Gréta Rut Bjarnadóttir var mikið í fótbolta þegar hún var yngri, en fannst hún þurfa að vera í einhverju öðru. Hún segist ekki hafa fundið sig í Crossfit eða að vera ein í ræktinni. Svo stakk faðir hennar upp á því að hún færi að hlaupa. Hann hafði þá hlaupið Laugaveginn tvisvar eða þrisvar sinnum og ákvað Gréta Rut að feta í fótspor hans.
„Þá byrjaði ég að fá þessa hlaupabakteríu. Hann í rauninni kom mér í þetta.“
Gréta Rut var búin að vera að hlaupa í um níu mánuði þegar hún fór í fyrsta Laugavegshlaupið árið 2015. „Ég fékk utanvegabakteríu í gegnum pabba minn. Þannig byrjaði þetta. Ég er meira að keppa í utanvegahlaupum heldur en á götu og er búin að fara Laugaveginn fjórum sinnum. Besti tíminn minn þar er 6:01. Það væri gaman að ná undir sex í ár en maður á eftir að sjá hvernig það gengur.“
Gréta Rut hefur oft verið í verðlaunasætum á hlaupaferlinum. „Það er ótrúlega fyndið að sumarið 2023 lenti ég alltaf í fjórða sæti. Það voru einhver álög á mér. Ég var í fjórða sæti í aldursflokknum á Laugaveginum, í Hólmsheiðarhlaupinu og Eldslóðinni. Þegar ég var yngri lenti ég einu sinni í aldursflokknum í öðru sæti á Laugaveginum. Svo hafa verið nokkrar barneignarpásur þannig að maður er alltaf að koma sér aftur af stað í þessu.“

Hlaupið á meðgöngu
Gréta Rut hefur gengið með fjögur börn og hefur hlaupið í nokkra mánuði á þremur þeirra.
Það er mikilvægt að konur leiti ráða hjá læknum upp á hvort óhætt sé að hlaupa. Gréta Rún segir að þeir læknar og ljósmæður sem hún hafi talað við hafi sagt að hún ætti að gera það sem hún væri vön svo lengi sem henni liði vel. „Líkaminn er ótrúlegt fyrirbæri og lætur mann alveg vita ef þetta verður of mikið. Maður á alltaf að hlusta á líkama sinn.“
Hún segist hafa hlaupið fram að 20. viku á fyrstu meðgöngunni. „Mér fannst ég verða að gera eitthvað annan hvern dag; ég var ekki mikið að stressa mig á að ég yrði að hlaupa þrisvar eða fjórum sinnum í viku. Stundum gerði ég eitthvað þrjá daga í röð. Ég var samt ákveðin í að hvíla ekki tvo daga í röð af því að þá hefði ég alveg dottið í „comfort zone“, allavega er ég þannig manneskja. Mér fannst rosa fínt að vera með regluna „annan hvern dag“. Og ég miðaði oft við tíma frekar en kílómetra,“ segir hún.
Á fyrstu meðgöngu Grétu greindist vaxtarskerðing og ákvað hún að hægja alveg á sér. „Það kom svo í ljós í tuttugu vikna sónar að hann var vaxtarskertur og þá hætti ég að hlaupa.“
Gréta Rut fæddi svo andvana son sinn á 29. viku.
Upplifði ótta eftir missinn
Hún varð svo aftur ófrísk og lifði um tíma við ótta.
„Ég þorði ekki að hreyfa mig af því að ég hélt að ég myndi valda einhverjum skaða. Ég var svo stressuð á þeirri meðgöngu og mér leið ótrúlega illa. Mér leið andlega og líkamlega mjög illa. Ég var á mjög vondum stað. Ég hugsaði ekki rökrétt og bjó til alls konar atburðarás í hausnum sem gerði mig svo hrædda. En ég fór samt í göngutúra. Mér finnst gaman að eyða orkunni minni í hreyfingu,“ segir hún.
„Ég hugsaði ekki rökrétt og bjó til alls konar atburðarás í hausnum sem gerði mig svo hrædda
Hún hélt áfram að gera það sem veitti henni vellíðan.
