Ég – og takið eftir ég-inu – ég er að lesa annað ég: Kristin Dombek, höfund esseyjubókarinnar The Selfishness of Others, hugleiðingu um áráttuna að greina stöðugt náungann sem sjálfdýrkanda. Í bókinni hnaut ég um að Kristin þessi hefði álpast inn á málþing þar sem var rætt um fyrirferð höfundar sem skrifaði út frá fyrstu persónu, „I“ eða ég. Þarna fór víst mikið fyrir fræðikarli nokkrum sem vildi meina að I/ég væri merki um sjálfhverfu í skrifum. Að ungir höfundar hæfu oft ferilinn á að skrifa út frá sjálfum sér en sneru sér síðan með auknum þroska að þriðju persónu frásögn sem væri merkilegri því lesandinn fengi fremur að upplifa samlíðan og eitthvað raunverulegt í sjálfu sér þegar höfundurinn væri ekki lengur að flækjast fyrir.
Karlinum sem fannst svo gaman að hlusta á sjálfan sig
Ég man ekki hversu oft ég heyrði eitthvað álíka þegar ég var að byrja að skrifa fyrir að verða tuttugu árum síðan og því sökkti ég mér af áfergju ofan í textann og kættist þegar Kristin hélt því fram, í upphafi skrifleiðangursins, að ef I/ég bæri vott um sjálfhverfu myndi lesandinn ekki heyra frá henni framar (þó ekki vegna þess að mig langaði ekki til að lesa hana aftur). Hún benti á að á þessu þingi hefðu tvær konur, höfundar svokallaðra „memoirs“ eða minninga, líka verið þátttakendur og kannski haft ærna ástæðu til að notast við I/ég – en ef svo var þá fékk hún aldrei að heyra rökin því þær komust ekki að fyrir karlinum sem fannst svona sjálfhverft að skrifa í fyrstu persónu.
„Svo ekki sé nú minnst á alla klámfengnu ljóskubrandarana sem ég hafði alsæl eftir skíðakennaranum mínum“
Að skilja eigin hugsanir
Þessar pælingar komu upp í hugann í samræðum við mann sem ég hitti í morgunverðarboði í Berlín þegar talið barst að hugmyndum um tjáningarfrelsi. Ég japlaði á tuggunni að við gætum í sjálfu sér sagt allt en þyrftum um leið að vera reiðubúin að axla ábyrgð á því sem við segðum og upplifa ólík viðbrögð við því, líka gagnrýni, mótmæli og jafnvel að einhver leiðrétti það sem hefði mátt betur fara. En sessunauti mínum fannst að fólk væri oft of harkalega gagnrýnt fyrir að segja hluti sem þættu ekki lengur viðeigandi og í því gæti falist ákveðin þöggun, enda vissi það oft ekki betur.
En við erum sjálf þetta fólk, glutraði ég út úr mér. Hann horfði (skiljanlega) undrandi á mig um leið og ég rembdist við að útskýra á lélegri þýsku hvað ég ætti við. Ég gat það aðeins upp að ákveðnu marki svo ég hélt áfram að útskýra það fyrir sjálfri mér eftir að heim kom. Að við værum öll svo mikið afsprengi tíðarandans, hins alræmda Zeitgeist, að það yrði ekki hjá því komist að flækja sig á einn eða annan hátt í úreltum hugmyndum. Hvernig átti ég líka að útskýra á þýsku fyrir þessum fínlega manni að ég hefði í æsku farið í útilegur þar sem allir sungu:
Einn var að ríða ömmu sinni
annar horfði á
þriðji kom og bætti um betur
og tók hana aftan frá
ó, elsku amma
því ertu svona gröð
tussan á þér er alveg eins og
bílaþvottastöð
Vonlausir málstaðir
Í dag fær þessi vísa kjaftforustu karla til að roðna niður í tær en þegar ég var krakki var hún sungin af ljóðrænni innlifun. Eins var vinsælt að tala með afskræmdum indverskum hreim þegar hermt var eftir nágrannahjónum frá Indlandi og sveitungarnir gátu alltaf hlegið að sögunni af barninu sem sá hörundsdökkan mann í bíl á bensínstöðinni í Mosfellssveit og sagði: Mamma, þarna er api! Svo ekki sé nú minnst á alla klámfengnu ljóskubrandarana sem ég hafði alsæl eftir skíðakennaranum mínum, eins og þann um vinina sem fóru til gleðikonu (ljósku) og sá fyrsti borgaði henni fyrir að borða ananas af typpinu á sér, sá næsti borgaði fyrir ananas og rjóma en sá þriðji pantaði ananas, rjóma og súkkulaðisósu og þá var þetta orðið svo girnilegt að hann saug það af sjálfur.
