Í frumkostnaðaráætlun vegna endurgerðar bragga, skemmu og náðhúss í Nauthólsvík var gengið út frá því að bragginn og náðhúsið yrðu rifin og endurbyggð í sömu mynd. Hefði orðið af því má gera ráð fyrir að kostnaður við framkvæmdirnar hefði orðið umtalsvert lægri en þær 415 milljónir sem þær standa nú í, og enn á eftir að bætast við.
Eftir því sem fram kemur í umsögn Óla Jóns Hertervigs, fyrir hönd skrifstofu eigna og atvinnuþróunar Reykjavíkurborgar, til borgarráðs frá 19. september síðastliðnum, voru húsin sem um ræðir friðuð með deiliskipulagsbreytingu árið 1998. Í byggðakönnun Minjasafns frá árinu 2013 kemur hins vegar ekki fram að húsin séu friðuð heldur er lagt til að svæðið sem braggarnir standa á njóti verndar í gulum flokki samkvæmt Húsverndarskrá Reykjavíkur. Þá kemur einnig fram árétting á því í bréfi Minjastofnunar Íslands frá 25. júlí 2016. Áhöld virðast því um hvort byggingarnar hafi verið friðaðar.
Athugasemdir