Þessi grein birtist upphaflega í Stundinni fyrir meira en 5 árum.

Aðstoðarmaður Sigmundar réttlætir fullgildingu ECT-samningsins: „Stundum er hlutum blandað inn í umræðuna“

Hinn um­deildi samn­ing­ur um vernd orku­fjár­fest­inga varð ekki bind­andi fyr­ir Ís­land fyrr en rík­is­stjórn Sig­mund­ar Dav­íðs Gunn­laugs­son­ar full­gilti hann ár­ið 2015. Ólíkt því sem lagt var upp með við und­ir­rit­un samn­ings­ins 20 ár­um áð­ur var full­gild­ing­in ekki bor­in und­ir Al­þingi. Að­stoð­ar­mað­ur Sig­mund­ar Dav­íðs gef­ur lít­ið fyr­ir frétta­flutn­ing af mál­inu, en önn­ur Evr­ópu­ríki töldu ástæðu til að sam­þykkja sér­staka yf­ir­lýs­ingu um for­ræði yf­ir sæ­strengj­um og olíu­leiðsl­um. Með und­ir­rit­un Gunn­ars Braga Sveins­son­ar og Ól­afs Ragn­ars Gríms­son­ar ár­ið 2015 skuld­bundu ís­lensk stjórn­völd sig til að fram­fylgja samn­ingn­um í hví­vetna.

Aðstoðarmaður Sigmundar réttlætir fullgildingu ECT-samningsins: „Stundum er hlutum blandað inn í umræðuna“

Jón Pétursson, aðstoðarmaður Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, hefur sent baráttufólki gegn þriðja orkupakkanum skilaboð vegna umfjöllunar Stundarinnar um hinn umdeilda ECT-orkusamning sem ríkisstjórn Sigmundar fullgilti árið 2015 án aðkomu Alþingis.

Í Facebook-færslu sem hann birtir á umræðuvettvangi Orkunnar okkar viðurkennir Jón að samningurinn snúist um „gagnkvæma vernd fjárfestinga“ og „að dreifing orku (líka yfir landamæri) sé heimil“, en bendir jafnframt á að í samningnum sé að finna ákvæði um orkufullveldi ríkja.

Önnur Evrópuríki samþykktu yfirlýsingu 
um forræði yfir sæstrengsmálum

Eins og Stundin hefur greint frá felur ECT-samningurinn í sér að stjórnvöld skuldbinda sig til að liðka fyrir frjálsum viðskiptum, samkeppni og markaðsvæðingu á sviði orkumála.

Í samningstextanum er meðal annars að finna ákvæði sem takmarka svigrúm ríkja til að hindra að reist séu grunnvirki til orkuflutninga. 7. gr. samningsins skuldbindur ríki til að grípa til allra nauðsynlegra ráðstafana til að liðka fyrir frjálsum flutningi orku óháð uppruna, áfangastað og eignarhaldi og án mismununar.

Gerðu fyrirvaraum sæstrengi og olíuleiðslur.

Þetta var umdeilt á sínum tíma og samþykktu Evrópubandalagsríkin auk Austurríkis, Noregs, Svíþjóðar og Finnlands sérstaka yfirlýsingu þar sem er áréttaður sá skilningur að ákvæðin skyldu ekki ganga framar alþjóðlegum reglum um lögsögu ríkja að því er varðar sæstrengi og leiðslur (sjá Final Act of the European Energy Charter Conference, bls. 18).  

Bæði Ísland og Bretland eiga aðild að ECT-samningnum og er því hugsanlegt að reyna muni á ákvæði hans ef upp koma deilur um lagningu sæstrengs milli landanna. Ólíklegra er að þriðji orkupakki Evrópusambandsins hefði vægi í slíku máli, bæði í ljósi þess að Bretar eru líklega á leið úr Evrópusambandinu og vegna þess að í lagatexta þriðja orkupakkans eru engin ákvæði sem hefðu þýðingu um hugsanlega skyldu til lagningar sæstrengs (sjá t.d. viðtal Stundarinnar við Skúla Magnússon, héraðsdómara, lagadósent og fyrrverandi ritara EFTA-dómstólsins og álitsgerð Stefáns Más Stefánssonar og Friðriks Árna Friðrikssonar Hirst þar sem þeir benda á að „þriðji orkupakkinn leggur enga skyldu á aðildarríki um að koma á fót raforkutengingu/grunnvirkjum yfir landamæri“).

