Í gærkvöldi sat ég lengi með gömlum vini. Að venju ræddum við allt milli himins og jarðar yfir tebolla.
Eftir umræður um himininn og alheiminn fóru samræðurnar hægt og rólega að stíga aðeins til jarðar. Manneskjan er svo merkileg, sagði hann og fékk sér sopa af kamilluteinu.
Vinur minn hafði nýlega séð heimildarmynd frá BBC um stéttaskiptingu. Merkilegt hvernig manneskjan skiptir sér niður í flokka, sagði hann. Heimildarmyndin hafði tekið sérstaklega á bresku samfélagi þar sem stéttaskiptingin þar er mjög augljós íbúum Bretlands og reyndar flest öllum öðrum í heiminum að því er virðist.
Bretar vita í hvaða stétt þeir eru, sagði hann. Þeim finnst sú vitneskja ekkert endilega óþægileg. Meira að segja virðist það vera svo að hver stétt standi saman og beri með sér ákveðið stolt. Stéttir Bretlands eru margar. Þeir eru með lágstétt sem samanstendur af undirstétt, þeir sem eru krónískt atvinnulausir og hafa jafnvel verið það margar kynslóðir aftur í tímann. Verkalýðsstétt sem skiptist meira að segja upp í faglærða verkalýðsstétt og ófaglærða verkalýðsstétt. Svo er það millistéttin, henni er skipt í þrennt, lægri millistétt, miðju millistétt og efri millistétt. Á toppnum trónir svo yfirstéttin sem gnæfir yfir fyrrnefndum stéttum, svo hátt uppi að það er hættulegt að horfa niður.
Eftir að hafa útlistað hversu meðvitaðir Bretar eru um sína stéttskiptingu sló þögn á vin minn. Eftir stutta stund tók hann til máls á ný og sagði: „Íslendingar eru með svo litla stéttarvitund.“
Er það ekki bara af því við erum öll einhvern veginn í millistétt? svaraði ég svo.
„Nei, alls ekki, það er eins og Íslendingar vilji ekki horfast í augu við hvaða stétt þeir tilheyra.“
Ég hef að einhverju leyti verið mjög stéttablind á íslenskt samfélag. Ég fæddist árið 1991. Það er talið að á milli áranna 1995 og 2007 hafi ójöfnuður á Íslandi aukist upp úr öllu valdi, að hann hafi aldrei verið meiri. Á sama tíma var góðærið að verða til. Það er svolítið eins og góðærið hafi alist upp á sama tíma og ég. Við fylgdumst að, stækkuðum í takt.
„Það er svolítið eins og góðærið hafi alist upp á sama tíma og ég. Við fylgdumst að, stækkuðum í takt.“

Góðærið var alltaf að hvísla því að mér að það væri uppgangur, ég sá það í kringum mig og ég trúði því. Góðærið hafði aldrei bein áhrif á líf mitt en samt trúði ég á það. Ég var 16 ára þegar Elton John söng í afmæli Ólafs í Samskipum. Ég var búin að vera á vinnumarkaði síðan ég var fjórtán ára, ég gat því keypt mér Elton John geisladisk og öfundað Ólaf og gesti hans úr fjarlægð. Ég upplifði þá eins og Ólafur væri rosa ríkur, ég upplifði eins og rosa ríkir væru rosa fáir, alveg eins og ég upplifði að það væru rosalega fáir fátækir á Íslandi. Ég hafði blaðað í Vikunni einhvern tíma þegar ég sat 14 ára á heilsugæslunni að bíða eftir lækni. Þar las ég viðtal við fátæka konu. Hún er einsdæmi, hugsaði ég og vorkenndi henni. Ég átti ekki fyrir þessum læknatíma. Gæti ég fengið gíróseðil? spurði ég konuna í afgreiðslunni.
Ég upplifði eins og að milli Ólafs og konunnar í Vikunni værum ég og allir hinir. Við værum öll einhvers staðar þarna á milli. Ég kallaði þetta ekki millistétt á þeim tíma, hafði ekki orðaforðann, en ætli það hafi ekki verið það sem ég hugsaði.
Núningurinn
Þessi takmarkaða stéttarvitund hefur að einhverju leyti fylgt mér alla ævi fram að þessu samtali. Ég hef tekið hana til endurskoðunar endrum og sinnum. Ég hef sett fleira fólk í sama flokk og konuna í vikunni. Samtímis hefur líka flokkurinn rosa ríkir stækkað. Ég lærði um kerfi og stéttir í háskóla en vitundin jókst úr fjarlægð. Úr sömu fjarlægð og ég vorkenndi konunni í Vikunni sem unglingur.
