Ríkisstjórn Íslands hefur ekki tekið ákvörðun um að lýsa yfir neyðarástandi vegna loftslagsmála og telur aðgerðir það sem mestu máli skiptir.
Í svari frá upplýsingafulltrúa ríkisstjórnarinnar við spurningu blaðamanns um hvort lýsa eigi yfir neyðarástandi kemur fram að að svo stöddu hafi ekki verið tekin ákvörðun um að lýsa yfir neyðarástandi vegna loftlagsmála. Aðaláherslan liggi í aðgerðum, að með þeim náist árangur í baráttunni gegn loftslagsbreytingum.„Ríkisstjórnin leggur aðaláherslu á aðgerðir í loftslagsmálum. Þær eru það sem mestu máli skiptir,“ segir í svarinu.
Í svarinu segir að í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar sé lögð mikil áhersla á loftlagsmál og að ríkisstjórnin hafi nú þegar sett fram viðamikla aðgerðaráætlun. Megináherslurnar séu helst tvær, í fyrsta lagi orkuskipti í samgöngum, með sérstakri áherslu á rafvæðingu í vegasamgöngum, og í öðru lagi átak í kolefnisbindingu þar sem lögð er áhersla á skógrækt, landgræðslu og endurheimt votlendis til að draga úr losun. „Markmiðið er kolefnishlutlaust Ísland í síðasta lagi árið 2040.“
„Ríkisstjórnin leggur aðaláherslu á aðgerðir í loftslagsmálum. Þær eru það sem mestu máli skiptir.“
Á næstunni standi til að kynna aðgerðir á grundvelli aðgerðaráætlunarinnar sem varða meðal annars orkuskipti í samgöngum, kolefnisbindingu og samstarf stjórnvalda við atvinnulífið á þessu sviði.
Umræða mikil meðal almennings
Í svarinu kemur fram að umræða um loftlagsmál sé mikil á Íslandi meðal almennings. Stjórnvöld finni fyrir miklum meðbyr hjá samfélaginu að leggja sitt lóð á vogarskálarnar til að sporna við áhrifum af völdum loftslagsbreytinga.
Upplýsingafulltrúi ríkisstjórnarinnar segir að almenningur í Bretlandi hafi, í ljósi
umræðu um neyðarástand, þrýst á stjórnvöld þar í landi að því marki að nú hafi Bretland lýst yfir neyðarástandi og sett sér markmið um kolefnishlutleysi fyrir árið 2050.
Litið er á ákvörðun Breta sem táknrænan gjörning sem hvetja eigi stjórnvöld um heim allan til að taka stöðuna alvarlega. Stefán Gíslason umhverfisstjórnunarfræðingur sagði nýverið í samtali við Stundina að honum lítist vel á ákvarðanir þeirra yfirvalda sem hafa lýst yfir neyð. „Með yfirlýsingum eru loftlagsmál sett í fyrsta sæti, sem þýðir meðal annars að verkefni sem ganga í aðra átt verða að víkja.“ Einnig segir Stefán að mikilvægt sé að Ísland „dragi vagninn í þessum efnum í stað þess að vera seinfær sporgöngumaður.“ Stefán telur íslensk stjórnvöld ekki hafa gert allt sem í sínu valdi stendur þegar kemur að loftlagsmálum.
Fleiri hafa tekið undir með Stefáni. Landvernd skoraði nýverið á ríkisstjórnina að lýsa yfir neyðarástandi en framkvæmdarstjóri Landverndar, Auður Önnu Magnúsdóttir, telur að aðgerðaráætlun stjórnvalda gangi ekki nógu langt. „Þessi aðgerðaráætlun gengur alls ekki nógu langt og það er mjög erfitt að vinna eftir henni þegar hún er hvorki tímasett né magnbundin,“ segir Auður í viðtalið við Rúv um málið.
Hins vegar segir í svarinu að íslensk stjórnvöld ætli sér að vera á undan Bretum í sínum aðgerðum. „Íslensk stjórnvöld ætla sem fyrr segir að ná sama markmiði tíu árum fyrr.“ Því snúist afstaða ríkisstjórnar frekar um aðgerðir en yfirlýsingar. „Í grunninn snýst málið um aðgerðir. Þær eru það sem mestu máli skiptir.“
„Með yfirlýsingum eru loftlagsmál sett í fyrsta sæti.“
Athugasemdir