibíu og Angóla. Samningurinn er undirritaður þennan dag. Ingvar Júlíusson skrifar undir samninginn fyrir hönd Samherja, Esju, og Ricardo Gustavo fyrir hönd Namgomar-félagsins, Ricardo þessi er jafnframt starfsmaður fyrirtækis í eigu James Hatuikulipi.

22. ágúst 2014

Þorsteinn Már Baldvinsson og Jóhannes Stefánsson sitja fund með James Hatuikulipi í höfuðstöðvum Samherja í Katrínartúni. Þar kemur Þorsteinn Már með þá hugmynd að Samherji geti greitt skattaskjólsfélagi James, Tundavala Investments, í Dubaí frá félaginu Esju Seafood á Kýpur. Greiðslurnar eru þóknanir, mútur, til James og félaga hans út af Namgomar-verkefninu. Samkomulagið um greiðslurnar er munnlegt.

5. september 2014

Esja Seafood á Kýpur, sama fyrirtæki og notað var til að taka þátt í fjárfestingarleið Seðlabanka Íslands árið 2012, millifærir 150 þúsund dollara, tæplega 18 milljónir króna, í mútur til félags James Hatuikulipi í Dubaí.

5. september 2014

Samherji opinberar ársuppgjör sitt 2013 og 7,7 milljarða söluhagnað vegna sölu Afríkuútgerðarinnar á Kanaríeyjum. Þorsteinn Már segir í tilkynningu: „Við seldum góðar eignir sem búið var að leggja mikla vinnu í að breyta og bæta. Það er því alltaf ákveðin eftirsjá þegar horft er til baka og ekki síst í því góða fólki sem hafði tekið þátt í þessu með okkur. Efnahagur okkar og rekstur minnkaði umtalsvert í kjölfarið og verkefni okkar er að fylla í það skarð á næstu misserum.“ Í sömu tilkynningu segir Þorsteinn Már að veiðarnar í Namibíu hafi gengið vel. „Það hefur líka gengið vel í Namibíu þar sem við gerum út frystiskip…“

„Það hefur líka gengið vel í Namibíu þar sem við gerum út frystiskip…“

3. desember 2014

Lögmaðurinn Bernhard Bogason staðfestir stofnun félagsins Mermaria Investments fyrir Samherja í skattaskjólinu Máritíus. 640 milljónir renna skattfrjálsar til félagsins úr rekstrinum í Namibíu á næstu árum. Greiðslurnar eru skilgreindar sem sérleyfisgreiðslur, sérstakar þóknanir til Samherja, sem námu 5 prósent af tekjum útgerðarinnar í Namibíu.

27. janúar 2015

Esja Seafood á Kýpur millifærir tæplega 450 þúsund dollara, tæplega 60 milljónir króna, í mútur til félagsins Tundavala Investments í Dubaí.

4. september 2015

Embætti sérstaks saksóknara, nú héraðssaksóknara, fellir niður málið á hendur Samherja vegna meintra brota á lögum um gjaldeyrismál. Þar með lýkur rúmlega 2 ára rannsókn á meintum brotum.

„Ég grét ekki en það grétu margir aðrir“

11. september 2015

Þorsteinn Már Baldvinsson stígur fram í viðtali við DV og gagnrýnir Seðlabanka Íslands fyrir rannsóknina á meintum gjaldeyrisbrotum fyrirtækisins og segir að margir hafi grátið vegna rannsóknarinnar „Ég grét ekki en það grétu margir aðrir.“ Þorsteinn krefst afsagnar Más Guðmundssonar seðlabankastjóra.

19. október 2015

Dótturfélag Samherja á Kýpur, Esja Seafood, leggur 300 þúsund dollara, tæplega 38 milljónir króna, í mútur inn á reikning Tundavala Invest Limited í Dubái.

6. apríl 2016

Katla Seafood Namibia, dótturfélag Samherja, leggur þrjár milljónir namibískra dollara, tæplega 25 milljónir króna, inn á reikning félagsins JTH Trading í Namibíu sem er í eigu Tamson Fitty Hatuikulipi, tengdasonar sjávarútvegsráðherra Namibíu, Bernhard Esau.

9. apríl 2016

James Hatuikulipi, Sacky Shangala og Tamson Fitty Hatuikulipi mæta á árshátíð Samherja í Íþróttahöllinni á Akureyri.

