Sigurður Helgi Pálmason telst líklega ekki vera hin dæmigerða erkitýpa safnarans, það er að segja ef fólk samþykkir að slík týpa sé til, sem er kannski vafasamt. Engu að síður hitti söfnunarbakterían Sigurð Helga fyrir strax á unga aldri og nú, á fimmtugsaldri, hefur hann hellt sér út í söfnun, verið einn yngsti meðlimur Myntsafnarafélags Íslands frá upphafi, hætt að safna, byrjað aftur, rekið safnarabúð meira af ástríðu en fjárhagslegri skynsemi og stýrir nú Myntsafni Seðlabanka Íslands. Þá hefur hann undanfarin ár unnið að sjónvarpsþætti um söfnun og safnara ásamt Viktoríu Hermannsdóttur fjölmiðlakonu og hefja þættirnir, Fyrir alla muni, göngu sína næstkomandi sunnudagskvöld.
„Hugmyndin kviknaði í búðinni minni hérna uppi á Hverfisgötu. Jón Þór Hannesson, sem er einn stofnenda Sagafilm, kom til mín í búðina og við fórum að spjalla. Ég komst þá að því að hann hafði tekið upp plötu með mömmu og pabba og með því náðum við tengingu. Við förum að ræða saman og hann kemur í nokkur skipti í búðina og ég fer að velta því upp að það væri gaman að gera sjónvarpsþætti. Það hefur ekki áður verið gert hér á landi en svona þættir eru býsna vinsælir víða erlendis. Það eru þrjú ár síðan við fórum af stað með þetta verkefni og upptökur fóru fram í fyrrasumar. Í raun og veru erum við bara að gera það sem mér þykir svo gaman, að fá í hendurnar hlut sem einhver saga fylgir. Við segjum síðan þá sögu og reynum að sanna að hún sé rétt. Það eru svo alls konar hlutir sem koma upp úr dúrnum og það er það sem er svo skemmtilegt við að vera safnari. Á bak við alla litla hluti eru sögur, réttar eða rangar. Ef einhver mun koma og segja okkur að við höfum rangt fyrir okkur í þáttunum munum við taka því fagnandi,“ segir Sigurður Helgi.
Hætti að safna í tuttugu ár
Sigurður Helgi byrjaði ungur að safna mynt, ekki nema ellefu ára gamall. „Ég man vel þegar það byrjaði, það var þegar ég rakst á gamla peningaskápinn hans afa og opnaði hann. Þar var fullt af gömlum peningum sem kveiktu í mér forvitnina. Hvað eru þeir gamlir, frá hvaða landi eru þeir og svo framvegis. Þarna var auðvitað ekkert net og maður þurfti að leita upplýsinga. Þá gekk ég í Myntsafnarafélag Íslands og ég held að sá næsti mér í aldri hafi verið 35 til 40 ára.“
„Það þarf nánast að vera eitthvað að þér ef þú opnar safnarabúð árið 2013“
Sigurður Helgi segist hafa misst söfnunaráráttuna niður á unglingsárunum, það sé raunar mjög algengt. Önnur áhugamál taki þá yfir. Áhuginn kviknaði hins vegar aftur árið 2008. „Þetta var á sunnudegi og mér leiddist eitthvað. Ég hafði alltaf fengið boð um að koma á fundi hjá Myntsafnarafélaginu þótt ég væri hættur. Þarna mætti ég loks og fæ strax svona brjálaðan áhuga aftur. Þá voru liðin tuttugu ár. Þetta er mjög algengt, fólk byrjar ungt en missir svo áhugann. Svo um fertugt, fimmtugt þá kemur áhuginn aftur. Ég held að það sé kannski vegna þess að þá myndast aftur tími til að sinna áhugamálinu.“
Sigurður Helgi fór þá aftur að safna, skipta við aðra safnara og kaupa muni. Árið 2013 steig hann síðan annað skref þegar hann opnaði Safnaramiðstöðina á Hverfisgötu. „Það þarf nánast að vera eitthvað að þér ef þú opnar safnarabúð árið 2013. Ég gerði það bara af hugsjón og ég byrjaði með ekkert í höndunum. Ég fékk í hendurnar þetta yndislega pláss á Hverfisgötunni og fór af stað. Ég setti allt sem ég átti inn í búðina, öll mín söfn, vegna þess að það gengur alls ekki að vera að keppa við kúnnana. Þá fer maður að meta hlutina öðruvísi eða kaupa sjálfur upp alla bestu hlutina og þá kemur enginn að versla við mann.
