Þessi grein birtist upphaflega í Stundinni fyrir meira en 6 árum.

Seldi í Sjóði 9 sama dag og neyðarlögin voru sett

Bjarni Bene­dikts­son, þá­ver­andi þing­mað­ur og nú­ver­andi for­sæt­is­ráð­herra, seldi all­ar eign­ir sín­ar í Sjóði 9 hjá Glitni dag­ana 2. til 6. októ­ber ár­ið 2008. Þann 6. októ­ber miðl­aði hann upp­lýs­ing­um um störf FME til fram­kvæmda­stjóra hjá Glitni. Ný gögn varpa ljósi á hluta­bréfa­sölu Bjarna í Glitni í fe­brú­ar 2008 en hann fund­aði með banka­stjóra Glitn­is tveim­ur dög­um áð­ur en hann byrj­aði að selja bréf­in.

Bjarni Benediktsson, núverandi forsætisráðherra og þáverandi alþingismaður, seldi fyrir rúmlega 50 milljónir króna í  Sjóði 9 hjá Glitni banka dagana 2. til 6. október árið 2008 og bjargaði þannig sjálfum sér frá því að tapa peningum í bankahruninu dagana á eftir. Bjarni hafði á þessum tíma, vegna stöðu sinnar sem þingmaður, aðgang að upplýsingum um raunverulega stöðu Glitnis vegna þátttöku sinnar á fundum um slæma stöðu bankans og fjármálakerfisins í heild. 

Sama dag, 6. október, miðlaði Bjarni upplýsingum um vinnu Fjármálaeftirlitsins í aðdraganda bankahrunsins til framkvæmdastjóra hjá Glitni, sem er vinur hans. Faðir Bjarna, Benedikt Sveinsson, og föðurbróðir hans, Einar Sveinsson, seldu einnig  í Sjóði 9 dagana fyrir bankahrunið 2008. 

Upplýsingarnar um sölu Bjarna Benediktssonar og ættingja hans á eignunum í Sjóði 9 og tölvupóstssamskiptin við starfsmann Glitnis koma fram í gögnum innan úr Glitni banka sem Stundin hefur undir höndum og vinnur úr í samstarfi við Reykjavík Media og breska blaðið Guardian.

„Ég átti á sínum tíma eitthvað í Sjóði 9 en ég man ekki eftir því að það hafi verið eitthvað sem mig rekur minni til að hafi skipt einhverju máli.“

Í viðtali í þættinum Víglínunni á Stöð 2 í desember í fyrra sagði Bjarni Benediktsson, aðspurður um hvort hann sjálfur hefði átt í Sjóði 9 og selt eitthvað sjóðnum dagana fyrir bankahrunið: „Ekkert sem skiptir máli. Ég átti á sínum tíma eitthvað í Sjóði 9 en ég man ekki eftir því að það hafi verið eitthvað sem mig rekur minni til að hafi skipt einhverju máli.“

Bjarni svaraði spurningunni því hvorki játandi né neitandi. Ljóst er hins vegar að hann seldi fyrir umræddar 50 milljónir. 

Gengið frá sölunni 2. októberGengið var frá sölu Bjarna á hlutdeildarskírteinum hans í Sjóði 9 þann 2. október í kerfum Glitnis eins og þessi mynd mynd sýnir. Salan átti hins vegar ekki að ganga í gegn fyrr en 6. október.

„Búið að losa Sj9.“

Bjarni sat neyðarfundinn   

Þegar Bjarni seldi þessar eignir sínar hafði íslenska ríkið sagst ætla að yfirtaka 75 prósenta hlut í Glitni þann 29. september 2008 með því að leggja bankanum til nýtt hlutafé upp á 84 milljarða. Margir róuðust þó við inngrip ríkisins í Glitni og í gang fóru viðræður um sameiningu fjármálafyrirtækja, til dæmis Landsbankans og Glitnis.  Óróinn og spennan í fjármálakerfinu og samfélaginu var hins vegar mikil.

Bjarni, sem á þessum tíma var meðal annars í efnahags- og skattanefnd, sat fundi á þessum tíma þar sem erfið staða Glitnis var rædd. Hann var einn þriggja þingmanna Sjálfstæðisflokksins sem sat neyðarfund um framtíð Glitnis í höfuðstöðvum Stoða, stærsta hluthafa Glitnis, nóttina áður en íslenska ríkið fékk bankann í fangið þann 29. september 2008. Frá þessari aðkomu Bjarna var greint í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Á fundinum kom fram að staða Glitnis væri „gríðarlega alvarleg“ eins og haft var eftir einum fundarmanni í skýrslunni. 

Seldi fjórum dögum eftir fundinn

Bjarni útskýrði veru sína á neyðarfundinum með þeim orðum að Þorsteinn Már Baldvinsson, stjórnarformaður Glitnis, hefði beðið hann að sitja fundinn: „Stjórnarformaður Glitnis [Þorsteinn Már Baldvinsson] óskaði eftir því við Kristján Þór Júlíusson að hann, ég og Illugi kæmum til fundar við hann í þeim tilgangi að útskýra hvað væri að gerast í bankanum og samskiptum hans við stjórnvöld. Við fórum þrír á fundinn seint á sunnudagskvöldið, ég hygg að það hafi verið milli kl. 11 og 12, og þar gerði Þorsteinn Már grein fyrir sjónarmiðum bankans vegna þeirrar alvarlegu stöðu sem var uppi. Þessi fundur stóð ekki lengi en á honum voru einnig Lárus Welding og lögmaður bankans. Megintilefni fundarins var ósk bankans um að fá að upplýsa okkur um sína hlið mála. Við þeirri beiðni var sjálfsagt að verða.“

Bjarni sat fundinn sem þingmaður og hafði í krafti þeirrar stöðu sinnar aðgang að upplýsingum um stöðu Glitnis beint innan úr bankanum sjálfum. Staða Glitnis á þessum tíma var einföld, svo vitnað sé í tölvupóst sem Össur Skarphéðinsson sendi til Þórunnar Sveinbjarnardóttur umhverfisráðherra aðfaranótt 29. september: „Kostirnir voru að láta Glitni fara í þrot eða „beila“ hann út. 

Fjórum dögum eftir að hafa setið þennan neyðarfund um stöðu Glitnis 28. september, þann 2. október 2008, byrjaði Bjarni Benediktsson að selja hlutdeildarskírteini sín í Sjóði 9 hjá Glitni. 

Vitneskja á vitorði fárra

Á þessum tíma lá þó ekki fyrir að  sett yrðu neyðarlög á Íslandi og að allt bankakerfið myndi hrynja til grunna. Raunar hafði það komið mörgum í opna skjöldu þegar Geir H. Haarde tilkynnti á blaðamannafundi, rétt fyrir miðnætti þann 5. október, að ekki væri talin þörf á sérstökum aðgerðapakka vegna ástands fjármálakerfisins. Líkt og loforð ríkisins um hlutafé fyrir Glitni höfðu gert nokkrum dögum áður róuðu orð Geirs marga.

Vinna hafði hins vegar staðið yfir í Fjármálaeftirlitinu og viðskiptaráðuneytinu við gerð frumvarpsins til neyðarlaganna í nokkra daga þegar þetta var og voru utanaðkomandi lögmenn meðal annars kallaðir til þeirrar vinnu, eins og fram kemur í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. 

Þegar markaðir voru opnaðir mánudaginn 6. október var það því aðeins á vitorði þröngs hóps úr stjórnkerfinu og viðskiptalífinu hver stærðargráða vandi íslenska fjármálakerfisins var. Í hádeginu 6. október var sagt frá því í fréttum að Fjármálaeftirlitið hefði stöðvað viðskipti með hlutabréf viðskiptabankanna þriggja og annarra fjármálafyrirtækja. 

Klukkan 16, eftir lokun markaða þann 6. október, hélt Geir H. Haarde forsætisráðherra ræðu sína þar sem hann bað Guð að blessa Ísland og dagana á eftir yfirtók Fjármálaeftirlitið Glitni og Landsbankann, Glitni þann 7. október og Kaupþing tveimur dögum síðar. Bankahrunið á Íslandi var skollið á.  

Gekk frá sölunni 2. október

Síðasta sala Bjarna á eignum sínum í Sjóði 9 átti sér því stað sama dag og Geir H. Haarde hélt fræga ræðu sína og neyðarlögin voru sett. Þennan dag seldi Bjarni hlutdeildarskírteini í Sjóði 9 fyrir 21 milljón króna en þetta var síðasti dagurinn þar sem opið var fyrir viðskipti með eignir í Sjóði 9. Bjarni hafði reyndar ekki mikinn tíma til þess að selja þennan dag þar sem sjóðnum var lokað klukkan 11.29 en þá ákvað Fjármálaeftirlitið að loka fyrir öll viðskipti með hlutabréf íslensku viðskiptabankanna þriggja. Bjarni hafði því einungis tímann frá opnun markaða þann daginn og fram til klukkan 11.29 til að selja eignirnar í Sjóði 9. 

Samkvæmt tölvupóstum og viðskiptakvittunum frá Glitni gekk Bjarni frá sölunni í Sjóði 9 fimmtudaginn 2. október en tekið var fram að hún ætti ekki að ganga í gegn fyrr en mánudaginn 6.  

Þann 2. október 2008, klukkan 20.49, sendi starfsmaður í einkabankaþjónustu Glitnis tölvupóst til þeirrar deildar Glitnis sem sá um viðskipti með Sjóð 9. Efni tölvupóstsins var: „Losun á Bjarna Ben 7829 (ekki fyrr en 6.10.)“ Í tölvupóstinum stóð.  Hæ. Fæ ég leyfi á að selja sj 9 21.000.000 og kaupa í sj 5 og 7 í staðin.“ Þetta var samþykkt morguninn eftir, föstudaginn þriðja, og fékk starfsmaður einkabankaþjónstunnar eftirfarandi tölvupóst frá starfsmanni í skjaladeild Glitnis: „Búið að losa Sj9.“ 

Áður hafði Bjarni selt hlutdeildarskírteini í Sjóði 9 í þrennum viðskiptum fyrir tæplega 30 milljónir króna þann 2. október.  Auk þessa hafði Bjarni selt eignir upp á 30 milljónir króna í skuldabréfasjóðnum Sjóði 1 hjá Glitni þann 24. september 2008 og keypti hann norskar krónur fyrir upphæðina. Þessar 30 milljónir setti Bjarni í norskar krónur. 

Einn af stjórnarmönnunum í Sjóði 9, Illugi Gunnarsson, þáverandi þingmaður Sjálfstæðisflokksins, var einn nánasti samstarfsmaður Bjarna og skrifuðu þeir tveir meðal annars fræga grein í Morgunblaðið saman í febrúar 2008. Í greininni fjölluðu þeir um stöðuna í íslenska bankakerfinu.  

„Bjarni ben segir að … fme séu á skrilljón að vinna í þessu núna … einhver að tala við Jónas?“ 

Miðlaði upplýsingum um störf FME til Glitnis

Klukkan 14.15 þann 6. október sendi Einar Örn Ólafsson, framkvæmdastjóri fjárfestingarbankasviðs Glitnis og vinur Bjarna Benediktssonar, eftirfarandi tölvupóst á Atla Rafn Björnsson, aðstoðarmann Lárusar Weldings, bankastjóra Glitnis: „Bjarni ben segir að … fme séu á skrilljón að vinna í þessu núna … einhver að tala við Jónas?“ Með Jónasi vísaði Einar Örn til Jónasar Fr. Jónssonar, forstjóra FME. 

Ekki kemur fram um hvað nákvæmlega Einar Örn er að tala í tölvupóstinum. Þennan dag var Fjármálaeftirlitið hins vegar að taka ákvörðun um hver framtíð Glitnis yrði og hvort raunhæft væri fyrir ríkið að efna hlutafjárloforðið frá 29. september eða ekki. Ætlaði ríkið að „beila“ bankana út eða ekki, svo vitnað sé í orð Össurar Skarphéðinsssonar um stöðuna.

Stjórn Glitnis sendi Fjármálaeftirlitinu bréf þennan dag með þeirri beiðni að hluthafafundur Glitnis yrði fluttur til þriðjudagsins 7. október 2008 vegna þess að Glitni vantaði fjármagn til að greiða lán þann daginn og þurfti því fjármunina frá íslenska ríkinu.

Í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis er fjallað um þetta og segir að svar fjármálaráðuneytisins við erindi stjórnar Glitnis hafi borist klukkan 23 þann 6. október og að það hafi verið á þá leið að ekki væri hægt að svara spurningunni um hluthafafundinn þann daginn. Í rannsóknarskýrslunni kemur jafnframt fram að lögmenn sem unnu greinargerð um forsendubrestinn í hlutafjárloforði ríkisins út af slæmri stöðu Glitnis hafi einnig unnið að bréfi þar sem hlutafjárloforðinu var rift og að það hafi verið dagsett þann 7. október. Glitnir var svo yfirtekinn af Fjármálaeftirlitinu þriðjudaginn 7. október eftir setningu neyðarlaganna.

Mikið gekk því á þennan dag sem Bjarni og Einar Örn áttu í samskiptum um vinnu og aðgerðir Fjármálaeftirlitsins. Hlutafjáraukning íslenska ríkisins í Glitni var síðasta mögulega hálmstráið fyrir bankann til að forðast það að hann yrði yfirtekinn af Fjármálaeftirlitinu að öllu leyti með tilheyrandi tapi fyrir hluthafa og viðskiptavini Glitnis í einhverjum tilfellum. Upplýsingar um stöðu málsins hjá FME gátu hins vegar verið gulls ígildi á þessum tíma þar sem einungis tveir kostir voru í stöðunni fyrir Glitni. Ekkert var heldur ljóst um það á þessum tíma hversu mikið tap eigenda hlutdeildarskírteina í Sjóði 9 yrði.

„Allir skynsamir fjárfestar hefðu verið að íhuga að selja á þessum tíma.“

Tveir fundir og tvær sölurBjarni Benediktsson seldi hlutabréf sín í Glitni tveimur dögum eftir að hafa fundað með bankastjóra Glitnis um stöðu bankakerfisins í febrúar 2008. 2. október seldi hann eignir sínar í Sjóði 9 eftir að hafa setið neyðarfund um sölu Glitnis fjórum dögum áður.

Engar innherja­upplýsingar segir Bjarni

Bjarni Benediktsson segir í samtali við blaðamann The Guardian, sem vinnur að málinu með Stundinni, að hann hafi selt eignir í Sjóði 9 í aðdragana bankahrunsins. Hann segist ekki hafa búið yfir neinum innherjaupplýsingum um neyðarlögin á þessum tíma og að sölur  í Sjóði 9 hafi verið rannsakaðar og ekkert hafi komið út úr þeim rannsóknum. Svo segir Bjarni: „Allir skynsamir fjárfestar hefðu verið að íhuga að selja á þessum tíma.“ Bjarni vill ekki gefa nákvæmar upplýsingar um tímasetningar og upphæðir í málinu.

Aðspurður um samtalið við Einar Örn Ólafsson segir hann „Ég hafði enga vitneskju um neyðarlögin. Ég bjó ekki yfir neinum trúnaðarupplýsingum. Það getur verið að ég hafi hringt í hann en ég man ekki eftir því. En, og það sem er mikilvægast, þá hafði ég engar trúnaðarupplýsingar fram að færa á þessum tíma.“ 

Bjarni segir jafnframt aðspurður að hann skilji af hverju fólki kunni að þykja viðskiptaumsvif hans á árunum fyrir hrunið að vera einkennileg og óviðeigandi. „Skömmu eftir þessa atburði sagði ég að það væri ekki viðeigandi fyrir mig að halda áfram að starfa í stjórnmálum og viðskiptum á sama tíma. Ég seldi öll mín hlutabréf, hætti starfi í stjórnum og einbeitti mér að mínum pólitíska ferli. Þetta hefur allt verið rannsakað og ekki einu sinni hefur verið haft samband við mig út af þessu.“

Stundin gerði tilraunir til að ná í Bjarna Benediktsson í gærkvöldi til að spyrja hann frekari spurninga um málið en án árangurs. Beiðni blaðsins um samtal við Bjarna hefur ekki verið svarað.

Faðir Bjarna og föðurbróðir seldu líka 

Faðir Bjarna, Benedikt Sveinsson, og föðurbróðir hans seldu líka eignir sínar í Sjóði 9 í aðdraganda  bankahrunsins á Íslandi. Benedikt seldi eignir í Sjóði 9 fyrir tæplega 260 milljónir króna þann 27. ágúst 2008 í gegnum félag sitt Hafsilfur eignarhaldsfélag ehf. Einar Sveinsson seldi í Sjóði 9 sama dag og Bjarni, þann 6. október fyrir rúmlega 1020 milljónir króna í tveimur færslum. Þetta gerði Einar í gegnum einkahlutafélag sitt Hrómund ehf. Þá kom fram í Fréttablaðinu í desember í fyrra að Benedikt Sveinsson hefði innleyst eignir í Sjóði 9 og millifært 500 milljónir af reikningi sínum í Glitni til Flórída þann 26. september 2008.

Þremenningarnir björguðu því talsverðum fjármunum úr Sjóði 9 á þessum tíma þegar á harðbakkann var farið að slá í íslenska bankakerfinu. Sjóðsfélagar í Sjóði 9 fengu á endanum, í lok október 2008, greitt út 85,12 prósent af þeim innistæðum sem þeir áttu í sjóðnum þann 6. október. En tekið skal fram að þetta var allsendis óljóst á þeim tíma sem Fjármálaeftirlitið velti fyrir sér næstu skrefum í Glitnismálinu þann 6. október þar sem sem Sjóður 9 var áhættufjárfestingasjóður. 

Hefðu fengið minna til baka

Miðað við endanlegar endurheimtur sjóðsfélaga í Sjóði 9 hefði Bjarni Benediktsson fengið greiddar rúmlega 42,8 milljónir króna vegna eignar sinnar úr Sjóði 9 þann 30. október 2008 en í stað þess seldi hann dagana fyrir bankahrunið fyrir 50,3 milljónir króna. Munurinn nemur 7,5 milljónum króna. 

Benedikt Sveinsson, eða eignarhaldsfélag hans, Hafsilfur ehf., hefði sömuleiðis fengið rúmlega 136 milljónir króna út úr Sjóði 9 í lok október ef hann hefði ekki selt hlutdeildarskírteini sín í lok ágúst 2008. Í staðinn fékk hann rúmlega 160 milljónir króna og er munurinn 24 milljónir króna. Eignarhaldsfélag Einars Sveinssonar hefði fengið rúmlega 871 milljón út úr Sjóði 9 í lok október en í staðinn fékk það ríflega 1023 milljónir króna. Munurinn þar á milli eru 152 milljónir króna. 

Heildarupphæðin sem þeir þrír forðuðu sér frá því að tapa með sölu hlutdeildarskírteinanna í Sjóði 9 nemur því samtals rúmlega 183 milljónum króna. 

Átti í samskiptum við stjórnendur sjóðanna

Í gögnunum er að finna tölvupósta frá 9. október 2008, þremur dögum eftir að Bjarni seldi í Sjóði 9, þar sem Bjarni Benediktsson skiptist á skoðunum við framkvæmdastjóra og stjórnarformann Íslandssjóða sem ráku Sjóð 9, Öglu Hendriksdóttur og Eggert Þór Kristófersson, um „hugmynd að verndun sparifé almennings“.  Agla Hendriksdóttir var hvatamaður að samskiptunum og sendi tölvupóst á Bjarna, Eggert og einnig Illuga Gunnarsson, sem sat í stjórn Glitnissjóða. Hún vildi funda með þeim um málið. „Ég hef hug á að eiga fund með ykkur í dag, ásamt Eggerti Þór Kristóferssyni stjfm. Glitni Sjóða, út af tveimur hugmyndum, sem byggja á því að vernda sparifé almennings og lífeyrissjóða.“

Bjarni svaraði tölvupósti Öglu, spurði hvenær fundurinn væri og sendi drög að frumvarpi um fjárveitingar úr ríkissjóði vegna bankarhrunsins með erindi sínu: „Að neðan er hugmynd að frumvarpi sem unnið hefur verið af nokkrum þingmönnum með lögmönnum. Við höfum reynt að fá það í frekari vinnslu í gegnum ráðuneyti og vonandi hreyfist málið eitthvað en það gerist því miður hægt við þessar aðstæður.“ 

Á þeim tíma sem þetta var rætt var Bjarni sjálfur búinn að vernda sitt sparifé með því að selja eignir sínar í Sjóði 9. 

Bjarni sagði alla hafa getað selt

Þegar Bjarni var spurður að því í Víglínunni í fyrra hvort allir hafi nokkuð getað selt í Sjóði 9 dagana fyrir bankahrunið sagði hann: „Sjóður 9 var örugglega opinn öllum þar til hann var lokaður öllum. Ef ég man rétt þá var Sjóður 9 lokaður í tæpan mánuð en opnaði svo aftur. En þá höfðu réttindin í honum líka skerst.“ 

Tæknilega séð er þetta rétt hjá Bjarna. Munurinn á stöðu sjóðsfélaga í Sjóði 9 var hins vegar í einhverjum tilfellum að sumir þerra höfðu miklu betri aðgang að upplýsingum um stöðu Glitnis en aðrir. Fjölmargir töpuðu því háum fjárhæðum á fjárfestingum sínum í Sjóði 9. 

Átti 165 milljónir í Sjóði 9

Þessi viðskipti Bjarna og náinna ættingja hans með eignir í Sjóði 9 í aðdraganda bankahrunsins bætast við viðskipti Bjarna og föður hans með hlutabréf í Glitni í febrúar árið 2008. 

Sagt var frá þessum viðskiptum Bjarna og Benedikts í DV í mars 2011. Í viðtali við DV vildi Bjarni ekki svara því af hverju hann hefði selt bréfin á þessum tíma: „Ég mun ekki tjá mig frekar við þig um mín persónulegu fjármál.“

Gögnin sem Stundin hefur undir höndum varpa frekara ljósi á þessi viðskipti því þar kemur fram að Bjarni hafi selt bréf sín í Glitni dagana 21. til 27 febrúar. Þá seldi Bjarni hlutabréf í Glitni fyrir rúmlega 119 milljónir króna  í fimm viðskiptum og hélt eftir bréfum sem voru rúmlega 3 milljóna króna virði samkvæmt viðskiptayfirliti hans.  Í lok janúarmánaðar voru hlutabréf Bjarna tæplega 152 milljóna króna virði.

Í gögnunum kemur fram að Bjarni hafi notað hluta söluhagnaðar hlutabréfanna í Glitni til að kaupa hlutdeildarskírteini í Sjóði 9 dagana 26. og 28. febrúar fyrir tæplega 90 milljónir króna. Í mars þetta ár átti Bjarni 165 milljónir króna í Sjóði 9 og var stofninn í eignasafni hans í bankanum en þá var hann með 213 milljónir króna í eignastýringu þar.

Fundaði með bankastjóranum tveimur dögum áður

Dagsetningarnar á sölu Bjarna á hlutabréfum sínum í Glitni eru áhugaverðar því tveimur dögum áður en hann byrjaði að selja hlutabréf sín, þann 19. febrúar,  funduðu hann og Illugi Gunnarsson með Lárusi Welding, bankastjóra Glitnis.

Í gögnunum er að finna tölvupósta um þennan fund þar sem upplýsingafulltrúi Glitnis, Már Másson, sendir Lárusi eftirfarandi tölvupóst: „Illugi og Bjarni vilja gjarnan hitta thig a stuttum fundi. A eg ekki ad bidja Aslaugu ad finna tima a thridjudag? Held thad væri gott ef Alexander væri med a fundinum.“ Lárus vildi upphaflega ekki hitta Illuga og Bjarna þann dag, þriðjudaginn 19. febrúar, en Már vildi það endilega: „held þó að það væri gott ef þú getur gefið þér 45min í að hitta þingmennina á þriðjudaginn.“ Lárus samþykkti þetta.  

Byrjaður að selja þegar greinin birtist

Í gögnunum kemur ekki fram hvað fór fram á fundi þeirra Lárusar og Bjarna og Illuga. Ljóst er hins vegar að Bjarni fór frá því að eiga rúmlega 150 milljóna króna hlut í Glitni í byrjun febrúar í að eiga rúmlega 3 milljóna króna hlut í bankanum eftir að hann fundaði með bankastjóranum.  

Þá er líka ljóst að á sama tíma og Bjarni og Illugi skrifuðu grein sína frægu um erfiða stöðu íslenska bankakerfisins þann 26. febrúar var Bjarni að ljúka við sölu hlutabréfa sinna í Glitni – síðasta salan fór fram daginn eftir, fyrir 35,8 milljónir króna. Umrædd grein birtist á miðopnu Morgunblaðsins þriðjudaginn 26. febrúar, einni viku eftir fund Bjarna með Lárusi. Greinin hlýtur að endurspegla efni fundarins að einhverju leyti þegar erfiðri stöðu bankakerfisins er lýst. 

Í greininni sagði meðal annars: „Sú hætta steðjar nú að hag­kerf­inu að ís­lensku bönk­un­um gangi illa að afla þess fjár­magns sem þeir þurfa vegna starf­semi sinn­ar á næsta ári. Ef ekk­ert breyt­ist til hins betra á fjár­magns­markaði og ekki tekst að auka traust er­lendra markaðsaðila verður fjár­mögn­un bank­anna óheyri­lega dýr eða í versta falli ómögu­leg.“

Þegar þessi orð voru skrifuð var Bjarni sjálfur byrjaður að verja sig gegn erfiðri stöðu Glitnis með því að selja hlutabréfin sín í bankanum. Bjarni og ættingjar vörðu sig svo enn frekar fyrir tapi af bankahruninu með sölu eigna sinna í Sjóði 9 í Glitni í aðdraganda bankahrunsins í október 2008, fjórum dögum eftir að Bjarni hafði setið á fundi sem þingmaður um afar erfiða skuldastöðu Glitnis.  

Bjarni ekki skoðaður

Samkvæmt gögnum frá slitastjórn Glitnis sem Stundin hefur undir höndum voru einungis viðskipti Benedikt Sveinssonar og Einars Sveinssonar í Sjóði 9 í Glitni skoðuð sem meint innherjaviðskipti eða gjafagerningar. Í gögnunum kemur ekkert fram um að sambærileg skoðun hafi farið fram á mögulegum innherjaviðskiptum Bjarna Benediktssonar hjá slitatjórn Glitnis á þessum tíma. Stundin hefur hins vegar ekki heimildir fyrir hvort eftirlitsaðilar eða ákæruvaldið hafi séð tölvupóstinn frá Einari Erni Ólafssyni til Atla Rafns Björnssonar þann 6. október 2008.

Fjármálaeftirlitið vann lista með yfirliti yfir þá sem seldu eignir sínar í Sjóði 9 í aðdraganda bankahrunsins og sendi kæru vegna þess til sérstaks saksóknara í mars 2009. Í kærubréfinu frá FME sagði meðal annars:  „Fjármálaeftirlitið telur að uppi sé rökstuddur grunur um að tilteknir aðilar hafi brotið gegn  ákvæðum XIII kafla laga nr. 108/2007 um meðferð innherjaupplýsinga og viðskipti innherja. Það er mat Fjármálaeftirlitsins að meint brot falli undir að vera meiriháttar í skilningi 1. mgr.
  148. gr. laganna. Nauðsynlegt er að upplýsa hverjir bjuggu yfir innherjaupplýsingum á þeim tíma sem um ræðir. Fjármálaeftirlitið leggur áherslu á að mál þetta hljóti skjóta meðferð hjá sérstökum saksóknara þar sem um mikilvæga almannahagsmuni er að ræða.“ Ekki er vitað hvort nafn Bjarna Benediktssonar var í kærubréfinu.

