Útgjöld til heilbrigðismála munu vaxa um 25,7 prósent að raunvirði á kjörtímabili ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur ef fjármálaáætlun Bjarna Benediktssonar gengur eftir. Hlutfall heilbrigðisútgjalda af vergri landsframleiðslu verður þannig um 8,3 prósent á síðasta fjárlagaári ríkisstjórnarinnar árið 2021, hærra en nokkur dæmi eru um á þessari öld, en nokkru lægra en 86 þúsund landsmanna kölluðu eftir þegar Kári Stefánsson setti af stað undirskriftasöfnun um endurreisn heilbrigðiskerfisins árið 2016 og krafðist 11 prósenta af vergri landsframleiðslu til málaflokksins.
Útgjöld til spítalareksturs dragast saman
Framlög ríkisins til sjúkrahúsþjónustu námu 85,6 milljörðum árið 2017 en verða 110,3 milljarðar árið 2021 eða tæplega 25 milljörðum hærri.
Af þessum 25 milljörðum rennur megnið til fjárfestinga, meðal annars byggingarframkvæmda við Hringbraut sem verða umfangsmestar árið 2021.
Áætluð framlög til fjárfestinga vegna sjúkrahúsþjónustu aukast um 16 milljarða en á sama tíma hækka rekstrar- og tilfærslugjöld um aðeins 8,6 milljarða.
Sú hækkun skiptist milli Landspítalans, Sjúkrahússins á Akureyri, heilbrigðisstofnana í heilbrigðisumdæmum og erlendrar sjúkahúsþjónustu, en hluti aukningarinnar fer í sérstakt átak um styttingu biðlista eftir tilteknum aðgerðum.
Þegar tekið er mið af mannfjöldaþróun og breyttrar aldurssamsetningar þjóðarinnar verður að teljast ólíklegt að þessi aukning dugi til að halda í við eftirspurn eftir heilbrigðisþjónustu á spítölum og öðrum heilbrigðisstofnunum.
Allt í allt munu útgjöld til reksturs sjúkrahúsþjónustu, deilt niður á fjölda Íslendinga miðað við áætlaða mannfjöldaþróun, dragast saman frá 2018 til 2021.
Ofan á þetta bætist að ferðamannastraumurinn mun halda áfram að valda álagi á heilbrigðisstofnanir. Því má búast við háværri gagnrýni frá forstöðumönnum spítalanna við framlagningu næstu fjárlagafrumvarpa.
Dregið úr kostnaði sjúklinga um tæpa 2 milljarða á ári
Allt í allt hækka framlög til sjúkrahúsamála um 28,7 prósent frá 2017 til 2021, en aukningin til heilbrigðisþjónustu utan sjúkrahúsa, meðal annars hjá sérfræðilæknum og á heilsugæslustöðvum, verður 23,6 prósent á sama tímabili. Út frá þessu virðist sem stefnt sé að því að byggja upp opinbera kerfið í ríkara mæli en hið einkarekna.
Ef einungis er litið til rekstrarútgjalda er hins vegar ljóst að framlög vegna heilbrigðisþjónustu utan sjúkrahúsa aukast um tvöfalt meira en til rekstrar og þjónustu á spítölum.
Útgjöld vegna reksturs spítalanna aukast um 10,4 prósent á kjörtímabilinu meðan rekstrargjöld vegna heilbrigðisþjónustu utan sjúkrahúsa aukast tvöfalt meira, um 23,6 prósent. Hluti af þeirri aukningu rennur til lækkunar á greiðsluþátttöku sjúklinga, en ráðgert er að veita samtals 8,5 milljarða til þess á tímabilinu sem fjármálaáætlunin tekur til, þ.e. frá 2019 til 2023, eða að meðaltali 1,7 milljarða á ári.
Fram kemur í greinargerð áætlunarinnar að stefnt sé að því að hlutdeild sjúklinga hérlendis verði sambærileg því sem gerist á Norðurlöndunum. Þannig verði hlutfall heimila af heildarheilbrigðiskostnaði samkvæmt samræmdu viðmiði OECD komið
Athugasemdir