Að reka þessa búð er það allra erfiðasta sem ég hef gert á ævinni en á sama tíma það allra skemmtilegasta. Það komu hlutir inn til mín sem ollu því að ég hreinlega missti andlitið. Oftar en ekki vissi fólkið sjálft ekkert hvað það hafði í höndunum. Ég fékk meðal annars inn í búðina mína stærsta safn sem tengdist íslenskum nasistum og um það var fjallað í Kastljósi. Það spurðist hægt og rólega út að það væri hægt að koma til mín og biðja mig um álit og mat á hlutum. Það var það sem mér þótti kannski skemmtilegast við reksturinn.“
Erfitt en gaman
Sigurður Helgi rak Safnaramiðstöðina um tveggja ára skeið, á árunum 2013 til 2015 en þá lauk þeim rekstri. „Þetta var fjárhagslega vonlaust, það var ekki séns að þetta væri hægt,“ segir Sigurður Helgi glottandi. Hann bætir við að hann hafi í upphafi hugsað sér að samtvinna rekstur safnarabúðar og túristabúðar en á þeim tíma sem hann hóf verslunarrekstur hafi húsaleiga á Laugavegi og á bestu stöðum verið orðin það há að það hafi ekki verið raunhæft. „Ég labbaði út úr búðinni slyppur og snauður en samt brosandi. Þetta var ótrúlegt tímabil og þó að það hafi verið erfitt þá mun ég aldrei sjá eftir þessum tíma.“
„Ég fer í vinnuna brosandi á hverjum degi og kem brosandi hvern dag heim“
Sigurður Helgi starfar í dag sem safnvörður myntsafns Seðlabanka Íslands og Þjóðminjasafnsins. „Það er algjör draumur fyrir mann eins og mig. Ég fer í vinnuna brosandi á hverjum degi og kem brosandi hvern dag heim. Fyrir mér er þetta, að höndla með gamla muni, það næsta því sem hægt er að komast í tímavél. Ef þú færð í hendurnar hlut með einhverja sérstaka sögu ertu nálægt því að komast aftur til þess tíma þegar sú saga gerðist, eða það hefur alltaf verið mín tilfinning. Aftur á móti get ég rétt einhverjum öðrum hlutinn og hann hefur engan áhuga á þeirri sögu en í stað þess getur viðkomandi til dæmis séð fegurðina í hlutnum, nú eða notagildið. Það er það sem er svo skemmtilegt.“
Áhyggjur af því að verið sé að henda sögunni
Sigurður Helgi segir að hann hafi af því töluverðar áhyggjur að munir og saga tapist því verðmætamat fólks breytist hratt og það sem fólk kunni að meta í eina tíð sé öðrum í dag lítils virði. „Ég hef mestar áhyggjur af því hverju verið er að henda. Fólk sem kemur kannski að dánarbúum og því fallast bara hendur því það veit ekkert hvað það er með í höndunum. Dæmi um þetta eru kannski filmuljósmyndavélar, sem fólk notar nú ekki mikið í dag. Það eru hins vegar til rándýrar vélar og linsur þarna úti sem ljósmyndarar sækjast eftir, það er til fólk sem myndi næstum því drepa fyrir Leica-linsur til dæmis. Ég hef lent í því að hafa stoppað það af að rándýrar Leica-linsur væru sendar á haugana,“ segir Sigurður Helgi og leggur áherslu á mikilvægi þess að fólk leiti sér aðstoðar ef það telur að það hafi í höndunum gamla, merkilega eða verðmæta muni. Þjóðminjasafnið sé meðal annars uppfullt af fræðafólki sem hafi þekkingu á þessum málum.
„Ég er hins vegar ekki maðurinn til að spjalla við í veislum“
Sigurður Helgi segist ekki vera farinn að safna sjálfur aftur, eftir að búðarreksturinn rann sitt skeið. Hann rækti hins vegar áhugamálið með sér. „Ég fer reglulega í Kolaportið, á flóamarkaði, ég mæti á fundi hjá Myntsafnarafélaginu og er í samskiptum við fólk um allan heim um söfnun. Ég er hins vegar ekki maðurinn til að spjalla við í veislum, þegar ég er spurður hvað ég geri og segist vera myntfræðingur þá fer fólk bara að horfa út í loftið og tala um veðrið.“
Athugasemdir