Athena Farrokhzad, fædd 1983, er sænskt ljóðskáld, leikskáld og þýðandi af írönskum ættum sem hefur vakið eftirtekt fyrir ágeng ljóð, skarpa bókmenntagagnrýni og róttæka samfélagsrýni. Hún vakti mikla athygli fyrir fyrstu ljóðabók sína, Hvítsvítu, sem vakti eldfima umræðu líkt og flest sem hún snertir á. Hvítsvíta kom út árið 2013 og hefur síðan birst á ótal tungumálum, þar með talið íslensku í þýðingu Eiríks Arnar Norðdahl, sem þýðir líka þann texta sem hér birtist. Bréf Athenu til Evrópu byggist á frægu ljóði eftir Allen Ginsberg, Ameríka, sem hefur einnig birst í þýðingu Eiríks (Maíkonungurinn – valin ljóð eftir Allen Ginsberg, Mál og menning 2008).
Evrópa, ég hef gefið þér allt og nú er ég ekkert.
Evrópa, tvöhundruðogsextíu evrur og sjötíuogsjö sent, janúar 2018.
Ég þoli ekki sjálfa mig.
Evrópa, hvenær bindum við enda á stríð mannkyns?
Ríddu þér á Jesúskomplexum þínum.
Mér líður ekki vel, láttu mig í friði.
Ég yrki ekki þetta ljóð fyrren ég er með réttu ráði.
Evrópa, hvenær sestu í helgan stein?
Hvenær ferðu úr fötunum?
Hvenær horfirðu á sjálfa þig í gegnum gröfina?
Hvenær muntu eiga þína milljón farandverkamenn skilið?
Evrópa, hvers vegna eru bókasöfn þín full af tárum?
„Evrópa, hvers vegna eru bókasöfn þín full af tárum?“
Sumarið er búið að vera langt og þurrkurinn dreifir úr sér.
Í verslunum eru allar viftur uppseldar.
Bráðum áttu hvorki lífvænlegt veðurfar né nokkra velferð eftir.
Ég læt mig dreyma um múrana sem mæta þér þegar hamfarirnar dynja á.
Evrópa, hafðu eftir mér:
Knattspyrnumenn geta verið franskir sem eru afrískir sem eru franskir.
Þetta er ekki flókið.
Það virðast allir skilja afleiðingar nýlendustefnunnar, nema þú sem ert orsökin.
Evrópa, þú ert avókadó sem skemmist áður en það þroskast.
Þú ert sprengjubyrgi þar sem ekki er pláss fyrir neinn nema leigusalann.
Þú ert sjálfsmynd úr tefloni, það festist ekkert.
Þú ert skammarblettur í yfirstærð á kortinu.
Evrópa, sextíu og þremur árum fyrir Lampedusa skrifaði Césaire að þú værir óverjandi.
Hversu margir létu lífið í Miðjarhafinu þessa vikuna?
Hver einasti flóttamaður sem ryðst yfir landamæri þín er stríðsyfirlýsing.
Hin fordæmdu jarðarinnar vilja fá velmegunina sem þau bjuggu til.
Evrópa, hvenær gerirðu Brexit úr sjálfri þér?
Þú ert búrkubann í Frakklandi, mínarettubann í Sviss, skartgripalög í Danmörku.
Þú ert innanríkisráðherra Ítalíu sem vitnar í Mussolini.
Þú ert hælisleitendi í hundaól í Ungverjalandi.
Verst er samt alltaf Danmörk.
Danmörk er opnar dyr sem hefur of sjaldan verið spörkuð niður.
Dag einn mun ég læsa Danmörku inni með öllum hinum soltnu ísbjörnum Grænlands.
Dag einn mun ég stela bílum Danmerkur úr bílskúrunum.
Dag enn mun ég skipuleggja fátækrahverfi úr Lars Løkke Rasmussen.
Dag einn mun ég krefjast hefndar fyrir öll brenndu flóttamannahælin.
Dag einn munt þú betla fyrirgefningu af öllu Romafólkinu.
Dag einn munu verðirnir við sýnagógurnar verða óþarfir.
Dag einn mun Dublin bara vera nafn á einni af höfuðborgum þínum.
„Þú ert búrkubann í Frakklandi, mínarettubann í Sviss, skartgripalög í Danmörku“
Evrópa, dag einn mun ég borða sætabrauð með Shoru og Miriam og Hönnu.
Enginn mun hleypa brúnum þegar við komum inn á fínasta konditoríið.
Enginn mun ávarpa okkur á ensku.
Við munum hræra í bollum okkar með dásamlega smáum skeiðum.
Við munum leyfa dætrum okkar að panta allt sem þær sjá.
Enginn mun snúa sér undan þegar við spyrjum eftir barnastólum.
Enginn mun dæsa þegar börnin sulla niður.
Evrópa, daglega hrækir hvítt fólk á eftir okkur í neðanjarðarlestinni.
Það trúir því í alvöru að sætin séu erfðaréttur þeirra.
Evrópa, þú virðist ekki hafa fyllilega náð þér af svarta dauðanum.
Evrópa, það eru múslimarnir.
Það eru múslimarnir og gyðingarnir og Romafólkið og afríkubúarnir.
Og þeir sem líta út fyrir að vera múslimar og afríkubúar, en eru það ekki.
Og þeir sem voru gyðingar og gerðu allt til að fela það.
„Hversu mörgum fórnaðir þú í Guantanamóflóa?“
Evrópa, hvenær mun ég yrkja ljóð mín með sjálfstrausti meðalmennskuhvítingjans?
Hversu mörgum fórnaðir þú í Guantanamóflóa?
Hvenær fær Palestína að vera með í Eurovision?
Hvenær hætta landamæri þín að áreita Úralfjöllin?
Hvenær get ég farið í búðina og keypt það sem mig langar í fyrir fegurð mína?
Evrópa, hvernig stendur á því að svo margar þjóða þinna eru konungsveldi?
Heldur þú að þetta sé eitthvað ævintýri fyrir börn?
Hversu lengi ætlarðu að láta einsog Robespierre hafi ekki veirð til.
Erasmus er það versta sem kom fyrir mig í háskóla.
Ég hertók Université Denis Diderot og svaf hjá öllum norðan við ána.
Máladeildin heyrði aldrei frá mér aftur.
Mina og Bahar eru flutt, ég held þær komi ekki aftur.
Evrópa, ég meig á mig þegar gríski vörubílstjórinn keyrði út af.
En hann vildi bara sýna mér fornaldarmusteri.
Þú elskar Aristóteles, en þú hatar Grikki.
Þú elska að reikna, en þú hatar Araba.
Þú elskar ljóðin hans Sigbjørns, en þú hatar Sama.
Þú elskar að gera fínt á svölunum, en þú hatar nágranna þína.
Þú elskar handjárn, en þú hatar kynlíf.
Evrópa, hvað kemur í kjölfar þín?
Engin furða að Ötzi fékk magasár.
Evrópa, það er langt síðan mig langaði til Gertrude á rue des Fleurus.
Framúrstefnuhreyfingin er bara PR fyrir heimsvaldastefnuna.
Picasso málaði Guernicu og sagði: Naut er naut og hestur er hestur.
Ég þoli ekki vélar þínar.
Þú fékkst mig til að langa í pakkaferð til sólarlanda.
Það hlýtur að vera einhver önnur leið til gera út um ágreining okkar.
Evrópa, fyrir tuttugu árum síðan hötuðum við orðið fjölmenning því það gerði okkur ólík.
Nú sárbænum við þig um að bjóða velkomið það sem er framandi.
Evrópa, hafðu eftir mér:
Willkommen, bienvenue, welcome.
Fremde, étranger, stranger.
Glücklich zu sehen, je suis enchante.
Happy to see you, bleibe, reste, stay.
Það hvarflar að mér að ég verði aldrei Evrópa.
Ég er aftur farin að tala við sjálfa mig.
„Evrópa, það fellur járntjald þegar ég skrifa þessi orð“
Evrópa, ég var kommúnisti þegar ég var barn, ég sé ekki eftir því.
Ég seldi blöð á skólagöngunum.
Líffræðikennarinn minn keypti alltaf, samt var hann hægrimaður.
Hann sagði að austurblokkin væri mikilvæg fyrir stöðugleikann.
Evrópa, það fellur járntjald þegar ég skrifa þessi orð.
Ég þrái fimmta alþjóðasambandið.
Hvaða ár á ég að segja að sósíaldemókratían hafi svikið loforð sín?
Þar sem ég geng meðfram Landwehrkanal hvíslar Rosa Luxemburg að sér sé kalt.
Evrópa, hvað sem öðru líður voru Rilke og Shelley virkilega mögnuð skáld.
Útsýnið frá Sacre-Cœur er stórbrotið og gróðurgrænkan í Transilvaníu hefur óraunverulegan ljóma.
Hvað sem öðru líður fyllist ég angurværð þegar Dóná glitrar.
Hvað sem öðru líður óttast ég að Norðursjór beri sigurorð af Rotterdam.
Hvað sem öðru líður hef ég gúglað fun facts about Albania.
Hvað sem öðru líður finnst mér skothríðin í Sarajevó standa mér nær en mín eigin saga.
Hvað sem öðru líður er staður í Slóveníu sem heitir Jerúsalem.
Þar settust að krossfararnir sem nenntu ekki lengra.
Evrópa, það er ekki hægt að skilja í sundur la mission civilisatrice og kristnina, kristnina og lénsskipulagið, lénsskipulagið og iðnvæðinguna, iðnvæðinguna og kapítalismann, kapítalismann og villimennskuna.
Ég skil hvers vegna rómantíkin kom í kjölfar upplýsingarinnar.
Ég skil hvers vegna Marie Antoinette þreyttist á brauði.
Ég skil hvers vegna Michaelangelo tók djobbinu í Sixtínsku.
Ég er alltaf að rugla saman Versölum og Vichy, Weimar og Waterloo.
Ég skil hvers vegna það rigndi í hjarta Verlaines.
„Ég skil hvers vegna Marie Antoinette þreyttist á brauði“
Evrópa, dag einn verður Lagosráðstefnan haldin og Afríka teiknar landamæri þín upp á nýtt.
Nígería fær Eystrasaltslöndin, nema Litháen sem fer til Angólu.
Alsír vill fá Pólland, nema ekki Varsjá.
Kamerún tekur allt frá Normandí til Gíbraltar.
Vestur-Kongó og Lýðræðislega Lýðveldið Kongó skipta restinni á milli sín.
Opinber tungumál Evrópu verða lingala, kikongo og swahili.
Engan langar í norðurlöndin, enda hafa skógarnir allir verið brenndir til grunna.
Íbúarnir eru teknir til fanga og seldir á höfninni í Gautaborg.
Þótt ferðin yfir hafið sé stutt láta margir lífið á leiðinni.
Þeir sem lifa af enda hér og hvar um heimsálfuna, en mest í Suður-Súdan og Erítreu.
Fljótlega er helmingurinn dáinn úr þarlendum sjúkdómum.
En börnin geta unnið og tuttuguogfimm kynslóðir norðurlandabúa alast upp við þrældóm.
Enginn vill England en Botswana lætur sig hafa það.
Eftir atkvæðagreiðslu lenda Skotland og Wales hjá Sómalíu.
Eina frjálsa þjóðin í Evrópu er sameinað Írland.
Ég hafði ekki hugmynd um að Cranberrieslagið fjallaði um IRA.
Evrópa, það er ekki ég, það er ekki fjölskylda mín.
Það hefði verið betra ef Spinning Jenny hefði aldrei verið fundin upp.
Það hefði margborgað sig ef Marx og Engels hefðu komið út.
Evrópa, sumir þeirra sem vilja loka landamærunum eru börn maíbyltingarinnar '68 sem hafa gleymt því að verkalýðurinn á sér enga fósturjörð.
Ertu bara grimm eða er þetta einhvers konar lélegur brandari?
Ég vona að þau sem voru brennd á tímum nornaveiðanna hafi verið í samkrulli við andskotann.
Ég vona að Galíleó Galílei hlæi af fyrirlitningu á himnum sínum.
Ég vona að selspik geri í raun og veru gagn gegn kíghósta.
Ég vona að Jessie fái að flytja inn eins mikið af því og hún þarfnast.
Ég vona að Jelinek kaupi sér eyju fyrir peningana.
Ég vona að Tékkar eyði ekki öllum fjármunum ríkisins í að lýsa upp minnismerkin í Prag.
Ég vona að allir heimsins kristilegu demókrataflokkar nái ekki lágmarki til þings.
Ég vona að það búi enn skæruliðar í fjöllunum.
Ég vona að þeir njósni um fasista einsog þú njósnar um kanínur.
Ég vona að Amy Winehouse rísi upp frá dauðum og syngi í jarðarförinni minni.
Ég vona að Freud nefni ástand þitt eftir Marine og föður hennar: Le Pen komplexinn.
„Ertu bara grimm eða er þetta einhvers konar lélegur brandari?“
Evrópa, flestir formenn sænsku stjórnmálaflokkanna sjá sjálfa sig í Línu Langsokki.
En þeir líta út einsog mennirnir sem drápu Bambamömmu.
Hvern einasta dag spyrjum við okkur hvort við ættum að redda okkur tvöföldum ríkisborgararétti, svo við eigum opna flóttaleið.
Nema það verði bara til þess að okkur verði vísað úr landi.
Ég heyri fleiri og fleiri tala um Portúgal.
Ég þekki blöff þegar ég sé það.
Ég var átta ára þegar stríðið braust út í Júgóslavíu.