Upphaflega gert ráð fyrir að málið færi fyrir Alþingi

ECT-samningurinn var undirritaður af Íslands hálfu árið 1994. Að því er fram kom í svari Sighvats Björgvinssonar, þáverandi iðnaðarráðherra, við fyrirspurn Hjörleifs Guttormssonar á Alþingi í október 1994 var þá gert ráð fyrir því að Alþingi hefði lokaorðið um hvort samningurinn yrði fullgiltur.

Samningurinn var þó ekki fullgiltur fyrr en rúmum 20 árum síðar, árið 2015 þegar Sigmundur Davíð Gunnlaugsson var forsætisráðherra, Ragnheiður Elín Árnadóttir iðnaðarráðherra og Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra. Athygli vekur að þá var fullgildingin ekki borin undir Alþingi og raunar var ekki tilkynnt um gjörninginn og afhendingu fullgildingarskjalsins á vefsvæði íslenska stjórnarráðsins. 

Með fullgildingunni hafa stjórnvöld skuldbundið Ísland að þjóðarétti til að virða og uppfylla ákvæði samningsins í hvívetna. Slík þjóðréttarleg skuldbinding var áður ekki fyrir hendi, enda gera 39. gr. og 44. gr. sáttmálans ráð fyrir fullgildingu (sjá einnig 11. og 14. gr. Vínarsamningsins um alþjóðlegan samningarétt þar sem fjallað er um fullgildingu og skilyrði þess að samningur teljist bindandi fyrir ríki). 

Snýst um að „dreifing orku (líka yfir landamæri) sé heimil“ 

„Kæru félagar. Það er alls ekki okkar vani að tjá okkur um fréttir Stundarinnar. Það er til þess fallið að æra óstöðugan. Stundum er hlutum blandað inn í umræðuna viljandi eða óviljandi,“ skrifar Jón í færslu sem hann birtir á Facebook-hópnum Orkan okkar. Þar á eftir birtir hann almennan texta um samninginn sem er að verulegu leyti þýðing á Wikipediu-grein um samninginn.

„Hvert land er frjálst að ákveða hvort og hvernig innlendar orkulindir þess eru þróaðar og að hve miklu leyti orkugeirinn er opinn erlendum fjárfestum. Sáttmálinn fjallar ekki um eignarhaldsmál orkufyrirtækjanna - það er engin skylda til að einkavæða ríkisfyrirtæki í eigu ríkisins eða að brjóta upp lóðrétt orkufyrirtæki,“ skrifar Jón. 

Í þessu samhengi er rétt að taka fram að í þriðja orkupakkanum er heldur ekki að finna nein ákvæði um að einkavæða skuli orkufyrirtæki og að Ísland nýtur undanþágu frá EES-reglum um aðskilnað flutningsfyrirtækja frá framleiðslu- og sölufyrirtækjum á sviði orkumála. Þá er í EES-samningnum kveðið skýrt á um að samningurinn skuli ekki hafa nein áhrif á reglur samningsaðila um skipan eignarréttar. Í umræðum um þriðja orkupakkann vísuðu stuðningsmenn málsins ítrekað til þess ákvæðis, en Stundin fjallaði um takmarkanir þess þegar kemur að því að verja opinbert eignarhald og stýringu á orkuauðlindum í greininni hér til hliðar.

Veitir orkufyrirtækjum sterka stöðu gagnvart þjóðríkjum

ECT-orkusamningurinn hefur að geyma gerðardóms- og fjárfestaverndarákvæði sem teljast til eldri kynslóðar slíkra reglna og hafa verið gagnrýnd harðlega. Samkvæmt samningnum kemur það í hlut þriggja lögfræðinga að leysa úr ágreiningi fjárfestis og ríkis og geta aðilarríki verið dæmd til að greiða einkaaðilum skaðabætur vegna aðgerða sem taldar eru hafa skaðað fjárfestingar þeirra með beinum eða óbeinum hætti. 

Alls hafa 122 gerðarmál gegn ríkjum verið höfðuð á grundvelli ECT-samningsins, þar af 40 gegn Spáni, 10 gegn Ítalíu og 6 gegn Tékklandi.  Enginn alþjóðlegur viðskipta- eða fjárfestingarsamningur hefur orðið grundvöllur eins margra gerðarmála, en margar málsóknanna eru viðbragð við aðgerðum sem stjórvöld hafa ráðist í til að lækka raforkuverð fyrir almenning.

64 prósent af þeim málum sem höfðuð voru á grundvelli samningsins á tímabilinu 2013 til 2017 voru gegn ríkjum í Vestur-Evrópu. Hefur framkvæmdastjórn Evrópusambandsins gagnrýnt fjárfestaverndarákvæði samningsins og kallað eftir því að réttarvernd fyrirtækja samkvæmt honum verði þrengd umtalsvert og ríkjum veitt aukið svigrúm til reglusetningar en um leið að samningurinn verði lagaður betur að orkustefnu Evrópusambandsins.

Fullveldisákvæði túlkað þröngt

Í færslu sinni um ECT-samninginn segir Jón að „fullveldi þjóðarinnar yfir orkuauðlindum [sé] meginregla sáttmálans“. Þarna vísar hann til 18. gr. sáttmálans sem viðurkennir „fullveldi ríkisins“ og „fullveldisrétt yfir orkuauðlindum“ og að samningurinn skuli ekki hafa áhrif á reglur samningsríkja um skipun eignarréttinda svo lengi sem markmiðum um að auka aðgang að orkuauðlindum og nýtingu orkuauðlinda á viðskiptalegum grundvelli er fylgt.

Rétt er að taka fram að þegar samningurinn var samþykktur á sínum tíma lýstu samningsaðilar því sérstaklega yfir að þetta ákvæði mætti ekki túlka á neinn þann hátt er gæti orðið til þess að brotið yrði í bága við önnur ákvæði samningsins. Aðstoðarmaður Sigmundar lét þess líka ógetið að í sömu grein samningsins, 4. mgr. 18. gr., er að finna kvaðir um að samningsaðilar liðki fyrir aðgengi að og nýtingu orkuauðlinda sín á milli. 

_____________________________

Hér á vef orkusáttmálaskrifstofunnar má nálgast ECT-samninginn sjálfan, aðra tengda samninga og helstu gögn auk ítarlegrar umfjöllunar um markmið samningsins. Hér má sjá skýrslu sem tvær evrópskar hugveitur, Corporate Europe Observatory og Transnational Institute, gáfu út um samninginn í fyrra, en um leið framleiddu þær myndband þar sem samningurinn er gagnrýndur harðlega:

Kjósa
0
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.
Tengdar greinar

Þriðji orkupakkinn

Frosti: „Hneyksli“ að ECT-samningurinn hafi ekki verið borinn undir Alþingi
FréttirÞriðji orkupakkinn

Frosti: „Hneyksli“ að ECT-samn­ing­ur­inn hafi ekki ver­ið bor­inn und­ir Al­þingi

Frosti Sig­ur­jóns­son, fyrr­ver­andi þing­mað­ur Fram­sókn­ar­flokks­ins og einn af tals­mönn­um Ork­unn­ar okk­ar, tel­ur það stjórn­ar­skrár­brot að Ís­land hafi und­ir­geng­ist skuld­bind­ing­ar ECT-samn­ings­ins án að­komu Al­þing­is. Gunn­ar Bragi Sveins­son stóð að full­gild­ingu samn­ings­ins í rík­is­stjórn­ar­tíð Sig­mund­ar Dav­íðs Gunn­laugs­son­ar.
Stjórn Sigmundar fullgilti umdeildan samning um vernd orkufjárfestinga
FréttirÞriðji orkupakkinn

Stjórn Sig­mund­ar full­gilti um­deild­an samn­ing um vernd orku­fjár­fest­inga

Með full­gild­ingu ECT-samn­ings­ins hafa ís­lensk stjórn­völd skuld­bund­ið sig til að liðka fyr­ir frjáls­um við­skipt­um með orku­auð­lind­ir og að beita sér fyr­ir sam­keppni, mark­aðsvæð­ingu og sam­vinnu á sviði orku­flutn­inga. Reynt gæti á ákvæði samn­ings­ins ef upp koma deil­ur um lagn­ingu sæ­strengs, en fjár­fest­ar hafa með­al ann­ars not­að samn­ing­inn sem vopn gegn stjórn­valds­að­gerð­um sem er ætl­að að halda niðri raf­orku­verði til al­menn­ings.

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár