Fjárhagur heimilanna í landinu hefur sjaldan verið betri síðan mælingar hófust, samkvæmt nýjasta Þjóðarpúlsi Gallup. Hann vænkaðist jafnt og þétt eftir hrun og var bestur á tímum samkomutakmarkana vegna heimsfaraldurs. Eftir það fjölgaði aftur þeim sem náðu ekki endum saman en nú hefur þeim fjölgað á ný sem ná að safna sparifé. Þannig segja 52% aðspurðra að þeir geti „safnað svolitlu sparifé“ en 17% að þeir geti „safnað talsverðu sparifé“. Þá segjast 6% nota sparifé til að ná endum saman og 4% að þeir safni skuldum.
Konur eru líklegri en karlar til að safna skuldum eða þurfa að ganga á sparifé sitt til að ná endum saman, á meðan karlar eru líklegri en konur til að rétt ná endum saman. Fólk milli þrítugs og sextugs á erfiðast með að ná endum saman.
Sá helmingur þjóðarinnar sem hefur lægri fjölskyldutekjur er, eins og við er að búast, líklegri til að safna skuldum eða ná endum saman með naumindum en sá helmingur sem hefur hærri fjölskyldutekjur. Þá eru þeir sem eru með hærri fjölskyldutekjur líklegri til að ná að safna sparifé.
Hlutfall þeirra sem ná ekki endum saman er hæst meðal þeirra sem kysu Flokk fólksins ef kosið yrði til Alþingis í dag en hlutfall þeirra sem ná að safna sparifé er hæst meðal þeirra sem kysu Sjálfstæðisflokkinn.
Fylgni er milli þess að ná illa endum saman og að búa í leiguhúsnæði.
Um 34% segja einhvern í fjölskyldu sinni búa við fátækt en fjölskylda var skilgreind bæði sem allra nánasta fjölskylda og nánir ættingjar eins og frændur og frænkur. Ríflega 36% til viðbótar sögðu einhvern í fjölskyldu sinni einhvern tíma hafa búið við fátækt. Þetta er svipað hlutfall og í síðustu mælingum.
Hlutfall þeirra sem segja fjölskyldumeðlim búa við fátækt er hæst meðal þeirra sem kysu Flokk fólksins ef kosið yrði til Alþingis í dag. Hlutfall þeirra sem segja fjölskyldumeðlim aldrei hafa búið við fátækt er hæst meðal þeirra sem kysu Sjálfstæðisflokkinn.
Þau sem búa í eigin húsnæði eru ólíklegri til að segja einhvern í fjölskyldu sinni búa við fátækt en þau sem búa í leiguhúsnæði eða í foreldrahúsum.
Athugasemdir