Náttúruhlaup gefa fólki allt annað en götuhlaup en það er meðal annars talað um að undirlagið fari betur með skrokkinn, fólk fái orku frá náttúrunni og svo er það áskorunin sem fylgir hlaupunum. Aðstæður geti verið öðruvísi en reiknað var með, leiðin grýtt eða undirlagið mjúkt og hér á landi er allra veðra von. Það eru þessir þættir sem heilla fyrir utan fallega náttúru.
Sigurður Konráðsson, prófessor emeritus í íslenskri málfræði, byrjaði að hlaupa fyrir um 20 árum og hljóp Laugaveginn nokkrum árum síðar, þá kominn yfir sextugt. Hann segir margt við utanvegahlaup heilla og hefur hlaupið Laugaveginn átta sinnum, síðast í sumar sem leið við afar erfiðar aðstæður en hlaupið þykir bæði krefjandi og eitt skemmtilegasta utanvegahlaup á landinu enda náttúrufegurð sem umlykur leiðina.
Hljóp fyrst Laugaveginn kominn yfir sextugt
Sigurður hafði ekki stundað hlaup mjög lengi þegar hann spurði þjálfara sinn hvort hann væri tilbúinn í Laugavegshlaupið, sem er 55 km utanvegahlaup, en Laugavegurinn tengir saman tvær af okkar helstu náttúruperlum, Landmannalaugar og Þórsmörk, þar sem hlauparar enda hlaup sín.

„Ég byrjaði að hlaupa í hlaupahópi hjá Sigga P., eða Sigurði P. Sigmundssyni, og Torfa og hafði hlaupið í örfá ár með Sigga P. þegar ég spurði hvort hann héldi að ég gæti farið Laugaveginn. Hann hélt það nú,“ segir Sigurður og hlær. „Þannig byrjaði þetta. Ég var á námskeiði hjá þeim félögum í hálft ár eða svo en undirbúningurinn gengur út að að vera með þjálfara sem skipuleggur hlaupin, sem er mjög mikilvægt, og ég held að almennt sé það svo. Þetta er heilmikið átak og maður fer ekkert nema að vera búinn að æfa sig vel og það er ákveðin gulrót að klára hlaupið og komast á leiðarenda. Það þýðir líka að þegar maður er kominn á þennan aldur þá þarf maður að vera að allan veturinn að undirbúa sig. Ég hleyp Esjuna reglulega og ýmsar brekkur og spretti. Ég hef svo farið Laugaveginn á hverju ári í ein átta ár. Þetta er ósköp þægileg dagsferð, maður þarf ekkert að taka flugvél til útlanda til að hlaupa og svo er þetta tiltölulega þægilegt hlaup að mörgu leyti. Það er þó langt, ég er um átta tíma að hlaupa, það er nokkuð langt fyrir okkur sem förum þetta hægt, þá er maður lengi á fótum.“
Sigurður hrósar þeim sem standa að undirbúningi fyrir Laugavegshlaupin en framkvæmdaraðili er Íþróttabandalag Reykjavíkur, ÍBR. Ákveðin þátttökuskilyrði eru í hlaupið og gerð er krafa um að þátttakendur ljúki því innan tiltekinna tímamarka milli ákveðinna staða á leiðinni. „Það er ákaflega vel staðið að þessu hlaupi og það eru engar líkur á að maður lendi í einhverjum ógöngum. Það er líka hlaupið á þeim tíma þegar veðrið er hvað best í júlí þannig að hlauparar þurfa ekki að búast við snjóbyljum eða slíku. Ég hef verið heppinn, ég hef ekki þurft að hætta hlaupi en það eru gerðar lágmarkskröfur á Laugaveginum, að hlauparar nái tilteknum stöðum á tilteknum tíma, annars verða þeir stöðvaðir og mega ekki halda áfram.“
Hélt að hann yrði að hætta hlaupi sökum sandstorms
Það hlýtur að gefa þér mikið að hlaupa svona úti í náttúrunni með landslagið allt um kring? „Það er það sem er, ef þú berð saman að hlaupa þarna og svo á bretti inni í stöð þá er það eins og svart og hvítt, þetta er allt annað og lagar algjörlega allt, meðal annars hugann. Maður lifir á því að fara svona ferð það sem eftir er ársins. Ég hef farið í fleiri svipuð hlaup eins og Hengilshlaupið og Fimmvörðuhálsinn og svo ætla ég í Öræfahlaupið í sumar sem er í Skaftafelli, en það er nýtt hlaup og mikið tilhlökkunarefni. Þetta gefur okkur hlaupurunum öllum óskaplega mikið að koma út í svona fallega náttúru á sumrin.
„Það er meira en að segja það að fá svona sandstorm beint framan í sig
Þú hefur að öllum líkindum lent í misjöfnum veðrum og einhverjum erfiðleikum á þessum hlaupum? „Jú, það er nú óhætt að segja það. Nú síðast í fyrra var Laugavegshlaupið ansi erfitt og það erfiðasta sem ég hef farið. Það var svo mikill mótvindur og sandstormur,“ segir hann með áherslu. „Það tók ansi mikið úr manni. Ég var þarna næst því að halda að þetta myndi ekki ganga, að ég kæmist ekki á leiðarenda. Það er meira en að segja það að fá svona sandstorm beint framan í sig, það er ekkert hægt að komast í skjól eða annað, maður verður bara að moða sig einhvern veginn áfram, þetta var það erfiðasta sem ég hef lent í á Laugaveginum.“
Sigurður segir að þrátt fyrir að hann geti ekki notið mikið náttúrunnar á hlaupum sjónrænt þá gefi það mikla vellíðan. „Það er nú þannig að þegar maður er að hlaupa þá þarf maður að horfa þessa fimm metra fram fyrir sig þannig að það er ýmislegt sem fer fram hjá hlauparanum en mér líður óskaplega vel þarna úti í náttúrunni, það gefur langmest.“
Hljóp í rauðri viðvörun
Undirbúningur er mikilvægur og að fólk gefi sér tíma í hann. Góðir hlaupaskór og góður þjálfari er það mikilvægasta fyrir utanvegahlaup segir Sigurður. Hann segir að fólk sem byrji að hlaupa utanvegar snúi yfirleitt ekki aftur frá þeim, þau gefi allt annað en götuhlaupin og innihlaupin. Ætlarðu aftur í sumar í Laugavegshlaupið?
„Já og ég er að undirbúa mig. Ég fer í Puffin Run í Vestmannaeyjum í byrjun maí. Það er afar vinsælt og vel skipulagt hlaup um Heimaey. Einna spenntastur er ég þó fyrir Öræfahlaupinu í Skaftafelli, sem verður haldið í fyrsta skiptið núna í lok júní. Eftir Laugaveginn er það síðan Fimmvörðuhálshlaupið í fimmta skiptið og hið dásamlega Þórsmerkurhlaup. Ýmis fleiri hlaup eru svo sem á dagskrá enda úr miklu að velja.“
Sigurður keppir líka inni um vetur.
„Ég hleyp langmest úti og alltaf frá vori til hausts en á veturna er ég dálítið inni á 200 metra brautum en það er ólíkt því að hlaupa úti og í náttúrunni. Ég hef vanið mig á að taka þátt í alls konar mótum inni og keppi þá í allt frá 200 metra upp í 3.000 metra hlaupum.“
Aðspurður segir Sigurður það eiga vel við sig að hlaupa í náttúrunni og raunar langflesta sem fara að iðka utanvegahlaup af einhverju viti en fólk þurfi að gefa sér tíma í að undirbúa sig vel. „Það þarf að vera mikil reglusemi í þessu, ég á við að ef maður ætlar að hlaupa þrisvar í viku þá verður maður að gera það. Náttúruhlaupin eru allt annað en innanhússhlaup eða hlaup á braut, maður þarf að taka frá tíma í þetta alveg eins og með ýmislegt annað. Maður veit aldrei hvernig aðstæður eru, í hvernig skóm er best að vera, á nöglum, grófum eða fínum, en skóbúnaðurinn skiptir mjög miklu máli. Ég hef lent í ansi mörgum veðrum og ég hef hlaupið í rauðri viðvörun en verst var að hlaupa í sandrokinu síðastliðið sumar. Öll vit voru full af sandi og maður bruddi sand mestalla leiðina,“ segir Sigurður.
Athugasemdir