Maí 2016

Sjávarútvegsráðherra Namibíu, Bernhard Esau, heimsækir togara Samherja, Heinaste, og hittir starfsmenn félagsins. Í tölvupósti til Þorsteins Más Baldvinssonar þann 20. maí 2016 segir Jóhannes Stefánsson að hún „stóð í 2 klst og þau borðuðu líka um borð (voru mjög ánægð með matinn)“.

Júlí 2016

Jóhannes Stefánsson lætur af störfum hjá Samherja í Namibíu.

22. júlí 2016

Kýpurfélag Samherja, Esja Seafood, leggur 525 þúsund dollara, rúmlega 64 milljónir króna, inn á reikning Tundavala Invest í Dubaí.

Mars 2018

Bandaríski bankinn Bank of New York Mellon stöðvar millifærslu frá bankareikningi kýpverska félagsins JPC Ship Management sem er fyrirtæki sem Samherji réði austur-evrópska sjómenn í gegnum fyrir verksmiðjuskip sín í Namibíu.

18. maí 2018

Síðasta millifærslan sem JPC Ship Management fékk að ganga frá áður en DNB NOR bankinn lokaði á viðskipti félagsins vegna hættu á peningaþvætti.

22. maí 2018

Norski bankinn DNB NOR lokar á viðskipti við félagið Cape Cod FS í skattaskjólinu Marshall-eyjum, sem var stýrt í gegnum Kýpur, sem notað hafði verið um árabil til að greiða starfsmönnum á togurum Samherja í Afríku laun. Ástæðan er hættan á peningaþvætti og vegna þess að norski bankinn fékk ekk fullnægjandi upplýsingar um endanlega eigendur félagsins.

„Ég fór að fá kvíðaköst og fór að hugsa að þetta myndi allt fara á versta veg“

21. nóvember 2018

Sigursteinn Ingvarsson, fyrrverandi fjármálastjóri Samherja, stígur fram og segir frá því að hann hafi orðið þunglyndur og þurft að hætta að vinna út af rannsókninni á Samherja. „Ég fór að fá kvíðaköst og fór að hugsa að þetta myndi allt fara á versta veg og að okkur tækist ekki að sannfæra þá að við værum heiðarlegt fólk og ég fór að glíma við þunglyndi.“

1. janúar 2019

Fyrirtæki Samherja á Kýpur, Noa Pelagic Limited, millifærir 46 þúsund dollara, rúmlega 5.5 milljónir, í mútur inn á reikning fyrirtækis James Hatuikulipi, Tundavala Investment Limited, í Dubaí.

31. janúar 2019

Fyrirtæki Samherja á Kýpur, Noa Pelagic Limited, millifærir 46 þúsund dollara, rúmlega 5,5 milljónir, í mútur inn á reikning fyrirtækis James Hatuikulipi, Tundavala Investment Limited, í Dubaí.

30. apríl 2019

Þorsteinn Már Baldvinsson segir frá því að Samherji hafi kært fjóra starfsmenn Seðlabanka Íslands til lögreglunnar fyrir að hafa tekið fjölmargar ákvarðanir í málinu gegn Samherja „í vondri trú og gegn betri vitund“. Starfsmennirnir eru Már Guðmundsson, Arnór Sighvatsson, Ingibjörg Guðbjartsdóttir, Rannveig Júníusdóttir og Sigríður Logadóttir.

12. nóvember 2019

Jóhannes Stefánsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri Samherja í Namibíu, stígur fram í fjölmiðlum og segir frá vinnubrögðum Samherja í landinu, mútugreiðslum til embættis- og stjórnmálamanna og notkun Samherja á skattaskjólum í erlendri starfsemi sinni.

Kjósa
0
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.
Tengdar greinar

Samherjaskjölin

„Tími á að íslensk stjórnvöld axli siðferðislega ábyrgð á Samherja“
FréttirSamherjaskjölin

„Tími á að ís­lensk stjórn­völd axli sið­ferð­is­lega ábyrgð á Sam­herja“

Leið­togi namib­ísku stjón­ar­and­stöð­unn­ar seg­ir landa sína undr­ast þögn ís­lenskra stjórn­valda um þá stað­reynd að stærsta spill­ing­ar­mál í sögu Namib­íu hafi orð­ið til fyr­ir til­stilli ís­lensks fyr­ir­tæk­is. Spyr hvort hundrað millj­óna styrk­ur Orku­sjóðs sé rík­is­styrkt spill­ing og send­ir for­sæt­is­ráð­herra op­ið bréf og ósk­ar liðsinn­is henn­ar við að fá Sam­herja til að greiða bæt­ur og svara til saka.
Samherji sakaður um stórfelld skattalaga- og gjaldeyrisbrot í Namibíu og framsalskrafa væntanleg
RannsóknirSamherjaskjölin

Sam­herji sak­að­ur um stór­felld skatta­laga- og gjald­eyr­is­brot í Namib­íu og framsalskrafa vænt­an­leg

Rík­is­sak­sókn­ari Namib­íu er enn ákveð­inn í því að óska eft­ir framsali þriggja stjórn­enda Sam­herja­fé­laga í Namib­íu og seg­ir brot á skatta- og gjald­eyr­is­lög­um muni mögu­lega bæt­ast við sak­ar­efn­in á hend­ur þeim. Stór­felld skatta­laga­brot Sam­herja­fé­laga sögð til rann­sókn­ar. Sam­herja­mað­ur seg­ir ís­lensk yf­ir­völd þeg­ar hafa neit­að að fram­selja sig.
Íslandsvinkona svo gott sem orðin forseti Namibíu
FréttirSamherjaskjölin

Ís­lands­vin­kona svo gott sem orð­in for­seti Namib­íu

Net­um­bo Nandi-Ndaitwah, ut­an­rík­is­ráð­herra Namib­íu, sem kom hing­að til lands í júní og ræddi Sam­herja­mál­ið við ís­lenska ráð­herra og að­stoð­ar­mann eins þeirra, er nú svo gott sem bú­in að tryggja sér for­seta­embætt­ið í Namib­íu. Hún var í morg­un kjör­in arftaki for­manns flokks­ins, sitj­andi for­seta sem hyggst setj­ast í helg­an stein. Flokk­ur­inn nýt­ur slíks yf­ir­burð­ar­fylg­is að inn­an­flokks­kosn­ing­in er sögð raun­veru­legt for­seta­kjör.
„Þetta eru glæpamenn og hegða sér eftir því“
ViðtalSamherjaskjölin

„Þetta eru glæpa­menn og hegða sér eft­ir því“

Jó­hann­es Stef­áns­son, upp­ljóstr­ari í Sam­herja­mál­inu, er sátt­ur við gang rann­sókn­ar­inn­ar hér á landi og seg­ir að fátt geti kom­ið í veg fyr­ir að mál­ið endi með dómi. Hann gagn­rýn­ir þó að­gerð­ar­leysi yf­ir­valda við því þeg­ar Sam­herja­menn hafa áreitt, njósn­að um eða reynt að hræða hann frá því að bera vitni. Fátt í við­brögð­um Sam­herja­fólks hafi þó kom­ið hon­um á óvart, enda fái þau að ganga mun lengra en öðr­um lið­ist.
Færeyskur ráðherra krafinn svara um Samherjarannsókn
FréttirSamherjaskjölin

Fær­eysk­ur ráð­herra kraf­inn svara um Sam­herj­a­rann­sókn

Högni Hoy­dal, formað­ur Þjóð­veld­is­flokks­ins fær­eyska, hef­ur í fær­eyska þing­inu ósk­að eft­ir svör­um við því hvað líði rann­sókn lög­reglu á meint­um skatta­laga­brot­um Sam­herja í Fær­eyj­um. Sam­herji end­ur­greiddi 340 millj­ón­ir króna til fær­eyska Skatts­ins, sem vís­aði mál­inu til lög­reglu. Síð­an hef­ur lít­ið af því frést.
Fjármálastjóri hjá Samherja segir mútugreiðslur í Afríku nauðsynlegar
FréttirSamherjaskjölin

Fjár­mála­stjóri hjá Sam­herja seg­ir mútu­greiðsl­ur í Afr­íku nauð­syn­leg­ar

Brynj­ar Þórs­son, fjár­mála­stjóri Sam­herja á Kana­ríeyj­um, sem með­al ann­ars kom að greiðsl­um til namib­ískra ráða­manna, seg­ir að „svo­kall­að­ar mútu­greiðsl­ur“ séu „stand­ard“ í Afr­íku. Þetta kom fram í yf­ir­heyrsl­um yf­ir Brynj­ari sem hef­ur stöðu vitn­is í rann­sókn Sam­herja­máls­ins hjá hér­aðssak­sókn­ara. Brynj­ar sagði Sam­herja hafa beitt sömu að­ferð­um til að kom­ast yf­ir kvóta í Mar­okkó og Má­rit­an­íu, áð­ur en fyr­ir­tæk­ið hóf út­gerð í Namib­íu.

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár