Meirihluti kvenna telur fullu jafnrétti ekki hafa verið náð. 32 prósent kvenna taka undir það að fullu jafnrétti á milli karla og kvenna hafi verið náð. Aftur á móti segja 61 prósent karla að svo sé. Ýmis gögn styðja við afstöðu meirihluta kvenna, um að jafnrétti hafi ekki verið náð.
Þó að launamunur karla og kvenna hafi minnkað er enn tæplega 22 prósenta munur á atvinnutekjum karla og kvenna. Tímakaup reglulegra heildarlauna, samkvæmt skýrslu forsætisráðuneytisins, var árið 2023 9,3 prósent. Í fyrra var það komið aftur upp og mældist 10,4 prósent. Það er annað árið í röð sem munurinn eykst á milli ára.
Kvennastörf – þau störf þar sem konur eru almennt í meirihluta – eru verr greidd en störf þar sem karlar eru í meirihluta.
Konur bera líka meiri byrðar á heimilinu og hafa barneignir meiri áhrif á tekjur, tækifæri og lífeyrisréttindi kvenna en karla. Um 90 prósent kvenna taka fullt fæðingarorlof samanborið við tæplega 17 prósent feðra. Hlutfall feðra sem taka orlof hefur farið lækkandi síðustu ár.
Konur verða frekar fyrir ofbeldi en karlar. Um 40 prósent íslenskra kvenna hafa orðið fyrir ofbeldi, samkvæmt rannsókninni Áfallasaga kvenna, sem gerð er við Háskóla Íslands og rúmlega 32.800 hafa tekið þátt í.
Þau sem leita til lögreglu vegna ofbeldis eru í lang flestum tilvikum konur. Af þeim sem tilkynntu kynferðisbrot á síðustu fimm árum, voru 80 prósent konur. 90 prósent þeirra sem tilkynntu nauðgun voru konur.
Og þó meðalævi kvenna sé lengri en karla eiga íslenskar konur færri góð æviár en karlar. Heilsu kvenna hrakar fyrir aldur fram. Þannig eru flestir með örorkulífeyri konur yfir fimmtugu. Ein af hverjum fjórum konum á aldrinum 63 til 66 ára eru með örorkulífeyri. Konur eru að jafnaði um 20 til 30 prósent fleiri en karlar með örorkumat á aldrinum 50 til 66 ára.


























Athugasemdir