„Á sama tíma upplifði ég líka eins og hann væri að koma upp um mig“
Stéttarvitund mín er ekkert einsdæmi. Guðmundur Ævar Oddsson, master í félagsfræði, hefur lengi rannsakað stéttarvitund Íslendinga og komist að því að vitund okkar er lítil og það er eins og við viljum halda því þannig. Það er einhver samíslensk upplifun að við séum öll jöfn.
Á einum tímapunkti í samtalinu sagði vinur minn við mig að ef hann þyrfti að giska á úr hvaða stétt ég kæmi þá væri það verkamannastétt eða lægstu stétt.
Mér brá svo. Ég snöggreiddist og mér sárnaði. Ég er ekki eins og konan í vikunni, ég er millistétt hugsaði ég, millistétt eins og þú, sagði ég við vin minn.
En á sama tíma upplifði ég líka eins og hann væri að koma upp um mig. Hann var að koma upp um eitthvað sem ég var búin að gleyma að ég væri að fela. Það er oft þannig þegar maður er að fela eitthvað fyrir sjálfum sér.
Það hefur alltaf verið einhver núningur, einhver árekstur í samskiptum okkar og ég hef alltaf stimplað núninginn mest á að ég sé stelpa og hann sé strákur. Ég áttaði mig á því á þessu augnabliki að þetta væri rétt hjá honum, það er munur á okkur. Hann er í millistétt og ég lægstu stétt.
Skömmin
Það helltust yfir mig gamlar tilfinningar, gömul skömm og tengingar sem ég var búin að gleyma að væru til.
Ég er allt í einu komin til baka í blokkina sem ég ólst upp í. Ég hleyp niður stigann á leið út að leika.
Ég hleyp niður á fótboltavöll. Strákarnir eru að spila fótbolta. Má ég vera með? spyr ég. Jájá, segir einhver. Ég er miklu lélegri en þeir í fótbolta en líka miklu óvægnari. Ég var alltaf að tækla einhvern eða meiða mig af því að ég fór ekki nógu varlega. Ég sprengdi mig í hvert einasta skipti sem ég spilaði. Mig langaði svo að sanna fyrir þeim að ég gæti jafn mikið og þeir. Að við værum jafningar. Við vorum ekki jöfn. Ég þurfti oftast að hætta í íþróttum þegar kom að því að borga ársgjaldið.
„Ég þurfti oftast að hætta í íþróttum þegar kom að því að borga ársgjaldið“
Sama átti við í skólastofunni. Mér var svo í mun að sanna fyrir þeim að ég væri klár. Ég var helst í samkeppni við strákana og þess vegna hef ég haldið alla tíð að þetta snerist meira um það að þeir væru strákar og ég stelpa.

Munurinn fólst til dæmis í heimalærdómi. Foreldrar mínir höfðu minni tíma og kunnáttu til þess að aðstoða mig eða fylgjast með mér. Trúið mér, mamma mín gerði sitt besta en ég fór að hætta að biðja um hjálp því ég vildi ekki að henni liði illa yfir því að geta ekki hjálpað mér.
Ég skammaðist mín oft, skammaðist mín fyrir að vera ekki að læra á hljóðfæri eða vera ekki best í fótbolta, fyrir fötin mín, nestið mitt, blokkina mína, vinnuna í Bónus, menntun foreldra minna. Skömm yfir því að vera ekki í millistétt.
Hrunið
Svo kom að menntaskóla. Ég byrja í Verslunarskóla Íslands haustið 2007, nákvæmlega ári áður en hrunið verður. Blússandi góðæri. Allt á uppleið. Allir í fíling. Nema ég. Það sáu allir í gegnum mig. Ég átti varla fyrir skólagjaldinu, hvað þá því sem þurfti til að halda þessum lífsstíl gangandi. Einkunnir mínar voru ekki nægilega góðar og ég passaði ekki inn. Ég flúði yfir götuna í MH.
Það var þá fyrst sem ég virkilega slapp út úr umhverfinu sem ég hafði alist upp í. Ég gat aðeins andað og í þessu andrými varð svo efnahagshrunið 2008, sem kom sér vel fyrir mig hvað þetta varðaði, allir urðu aðeins jafnari í gegnum krísuna.
Eftir að hafa fengið að ná andanum og sett niður grímuna í MH fann ég fljótt fyrir andþrengslum.
