Innflytjendalögregla Bandaríkjanna (ICE) sem Donald Trump forseti hefur byggt upp og reynir nú að stækka verulega, drap í dag aðra manneskju í borginni Minneapolis, sem er undir stjórn Demókrata.
Myndband sýnir að maðurinn reynir að koma á milli þegar fulltrúar ICE ganga hart fram gagnvart konu, en hann er barinn áður en hann er skotinn níu sinnum liggjandi í jörðinni.
Maðurinn hét Alex Pretti, var 37 ára gamall, og starfaði sem hjúkrunarfræðingur fyrir fyrrverandi hermenn.
Viðbrögð forsetans í dag voru að staðhæfa að mun verra hefði gerst en það sem átti sér stað í dag, ef ICE hefði ekki handtekið og flutt burt fjölda fólks upp á síðkastið, þar sem sumir hinna handteknu væru ofbeldisfullir.
Hvíta húsið birti í dag mynd af skammbyssu sem yfirvöld segja Pretti hafa haft á sér þegar hann var skotinn. Hins vegar hafði hann leyfi fyrir því að ganga með byssuna á sér.
Hægri hönd forsetans, þjóðaröryggisráðgjafinn Stephen Miller, fullyrti án þess að rannsókn hefði farið fram, að „innlendur hryðjuverkamaður“ hefði verið skotinn eftir að hafa reynt „að ráða af dögum alríkislögreglumann“.
Myndbönd af vettvangi sýna hins vegar að hann Pretti hafði símann sinn á lofti, var að hjálpa konu sem ICE-liði hrinti í jörðina og var hann bæði laminn af lögreglumönnunum og skotinn liggjandi.
Meðfylgjandi myndönd frá almenningi á vettvangi sýna atburðarásina frá mismunandi hliðum, en þau geta reynst erfið áhorfs.
Samstarfsmaður Pretti segist í samtali við fjölmiðla í dag vera steini lostinn.
„Hann vildi hjálpa fólki,“ sagði Dimitri Drekonja, yfirmaður smitsjúkdóma á VA-spítalanum og prófessor í læknisfræði við Háskólann í Minnesota, sem vann með Pretti á spítalanum og að rannsóknarverkefni. „Hann var ofboðslega almennilegur og hjálpsamur – hann hugsaði vel um sjúklingana sína. Ég er bara steini lostinn.“
Hann lýsti Pretti sem „framúrskarandi“ hjúkrunarfræðingi og dugnaðarforki, húmorískum og færum um að drífa fólk með sér. „Hann var svo frábær náungi,“ sagði Drekonja við Guardian. „Ég hafði bara svo gaman af því að vinna með honum.“
Michael Pretti, faðir Alex, tók undir mat Drekonja og lýsti syni sínum fyrir Associated Press sem einhverjum sem „þótti innilega vænt um fólk og var mjög í uppnámi yfir því sem var að gerast í Minneapolis og um öll Bandaríkin með ICE, eins og milljónir annarra eru í uppnámi yfir.“
„Honum fannst að með því að mótmæla gæti hann sýnt umhyggju sína fyrir öðrum,“ sagði Pretti eldri.
Faðir Prettis staðfesti við AP að sonur hans hefði tekið þátt í mótmælum í kjölfar þess að Renee Good var drepin af lögreglumanni frá bandarísku útlendinga- og tollgæslunni (ICE) fyrr í þessum mánuði.
Sameinuðu þjóðirnar fóru fyrr í mánuðinum fram á óháða rannsókn á drápi ICE á Renee Nicole Good vegna viðbragða yfirvalda, sem komust að niðurstöðu án rannsóknar.
































Athugasemdir