„Ég sótti enn þá meira í hlaupin eftir missinn. Þetta er líka svo mikil hugleiðsla. Mér finnst skemmtilegra að vera úti í náttúrunni. Maður fær svo ótrúlega mikla vellíðan út úr því. Mér finnst gaman að taka gæðaæfingar,“ segir hún en þá er átt við að hlaupið sé á meiri hraða en í rólegum og millirólegum hlaupum, „en ég fæ bara svo ótrúlega mikið út úr því að hlaupa úti í náttúrunni og ég kem til baka svo sjúklega orkumeiri þegar maður er einmitt búinn að fara utanvega. Ég held að þess vegna sæki ég í utanvegahlaup. Þetta snýst alls ekki alltaf um tíma hjá mér heldur að gleyma sér. Ég held að það sé erfiðara að gleyma sér ef verið er að hlaupa beinan malbikaðan kafla frekar en að vera í ótrúlega fallegri náttúru. Þess vegna held ég að ég sæki í utanvegahlaupin.“

Ólétt á verðlaunapalli
Gréta Rut varð svo óvænt ófrísk þriðja sinnið. Hún keppti í Tindahlaupinu árið 2021 og lenti í öðru sæti og var þá komin rúmar sjö vikur á leið án þess að vita það. Hún hélt áfram að hlaupa eftir að hún vissi að hún væri ófrísk fljótlega eftir hlaupið og tók fyrir viku í einu. „Ég var ekkert að hugsa langt fram í tímann.“
Gréta Rut segir að fyrstu vikurnar á þriðju meðgöngunni hafi gengið mjög vel; hún fann ekki fyrir miklum flökurleika og var ekki mjög þreytt. „Ég náði sem betur fer að halda hlaupunum svolítið vel inni; ég hljóp og gekk til skiptis. Ef manni líður vel í hlaupinu og daginn eftir hlaup þá er allt í góðu. Ég tók út allar erfiðar æfingar og hlustaði á líkamann. Ég gekk líka upp á Helgafell, Úlfarsfell og upp að Steini. Það er svo mikill styrkur í þessum brekkum. Ég verð orkumeiri þegar ég hreyfi mig. Það er mjög eðlilegt að það komi tímar sem maður er þreyttur en ég hef sótt mér orku með því að hreyfa mig.“
Hún náði að hlaupa fram að þrítugustu viku á þriðju meðgöngunni og hljóp stundum fimm til átta kílómetra. „Lengsta hlaupið sem ég hef hlaupið ófrísk var í kringum átján til tuttugu kílómetrar en það var á fjórtándu eða sextándu viku. Svo snerist þetta meira um að fara út í hálftíma til klukkutíma og þegar á meðgönguna leið var þetta kannski komið niður í þrjá kílómetra. Margir pæla mikið í kílómetrafjöldanum en maður verður að bera virðingu fyrir líkamanum sínum og þó maður geti „bara“ farið þrjá kílómetra í lokin þá er það samt gott fyrir mann.“
Svo var von á fjórða barninu í fyrra og náði hún að hlaupa fram að 25. viku. „Þá var ég með stærri og meiri kúlu og var komin með togverki í liðbönd; ég fékk verki fyrr. Ég myndi samt alltaf mæla með að gera eitthvað annan hvern dag – hlaupa og labba til skiptis. Það er endalaust af fjöllum til dæmis í nágrenni höfuðborgarsvæðisins og það að ganga er svo góð styrktaræfing fyrir grind og læri en það gerði mikið fyrir mig að fara í fjallgöngur þegar ég gat ekki hlaupið. Ef ég átti slæman dag, var mjög þreytt eða illa sofin, þá fór ég kannski að hjóla í hálftíma. Maður þarf náttúrlega algjörlega að hlusta á líkama sinn og reyna að vera með þessa rútínu.“
„Ég skil að meðgöngur eru misjafnar og ég hef heyrt hryllingssögur
Gréta Rut segist hafa gengið rólega upp á Úlfarsfellið viku áður en hún fæddi yngsta barnið.
„Maður er bara að auka blóðflæði í líkamanum. Það fara alls konar gleðihormón í gang og það gefur manni svo ótrúlega mikið að fara út og fá súrefni og aðeins auka hjartsláttinn. Þetta gerir manni bara gott, andlega og líkamlega. Ég skil að meðgöngur eru misjafnar og ég hef heyrt hryllingssögur. En það skiptir máli að vera með þokkalega heilsu. Ég hugsaði ekki með mér að ég þyrfti að hreyfa mig sjúklega alla daga en ég ákvað að ég skyldi gera eitthvað annan hvern dag. Ég fór til dæmis líka í sund og hjólaði. Ég hreyfði mig en þá er maður miklu sneggri að koma sér í stand aftur eftir fæðingu.“

Í góðu formi í fæðingu
Það er gott ef kona er í góðu líkamlegu formi þegar kemur að fæðingunni og segist Gréta Rut halda að það hvað fæðingarnar gengu vel tengist því. „Það getur ýmislegt komið upp á í fæðingum og ég vil ekki alhæfa neitt en ég trúi ekki öðru en að hreyfingin hafi góð áhrif. Það er alvöru „mission“ að fæða barn og ég var allavega mjög þakklát fyrir að vera í þokkalegu standi. Ég held að það geri bara gott fyrir mann að vera með sterk lungu og vera kraftmikil, sama hvaða íþrótt maður stundar. Það má líkja fæðingu við íþróttakeppni; ég upplifi það þannig. Maður gengur með barnið og það er erfitt í lokin, allavega hjá mér, og svo kemur fæðingin sem tekur á og svo er barnið fætt og maður er smá „úff, hvað var ég að gera?“ en svo er maður kominn með barnið í fangið og þá er þetta svo þess virði. Ég tengi oft saman hlaup og að ganga með og fæða barn þótt verðlaunin séu ekki þau sömu.“

Hænuskref
Gréta Rut nefnir að talað sé um að konur eigi að fara mjög varlega og gera lítið sex vikum eftir fæðingu.
„Ég held að það sé ótrúlega mikilvægt að minna sig á að það þekkir enginn líkama sinn betur en maður sjálfur. Ég hef alltaf verið með það hugarfar en ekki að ég verði strax að hlaupa. Ég geri þetta í hænuskrefum. Og það er allt í lagi að byrja aðeins fyrr í þessum hænuskrefum og fara út í göngutúra og labba brekkur; þetta eru allt styrktaræfingar. Það er betra en að gera ekki neitt í sex vikur og fara svo út að hlaupa fjóra til fimm kílómetra. Ég hef alltaf verið með það markmið að taka þetta í minni skrefum en þá byrja ég kannski tveimur til þremur vikum eftir fæðingu og fer aðeins út í göngutúr. Það er hægt að fara út annan hvern dag í tíu mínútur eða tuttugu mínútur í stað þess að hlaupa þrjá kílómetra annan hvern dag. Þetta snýst meira um að fara út og byrja að ganga og prufa síðan að hlaupa nokkur skref og gera þetta í algjörum hænuskrefum. Það er það sem ég hef verið að vinna með.“
Hún talar ekki bara um göngutúra heldur líka kraftgöngur og segir að það sé ótrúlega mikill styrkur sem hún hafi fengið út úr þeim. „Þá var maður náttúrlega að koma hlaupahreyfingunni líka inn í líkamann með því að fara í kraftgöngur og ganga upp brekkur. Þannig að maður getur gert margt áður en maður fer í hlaupaferð. Það er hægt að gera ótrúlega hluti áður en maður dettur í þann pakka.“
Hlabb
Gréta Rut segir að hún hafi byrjað að hlaupa á gervigrasvelli þegar hún fór að hlaupa aftur eftir fæðingu og að það sé gott að byrja að hlaupa aftur þannig. „Það getur verið ójafnt undirlag utanvega og þess vegna kýs ég gervigras.“
Hún segist halda að margar nýbakaðar mæður séu hræddar við æfingar sem hún segist skilja. „Það er enginn skaði skeður þótt maður finni smá eymsli hér og þar en þá veit maður frekar að þar eru mörkin. Ég hef farið í göngutúra tíu dögum eftir að ég hef fætt en það er eðlilegt að fá harðsperrur og maður er náttúrlega að vekja alls konar vöðva og bein sem hafa verið í dvala. Maður á að vera ófeiminn við þetta. Ég hef byrjað að hlaupa nokkur skref um fimm vikum eftir fæðingu. Ég hef aldrei markvisst farið út að hlaupa fjóra kílómetra. Kannski hef ég gengið í kringum Rauðavatn og ákveðið að prófa að skokka fimmtíu metra og svo kannski hundrað metra. Maður kallar þetta hlabb, að hlaupa og labba til skiptis. Það er gott að byrja þannig.“
Athugasemdir