Ég var níu ára þegar ég fékk bosnísk bekkjarsystkin.
Ég skildi ekki hvernig þau gátu verið flóttamenn einsog við, þótt þau væru Evrópubúar.
Í Belgrað liggur grafhýsi Títós hægra megin við íranska sendiráðið.
Enna segir enn að hún tali serbókróatísku.
Minnsti sameiginlegi nefnarinn okkar er baklava.
Evrópa, verðlaunin fyrir snautlegustu matarmenninguna falla enn á ný þér í skaut.
Evrópa, ég hef mótmælt fyrir réttinum til fóstureyðinga í Barselóna.
Mig hefur dreymt líkama minn kraminn undir skriðdrekum.
Ég hef séð tómu stólana á torginu í Kraká.
En frekar en að heimsækja útrýmingarbúðir vil ég lesa Victor Klemperer.
Evrópa, orð geta verið einsog örlitlir arsenikskammtar.
Evrópa, þegar fasistar drepa börn hífir þú upp þjóðfána.
Evrópa, ég gæti staðið í sögulegum samanburði um alla eilífð.
En stóri munurinn á nútíð og þátíð er fjórar milljónir sovéskra hermanna.
Munurinn á finnska vetrarstríðinu og nútímanum er áttatíu gráður.
Evrópa, nú er í alvöru öld gleymskunnar.
Ég verð á endanum annaðhvort einsog Ulrike Meinhof eða Ítalía á HM í fótbolta.
Sálgreinirinn minn kvittar upp á allt saman.
„Evrópa, ég hef mótmælt fyrir réttinum til fóstureyðinga í Barselóna“
Ég er reið kommúnismanum því hann eyðilagði drauminn um kommúnismann.
Ég er reið Sænsku akademíunni fyrir að eyðileggja orðstír lénsskipulagsins.
Ég er reið Íslandi því að tungumálið er ekki óhreinn þvottur.
Ég er reið Orfeusi því hann hafði ekki næga þolinmæði.
Ég er reið Lúther fyrir að taka sér aldrei frí.
Ég er reið Gabríel fyrir að flytja ekki til Bagarmossen.
Ég er reið Pútín fyrir þetta með júdóið.
Ég er reið Merkel fyrir að vera ekki engill.
Evrópa, þau sem hefðu aldrei kosið Breska verkamannaflokkinn fylkjast nú um Corbyn.
Ég batt miklar vonir við Syriza og bind enn vonir við Podemos.
Þótt þau deili slagorði með Obama.
Evrópa, ég fór með dóttur mína í Zoologischer Garten.
Hún var hrædd við gíraffana en hún vildi knúsa ljónið.
Síðan fórum við á Pergamonsafnið.
Ég vildi sýna henni hliðið sem ber nafn hennar.
Hún sofnaði í vagninum og það eina sem ég gat hugsað um voru gripdeildirnar í Babylóníu.
Evrópa, ég tek ekki þátt í samtali um hryðjuverk sem byrjar ekki á stríðinu um olíuna.
Ég mun koma gereyðingarvopnum fyrir á Downingstræti 10.
Evrópa, hversu mörg vorum við á götunum 2003?
Hversu marga drapstu samt?
„Ég mun koma gereyðingarvopnum fyrir á Downingstræti 10“
Evrópa, það skiptir engu máli hversu oft við köllum London miðvesturlönd og Bandaríkin vesturlönd fjær þú hagar þér alltaf einsog nú séu dýrðardagar Leópolds konungs.
Evrópa, hvenær hefur hvíti maðurinn uppfyllt byrðar sínar?
Ég hef enn ekkert sagt um það sem þú gerðir foreldrum okkar á tíunda áratugnum.
Ég hef ekki útskýrt hvers vegna ég er með laserpenna í töskunni.
Manstu hvítu hendurnar á boðungunum?
Manstu eftir þeim sem skáluðu á krám Madridar þegar Pinochet fékk hjartaáfall?
Manstu eftir þeim sem reyttu hár sitt þegar Milosevic dó í fangelsisklefa?
Manstu eftir þeim sem dönsuðu eftir götum London þegar Thatcher fékk heilablóðfall?
Manstu eftir bensínbláu slæðunni hennar ömmu?
Manstu þegar ég var með fléttur í hárinu?
„Hver sem er veit að verkalýðurinn hefur engu að tapa nema hlekkjunum“
Hver sem er hefði getað sagt sér að Kola- og stálbandalagið var ekki stofnað fyrir öreigana.
Hver sem er veit að verkalýðurinn hefur engu að tapa nema hlekkjunum.
