Um leið og pistillinn minn um landsfund Sjálfstæðisflokksins fór í loftið á föstudaginn sá ég eftir því sem ég hafði skrifað í hann. Ekki skotunum á flokkinn, þau eiga algörlega rétt á sér. Nei, ég sá eftir því að hafa lofað ykkur því að fara aftur á sunnudeginum.
Setjið ykkur í mín spor. Alræmdur pistlahöfundur fer á landsfund flokks sem hann hefur skrifað tugi pistla um. Enginn jákvæður. Allir vita hversvegna hann er þarna. Til þess að moka skít yfir samkomuna. Flugumaður. Þrjótur. Fantur. Mættur til þess að tala illa um allt og alla. Og hvað gerir hann? Skrifar ógeðslegan pistil um það hversu veik þessi samkoma sé.
Ég hafði hugsað út í, en ekki af nægilegri alvöru, að tveim dögum seinna þyrfti ég svo að gyrða mig í brók og horfa aftur í augun á öllu þessu fólki. Ganga innan um þau með stílabókina mína á lofti. Skrifandi fleiri eitruð orð.
Svo mikill kvíði kom upp í mér gagnvart endurkomu minni á landsfundinn að mig langaði til þess að skrópa. En ég var búinn að lofa því að mæta. Djöfulsins Bragi á föstudaginn og óþörf yfirlýsingagleði hans.
Áður en ég lagði af stað bar ég það undir kærustuna mína hvort ég ætti ekki að reyna að vera með sólgleraugu, gamla skítuga derhúfu og í hettupeysu? Hún hló bara að mér og sagði að ég gæti ekki mögulega vakið meiri athygli en með því að klæða mig eins og Unabomber. Ég velti því fyrir mér að fara með gervi-gleraugu plús nef og yfirvaraskegg en ákvað að fækka fylgihlutum frekar niður í sólgleraugu. Einfalt og gott.
Taugatitringurinn óx stöðugt eftir því sem ég gekk yfir Suðurlandsbrautina í áttina að höllinni. Einn maður var búinn að hóta mér ærumeiðingarkæru ef ég breytti ekki pistlinum frá því á föstudaginn. Kommentakerfin loguðu. Þau segja mig andlega veikan. Ég ætti að taka lyfin mín. Mér liði greinilega mjög illa í sálinni. Allt þetta fólk var líka að fara að vera á þessum fundi.
Hvað var ég að hugsa? Hver gerir svona? Kannski höfðu þessir varðhundar auðvaldsins rétt fyrir sér og ég ætti bara að bryðja lyf, láta kæra mig og setja plástur á sárin á sálinni minni. En hvað ef ekki?
Það er auðvitað sárt að heyra einhvern tala illa um félagsskap sem manni þykir vænt um. En fyrir alla Sjálfstæðismennina þarna úti vil ég að þið vitið: Við sjáum ykkur. Það er svona sem mörg okkar upplifa ykkur. Sem spillta, gráðuga, freka og siðblinda barnaníðingavini. Þið getið farið í sparifötin og kíkt á landsfund og verið fín. Sýnt ykkur og séð aðra og vonast til þess að Bjarni Ben taki kannski í höndina á ykkur fyrir sjálfu - en svona er útlitið utanfrá séð. Dýrðarljóminn er farinn af flokknum ykkar. Ég er ekki að skrifa þessa upplifunarpistla fyrir viðhlæjendur mína, þó þeir séu vissulega frábærir. Ég skrifa til þess að þið Sjálfstæðismenn fáið tækifæri til að upplifa ykkur með augum áhorfendanna. Þessum 70% þjóðarinnar sem kýs ykkur ekki.
Og ég er ekki heldur neitt að leika mér að þessu. Mér hefur verið sagt að með skrifum mínum sé ég að eyðilegga fyrir sjálfum mér því Sjálfstæðisflokkurinn sé svo valdamikill. Ég sé að eitra mitt eigið vatnsból. Hugsið ykkur. Ekki styggja valdhafa því það gæti komið í bakið á ykkur.
