Það eru ellefu mánuðir síðan Birna fór og allt breyttist.
Nú er sorgin og söknuðurinn það fallegasta af öllu, því þar býr tengingin við Birnu.
„Það hefur ekki liðið ein mínúta þar sem ég gleymi því að hún er farin. Mér líður aldrei eins og hún gæti hringt. Mig dreymir hana stundum á lífi, en ég veit alltaf þegar ég vakna að Birna er farin,“ segir Silla, mamma hennar.
Þótt engin orð nái utan um missinn, og þótt svo ótal margt hafi glatað allri merkingu, þá er frelsandi að tala um sorgina og lífsnauðsynlegt að tala um Birnu.
Látlaus, fyndin og hugmyndarík
Í stofunni heima hjá Sigurlaugu Hreinsdóttur og Loga, stóra bróður Birnu, er veggur helgaður henni.
Stór falleg andlitsmynd í miðjunni, þar sem blá augu og brosið hennar fá að njóta sín. Allt um kring eru tugir smærri mynda. Engar tvær eru eins. Mörg andlit Birnu, flest glaðleg en nokkur alvörugefin – og þetta er lýsandi fyrir karakterinn. Birna átti sér margar hliðar og kom þeim sem þekktu hana stöðugt á óvart.
Hún var fjörug, hugmyndarík og full af lífsgleði. Skemmtilegur sögumaður, ögrandi og kom með hnyttin tilsvör. Hispurslaus, með kaldhæðnislegan húmor. „Hún var brjálæðislega skemmtileg og fékk mig svo oft til að hlæja. Rosalegur fjörkálfur þegar hún var krakki, en rólegri eftir því sem hún varð eldri,“ segir Silla.
„Birna var alltaf mjög ákveðin í því hvernig hún vildi hafa hlutina. Þegar henni datt eitthvað í hug, þá talaði hún ekkert um það fyrr en hún var allt í einu búin að hrinda því í framkvæmd. „Ég er grænmetisæta,“ sagði hún einn daginn. Það var svo oft sem hún gerði eitthvað svona. „Ég ætla að fá mér gat í naflann,“ sagði hún einu sinni þegar hún var í unglingadeild.
Seinna fékk hún sér tattú. Vinur hennar teiknaði myndir og hún valdi teikninguna sem var minnst unnin. Það er lýsandi fyrir smekkinn hennar. Hún var ekki gefin fyrir íburð heldur vildi hafa hlutina einfalda. Svona var þetta líka til dæmis þegar við vorum að elda mat. Ef ég var kannski að bisa við meðlæti sagði Birna: „Mamma, höfum þetta bara einfalt.““
Þegar Birna tók ákvarðanir kom alltaf í ljós að hún hafði ígrundað þær vel. „Það gat enginn fengið hana ofan af því að verða grænmetisæta. Hún hafði kynnt sér málin og undirbúið sig vel. Svo sökkti hún sér ofan í heimspekina á bak við það að vera grænmetisæta.
Hún var forvitin um alla skapaða hluti. Ég man til dæmis þegar ég fór með hana til læknis þegar hún var 12 eða 13 ára og hún lenti í hrókasamræðum við hann, vildi fá að sjá og skilja niðurstöður úr blóðprufum. Ég skildi ekki alveg hvað henni fannst svona spennandi við þetta, en hún sýndi ótrúlegustu hlutum mikinn áhuga.“
Stóð með vinum sínum – og Dreka
Þegar fjölskyldan fór í ferðalög sat Logi yfirleitt fram í með vegahandbókina og spjallaði við mömmu sína. Birna kunni betur við sig í aftursætinu með iPod og bók.
„Ef við við vildum sýna henni eitthvað bað hún okkur bara um að hætta að trufla sig,“ segir Silla og hlær. „Þegar við stoppuðum kom fyrir að hún sæti í klukkutíma í viðbót úti í bíl og kláraði bókina.“
Þótt Birna væri borgarbarn og sýndi örnefnum og fjöllum engan sérstakan áhuga þótti henni vænt um dýr. Þess vegna gerðist hún grænmetisæta. Og þess vegna gekk hún fast á eftir því að fá kött. Þegar mamma hennar lét það loksins eftir henni reyndist hann versta óargadýr. En þetta var kötturinn hennar Birnu og hún stóð með honum sama hvað bjátaði á.