Erfið sönnunarbyrði

Í fréttatilkynningu Fjármálaeftirlitsins kom fram að stofnunin hafi fengið bréf frá sérstökum saksóknara þremur árum síðar, í mars 2012, um að rannsókn málsins hafi verið hætt. Hluti vandans kann að hafa falist í erfiðri sönnunarbyrði í málum eins og sölum í Sjóði 9. Eftir 24. september 2008 voru vandamál Glitnis orðin opinber og sá fjármögnunarvandi sem blasti við bankanum var fréttaefni um tveggja vikna skeið fram að setningu neyðarlaganna þann 6. október 2008. 

Ólafur Hauksson héraðssaksóknari ræddi vandann við innherjamál til dæmis í viðtali við Stundina og sagði þá að erfitt væri að sanna að lögbrot hefðu átt sér stað: „Þau eru erfið, þessi innherjamál. Það verður að segjast alveg eins og er. Það er erfið sönnunarstaða í þeim. Það þarf að sýna fram á einhverja tengingu í þessu. Við kynntum okkur aðeins tiltekin mál sem komu upp í Svíþjóð. Þá var einmitt ákært í töluvert mörgum innherjabrotamálum þar sem menn sögðu: „Aðstaðan er þessi: Þessi maður seldi, ergo, þetta hlýtur að vera innherjamál.“ Það var sýknað í þessu öllu saman. Það voru milli eitt og tvö hundruð mál.“

Fjölmargir aðilar sem seldu eignir sínar í Glitni, aðilar sem voru nátengdir Glitni og umræðunni um erfiða stöðu bankans um haustið 2008, gátu þannig selt þessar eignir án þess að það hefði nein eftirmál. 

Tölublað Stundarinnar má lesa hér.


Bjarni ræddi við bankastjórann um lög um FME

Áralöng samskipti stjórnmálamannsins og fjárfestisins Bjarna Benediktssonar við Glitni.

Bjarni Ármannsson

Upplýsingarnar í gögnunum um skoðanaskipti og samskipti Bjarna Benediktssonar við Glitni og starfsmenn bankans eru miklar og ítarlegar. Hann skiptist á tölvupóstum við stjórnendur Íslandssjóða sem stjórnmálamaður; hann fundar með bankastjóra Glitnis sem stjórnmálamaður; skiptist á skoðunum við Inga Rafnar Júlíusson sem stjórnmálamaður; ræðir við Einar Örn Ólafsson um starfsemi FME í hruninu 2008; ræðir um fjárfestingar sínar og ættingja sinna við Bjarna Markússon og aðra í einkabankaþjónustu Glitnis; fær tölvupósta frá Hermanni Guðmundssyni, forstjóra N1, sem hann sendir til bankastjóra Glitnis með viðskiptahugmyndum vegna olíufélagsins og fleira og fleira í þessum dúr. Bjarni átti því í samskiptum við Glitni bæði sem fjárfestir fyrir sína eigin hönd, fjárfestir fyrir hönd þeirra fyrirtækja sem hann stýrði, BNT og N1, og líka sem stjórnmálamaður. 

Þessi samskipti ná mörg ár aftur í tímann og er meðal annars að finna tölvupóstssamskipti milli Bjarna og Bjarna Ármannssonar, þáverandi bankastjóra Glitnis, frá árinu 2005 þar sem þeir ræða saman um upplýsingaskipti um Fjármálaeftirlitið, FME. Bjarni Benediktsson biður Bjarna Ármannsson um athugasemdir og hugmyndir við lagafrumvarp hvernig Fjármálaeftirlitið geti bætt upplýsingagjöf sína. Þingmaður var sem sagt að biðja bankastjóra í banka sem lýtur eftirliti FME um athugasemdir um lagafrumvarp um FME. Tölvupóstarnir hljómuðu svona:

From: Bjarni Benediktsson [mailto:bjarniben@althingi.is]
Sent: 31. janúar 2005 16:00
To: 500 BSTJ Bjarni Ármannsson
Subject: Uppgjör ofl

„Sæll,
Takk fyrir síðast, gaman að þið skilduð koma í Garðabæinn. Við sem að þessu stóðum vorum mjög ánægðir með kvöldið.

Aðalerindið er hins vegar að óska þér og þínu fólki til hamingju með glæsilegan árangur á síðasta ári. Framúrskarandi niðurstaða.

Nú er að koma fram nýtt frumvarp til breytinga á lögum um verðbréfaviðskipti. Þar verður m.a. komið inn á þau atriði sem við ræddum varðandi upplýsingagjöfina hjá FME. Ekki hika við að senda á mig athugasemdir eða ábendingar varðandi það mál þegar fram í sækir eða önnur sem snerta þetta svið.

Bestu kv.
Bjarni“

From: "500 BSTJ Bjarni Ármannsson"
To: Bjarni Benediktsson
Subject: =?utf-8?B?UkU6IFVwcGdqw7ZyIG9mbA==?=
Date: Sat Feb 05 22:01:05 2005 GMT

„Sælir og takk fyrir síðast sömuleiðis. Þetta var frábært þorrablót.

Og takk fyrir hamingjuóskir varðandi rekstrarárangur. Þetta er sterkur hópur í ´bankanum og Sjóvá og við alltaf að gera breytingar til að styrkja stöðuna. Ég er nokkuð bjartsýnn á framhaldið. Já, það væri gott að geta rennt á þig hugleiðingum varðandi verðbréfaviðskiptafrumvarpið og annað sem þessum málum tengist.

Bestu kveðjur,
Bjarni“


Tímalína

Viðskipti Bjarna ­og ættingja hans í Glitni í aðdraganda hrunsins

Bjarni Benediktsson, Benedikt Sveinsson og Einar Sveinsson seldu allir í Sjóði 9.

8. febrúar
Bjarni Benediktsson tekur þátt í fléttunni sem kennd er við Vafning

12. febrúar
Benedikt Sveinsson selur hlutabréf í Glitni fyrir rúmar 49 milljónir

15. febrúar
Benedikt Sveinsson selur hlutabréf í Glitni fyrir 216 milljónir

19. febrúar
Bjarni fundar með Lárusi Welding ásamt Illuga Gunnarssyni

21. febrúar
Bjarni byrjar að selja hlutabréf sín í Glitni

22. febrúar
Bjarni selur bréf í Glitni

25. febrúar
·  Bjarni selur bréf í Glitni
·  Benedikt Sveinsson selur eignir í Sjóði 9 fyrir 432 milljónir

26. febrúar
Bjarni skrifar grein í Morgunblaðið með Illuga Gunnarssyni um erfiðleika í íslenska bankakerfinu

27. febrúar
Síðasta sala Bjarna Benediktssonar í Glitni - 35,8 milljónir

23. september
Nordea hættir við að kaupa eignir Glitnis í Noregi og Bayerische Landesbank hafnar framlengingu tveggja lána Glitnis upp á 150 milljónir evra. Glitnir þarf að endurgreiða 600 milljóna króna lán um miðjan október.

24. september
· Þorsteinn Már Baldvinsson, stjórnarformaður Glitnis, óskar eftir fundi með Davíð Oddssyni seðlabankastjóra til að óska eftir láni fyrir Glitni.
· Bjarni leysir út 30 milljónir í Sjóði 1.

26. september
Benedikt Sveinsson millifærir 500 milljónir frá reikningi sínum í Glitni til Flórída.

27. september
Benedikt Sveinsson innleysir 160 milljónir úr Sjóði 9.

28. september 
Bjarni situr neyðarfund í höfuðstöðvum Stoða þar sem rætt er um stöðu Glitnis.

29. september
Íslenska ríkið segist ætla að leggja Glitni til hlutafé til að bjarga bankanum frá hruni. Vandræði Glitnis opinber.

2. október
·  Bjarni selur fyrir tæpar 30 milljónir í Sjóði 9.
·  Bjarni fyrirskipar sölu úr Sjóði 9 fyrir 21 milljón þann 6. október.

5. október 
Geir H. Haarde heldur blaðamannafund þar sem hann segir ekki tilefni til að ríkið komi með sérstakan aðgerðapakka út af stöðu bankakerfisins.

6. október
·  Bjarni selur fyrir 21 milljón í Sjóði 9.
·  Bjarni á í samskiptum við Einar Örn Ólafsson í Glitni um vinnu FME.
·  Einar Sveinsson selur fyrir 1023 milljónir í Sjóði 9.
·  Geir H. Haarde mælir fyrir neyðarlögunum vegna bankahrunsins og Alþingi staðfestir þau.

7. október
·  Fjármálaeftirlitið yfirtekur Glitni og hlutafé hluthafa bankans verður verðlaust.
·  Fjármálaeftirlitið yfirtekur Landsbanka Íslands.
·  Fjármálaeftirlitið yfirtekur Kaupþing.

31. október 
Eigendur hlutdeildarskírteina í Sjóði 9 fá greidd 85,12 prósent af innistæðum sínum á lokadegi viðskipta með sjóðinn þann 6. október.


Hvað var Sjóður 9?

Illugi Gunnarsson, vinur og samflokksmaður Bjarna, var stjórnarmaður í Sjóði 9.

Sjóður 9, peningamarkaðssjóður var fjárfestingarsjóður í stýringu Glitnis. Sjóðurinn fjárfesti aðallega í íslenskum skuldabréfum. Innan Sjóðs 9 voru svo aðrar deildir sem fjárfestu í erlendum eignum og gjaldmiðlum.

Árið 2005 voru fjárfestingar sjóðsins aðallega í ríkistryggðum verðbréfum og verðbréfum banka og sparisjóða. Þetta byrjaði svo að breytast verulega árið 2006 þegar sjóðurinn byrjaði að fjárfesta mikið í verðbréfum, ekki síst skuldabréfum fyrirtækja sem tengdust Glitni. Í lok árs 2007 voru verðbréfaeignir Sjóðs 9 tæpir 82 milljarðar króna og hafði fimmfaldast á einu ári. Í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis er fjallað um það að árið 2007 hafi 73 prósent eigna sjóðsins verið bundin í verðbréfum félaga sem tengdust Glitni og sem voru eigendur bankans. Í skýrslunni er þessi staðreynd sögð „sláandi“.Þetta voru félög eins og Baugur. Hagar, Landic Property, FL Group og Gnúpur. Svo segir í skýrslunni: „Í sjóðnum varð því gríðarleg samþjöppun eigna í félögum sem voru augljóslega nátengd hvort sem er rekstrarlega og/eða gegnum eignarhald. Það mátti því ætla að það hefði marktæk áhrif á greiðslugetu félaganna ef kæmi til gjaldþrots eins aðila.“

Vegna eignasamsetningarinnar í Sjóði 9 var ljóst að fall Glitnis banka myndi koma sér afskaplega illa fyrir sjóðinn þar sem tengslin á milli fjárfestinga sjóðsins og eigenda Glitnis voru svo mikil. Sjóður 9 hefði ekki getað staðið af sér fall Glitnis og hluthafa hans vegna þess að sjóðurinn stóð og féll með bankanum. Öðru máli hefði gegnt til dæmis ef 73 prósent eigna Sjóðs 9 hefði til dæmis verið í ríkisskuldabréfum.

Sá sem hafði upplýsingar um að Glitnir myndi ekki fá hlutafjárframlag frá ríkinu í októberbyrjun 2008 gat því nánast gefið sér að Glitnir yrði yfirtekinn af ríkinu og hlutafé bankans yrði skrúfað niður í 0 með tilheyrandi tapi fyrir hluthafa bankans og verðfalli á öllum eignum sem tengdust þeim, meðal annars skuldabréfunum sem mynduðu Sjóð 9 að stóru leyti.