En aftur að landsfundinum. Ég er kannski stór kall fyrir framan skjáinn og lyklaborðið, en þegar í ljónagryfjuna er komið er ég bara lítill strákur, hræddur við allar vígtennurnar. Með sólgleraugu í rigningunni hélt ég á símanum mínum og þóttist vera mjög upptekinn þar sem ég þrammaði inn dyrnar á Laugardalshöllinni. Fann fyrirlitninguna í öllum augunum sem eltu mig. Ég sendi sjálfum mér skilaboð sem mér datt í hug þar sem ég labbaði þarna í öllum óttanum mínum. Titrandi puttarnir og rigningin hjálpuðust að við að setja þetta brjálæði saman:
Eins og sést er ég ekki með neinar sérstakar stál tauugggggar. Bara hræddur lítill strákur með leiðindi.
Á föstudaginn spottaði ég tvær svalir sem gnæfðu yfir salnum hægra megin. Á efstu svölunum hafði mér sýnst enginn vera, og fór ég rakleiðis þangað. Þar var enginn, enda átti greinilega enginn að vera þarna. Gleymt svæði. Pappakassar með rusli, ónýtir stólar, lampar, munaðarlausir tölvuskjáir. Þessi staður var einhverskonar gleymd geymsla, efst uppi við þak þessa risavaxna salar. Þarna hafði ég þó yfirsýn yfir samkomuna alla, og þurfti ekki að eiga í samskiptum við nokkurn mann. Eins og leyniskytta, tilbúinn að dæla leiðindum yfir fundargesti. Fullkomið.
Á ónýtum stól í myrkrinu horfði ég yfir villuráfandi samborgara mína og velti því fyrir mér, einusinni sem oftar, hvaða fólk þetta væri? Hverjir eru það sem enn hafa enn ekki kvarnast úr flokknum, þrátt fyrir alla þá spillingu og viðbjóð sem viðgengst í honum? Það eru að sjálfsögðu hinir sanntrúuðu. Þeir sem aldrei munu skipta um skoðun. Hugsið ykkur allt sem gengið hefur á með þennan flokk! Nýleg könnun sýndi að Ísland er spilltast af öllum Norðurlöndunum. Þeim sömu Norðurlöndum og Bjarni vildi ólmur á föstudaginn að við bærum okkur saman við. Þeir sem hér voru samankomnir eru því heittrúuðust meðlimir spilltasta stjórnmálaflokks spilltasta Norðurlandsins.
Það er ákveðið afrek. Þeir sem eftir alla spillinguna þora enn að mæta á þessa samkomu eru fólkið sem færu með Bjarna Ben niður í bönkerinn og fengju sér blásýruböku og nýtt höfuðskraut frá Lüger, frekar en að viðurkenna vankanta Foringjans eða Flokksins. Þeir tryggustu af þeim tryggu. Þó ég sé ósammála þeim í pólitík verð ég að dást að þessari staðfestu. Spilling, þjóf-ræði, barnaníðingar, lygar. Skiptir ekki máli. „Þetta er minn flokkur“. Þvílíkt Brian Jonestown brjálæði. Allir sturtandi í sig bláa KoolAidinu. Glúgg glúgg.
Svo er Sjálfstæðisflokkurinn fjölskyldusjúkdómur. Fólk er oftar en ekki í flokknum fyrir tilstuðlan foreldra sinna, vina eða bæði. Og rétt eins og fólk á erfitt með að yfirgefa sértrúasöfnuði, eins og Vísindakirkjuna og Votta Jéhóva, þá hlýtur það að krefjast gríðarlegs átaks að ganga úr Sjálfstæðisflokknum. Að snúa bakinu við því sem þú hefur tilbeðið. Segja: „Samtökin sem ég hef barist fyrir í mörg ár eru rotin. Allt sem foreldrar mínir og vinir eru að berjast fyrir er rangt. Ég hef verið fótgönguliði mafíunnar. Varðhundur auðvaldsins. Og ég vil hætta því.“ Það þarf ekkert hugrekki til að skrifa níðpistla. Það þarf hugrekki til að ganga úr Sjálfstæðisflokknum.
Jæja. Eyþór Arnalds steig í pontu. Þessu hafði ég beðið eftir. Fyrstu orðin fóru þó algjörlega framhjá mér af því Eyþór er með svo ótrúlega ómþýða og fallega rödd að hljómurinn var það eina sem ég tók inn. Vá! Afhverju er þessi maður ekki í músík? Þvílík sóun á hæfileikum.