Hver sem er hefði getað látið íbúa Lesbos vita að lessurnar væru þegar búnar að sigra.
Evrópa, ég held ég kynni vel við Kristínu drottningu.
En ég veit ekki hvort Kristín drottning kynni vel við mig.
Af öllum sem hafa verið til er Spartakus minn uppáhalds.
Ekkert af því sem við lærðum í skóla samræmist veruleikanum.
Ég vil að Öcalan verði forseti framkvæmdaráðs Evrópusambandsins.
Ég vil að sagan um þig endi á skít og drullu.
Ég vil að sagan um okkur endi einsog bíómyndin Pride.
Ég vil að verkalýðshreyfingin gangi hönd í hönd með hinseginaktivistunum, að hinseginaktivistarnir gangi hönd í hönd með hinum vegabréfslausu, að hin vegabréfslausu gangi hönd í hönd með börnunum sínum, að börnin gangi hönd í hönd með kanínunum sínum, að kanínurnar séu með vatnsflöskur fyrir börnin í bakpokunum sínum.
Ég vil að bændur Kambódíu brenni pappírspeningana okkar.
Ég vil gleyma að það er valfrelsi mínu að kenna að heimurinn er klofinn í tvennt.
Ég vil að millilandaættleiðingar verði bannaðar.
Ég vil að börnin mín tilheyri einhverjum öðrum.
Evrópa, það loga eldar í Clichy, loga eldar í Brixton, loga eldar í Husby.
Það logar í augum mér þegar ég les dagblaðið.
Ætlar þú að láta fjölmiðlafyrirtæki hægrimanna stjórna tilfinningalífi þínu?
Það var meiri frjáls fjölmiðlun á víkingaöld en í lýðræðisríkjum þínum.
Evrópa, þú hefur verið heilaþvegin af leiðarasíðum frjálslyndra.
Þú myndir ekki þekkja hnignun þína þótt hún kaffærði á þér andlitið.
Evrópa, ég las Allen Ginsberg, ég viðurkenni allt.
Evrópa, þér tókst það sem engum öðrum tókst.
Þú drapst bræður mína.
„Þú drapst bræður mína“
Evrópa, hvar týndirðu kærleikanum?
Hvað gerðirðu við litla drauginn þinn?
Hvar faldirðu blágresið þitt?
Hvenær siturðu föst í öryggishliðinu?
Hvenær verðurðu dregin fyrir rétt í Haag?
Hvenær muntu hlusta á flóttamenn í staðinn fyrir blaðamenn sem dulbúa sig sem flóttamenn?
Evrópa, er þetta rétt?
Dóttir mín er barnabarnabarn úkraínskra gyðinga sem flúðu pogrom, barnabarn íranskra og argentískra kommúnista sem flúðu einræði, barn þreyttra Svía sem vonast til að fá að vera um kyrrt.
Evrópa, það eru helvítis Danirnir.
Danmörkin er valdasjúk, hún ætlar að éta okkur lifandi.
Dag einn ætla ég að stofna BDS hreyfingu til höfuðs Danmörku.
Dag einn mun ég reka stiku beint í gegnum hjarta Danmerkur.
Dag einn munu skjóar Færeyja hakka í sig Danmörku.
Dag einn verða bara leyfðar halalpylsur í Danmörku.
Dag einn mun ég búta Danmörku í sundur einsog Legoland.
„Evrópa, hvar týndirðu kærleikanum?“
Evrópa, ég neita að láta af þráhyggju minni.
Ég neita að koma mér að málinu.
Ég neita að kaupa Berlínarmúrinn.
Ég hef ekkert sagt um þær milljónir fátæklinga sem búa í blómapottum þínum.
Ég hef ekkert sagt um fangelsin þín.
Ég hef ekkert sagt um þegar Ylva söng mig í svefn eina nótt á dögunum.
Ég hef ekkert sagt um hvernig fjölskylduböndin verða leyst upp.
Ég geymi Tjernóbyl og Téténíu þar til síðar.
Ég vona að tilfinningar mínar í garð Danmerkur skíni í gegn.
Evrópa, láttu mig í friði, ég veit hvað ég er að gera.
Ég er þreytt á sjúkum kröfum þínum. Leyfðu konu að lifa.
Hvernig á ég að skrifa harmkvæði mitt í þínum sorglausa hætti?
Plómublómin falla líka hér.
Þú hefðir átt að sjá mig koma til Pasolini.
Þú hefðir átt að sjá mig sigra vindmyllurnar.
Evrópa, mín hýra hönd er farin úr lið.
Síðasta niðurtalningin er hafin.
Athugasemdir