Birna nefndi hann Dreka, Hún tók upp hanskann fyrir hann þegar hann réðst á vini hennar og vinkonur. Og þegar Brjánn Guðjónsson, faðir Birnu, var ósáttur við að Dreki réðist á gestina sagði hún: „Pabbi, þú verður bara að koma betur fram við hann.“
Hún stóð líka með vinum sínum og vinkonum þegar þau þurftu hjálp. Hún studdi köttinn skilyrðis- og gagnrýnislaust, en vinkonur hennar gátu hins vegar treyst því að Birna væri krítísk og hreinskiptin, segði hug sinn ef henni þætti þær vera á villigötum.
„Hún var góð vinkona og alltaf svo trygg. Og það sem ég heyri frá vinum hennar og vinkonum núna, sem ég vissi ekki áður, er að Birna var sú í hópnum sem þau treystu best og fannst þægilegast að leita til þegar eitthvað var að. Hún stóð með þeim en sagði þeim líka ef henni fannst þau ósanngjörn og svo framvegis.“
Laus við alla tilgerð
Birna var lífsglöð en um leið yfirveguð. „Það var fátt sem kom henni úr jafnvægi. Hún var laus við alla tilgerð og aldrei neitt að rembast við að vera vinsæl eða þóknast fólki. Hún nennti ekki að reyna að vera einhver önnur en hún var. Og þótt hún væri eldklár falaðist hún aldrei eftir athygli út á það eða sérstakri viðurkenningu. Þegar hún gerði eitthvað sem öðrum fannst æðislegt vildi hún sem minnst tala um það.“
Það var alltaf notalegt í kringum Birnu. Hún gat dundað sér tímunum saman í sófanum heima í stofu; púslað, lesið, gert súdókú, spjallað við vini sína eða bróður sinn.
„Hún átti mjög auðvelt með að vera ein og var sjálfri sér nóg. Hún lagði mikið upp úr því að hafa það gott og kenndi mér þetta dálítið. Hún hellti sér aldrei beinlínis út í hugleiðslu eða jóga, en hún tileinkaði sér samt að einhverju leyti hugsunarháttinn. Hún var nægjusöm og kunni best við einfaldan og ódýran lífsstíl frekar en að vera stöðugt á höttunum eftir veraldlegum gæðum. Ég man til dæmis þegar ég nefndi einhvern tímann hvort hún vildi kannski vinna meira og safna sér peningum. Þá sagðist hún bara eiga alveg nógu mikinn pening. „Ég þarf tíma, við þurfum tíma,“ sagði hún.“
Einu sinni, skömmu eftir að Birna útskrifaðist úr grunnskóla, vantaði þær mæðgurnar báðar sumarvinnu. Silla, sem er kennari, fékk Birnu með sér í það verkefni að halda sumarnámskeið fyrir börn og unglinga í heimspekilegri samræðu.
„Það var ofboðslega gaman að gera þetta með henni og við gerðum þetta aftur sumarið á eftir. Birna tók þessu mjög alvarlega, hún var ábyrg og hugsaði fyrir undirbúningnum. Henni fannst auðvitað sjálfri skemmtilegt að hugsa á svona heimspekilegum nótum en svo náði hún líka ótrúlega vel til krakkanna, kom fram við þau sem jafningja, lifði sig inn í þeirra hugðarefni og hafði greinilega svo gaman af þessu.“
Að vernda minninguna
Nú er minningin um Birnu, virðing hennar og reisn, það mikilvægasta af öllu. Sú minning er svo miklu merkilegri og stærri heldur en harmleikurinn sem átti sér stað í janúar 2017.
Þegar réttarhöldin stóðu yfir í ágúst var grafískum lýsingum af atburðinum slegið upp í fyrirsagnir á stærstu fjölmiðlum. Þetta var sárt fyrir Sillu og fleiri aðstandendur sem voru á algjörum byrjunarreit í sorgarferlinu.
Skelfilegar myndir voru sífellt dregnar upp; það var líkt og atburðurinn væri gerður að einhvers konar söluvöru. Og þetta var ósanngjarnt gagnvart Birnu. Hún var svo falleg og góð, en allt í einu stöðugt tengd við eitthvað ljótt og vont.
„Sumar lýsingar eru þess eðlis að þær valda óbærilegum sársauka, skapa hryllilegar myndir í hugskotum þeirra sem þjást mest, fjölskyldunnar. Það er ósk okkar að fjölmiðlar fari gætilega um leið og hugur þjóðarinnar er með fjölskyldunni,“ sagði Vigfús Bjarni Albertsson sjúkrahúsprestur í orðsendingu sem hann birti á Facebook að beiðni aðstandenda. Í kjölfarið greindi hann svo frá því í viðtali við DV að hann hefði aldrei séð jafn ónærgætinn og grafískan fréttaflutning af neinu hörmungarmáli.
Þegar þýskur réttarmeinafræðingur var kallaður fyrir dóminn til að gefa skýrslu var ákveðið að láta skýrslutökuna fara fram fyrir luktum dyrum. Þetta var fyrst og fremst gert á þeim grundvelli að þarna kæmu fram viðkvæmar persónuupplýsingar um Birnu, varpað yrði upp myndum af líkinu auk þess sem fyrir lágu upplýsingar frá fagfólki um þau áhrif sem ónærgætinn fréttaflutningur hafði á aðstandendur. Hjálmar Jónsson, formaður Blaðamannafélagsins, gagnrýndi ákvörðun dómarans og gaf að sama skapi lítið fyrir gagnrýni Vigfúsar Bjarna á efnistök fjölmiðla.
„Formaður Blaðamannafélagsins talaði um mikilvægi þess að koma upplýsingum á framfæri, birta sannleikann. En þetta var ekki sannleikurinn heldur skepnan í sannleikanum,“ segir Silla.
„Hitt er svo miklu stærri sannleikur, að Birna átti fallegt líf og var góð manneskja. Hún getur ekki svarað fyrir sig lengur og fær ekki tækifæri til að gefa meira af sér, en ég mun standa vörð um hvað hún var yndisleg. Hennar sannleika.
Það sem gerðist var ljótt og opinbert, og einmitt þess vegna finnst mér svo mikilvægt að tala um þetta. Tala um Birnu. Mér er ekki sama hvernig það er gert. Hún var ekkert nema ljós og ég vil að ljósið skíni sem skærast.“
Vildi trúa að hún væri á lífi
Hvarf Birnu Brjánsdóttur í janúar fór ekki framhjá neinum. Samfélagsmiðlar loguðu; hvarvetna blöstu við fréttir af leitinni, vísbendingunum og rannsókn lögreglu – allt því sem næst í beinni útsendingu.
„Stuðningur almennings var ómetanlegur. Ekki síst þetta, að þegar Birna kom ekki heim um nóttina og ég vissi að eitthvað var að, þá trúði almenningur mér frá fyrstu mínútu. Það var ekkert hik. Almenningur tók strax þátt í örvæntingunni með mér. Þetta gaf mér gríðarlegan styrk og skipti líka miklu upp á að ýta leitinni af stað,“ segir Silla og bendir á að það voru ókunnugar konur sem stofnuðu Facebook-síðuna Leitin að Birnu Brjánsdóttur áður en formleg og skipuleg leit fór af stað.
Allan þann tíma sem leitin stóð yfir vildi Silla trúa því að Birna myndi finnast á lífi.
„Ég leyfði aldrei tilhugsuninni um hitt að taka yfir. Ég hugsaði alltaf: Ég fæ Birnu aftur, annað var ekki hægt. Ég var líka viss um að ef hún væri farin, þá myndi ég finna það inni í mér; að það myndi eitthvað gerast í líkamanum. En það gerðist ekki.