Hann sagði að á þeim tíma þegar Sjálfstæðismenn voru borgarstjórar hafi Reykjavík verið í fararbroddi. En með tilkomu vinstri manna í borginni hafi allt farið í vaskinn. Ojæja, svolítið valkvæð söguskoðun, en það sem kom í kjölfarið var ágætt. Hann sagði að íbúar virtust hafa gleymst í uppbyggingu borgarinnar. Auðvelda þyrfti fólki að komast á milli staða og bæta ferðarþjónustu fatlaðra. Hægja á fjölgun heimilislausra og lækka skuldirnar. Allt hlaut þetta mikið og réttlætanlegt lófaklapp. Auðvita má gera betur.
Hann gagnrýndi hversu dugleg borgin væri að senda frá sér fréttatilkynningar um það sem hún gerir rétt eða rangt. Þær krúttlegu fréttatilkynningar komast samt ekki með tærnar þar sem ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar er með ritskoðandi hælana. Ég man ekki eftir því að Eyþór hafi gagnrýnt það mikið þegar ríkisstjórnin réð áróðursfyrirtækið Burson-Marsteller til þess að atast í erlendum fjölmiðlum, bæði vegna Panamaskjalanna og vegna þöggunarmálsins tengum uppreistri æru barnaníðinga, sem hvoru tveggja sprengdu ríkisstjórnir sem Bjarni Benediktsson sat í, og bæði tengdust honum persónulega.
Eyþór vildi líka færa valdið og fjármagnið til þeirra sem þjónusta borgarbúa. Ahhh, akkúrat það sem almenningur vill, aukna einkavæðingu á almannaþjónustu. Eyþór er með eyrað við jörðina. Nánar tiltekið við gatnamót Miklubrautar og Kringlumýrabrautar. Veit hvað fólkið þráir. Hann sagðist líka vilja sjá byggð í Örfirisey. Ég læt öðrum um að giska á hvort Eyþór vilji byggja blokkir fyrir öryrkja eða auðmenn þar.
Svo fór hann að lýsa framtíðarsýn sinni. Samgöngumiðstöð við Kringluna. Byggja upp almenningssamgöngur. Efla strætó. Gera Reykjavík að fyrsta búsetukost fyrir ungt fólk. Hann stoppaði hér lesturinn til þess að skapa rými fyrir lófaklapp, en hlaut það allra lélegasta lófaklapp sem ég hef heyrt á landsfundi. Gestir af landsbyggðinni eru greinilega ekkert sérstaklega spenntir fyrir því að Reykjavík fái frekara forskot til að sópa til sín fjármunum og fólki. Af hverju ætli það sé?
Svo kom hann inn á þá von sína að eftir nokkur ár þá væri Reykjavík komin í samkeppni við bestu borgir í heimi. Rólegur Kiefer. Við erum að tala um fokking Reykjavík sko. Hann klikkti svo út með því að sveitastjórnarkosningar færu fram á 50 ára afmælisdegi þess þegar skipt var úr vinstri yfir í hægri umferð á Íslandi. Þetta var myndlíking sem fundargestum líkaði. Hver einasti rass stóð upp og klappaði og flautaði fyrir þessu. Heilt yfir olli Eyþór mér ákveðnum vonbrigðum. Ég bjóst við vanstilltara brjálæði. Honum var í það minnsta boðið á þennan fund, það hefur kannski róað hann aðeins.
Stuttu seinna var komið að kosningu til formanns, varaformanns og ritara. Ein manneskja í framboði til hvers embættis. Fyrst skyldi kjósa um formann. Bjarni að sjálfsögðu einn í framboði. Allir stóðu upp með grænu miðana sína, sem þeir voru samviskusamlega búnir að skrifa nafn hins heppna á. Miðana settu þau svo í hvíta kassa sem starfsmenn fundarins voru með út um allan sal. „Við erum að kjósa formann!“ þrumaði fundarstjóri þegar einhver spurði hana. Ástæðan var sú að uppi á tjaldi stóð „Kosning til ritara.“ Það væri nú eitthvað ef landsfundur Sjálfstæðisflokksins hefði fyrir slysni kosið Áslaugu Örnu sem formann. En þetta var svo spennandi. Hvað ætli komi upp úr kössunum?!
Á meðan talningin fór fram kom Vala Pálsdóttir, sem hafði verið fundarstýra á stórri samkomu landsfundarins um #metoo byltinguna. Bjarni hvatti fundargesti til þess á föstudeginum að kjósa konur í formennsku og forystu nefnda flokksins. Það breytir því samt ekki að formaður Sjálfstæðisflokksins hefur alltaf verið með typpi. Kona hefur aldrei verið formaður flokksins. Það hafa tveir menn sem heita Bjarni Benediktsson verið formenn Sjálfstæðisflokksins en ekki ein kona. Hversu hrútuð getur ein tölfræði verið?
Ég reyndi eftir fremsta megni að hlusta á það sem Vala sagði í pontunni, en átti erfitt með þar sem fundargestir gáfu henni ekki sömu þögn og Eyþór hafið hlotið í sinni ræðu, hvað þá Bjarni á föstudaginn. Vala hækkaði róminn þegar hún ræddi stöðu kvenna innan flokksins, og þá hækkuðu fundargestir, sem þó áttu að vera að hlusta á hana, bara meira í sér. Kannski vildu þau ekki heyra þessar staðreyndir. Þar sem ég hlustaði á Völu í pontunni og fundargesti í salnum hækka róminn til skiptis var mér hugsað til rannsókna sem benda til þess að konur hlustuðu og tækju jafnt mark á konum og körlum. En karlar hinsvegar tækju mun meira mark á öðrum körlum og nenntu síður að heyra það sem konur höfðu að segja. Var ég ekki að horfa upp á akkúrat þetta? Hjá flokknum sem kerfisbundið ýtir frambærilegum konum neðar á listum og út af þeim? Sem hlustar ekki á fórnarlömb kynferðisofbeldis og reynir að þagga niður í þeim? Það þarf enga seiglu til þess að vera skemmdarvargur á landsfundi. Það þarf seiglu til þess að vera kona í Sjálfstæðisflokknum. Mér var líka hugsað til komments sem ég sá á vegg Björns Bjarnasonar um þessar „endalausu síbylju með youto.“
Á meðan við biðum með öndina í hálsinum yfir því hvað kæmi nú upp úr kjörkössunum var skyndilega byrjað að varpa á tjaldið myndbandi með ungum Sjálfstæðismönnum. Sjalla-Jügend. Ágætis pælingar um þá stefnu sem ungliðarnir vildu sjá flokkinn fara í. En á meðan kepptist salurinn, eins og hjá Veru, við að tala yfir. Þegar myndbandinu lauk voru engin viðbrögð í salnum. Eins og þetta hefði ekki gerst.
Og þetta átti eftir að koma fyrir oftar, síðar á fundinum. Almennir gestir að tala fyrir mannréttindum, samkennd, kvenréttindum. Öllu því sem flokkurinn hefur verið gagnrýndur fyrir að forgangsraða aftar gróðanum. Þessar raddir eru til staðar innan flokksins, forystan bara nennir ekki að hlusta á þetta. Hrútarnir sem öllu ráða umbera þessar skoðanir, en vita eins og er að þau þurfa ekki að fara eftir þeim. „Það kemur að þér, ungi maður, að taka við Sjálfstæðisflokknum. En fram að því ætla ég að gera það sem mér sýnist“.
Björn Bjarnason, Friðrik Sófusson og Kjartan Gunnarsson sátu einmitt fremst á einu langborðinu. Næst sviðinu. Þar sem allir mælendur komu niður af því. Allir krumpaðir og flissandi í góðum fíling. Þetta er þeirra partý. Þeirra Nürnberg. Akkúrat þegar ég ætlaði að fara lengra með þessa pælingu mætti Heiða ljósmyndari í heimsókn til mín.
Ég hafði sent henni skilaboð og sagt frá felustaðnum mínum, og hún kom hlæjandi að mér og sagði „Æi, litli hræddi strákurinn. Hér ertu!“ Já, hér var ég. Hvað var ég að gera hérna? Afhverju var ég að leggja þetta á mig? Ég ætla rétt að vona að þú sért að hafa gaman af þessum lestri. Það fór ótti, sviti og tár í að setja þennan pistil saman. Fela sig í Laugardalshöllinni. Að hverju er ég orðinn?
Í þá mund var tilkynnt um úrslit formannskosninga. 762 atkvæði. Gild 738. Bjarni fékk 710. 96,2% Standandi lófaklapp á meðan Bjarni gekk í pontu. Við hverju bjóst fólkið? Mér var hugsað til þess að í dag, sunnudag, gengu Rússar einmitt líka að kjörborðinu og kusu Pútín, aftur, með yfirgnæfandi fjölda atkvæða. Viðeigandi að þessar rússnesku kosningar séu bara allar sama daginn.
Fundargestir voru svo ánægðir með úrslitin að þeir ætluðu varla að hætta að klappa þegar Bjarni var komin upp í pontu og byrjaður að tala. Þvílíkur sigurvegari. Okkar maður - 96,2%! Skot og mark!. Bara eins og hjá Stjörnunni í gamladaga, ha Bjarni? Svo sagði hann einhverja súpu um endurnýjað traust, skerpa línur, stilla sama strengi, lyfta sér upp, sækja fram í sveitastjórn. Sagðist þakklátur fyrir þennan afgerandi stuðning. Það væri ómetanlegt fyrir komandi ár, til að gera lífið betra. Og þarna kom smá þögn sem ég held hann hafi ekki ráðlagt, áður en hann bætti við, vandræðalega seint: „fyrir alla Íslendinga.“ Já, verður ekki líf okkar allra aðeins betra næsta árið af því Bjarni Ben hlaut afgerandi kosningu sem formaður Sjálfstæðisflokksins. Ég veit ekki með ykkur, en ég sé fram á algjörlega frábæra tólf mánuði. Þvílíkur léttir. Fyrir okkur Íslendinga. Alla. Hjúkket.
Nú var kosning til varaformanns. Ég var orðinn þyrstur og þurfti að pissa, svo ég setti á mig sólgleraugun og hætti mér niður stigann. Niður til hins almenna fundargestar sem ég vildi eftir fremsta megni komast hjá því að þurfa að eiga í samskiptum við. Ég fann klósett og að því loknu sjálfssala. Þar ákvað ég að fá mér Mountain Dew, til minningar um ríkisstjórn Sigmundar Davíðs sem var fórnað á altari skattaguðsins Panama. En rétt eins og Guð biblíunnar skipaði Abraham að þyrma Ísak þá þyrmdi íslenskur almenningur Bjarna Ben, sem þó laug um eign sína í skattaskjólum, vissi að félagið væri á Seychelles-eyjum en ekki Lúxemburg, og laug svo til um það líka. Díses kræst afhverju er þessi maður enn þá í stjórnmálum?!
Með Dewið og tóma þvagblöðru laumaðist ég aftur á felustaðinn minn. Mér leið smá eins og þegar ég og félagar mínir reyndum að flýja úr Vatnaskógi, 11 ára gamlir. Smá Jón Oddur og Jón Bjarni tribute. Bara aðeins að prakkarast.
„Við eigum við ímyndarvanda að stríða.“
Nú var komið að næstu konu sem fundargestir töluðu yfir. Ég náði ekki nafninu hennar en hún var sem sagt að kynna stjórnmálaályktun landsfundarins. Það sem grasrót flokksins vill að forystan leggi áherslu á. Samkvæmt öllum eðlilegum viðmiðum ætti þetta að vera mikilvægasta ræða helgarinnar. Hvað hafa fundargestir sammælst um að stefna flokksins eigi að vera? Svo var ekki. Eftir að fundarstjóri bað gesti um gott hljóð í salnum heyrði ég nákvæmlega tvö „suss“ og ekkert breyttist. Ég þurfti að leggja mig allan fram um að heyra í henni, þar sem hún talaði um krísuna sem flokkurinn stendur frammi fyrir. „Sjálfstæðisflokkurinn á ekki við neinn hugmyndafræðilegan vanda að stríða. Við eigum við ímyndarvanda að stríða.“ Sagði hún ákveðin öfl ekki sjá aðrar hliðar á flokknum en peningahliðina. Græðgina. Þá sem vilja græða á daginn og grilla á kvöldinn. Þetta fannst henni afar leitt.
Hún fór svo yfir ályktanir landsfundarins. Að leggja áherslu á mannréttindi, taka vel á móti hælisleitendum, hafna ofbeldi og þar fram eftir götunum. Frábærar áherslur. Algjörlega frábært. Það hefði hinsvegar verið enn frábærara ef fleiri fundargesta hefðu verið að hlusta á hana. Kannski þarf að fá Eyþór með djúpu röddina sína til þess að lesa upp þessa ályktun? Kannski þarf að ráða Burson-Marsteller til að koma þessu í erlenda fjölmiðla? Í það minnsta hafði salurinn allt of takmarkaðan áhuga á því sem hefði átt að vera mikilvægasta samantekt fundarins.
Svo niðurstaða kosningar til varaformanns. Þórdís Kolbrún hlaut 720 atkvæði af þeim 772 sem fallið höfðu. Allir standa upp og klappa. Ótrúlegur sigur. Þakkarræða. Svo kjör til ritara. Ég veit ekki hvernig er að lesa þetta, en að vera á staðnum er eins og að horfa á rússneska kosningu… nei ég meina, rússneska málningu þorna.
Nú var mælendaskrá opnuð og kom maður í hjólastól upp á svið, Bergur Þ Benjamínsson, og kvartaði yfir því að texti tengdur krónu á móti krónu skerðingu öryrkja og aldraðra hefði ekki verið í samantekt fundarályktunar. „Það er það sem fólk er að bíða eftir!“ sagði hann hátt og snjall og kastaði frá sér míkrafóninum. Þarna er ég alveg sammála honum. Sú lenska að skerða kjör þeirra öryrkja og aldraðra, sem reyna að bæta hag sinn með vinnu er algjörlega fráleit. Það kom mér samt lítið á óvart að verða vitni að því að Sjálfstæðismenn hlusti ekki einu sinni á sína eigin öryrkja frekar en aðra.
Þá kom upp í pontu maður sem ég náði í fyrstu ekki nafninu á. Fékk hann góða þögn. Sussað var í salnum á þá sem enn voru að tala. Byrjaði hann að ræða þá ömurð sem fíklar á Íslandi standa frammi fyrir. Það sé faraldur í gangi. Níu manneskjur hafi látist frá áramótum. Ein á viku. 600 manns eru á biðlistum eftir því að komast inn á Vog. Algjörlega óásættanlegt. Það þyrfti ekki nema 250 milljónir til að ráðast á þennan biðlista.
Þarna var kominn einhver sem talaði mínu máli, því þessir biðlistar eru svartur blettur á þjóðinni. Sagði hann að frá 1985 hafi legurýmum fyrir fíkla fækkað úr 185 niður í 20. Ríkið þyrfti að horfast í augu við það að alkahólismi væri sjúkdómur. Einnig þyrfti að koma betur fram við fanga, því betrunarvistin væri ekki að gera þá neitt betri. Ég hugsaði með mér „hvaða skeleggi og flotti maður er þetta, sem talar af svona miklum eldmóð um okkar minnstu bræður og systur. En hvað Sjálfstæðisflokkurinn er heppinn að hafa innanborðs svona einstakling.“ Svo sá ég nafnið á honum uppi á skjánum. Kristinn Gylfi Jónsson. Eigandi Brúneggja. Frægasti dýraníðingur landsins. Ojæja.
Stuttu seinna var svo tilkynnt um niðurstöðu í kosningunni til ritara. Áslaug Arna hlaut 93,5% Standandi lófaklapp. Hélt hún þakkarræðu sem endaði svo á því að öll forysta flokksins var komin upp á svið. Mr Blue Sky með ELO var aftur blastað. Aftur standandi lófaklapp. Í takt við lagið. Þvílíkt lófaklapp. Fyrir þessum glæsilegu kosningum. Á meðan fundargestir klöppuðu lófana á sér sára setti ég á mig sólgleraugun og laumaði mér út bakdyramegin.
Þetta tímabil í sögu flokksins frá Davíð Oddsyni og til með Bjarna Ben er svakalegur tími. Þvílík tröll maður. En ekkert varir að eilífu. Sjálfstæðisflokkurinn er þar ekki undanskilinn. Ég vona bara að þegar dóttir mín vex úr grasi þá verði þetta tímabil komið í sögubækurnar. Að þá getum við horft til baka og fengið aulahroll yfir samkomum eins og þessum án þess að þær séu hluti af okkar daglega lífi. Hluti af ríkisstjórn landsins.
Og þetta er síðasti landsfundurinn minn. Ég fer ekki aftur. Þetta er ekkert að fara að breytast. Þessi landsfundur var alveg eins og sá síðasti og verður alveg eins og sá næsti. En nú vitiði hvernig stemning er þarna. Þið þurfið ekki að hætta ykkur þarna inn. Og ekki ég heldur.
Athugasemdir