Vegagerðin er með til skoðunar leiðir til að bæta þjónustu leiðar 55 hjá Strætó sem gengur á milli BSÍ í Reykjavík og Keflavíkurflugvallar.
Að öðru leyti hefur engin formleg vinna hafist við að vinna úr tillögum sem starfshópur um bættar almenningssamgöngur á milli höfuðborgarsvæðisins og Keflavíkurflugvallar skilaði í skýrslu til innviðaráðherra í september 2024. Sigurður Ingi Jóhannsson, þá innviðaráðherra, skipaði starfshópinn vorið 2023 og átti hann að skila af sér í september sama ár. Tafðist því í heilt ár að skila skýrslunni.
Ein leið landsbyggðarstrætó, leið 55 sem Vegagerðin rekur, stoppar við flugvöllin. Hún leggur hins vegar of seint af stað til þess að ná morgunflugi, er töluvert lengur á leiðinni en flugrútur Reykjavík Excursions og Airport Direct, en farmiðinn er hins vegar umtalsvert ódýrari. Þá er biðstöð Strætó í nokkurri fjarlægð frá flugstöðinni á meðan flugrúturnar stoppa beint fyrir utan bygginguna.
Í skýrslunni er það gagnrýnt að þjónustutími leiðar 55 henti hvorki starfsfólki flugstöðvarinnar né þeim ferðalöngum sem eiga morgunflug. Stoppistöðin sé það langt frá að sýnileiki þessa valmöguleika sé lítill. Þá sé greiðslufyrirkomulagið ekki í samræmi við aðra þjónustu Strætó og hjólastólaaðgengi ábótavant. Lagði hópurinn því til fimm aðgerðir til að bæta úr þessum atriðum, lengja þjónustutíma leiðar 55 og auka tíðni.
Kosningar töfðu málið
Í svari innviðaráðuneytisins við fyrirspurn Heimildarinnar er tekið fram að Alþingiskosningar hafi óvænt verið boðaðar tveimur vikum eftir að skýrslan var kynnt. „Breyttar aðstæður gerðu það að verkum að eftirfylgni skýrslunnar tafðist fram á þetta ár,“ segir í svarinu.
Ráðuneytið segir hins vegar að Vegagerðin kanni nú leiðir til að bæta strætósamgöngurnar.
„Ekki er hægt að segja að formleg vinna sé í gangi“
Í svari Vegagerðarinnar við fyrirspurn Heimildarinnar segir hins vegar að engin formleg vinna upp úr efni skýrslunnar sé hafin. „Ekki er hægt að segja að formleg vinna sé í gangi, en niðurstöður skýrslunnar liggja til grundvallar þeim verkefnum sem unnið er að hjá Vegagerðinni,“ segir í svarinu.
„Ber þar helst að nefna að unnið er að endurskoðun á greiðsluleiðum og unnið er með flugvallaryfirvöldum að því að bæta aðgengi að biðstöðvum,“ segir ennfremur. „Einnig er unnið með yfirvöldum á flugvallarsvæðinu í skipulagsverkefnum til að undirbúa framtíðartilhögun almenningssamgangna á svæðinu. Vegagerðin hefur átt í góðum samskiptum við aðra hagaðila og fleiri rekstraraðila almenningssamgangna sem hafa það sameiginlega markmið að stuðla að bættum almenningssamgöngum til Keflavíkur.“
Horft verði til skýrslunnar í samgönguáætlun
Innviðaráðuneytið segir það stefnu nýrrar ríkisstjórnar að efla almenningssamgöngur, bæði á landsbyggðinni og á höfuðborgarsvæðinu í gegnum samgöngusáttmálann. „Innviðaráðuneytið mun áfram vinna að útfærslu tillagna sem kynntar voru í skýrslunni. Horft verður til aðgerða sem kynntar voru í skýrslunni við undirbúning nýrrar samgönguáætlunar sem lögð verður fram á Alþingi næsta haust,“ segir í svarinu.
Þá kemur fram að ein af tillögum starfshópsins hafi falist í að bæta þjónustu landsbyggðarstrætóleiðar 55 svo að hún þjóni notendum betur, meðal annars með aukinni tíðni og lengri þjónustutíma. „Vegagerðin kannar nú leiðir til að bæta þjónustu leiðarinnar og í þeirri vinnu er m.a. litið til tíðni, tímasetninga ferða og þjónustutíma leiðarinnar,“ segir í svarinu. „Gengið er út frá því að þessi vinna muni leiða til að þjónusta á leið 55 verði bætt, m.a. með því að auka tíðni á leiðinni og lengja þjónustutíma.“

Loks áformar ráðuneytið að boða innan skamms samráðsfund helstu hagsmunaaðila, þar á meðal Isavia, Vegagerðarinnar, Kadeco, Strætó bs., Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu og Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum, til að fara yfir stöðu mála í tengslum við skýrsluna og aðgerðir af hálfu einstakra aðila.
Athugasemdir