Á endanum óx ég upp úr þessum húmor (ef húmor skyldi kalla) og reyndi þess í stað að finna mig í pólitíkinni í kringum mig með því að þefa af hinum ýmsu ungliðahreyfingum stjórnmálaflokka sem eru fæstir lengur til. Þá aðhylltist ég óteljandi vonlausa málstaði, minnir að ég hafi mótmælt bæði aðild að EES og Ráðhúsi Reykjavíkur, svo eitthvað sé nefnt af öllu því sem ég vil helst ekki vera minnt á (sem betur fer var ég ekki komin með kosningarétt þegar valið stóð um bjór versus bjórlíki).
Aulinn ég
Maður er jú uppvöxtur sinn og neyðist til að sporna gegn því það sem eftir er ævinnar. Svo ef einhver heldur því fram að ég hafi sagt og skrifað fullt af heimskulegum og mótsagnakenndum hlutum, þá er það réttmæt gagnrýni. Ég áskil mér meira að segja rétt til þess og líka að skilja ekki allt sem ég læt út úr mér – fyrr en um seinan.
Í dag reyni ég sífellt að endurskoða eigin málflutning og skoðanir, meðvituð um að hugrenningar mínar geta stundum verið álíka vitlausar og allt það sem sá allra vitlausasti lætur út úr sér. Því ég er bara ég. Enginn háfleygur algildur sannleikur heldur mannlegt, breyskt ég, marínerað í dragúldnum ranghugmyndum. Eins og öll hin ég-in.
„Einu sinni sagði pabbi minn við mig að eina menntunin sem skipti raunverulega máli væri að kunna að afla sér upplýsinga.“
Að kunna að afla sér upplýsinga
Einmitt þess vegna finnst mér gott að lesa texta í gegnum milliliðinn I/ég. Það styrkir meðvitundina um að alla texta þarf að lesa með gleraugum efans því þeir eru ekki heilagri en svo að eitthvað ég úti í bæ skrifaði þá. Ólíkt því þegar ég var yngri og fannst að það hlyti að vera til einhvers konar algildur sannleikur eða réttara sagt sannleikar – sem ofurmannlegt afl hefði ritað í stein, væntanlega í þriðju persónu og karlkyni.
Einu sinni sagði pabbi minn við mig að eina menntunin sem skipti raunverulega máli væri að kunna að afla sér upplýsinga. Þá fannst mér það ansi örlátt af honum, doktornum í raunvísindum, að segja þetta við droppátið dóttur sína. Eftir því sem árin líða verður mér æ oftar hugsað til þessara orða hans. Í ástandi þegar áróðurskenndar falsfréttir vætla inn í alla umræðu, svo raunverulegar að þær verða raunveruleikinn, skiptir það eitt máli að kunna að lesa – á þann hátt að haglega samsett orð afvegaleiði mann ekki.
Tilraun til skilnings
Stöðug gagnrýnin umræða um skoðanir okkar á skoðunum hvert annars og réttmæti þeirra getur ekki verið annað en holl, viljinn til að reyna að greina og skilja ólík sjónarmið jafnt sem mörkin á milli ritskoðunar og hatursorðræðu, frelsis og lagaramma; eilíf tilraunin til að skilja orð og tákn upp á nýtt – í heimi sem tekur stöðugt svo ævintýralegum breytingum að við höfum ekki lengur efni á að vera þau sem við vorum í gær.
Hver sá sem tjáir sig um fólk, málefni og hugmyndir tekur sénsinn á að misstíga sig á ófyrirsjáanlegan hátt og skíta sig út því í opinberri umræðu flökta skuggar og ljós. Að sama skapi neyðumst við til að þola gagnrýni hvert annars til að mjakast áfram. Allur hávaðinn í umræðunni er oft, þrátt fyrir allt, aðeins tilraun til skilnings og óþarfi að taka sjálfan sig of alvarlega, hversu alvarlegt sem málefnið kann að vera (leiðréttið mig ef ég er farin að delera í rómantískum hundarökum). Maður, lesist kona, er jú bara eitt afar óáreiðanlegt ég.
Að lokum einn aulabrandari sem systir mín sagði í sunnudagsmatnum fyrir á að giska tuttugu og fimm árum síðan: Vitið þið hvað amma sagði þegar hún vaknaði í morgun?
Amma (með fullan munninn af lambakjöti og sykurbrúnuðum kartöflum): Nei, hvað sagði ég?
Systir mín: Eruð þið allir í sama körfuboltaliðinu?
Athugasemdir