Eftir bankahrunið var óljóst hversu miklar endurheimtur sjóðsfélaga í Sjóði 9 yrðu. Lokað var fyrir viðskipti með hlutdeildarskírteini í sjóðnum frá 29. september til 1. október vegna erfiðleika Glitnis. Eignir sjóðsins rýrnuðu þá um 7 prósent. Svo var opnað aftur á viðskipti með sjóðinn þann 1. október og þar til 6. október en bæði Bjarni og Einar seldu allar eignir sínar í sjóðnum þá. Í lok október fengu sjóðsfélagar 85,12 prósent greiðslu upp í innistæður sínar í sjóðnum frá Glitni miðað við verðmæti eigna þeirra við lokun sjóðsins þann 6. október.

Illugi Gunnarsson, þáverandi þingmaður og náinn samstarfsmaður Bjarna Benediktssonar, var stjórnarmaður í Sjóði 9 og vék hann meðal annars af þingi tímabundið kjörtímabilið 2009 til 2013 vegna rannsóknar á Sjóði 9. Sagði Illugi meðal annars að seta hans í stjórninni hefði skaðað sig pólitískt: „Engum vafa er undirorpið að stjórnarseta mín í peningamarkaðssjóðum Glitnis hefur skaðað mig pólitískt.“ 


Einar Örn vildi að Bjarni fengi ferðapunktana

Bjarni Benediktsson, Einar Örn Ólafsson og Fjármálaeftirlitið.

Einar Örn Ólafsson
Einar Örn Ólafsson

Bjarni Benediktsson átti í talsverðum samskiptum við Einar Örn Ólafsson, framkvæmdastjóra fyrirtækjasviðs Glitnis, samkvæmt gögnunum og var það Einar Örn sem miðlaði upplýsingunum um samtalið við Bjarna um vinnu FME til bankastjóra Glitnis þann 6. október 2008. Einar Örn er vinur Bjarna til margra ára og var stuðningsmannafélag Bjarna fyrir þingkosningarnar 2007 skráð á heimili Einars Arnar við Einimel í Reykjavík.

Einar Örn og Bjarni skipulögðu til dæmis utanlandsferðir saman í boði Glitnis. Í eitt skiptið Í einum tölvupósti biður Einar Örn samstarfskonu sína hjá Glitni að panta flug og hótel til London fyrir sig, Bjarna og Hermann Guðmundsson, forstjóra N1, í febrúar árið 2006:

„Sæl,
geturðu bókað mig og tvo félaga til London:

Út 20. feb, seinni vél
Heim 24. feb, fyrri vél

Ferðafélagar:
Bjarni Benediktson - 260170-5549
Hermann Sævar Guðmundsson - 200162-4049
(muna að gefa þeim ferðapunkta eins og okkur hinum)

Og Bjarni Jóh kemur líka með, veit ekki hvenær hann vill fljúga út.

Við erum að fara á völlinn eins og svo margir, en höfum reyndar annað erindi líka. Hvar gistir allt liðið? Sennilega ágætt að vera bara á sama stað og þeir, eða hvað BJ? Viltu frekar vera á Sanderson?

Kveðja,
Einar Örn“

Bjarni og Einar Örn áttu líka í samskiptum um ýmiss konar viðskipti og Bjarni leitaði til Einars Arnar varðandi ráðgjöf með viðskiptamál. Slíka tölvupósta er að finna í gögnunum.

Eftir myndun ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins árið 2013 skipaði Bjarni Benediktsson einn nánasta viðskiptafélaga Einars Arnar, Höllu Sigrúnu Hjartardóttur, sem formann stjórnar Fjármálaeftirlitsins.

Einar Örn og Halla Sigrún eiga saman eignarhaldsfélag sem heitir Fiskisund ehf., sem var stofnað utan um fjárfestingu í laxeldisfyrirtækinu Fjarðalaxi sem sameinaðist Arnarlaxi í fyrra og fyrirtæki þeirra hagnaðist um vel á annan milljarð króna. Áður höfðu þau Einar Örn unnið saman í viðskiptum með olíufélagið Skeljung sem þau högnuðust einnig afar vel á og voru þau viðskipti valin viðskipti ársins í Fréttablaðinu árið 2013 vegna mikils hagnaðar seljenda fyrirtækisins. Skeljungur var seldur til framtakssjóðs í rekstri Stefnis sem meðal annars var í eigu lífeyrissjóða.

Halla Sigrún gegndi stjórnarformannsstarfinu í eitt ár, frá lokum árs 2013 og út árið 2014, en lét þá af störfum eftir að greint hafði verið frá um 830 milljóna króna hagnaði hennar af viðskiptunum með hlutabréf Skeljungs. 

 

Kjósa
1
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.
Tengdar greinar

Engeyingum bjargað

Bjarni fór í fjórar boðsferðir en sagðist hafa farið í tvær
RannsóknEngeyingum bjargað

Bjarni fór í fjór­ar boðs­ferð­ir en sagð­ist hafa far­ið í tvær

Bjarni Bene­dikts­son sagð­ist að­eins hafa far­ið í tvær boðs­ferð­ir á veg­um bank­anna þeg­ar hann var spurð­ur ár­ið 2009. Bjarni, sem var þing­mað­ur á þeim tíma, var hins veg­ar skráð­ur í fimm boðs­ferð­ir sam­kvæmt gögn­um sem Stund­in hef­ur und­ir hönd­um og fór að minnsta kosti í fjór­ar þeirra. Hann er einn þriggja stjórn­mála­manna sem rann­sókn­ar­skýrsla Al­þing­is grein­ir frá að hafi far­ið í boðs­ferð­ir.

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár