Þessi grein birtist upphaflega í Stundinni fyrir meira en 7 árum.

Útgjaldagleði án skattahækkana? Svona yrðu áhrifin á þjóðarbúið

„Vext­ir og gengi krón­unn­ar verða hærri en ella hefði ver­ið,“ seg­ir í nýju riti Seðla­bank­ans þar sem spáð er fyr­ir um efna­hags­leg áhrif slök­un­ar á að­halds­stigi rík­is­fjár­mála. Ný rík­is­stjórn mun stór­auka rík­is­út­gjöld, en óljóst er hvernig Sjálf­stæð­is­flokk­ur­inn og Vinstri græn ætla að ná sam­an um skatt­breyt­ing­ar.

Ef útgjöld hins opinbera verða stóraukin á næstu árum án aukinnar skattheimtu og mótvægisaðgerða á tekjuhlið ríkisfjármálanna munu vextir Seðlabankans hækka, verðbólga aukast, gengi krónunnar styrkjast og viðskiptaafgangur Íslands hverfa hraðar en áður leit út fyrir. Bent er á þetta í nýju riti Seðlabanka Íslands um Peningamál sem kom út í morgun samhliða tilkynningu um vaxtaákvörðun. 

Rekstur ríkissjóðs er nú þegar í járnum ef litið er til afkomu af reglulegum rekstri og hún leiðrétt fyrir hagsveiflunni. Þetta er vegna þess að í tíð fyrri ríkisstjórna hafa tekjustofnar hins opinbera verið veiktir með skattalækkunum samhliða umtalsverðri aukningu útgjalda á miðju þensluskeiði. 

Þeir flokkar sem vinna nú að myndun ríkisstjórnar, Sjálfstæðisflokkurinn, Vinstrihreyfingin grænt framboð og Framsóknarflokkurinn, boðuðu allir verulega útgjaldaaukningu í kosningabaráttunni. Hins vegar er óljóst hvernig flokkarnir geta náð saman um aðgerðir í skattamálum.

Vilja efna tugmilljarða útgjaldaloforð 

Katrín Jakobsdóttir verður forsætisráðherra og Bjarni Benediktsson líklega fjármálaráðherra. Þau munu bera lykilábyrgð á hagstjórninni næstu ár ef af ríkisstjórnarsamstarfinu verður.

Sjálfstæðisflokkurinn lofaði 100 milljarða útgjaldaaukningu til innviðauppbyggingar næstu árin samhliða stórfelldum skattalækkunum. Vinstri græn lofuðu árlegri útgjaldaaukningu upp á tugi milljarða samhliða skattahækkunum sem áttu þó ekki að leggjast á almenning.

Í öllum þremur flokkunum er andstaða við að færa ferðaþjónustutengda starfsemi upp í efra þrep virðisaukaskattkerfisins, en sú aðgerð átti að skila 18 milljarða tekjum í ríkissjóð. Um leið og fallið verður frá þeirri hækkun verða eflaust áform fráfarandi stjórnar um almenna lækkun efra virðisaukaskattþrepsins dregin til baka. 

Stjórnarmyndunarviðræður standa nú yfir og eru bundnar vonir við að málefnasamningur liggi fyrir um helgina og verði afgreiddur í flokksstofnunum.

Fréttablaðið fullyrti í fyrirsögn í gær að gert væri ráð fyrir „óbreyttri stöðu í skattamálum“ og sagði ríkisstjórnina sem nú er í myndun ekki ætla að ráðast í skattahækkanir.

Viðmælendur Stundarinnar úr flokkunum kannast ekki við að þessu hafi verið slegið föstu en benda á að vissulega séu skattastefnur flokkanna ólíkar og vart muni nást samstaða um verulegar eða róttækar breytingar á sviði skattamála. 

Auðlegðarskattur ekki inni í myndinni

Ólíklegt verður að teljast að Vinstri græn samþykki skattalækkanir á komandi kjörtímabili nema þær séu sérstaklega í þágu lágtekju- og millitekjuhópa. Að sama skapi er ekki sennilegt að Sjálfstæðisflokkurinn gefi eftir í andstöðu sinni við hátekjuskatta eða aukna þrepaskiptingu, hækkun veiðigjalda og skattaálag á háar fjármagnstekjur. Þá er auðlegðarskattur ekki inni í myndinni í viðræðum flokkanna samkvæmt upplýsingum Stundarinnar.

Eins og fram kom í gær er það einkum viljinn til útgjaldaaukningar og innviðauppbyggingar og vonir um pólitískan stöðugleika, sterkan þingmeirihluta og sögulegar sættir sem gerir það að verkum að þingmenn og áhrifafólk í VG telja samstarf við Sjálfstæðisflokkinn og Framsóknarflokkinn fýsilegt.

Samkvæmt heimildum Stundarinnar er horft til þess að nýta einskiptistekjur úr viðskiptabönkunum vegna lækkunar eiginfjár þeirra til að fjárfesta í innviðum auk þess sem hægt verður á greiðslu ríkisskulda; klipið verður af afgangi ríkissjóðs og útgjöld til heilbrigðis- og menntamála stóraukin. 

Almennt má telja að mun erfiðara verði fyrir flokkana þrjá að ná saman um tekjuöflunarleiðir, skattahækkanir og aðgerðir sem draga úr þenslu heldur en að sættast á aukin ríkisútgjöld og aðrar þensluhvetjandi ráðstafanir. Að þessu leyti gæti það orðið þrautin þyngri fyrir ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins, Framsóknarflokksins og Vinstri grænna að viðhalda efnahagslegum stöðugleika á næstu árum.

Óljóst hvernig breytingarnar verða fjármagnaðar

Í nýju riti Seðlabankans um Peningamál er bent á að í aðdraganda nýafstaðinna kosninga voru settar fram hugmyndir um aukin útgjöld og lækkun skatta án þess að skýrt væri hvernig slíkar breytingar yrðu fjármagnaðar. 

„Í þessu samhengi er mikilvægt að hafa í huga að þótt hagvöxtur sé hægari en hann var í fyrra er hann enn mikill. Framleiðsluþættir eru fullnýttir og spenna því enn nokkur í þjóðarbúinu og horfur á að svo verði áfram bróðurpart spátímans. Minna aðhald í ríkisfjármálum mun því óhjákvæmilega hafa í för með sér að vextir og gengi krónunnar verða hærri en ella hefði verið,“ segir í ritinu.

„Minna aðhald í ríkisfjármálum mun því óhjákvæmilega hafa í för með sér að vextir og gengi krónunnar verða hærri en ella hefði verið“

Seðlabankinn birtir fráviksdæmi sem sýnir afleiðingar þess ef útgjöld ríkissjóðs aukast miðað við „það sem virðast vera neðri mörk þeirra kosningaloforða sem kynnt voru í aðdraganda kosninga“. 

Forsendurnar eru þessar: Miðað er við að samneysluútgjöld aukist um 16 milljarða árlega, tekjutilfærslur til heimila um 6 milljarða og fjárfestingarútgjöld ríkisins um 20 milljarða. Alls er þetta 42 milljarða útgjaldaaukning frá og með næsta fjárlagaári. Jafnframt er miðað við fallið verði frá áformum um að færa ferðaþjónustutengda starfsemi í efra þrep virðisaukaskattkerfisins árið 2019 sem samsvarar um 18 milljarða viðbótarslökun í ríkisfjármálum.

Svona telur Seðlabankinn að áhrifin yrðu af þessari slökun á aðhaldsstigi ríkisfjármálanna:

Bent er á að mikil slökun á aðhaldi ríkisfjármála hefði í för með sér aukningu heildareftirspurnar í þjóðarbúinu þótt hagvaxtaráhrifin yrðu minni en sem nemur umfangi útgjaldaaukans þar sem hluti aukinnar eftirspurnar beinist að innfluttri vöru og þjónustu. Þótt aukin fjárfesting í innviðum geti aukið langtímahagvaxtargetu þjóðarbúsins séu skammtímaáhrifin í meginatriðum þau sömu og annarra slökunaraðgerða þegar spenna er enn í þjóðarbúinu, semsagt þensluhvetjandi.

Taka verður sviðsmyndinni sem hér er dregin upp með fyrirvara, enda byggir hún á því að ríkissjóður verði rekinn með halla frá og með 2019. Slíkt myndi samræmast illa lögum um opinber fjármál og ganga gegn sjálfbærnimarkmiðum laganna. Þótt forsendum Seðlabankans sé lýst sem „neðri mörkum“ þeirra kosningaloforða sem kynnt voru er ósennilegt að slökunin á aðhaldsstigi ríkisfjármálanna verði jafn mikil og þarna er gert ráð fyrir. Sviðsmyndin skýrir hins vegar vel þær hættur sem felast í lægra aðhaldsstigi og ójafnvægis milli frumgjalda og frumtekna hins opinbera.

Ofan á efnahagslegu áhrifin bætast auðvitað áhrifin á stöðu ríkissjóðs. Það gefur auga leið að ef dregur úr frumjöfnuði ríkissjóðs munu skuldir hins opinbera lækka hægar og vaxtakostnaður hins opinbera verða meiri en ella.

Vextir Seðlabankans yrðu strax hærri 

Slaki á aðhaldsstigi ríkisfjármálanna mun þýða að herða þarf á aðhaldi peningastefnunnar. Þannig yrði dregið úr eftirspurn einkaaðila til að skapa rými fyrir aukna eftirspurn hins opinbera.

Gengi krónunnar myndi hækka sem beindi enn auknum hluta eftirspurnarinnar út úr þjóðarbúinu. Við þetta myndi viðskiptaafgangurinn við útlönd hverfa hraðar en áður leit út fyrir og vera nánast horfinn árið 2020.

„Meiri hagvöxtur en í grunnspá hefur í för með sér að meiri framleiðsluspenna byggist upp og verðbólga verður því heldur meiri. Á móti vegur hins vegar að vextir Seðlabankans verða um 1⁄2 prósentu hærri frá og með næsta ári,“ segir í riti Seðlabankans.

Kjósa
0
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.
Tengdar greinar

Ríkisfjármál

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár