Kísilver PCC á Bakka við Húsavík tapaði 4,8 milljörðum króna í fyrra, ef aðeins er tekið tillit til rekstrar (EBITDA). Þegar horft er til fjármagnsgjalda, skatta og afskrifta var tapið 7,7 milljarðar króna. Það er minna tap en árið 2023, þegar tapið var milljarði meira.
Kísilverið hætti starfsemi í júlí og hefur flestum starfsmönnum verið sagt upp. Starfsmenn voru 130 í vor, eftir fækkun úr 155 þegar mest lét í fyrra. Um 40 starfsmenn eru eftir og hafa stjórnendur verksmiðjunnar boðað samtal við Landsvirkjun og nærsamfélagið á Húsavík. Stjórnendur félagsins segjast ekki vera af baki dottnir.
Ástæða stórfellds tapreksturs hefur verið sögð tollastríð, erfiðleikar á alþjóðamörkuðum og innflutningur á ódýrum kísilmálmi. Þá hefur forstjóri PCC Bakka vísað til þess að verndartollar Evrópusambandsins, sem íslensk og norsk stjórnvöld reyna að vinna gegn, geti komið í veg fyrir að verksmiðjan opni aftur.
Á sama tíma og barist er fyrir afléttingu verndartolla gagnvart Evrópusambandinu hefur PCC Bakki farið fram á verndartolla gegn kínversku kísiljárni, sem félagið segir flutt hingað til lands á undirverði. Fríverslunarsamningur frá tíð ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur er í gildi gagnvart Kína, en sama ríkisstjórn vann að ríkisstuðningi við verksmiðjuna.
Móðurfélagið PCC SE hefur heitið áframhaldandi fjárhagslegum stuðningi til að tryggja rekstur verksmiðjunnar á Húsavík, eins og segir í skýrslu stjórnar: „Óhagstæðar markaðsaðstæður hafa enn áhrif á fjárhagslegan stöðugleika félagsins. Helstu eigendur félagsins styðja það með viðbótar lausafé og hafa sýnt vilja til að halda áfram að gera það.“
Í nýjum ársreikningi PCC BakkiSilicon hf. kemur fram að heildareignir félagsins námu í árslok 48,4 milljörðum króna. Eigið fé stóð í 2,2 milljörðum króna og eiginfjárhlutfallið var einungis 4,5 prósent, samanborið við 19 prósent í árslok 2023.
Ekki er hins vegar ljóst hvert upplausnarverðmæti eignanna verður raunverulega, ef starfsemi verður ekki hafin á ný.
Í umfjöllun í ársreikningi félagsins um áframhaldandi rekstrarhæfi er skuldbinding eigandans tíundið.
„Stjórnendur hafa þróað og hrint í framkvæmd víðtækri umbótaáætlun sem miðar að því að straumlínulaga rekstur, hagræða kostnað og bæta langtímafjárhagsstöðu í samræmi við samþykkta fjárhagsáætlun félagsins. Þessar áætlanir eru taldar raunhæfar og framkvæmanlegar, að því gefnu að markaðsaðstæður batni og að stefnumarkandi aðgerðir skili tilætluðum árangri,“ segir þar.
„Móðurfélagið hefur ítrekað sýnt fjárhagslegan stuðning sinn með því að fjármagna rekstur félagsins og standa straum af uppsöfnuðu tapi og lausafjárskorti sem hefur komið upp. Gert er ráð fyrir að þessi stuðningur haldi áfram um fyrirsjáanlega framtíð, eins og staðfest hefur verið með formlegri skuldbindingu frá móðurfélaginu.“

Stofnað með ríkisstuðningi
Um er að ræða eina mest þróuðu kísilmálmverksmiðju í heimi. Verksmiðjan framleiðir aðallega kísilmálm (silicon metal), sem meðal annars er notaður í álblöndur og hátækniiðnað. Þá kynnir verksmiðjan að afurðir hennar séu framleiddar með umhverfisvænni orku.
Kísilverið á Bakka naut ríkisstuðnings og valdi sveitarfélagið Norðurþing að fjárfesta í innviðum til þess að tryggja byggingu verksmiðjunnar.
Steingrímur J. Sigfússon, þá atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra, skrifaði árið 2013 undir yfirlýsingu um samstarf ríkisins við Norðurþing, Hafnarsjóð Norðurþings og þýska iðnfyrirtækið PCC vegna áforma um uppbyggingu kísilversins á Bakka. Hann lagði í kjölfarið fram tvö frumvörp á Alþingi, annað um að honum yrði veitt heimild til að gera fjárfestingarsamning um byggingu kísilvers á Bakka, en hitt til að afla heimilda fyrir ríkið til að kosta uppbyggingu innviða, þar með talið á vegtengingu milli hafnarinnar og iðnaðarsvæðisins og stækkun Húsavíkurhafnar.
Þetta er ekki eina kísilverið sem ratað hefur í rekstrarstöðvun á síðustu árum. Fjárfestar töpuðu yfir 20 milljörðum króna að þávirði á kísilverinu United Silcion í Helguvík nærri Keflavík. Þeirra á meðal voru Arion banki og Frjálsi lífeyrissjóðurinn. United Silicon hóf starfsemi í nóvember 2016 og tíu mánuðum síðar stöðvaði Umhverfisstofnun starfsemina vegna ófullnægjandi mengunarvarna.
Athugasemdir