Ég áttaði mig á því að ég þurfti enn og aftur að setja upp grímu. Í MH var andleg stéttskipting á meðan í Versló var hún efnahagsleg. Andleg að því leyti að hún nær utan um stöðu, menntun og menningu, meira en bara tekjur og völd. Andlega stéttskiptingin lifði hrunið af og í MH þótti merkilegt hvað foreldrar þínir gerðu og hvort þú kæmir af miklu menningarheimili.
Andlega stéttskiptingin kom sér betur fyrir mig, ég var miklu betri í að villa á mér heimildir þegar kom að því en peningum.
„Ég fór í stríð við skömm og það opinberlega“
Ég hélt áfram að villa á mér heimildir í gegnum menntaskólann þangað til að ég féll og datt út á vinnumarkaðinn. Ég var mjög veik á þessum tíma andlega en hafði ekki efni á því að sækja mér aðstoð. Við tók tími þar sem gríman mín lak af mér hraðar en ég réði við. Ég var andlega veik og á vinnumarkaði, með ekkert stúdentspróf. Mér hafði fullkomlega mistekist að blekkja mig og aðra um að ég væri í millistétt. Það kom að mínu eigin hruni. Ég hætti að drekka og tók sjálfa mig í gegn. Fór í gríðarlega sjálfsskoðun. Fór að sættast við sjálfa mig og tókst á við áralanga skömm. Ég fór í stríð við skömm og það opinberlega. Ég gaf út bók ung um að vera alkóhólisti. Leyfði öllum að lesa mig. Mér fór að þykja vænt um hliðarnar á mér sem ég hafði einu sinni skammast mín fyrir og fannst þær meira að segja bara pínulítið rómantískar og ljóðrænar.
Þangað til núna, mörgum árum seinna, þegar ég sat með þessum vini mínum við eldhúsborðið að ræða hvort Íslendingar væru með stéttarvitund.
Samtalið
Hvernig sérðu það á mér? spurði ég vin minn. „Á því hvernig þú ert sífellt að reyna að sanna þig fyrir mér til dæmis,“ segir hann. Hann sagðist sjá það á hvernig við nálgumst peninga og sparnað. Ég eyði peningum eins og ég muni aldrei eiga þá aftur en hann spari því hann veit að hann mun alltaf eiga nóg. Hann sagðist líka sjá það á list okkar beggja. Hann sagðist sjá það á því hvernig ég nálgast listina, að ég sé í uppreisn og í samtali við mína verkamannastétt, sé jafnvel að reyna að flýja upp um stétt með því að verða listamaður. Hann hins vegar í uppreisn við sína millistétt með því að vera listamaður en ekki lögfræðingur eins og flestir bjuggust við af honum. Við ræddum það að ég geri oftast listaverk sem takast á við samfélagsleg vandamál en hans krísa væri að díla við alla möguleikana sem hann hefur í lífinu. Tilvistarkreppa. Hin klassíska millistéttar-tilvistarkreppa sem ég hef ekki efni á.
„Hræðslan við að eiga aldrei heimili hefur áhrif á mig langt ofan í kjarna“
Ég sé einn grundvallarmun á okkur, segi ég. Þú munt fá aðstoð við að kaupa íbúð og losna út af þessum leigumarkaði en ég óttast að vera föst á honum að eilífu. Hræðslan við að eiga aldrei heimili hefur áhrif á mig langt ofan í kjarna. Gríman lak af fyrir framan vin minn. Ég útskýrði æsku mína og uppvöxt. Útskýrði fyrir honum skömmina sem ég hefði alltaf upplifað. Ég talaði um álagið sem fylgdi því að þykjast vera millistétt og hræðsluna enn í dag um að fólk myndi sjá það á mér. Ég sagði honum að ég óttaðist það í öllu því sem ég tek mér fyrir hendur að fólk komist að því að ég er ekki nógu menntuð eða ekki nógu klár, ekki eins og hinir. Ég sagði honum líka að ég skammaðist mín fyrir að skammast mín vegna stéttarinnar sem ég kæmi úr. Ég hélt að það væri bara risastór millistétt og svo öfgar í báðar áttir og ég taldi mig tilheyra hvorugum öfgunum.
En það er augljóst að ef ég er með áralanga skömm yfir því hvaða stétt ég tilheyri að ég sé með meiri stéttarvitund en ég vildi halda. Það getur verið svo þægilegt að vera vitundarlaus, það getur verið svo þægilegt að vilja vera fáfróður en ég vil það ekki lengur. Ég vil útbreiddari stéttarvitund og stéttasamstöðu í anda Sólveigar Önnu og Eflingar. Ég vil hætta að skammast mín.
Ég heiti Alma Mjöll og ég er úr verkamannastétt.
Athugasemdir