Árið 244 útnefndu herdeildir Rómaveldis í Mesópótamíu nýjan keisara í stað hins kornunga Gordíanusar 3. sem lét þar lífið. Nýi keisarinn var fertugur arabískur herdeildarforingi að nafni Filippus. Ýmsa grunaði að hann hefði látið myrða Gordíanus til að komast sjálfur í valdastólinn en það er alveg óvíst; gæti þó verið satt.
Hitt er óumdeilt að strax og Filippus hafði verið kallaður til keisara af herdeildunum lagði hann af stað til Rómaborgar til að leita stuðnings öldungaráðsins þar við valdatöku sína.
Og það var brýnt erindi.
Hafnir yfir lög
Miklar róstur höfðu verið í heimsveldinu í mörg ár og fæstir keisarar sátu nema örfá ár og sumir bara nokkra mánuði – þá var þeim steypt af stóli af öðrum valdapoturum og ekki síst herforingjum sem vildu komast að.
Mikið var í húfi. Rómarkeisarar voru í raun einráðir og yfir öll lög hafnir. Öldungaráðið sem hafði ráðið ferð ríkisins á lýðveldistímanum var nú fyrst og fremst upp á punt; stimpilpúði í embættismannakerfinu fyrir keisarann.
Við mjög viðkvæmar aðstæður gat stuðningur ráðsins þó skipt máli. Þar sátu þrátt fyrir allt flestir ríkustu karlar ríkisins.
Mátti búast við uppreisnum
Því var það sem Filippusi lá svo á að komast strax til Rómar. Hann gaf upp á bátinn allar tilraunir Gordíanusar til að vinna Mesópótamíu af Persum og afhenti Sjapúr 1. Persakóngi meira að segja Armeníu líka. Það ríki hafði verið stöðugt bitbein Rómverja og Persa um aldir.
Og enn er ekki allt talið því Filippus borgaði Persum að auki 500 þúsund denara í gulli fyrir að semja um frið og var það geypihá upphæð. Seinna varð alsiða að Rómverjar borguðu fjendum sínum sjóði gulls fyrir að láta landamærin í friði en árið 244 var það enn óalgengt og þótti niðurlæging fyrir hið mikla herveldi að grípa til þess ráðs.
Því mátti Filippus búast við andstöðu og jafnvel uppreisnum gegn sér.
Hann skildi því Priscus bróður sinn eftir sem hæstráðanda í austurhluta ríkisins og reið sem hraðast til Rómar.
Tvö keisaraefni
Heimildir eru til um að öldungaráðið hafi þegar verið búið að skipa arftaka Gordíanusar og það tvo frekar en einn, því sá fyrri, heimspekingurinn Marcus, dó skyndilega áður en hann gat svo mikið sem sest í hásætið. Sá seinni, Severus Hostilíanus, veiktist líka skyndilega og það svo illa að hann svipti sig umsvifalaust lífi frekar en takast sjúkur á við keisaraembættið.
Hvort þessi tvö skammlífu keisaraefni voru yfirleitt til er ekki gott að segja. Hitt er víst að þegar Filippus Arabi náði til Rómar, þá tókst honum að tryggja sér svo afdráttarlausan stuðning höfðingjanna í ráðinu að hann taldi sig öruggan. Það má sjá af fyrstu ráðstöfunum hans sem keisari eftir að til Rómar kom. Þá skipaði hann sex ára son sinn sem krónprins og útnefndi konu sína, Marciu Otasiliu Severu, sem keisaraynju eða ágústu.
Eiginkonan var skörungur
Það var ekki sjálfgefið að kona keisarans fengi þá nafnbót en Filippus og Marcia virðast hafa verið samrýmd hjón og hún var traustur félagi hans í sókninni eftir æðstu metorðum. Marcia var ekki arabísk eins og hann heldur af rótgrónum valda- og embættismannaættum í Róm. Sumir trúa því að Marcia hafi í raun att manni sínum út á metorðabrautina. Arabískur herforingi hefði annars varla farið að stíga þau skref sem Filippus hafði nú gert.
Víst má vera að Marcia hafi verið skörungur og metnaðarfull en það er þó jafnljóst að Filippus var ekkert smeykur við að vekja athygli á uppruna sínum og virðist hafa verið afar stoltur af arabískum uppruna sínum. Hann lét ekki bara taka hinn arabíska föður sinn í guðatölu – en það var nær einsdæmi að sú tign væri veitt öðrum en keisurum – heldur fyrirskipaði hann nú að fæðingarborg hans, Sjaba, í skattlandinu Arabiu Petreu skyldi byggð upp og stóraukin.
Byggingameistarar ráku upp stór augu
Þegar hann hélt af stað til Rómar skildi hann eftir plön og teikningar um nýtt skipulag Sjaba og metnað hans fyrir hönd fæðingarborgarinnar skorti sannarlega ekki.
Sjaba hafði verið fámennur smábær, nánast þorp, en nú lét Filippus svo um mælt að hann ætlaði að breyta henni í stórborg sem ætti að jafnast á við Rómaborg sjálfa! Byggingameistarar og verkamenn sem sendir voru út í hrjóstruga storðina á mörkum eyðimerkunnar hafa vafalítið rekið upp stór augu er þeir heyrðu það en orð keisarans voru lög.
Þegar var því hafist handa um að reisa margvísleg mannvirki í samræmi við reitaskipulag dæmigerðar rómverskrar borgar. Þarna á svæðinu má enn sjá ljómandi snoturt sexhyrnt musteri og einnig helgistað af gerðinni kabyle, sem ætlaður var til að votta virðingu heimaguðum og/eða Rómarkeisurum í guðatölu.
Hlaðið undir heimaborgina
Einnig var í snatri reistur sigurbogi, einfalt útileikhús, myndarleg stjórnsýslubygging (basilíka) og önnur til heiðurs Filippusi og svo náttúrlega baðhús. Þau spruttu upp hvarvetna þar sem Rómverjar stöldruðu við. Þá var leitað að uppsprettum í nágrenninu og undirbúningur hafinn við að leiða vatnsleiðslu (aquaduct) til hinnar nýju Filippopólis.
Filippus hugðist ekki aðeins reisa stórborg í Sjaba heldur vildi líka ýta mjög undir Bosra, sem var höfuðborg rómverska skattlandsins Arabiu Petreu, tæpa 50 kílómetra frá hinni nýju Filippopólis. Þar hrinti hann af stað leikum til heiðurs bæði Rómarkeisurum og Dúsjara, sem virðist hafa verið meginguð Arabanna þar um slóðir. Helgistaðir tileinkaðir honum hafa fundist allvíða, til dæmis í Napólí en þar lögðu að skip sem fluttu varning frá Arabíu.
Deilt um guðdóminn
Í Bosra virðist raunar hafa verið einkar blómlegt trúarlíf. Þar var stór sýnagóga Gyðinga og þar fæddist og hélt lengi til einn helsti spekingur Gyðinga um þær mundir, Shimon ben Lakish, en hann var stigamaður og gladíator áður en hann lagðist í þunga þanka Gyðingdómsins. Og kristnir menn voru líka nokkuð fjölmennir í Bosra. Í keisaratíð Filippusar Araba voru haldnar þar tvær mikilvægar ráðstefnur kirkjufeðra – en kórrétt kenning kristindómsins var þá enn í mótun.
Beryllus biskup í Bosra vildi ekki fallast á það trúaratriði að Jesúa frá Nasaret hefði verið til sem guðleg vera áður en hann fæddist af Maríu. Hann taldi líka að þegar hver maður andaðist dæi sál hans um leið, þótt Guð gæti svo endurlífgað hana á efsta degi ef hann svo kysi. Origen og fleiri kirkjufeður settust að Beryllus biskupi á ráðstefnunum tveim og hann viðurkenndi að lokum að skoðanir hans væru hreinasta villutrú.
Kristnir menn sárafáir
Vera má að Filippus keisari hafi átt einhvern þátt í að ráðstefnurnar tvær um þessi blæbrigði kristindómsins voru haldnar í Bosra árin 246 og 247. Það er nefnilega sagt að hann hafi verið kristinn og reyndar Marcia kona hans líka.
Þótt heimildir um það séu ekki óyggjandi væri það ansi merkilegt ef svo væri. Yfirleitt er talið að fyrsti kristni keisarinn hafi verið Konstantínus mikli sem gekk til orrustu undir krossins merki árið 313, eða 70 árum eftir að Filippus varð keisari.
Um árið 240 var kristindómurinn vissulega í sókn í Rómaveldi en þó tilheyrðu aðeins 2–3 prósent íbúa kirkjunni. Má til samanburðar geta þess að nú um stundir tilheyra um 3,5 prósent Íslendinga kaþólsku kirkjunni. Ekkert sérstakt benti til þess að sá kvistur út af Gyðingdómnum sem kristnin var myndi innan aldar verða útbreiddasta trú í ríkinu og síðan í veröld víðri.
„Keisaratíð Filippusar hefði getað skipt mjög miklu máli í sögu kristindómsins“
Ofsóknir gegn kristnum mönnum?
Og kristnir menn sættu alls ekki stöðugum ofsóknum yfirvalda þótt ofsókna yrði vissulega vart með margra áratuga millibili og oftast í mjög takmörkuðum stíl. Á tímum Filippusar voru 30 ár síðan Septimus Severus hafði síðast beitt sér fyrir ofsóknum gegn kristnum mönnum og eru „ofsóknir“ þó eiginlega ofmælt í því sambandi.
Það er því ekki víst að Filippus og Marcia hefðu talið sig þurfa að fara í felur með að þau væru farin að aðhyllast kenningar kristindómsins.
En raunar er til sú kenning að keisaratíð Filippusar hefði getað skipt mjög miklu máli í sögu kristindómsins, hefði raunar getað valdið gerbyltingu, ef hann hefði ekki dáið einmitt þegar hann dó. En frá því segir í næstu grein en þá förum við þó fyrst með Filippusi Araba í einhverja mestu og glæsilegustu afmælisveislu sögunnar.

































Athugasemdir