Þegar hún fannst, þá fannst mér þetta svo skrítið. Það hélt bara allt áfram. Hjartað hélt áfram að slá, ég gat gengið og hugsað og talað og gert það sem þurfti. En mér fannst eins og það ætti ekki að vera þannig. Af því Birna mín var farin.“
„Það hélt bara allt áfram. Hjartað hélt áfram að slá, ég gat gengið og hugsað og talað og gert það sem þurfti. En mér fannst eins og það ætti ekki að vera þannig. Af því Birna mín var farin“
Samhugurinn var mikill. Hópur kvenna tók sig saman meðan leitin stóð yfir, að frumkvæði vinkonu Sillu, og skiptust á að færa fjölskyldunni tilbúinn mat á hverjum degi í fjórar vikur til að létta undir með þeim. „Þetta var góður og mikilvægur stuðningur, svo ekki sé minnst á stuðning Vigfúsar Bjarna. Á seinni stigum var líka Björn Harðarson sálfræðingurinn minn, og hans stuðningur, ómetanlegur. Svo á ég stóra fjölskyldu sem var með mér í þessu. Þrjú systkini mín fluttu til mín frá því leit hófst og fram yfir útför.“
Vinkonur Sillu stóðu fyrir bænastund í Hallgrímskirkju meðan á leitinni stóð, og eftir líkfundinn við Selvogsvita sunnudaginn 22. janúar söfnuðust þúsundir saman í miðbæ Reykjavíkur og minntust Birnu. „Þegar maður missir barnið sitt þá er þakklæti manni ekki efst í huga. Ég var bara upptekin af Birnu og að ég hefði misst hana. En eftir á að hyggja, þá var þetta allt svo fallegt og mikilvægt og tók athyglina af ljótleikanum. Ég lagði mig líka fram um að hafa þetta eins fallegt og ég gat fyrir minningu Birnu, og það tóku margir þátt í því, bæði nánustu aðstandendur og fólk sem bauð fram framlag sitt og gaf, sem var hlýtt og gott.“
Vigfús Bjarni sagði við mig þegar ég fékk fréttirnar um að hún væri farin að nú þyrfti að halda minningu hennar á lofti, og það hefur verið mér leiðarljós. Stuðningurinn og fegurðin dró líklega úr áfallinu fyrir mig og gerði það bærilegra.“
Áreiti og hömluleysi
En sú gríðarlega athygli sem málið fékk átti sér líka óþægilegar hliðar. Dæmi voru um að ókunnugt fólk teldi sig hafa sérstöku hlutverki að gegna gagnvart Birnu og móður hennar þrátt fyrir að hafa ekki þekkt þær. Fólk hafði samband og bað um að fá að koma heim til Sillu og faðma hana. Aðrir vildu endilega taka myndir af henni með gjafir frá sér, og enn aðrir bönkuðu upp á til að vita hvar Birna yrði jarðsett.
Margt var fallega hugsað en óþægilegt. Annað bar keim af sjálfhverfu. Silla var varnarlaus gagnvart manneskjum sem stukku á hana og vildu nærast á sorginni. Á tímabili var áreitið svo mikið að hennar nánasta fólk var farið að velta því upp, í gamni en þó með alvarlegum undirtón, að ef til vill þyrfti að útvega henni lífvörð.
„Þegar fólk sem þekkti ekki Birnu hefur þörf fyrir að lýsa tilfinningum sínum og sinni upplifun við mig, hvað það sé sorgmætt yfir fráfalli Birnu, þá finnst mér erfitt að setja mig í spor þess og hugsa um Birnu eins og ef hún væri mér ókunnug. Ég vil ekki fjarlægjast hana þannig. Og þegar fólk hefur þörf fyrir að útskýra fyrir mér hvernig lík hegðar sér í vatni eða segist hafa „gengið með Birnu“ með mér, eða segir við mig að það sé ánægt að hafa ekki þekkt hana því annars myndi það upplifa enn meiri sorg … ég er oft lengi að jafna mig eftir svoleiðis athugasemdir sem fjarlægja mig því að vera móðir hennar.“
Silla fékk ógrynni af skilaboðum og símtölum. Langflest voru styðjandi og hjálpleg, sprottin af samkennd, en annað var óþægilegt. Og þrátt fyrir að fjölmiðlar hafi gegnt mikilvægu hlutverki í leitinni þá fór einstaka fjölmiðlafólk yfir strikið.
„Tveimur dögum eftir að hún hvarf var ég beðin um að koma í panel í Íslandi í dag og spjalla um „áhrif samfélagsmiðla“, sem ég skildi ekki af því þá var ég bara að leita að dóttur minni. Þegar skórnir hennar Birnu fundust hringdi blaðamaður í mig og þráspurði um þetta. Ég var nýbúin að sjá þetta á Facebook, var í uppnámi og hágrét, sagði honum að ég vildi ekki tala um þetta – en hann hélt áfram og hringdi svo beint í Brján.
Daginn fyrir útför dóttur minnar hringdi svo í mig blaðamaður og vildi fá upplýsingar um útförina og hvort hún væri opin öllum. Í lok samtalsins spurði hann hvað mér þætti um að annar Grænlendingurinn sem var í haldi hefði verið látinn laus. Ég hafði ekkert fylgst með fréttum og var ekki að hugsa um þetta. Þetta kom mér úr jafnvægi. En allan þennan tíma vildi ég aðeins hugsa um Birnu og eftir að hún fannst vil ég halda minningu hennar á lofti, ekkert annað.“
Firringin erfið
Einhverjir hafa viljað draga upp þá mynd af atburðum janúarmánaðar að fráfall Birnu, leitin að henni og samhugur landsmanna hafi sameinað þjóðina og þannig þjónað einhverjum æðri tilgangi. En Silla sér ekkert rómantískt eða fallegt við það sem gerðist.
„Ég kann illa við svona tal, um að það hafi verið einhver sérstakur tilgangur með þessu. Þá er látið eins og barninu mínu hafi verið fórnað, en þannig var það ekki. Þetta voru einfaldlega skelfileg örlög.
Ég missti barnið mitt á ömurlegasta hátt sem hægt er að hugsa sér. Ég vildi óska að hún hefði ekki þurft að fara í hatri. Ég vildi óska að hún hefði ekki þurft að vera ein, að ég hefði getað verið hjá henni. Þetta átti aldrei að gerast; hennar andlát var gjörsamlega tilgangslaust og það verður aldrei hægt að finna nokkurn tilgang með því að einhver hafi meitt hana svona mikið. Hitt hefði þjónað raunverulegum tilgangi, ef hún hefði fengið að lifa áfram.
Við megum ekki gefa ljótleikanum tilgang. Vigfús Bjarni segir að það sé ekki tilgangur með þjáningunni, en að það sé tilgangur með úrvinnslunni. Og það er líka ótímabært að setja atburðinn í eitthvert sögulegt eða fræðilegt samhengi. Þarna var raunveruleg manneskja að missa lífið – þetta var ekki bíómynd. Þetta var ekki eitthvert áhugavert fyrirbæri, spennandi rannsóknarefni eða „heitt fréttamál“ eins og formaður Blaðamannafélagsins orðaði það, heldur skelfilegur harmleikur. Barnið mitt dó á versta hátt sem hægt er að ímynda sér.“
Þetta er einmitt það sem Sillu fannst einna óþægilegast við athyglina og það hvað atburðurinn var opinber. Firringin. Aftur og aftur er atburðurinn – örlög Birnu – settur í samhengi sem gerir hann fjarlægan.
Birna bað aldrei um athygli
Og kannski er verst þegar aðrir ótengdir harmleikir eru bornir sérstaklega saman við mál Birnu. Nýlegt dæmi er þegar kvartað var undan því að maður sem féll frá á voveiflegan hátt hefði ekki fengið jafn mikla athygli og Birna.
„Öll athyglin í janúar stafaði af því að Birna var týnd, og það þurfti samheldni og orku til að finna hana. Það er ekki hægt að bera saman skelfilega atburði eða benda á skelfilegan atburð og óska sér einhvers sem tilheyrði honum. Það verður að ríkja virðing þegar harmleikur á sér stað. Annað er lágkúra.
Ég get ekki sætt mig við að talað sé um Birnu eins og hún hafi fengið eitthvað sem hún átti ekki skilið. Ég var ekki að biðja um fjársöfnun, ég bað bara um að dóttir mín myndi finnast. Og Birna bað aldrei um athygli, hún var bara hrifsuð burt og gat engu um það breytt.
Það þarf ekki að taka reisn og virðingu af dóttur minni til að undirstrika málstað og spila inn á samviskubit fólks. Það er ekki sanngjarnt.“
Lífið og dauðinn
„Eitt það fyrsta sem Logi sagði við mig eftir að við vissum að hún var farin var: „Það er gott að Birna þarf aldrei að upplifa svona mikla sorg.“ Hann hugsar svo fallega. Maður fer ósjálfrátt að reyna að hugsa eitthvað fallegt þegar maður fær svona ömurlegar fréttir.
Seinna þegar við vorum að tala um dauðann, þá sagði hann: „Lífið er engu merkilegra en dauðinn. Maður fæðist bara og hefur ekkert um það að segja, er bara hérna, og svo er maður bara allt í einu horfinn.“
Þau áttu ótrúlega fallegt samband, Logi og Birna, og voru mjög náin. Það gekk auðvitað á ýmsu þegar þau voru lítil, en þegar þau urðu eldri urðu þau svo ofboðslega góðir vinir. Þau gátu hlegið og talað saman endalaust. Hann var algjör stóri bróðir og vildi allt fyrir hana gera. Og nú er ekkert jafn gott og að tala við hann um Birnu.
Ég gat ekki bjargað lífi hennar, það gat enginn, en ég get staðið vörð um minningu hennar og mannorð og það mun ég alltaf gera. Ég verð alltaf mamma Birnu. Maður hættir ekki að elska barnið sitt þótt það fari. Ég held áfram að lifa fyrir hana, rétt eins og ég lifi fyrir son minn.
Það krefst líka vinnu að gera sorgina fallega. Hún er þarna því ég missti eitthvað fallegt og gott. Að tjá sig út frá því er ekki niðurbrjótandi heldur frelsandi. Ég finn orku í að geta talað um sorgina þannig að Birna haldi reisn, að tala um þetta á mínum eigin forsendum og á forsendum hennar.“
Að standa með Birnu
Stundum er sorgin samofin reiðinni, og reiðin beinist meðal annars að Guði.
„Guð gerir bara það sem honum sýnist. Ég bað til hans á hverju kvöldi. Ég bað fyrir börnunum mínum, en samt leyfði hann þessu að gerast. Ég hef ekki getað beðið til hans síðan þetta gerðist. Þá hefur skipt mestu máli fyrir mig að standa með sjálfri mér í sorginni og standa þannig með Birnu. Þetta gefur mér jarðtengingu og heldur mér heilli.
Ég er ekki hrædd eða kvíðin lengur. Það skelfilegasta sem ég hefði getað hugsað mér hefur gerst í mínu lífi. Og ekkert sem ég upplifi er verra en það sem Birna þurfti að þola.“
Sorgarferlið er rétt að byrja. Það er ekki einu sinni ár liðið síðan Birna fór, og Silla er enn bara smám saman að átta sig á því að hafa misst hana.
„Hvernig gat þetta gerst og hvað þýðir þetta? Ég er enn að reyna að ná utan um þetta. Þetta er ennþá svo óraunverulegt. Það er ekkert eins og það var. Allt er breytt.
Stundum er talað um mikilvægi þess að „halda áfram“. En maður heldur ekkert áfram, það heldur bara allt áfram, hvað sem manni finnst um það, og þá reynir maður bara að standa í lappirnar og mæta því.“
Jólin helguð Birnu
Birna bjó hjá pabba sínum síðustu tvö árin en var líka oft hjá mömmu sinni á Háaleitisbraut.
„Hún var mikið hérna í stofunni síðustu jól og enn meira jólin þar á undan, þá bjó hún hérna í tvo mánuði af því þáverandi kærasti hennar frá Ameríku var hjá henni. María, vinkona hennar, sem býr hérna rétt hjá, kom stundum í heimsókn.
Svo var hún bara að hafa það næs eins og maður gerir á jólunum. Hlusta á tónlist, sat hérna með risastórt púsluspil, svona með 3000 púslum, dundaði sér við þetta og var oft að malla mat með mér í eldhúsinu.
Við vorum svo fjögur saman hér á aðfangadag, við Birna og Logi og Brjánn, pabbi þeirra. Höfðum það kósí, kjöftuðum og borðuðum góðan mat.“
Nú eru aftur að koma jól. En Birna er farin og jólin verða allt öðruvísi.
„Við ætlum að vera saman, hennar nánasta fólk. Ég, Logi, Brjánn og konan hans, Tedcy. Við ætlum að hafa uppáhaldsréttinn hennar líka, hún var alltaf með sérrétt á jólunum. Og hlusta á tónlist sem henni fannst falleg.
Þetta verður einfalt, við ætlum ekki að skreyta, en hafa kertaljós, tónlist og góðan mat. Hafa það gott saman. Og jólin verða helguð Birnu. Hátíðlegasta stundin verður við leiðið hennar.“
Að búa til heim með Birnu
„Þetta er ekki kvíðvænlegt, en þetta verður allt öðruvísi. Jólin eru hátíð tilfinninganna, eins og Vigfús Bjarni segir, og maður þarf bara að leyfa þeim að vera. Búa til pláss fyrir Birnu þannig að hún sé með okkur.“
Og þegar minningarnar koma saman, þá verður til heimur, fallegur heimur þar sem Birna er ennþá til.
„Við finnum friðinn með því að ná í Birnu. Við Logi gerum þetta saman. Hann man svo margt, svo margt fallegt. „Hvað ætli Birna sé að gera núna?“ segir hann. „Ætli hún sé að fylgjast með okkur? Hvað væri Birna að gera og segja ef hún væri hérna hjá okkur?“ Og svo hjálpumst við að, drögum upp fallega mynd af henni, sjáum hana t.d. fyrir okkur að fá sér konfekt með afa sínum sem er farinn líka.
Það gefur svo mikla hlýju. Að búa til heim með Birnu og varðveita hann saman.“
Athugasemdir