Eldsnöggur eldri hlaupari á heimsmælikvarða

Haf­steinn Ósk­ars­son meidd­ist sem ung­ur hlaup­ari og þurfti að hætta en er nú í fremstu röð í heim­in­um í milli­vega­lengd­um í sín­um ald­urs­flokki. „Eins og að vera á góð­um sport­bíl,“ seg­ir hann um að hlaupa hratt.

Eldsnöggur eldri hlaupari á heimsmælikvarða
Annað sætið Hafsteinn Óskarsson varð annar í 800 metra hlaupi 65 til 69 ára í Flórída í mars.

Ég ætla að verða í fremstu röð á meðal jafnaldranna,“ segir menntaskólakennarinn Hafsteinn Óskarsson sem er í fremstu röð í heiminum í sínum aldursflokki í millivegalengdum. Hann náði nú í lok mars öðru sæti á heimsmeistaramóti innanhúss fyrir eldri flokka í Flórída í 800 metra hlaupi.

Þetta gerir hann eftir að hafa þurft að hætta hlaupum sem ungur maður.

„Það var mjög skemmtilegt að taka þátt í heimsmeistaramótinu í Flórída,“ segir Hafsteinn. „Þetta var risastórt mót með nokkur þúsund keppendum og stóð yfir í átta daga. Þetta var innanhússmót og skipulagt þannig að í flestum greinum þurfti að vera undankeppni ef þátttakendur voru nægilega margir,“ segir Hafsteinn.

„Til dæmis hjá okkur sem vorum í 800 metra hlaupi í mínum flokki þá þurfti að hlaupa á tveimur dögum. Fyrst voru undanúrslit og síðan úrslit. Við vorum  tuttugu keppendur og það þurfti að hlaupa í fjórum riðlum og síðan voru úrslitin daginn eftir. Ég sigraði nú reyndar í mínum riðli og var með besta tímann. 

Ég hafði í janúar hlaupið 800 metra á 2:22,46 mínútum þannig að ég hafði áhuga á að reyna að bæta þann tíma. Þegar ég hljóp þetta í vetur þá var það í þriðja skipti sem ég náði að bæta Norðurlandametið og þar með Íslandsmetið í flokknum.“

Norðurlandameistari 

Í febrúar varð Hafsteinn Norðurlandameistari í 800 metra hlaupi á Norðurlandamótinu í Noregi án þess að ná að bæta sig.

„Það hafði sýnt sig á síðustu æfingum fyrir HM að ég gæti hlaupið enn hraðar og ég lagði af stað með það fyrir augum, vitandi að það var þarna í hlaupinu maður sem hefur náð betri tíma en ég og það talsvert betri tíma. Ég vissi að hann er endasprettsmaður, mjög sterkur í endaspretti, þannig að ég treysti ekkert á það að vera í rólegu hlaupi og reyna að vinna hann með endaspretti. Svo ég hljóp bara mitt hlaup, eins og maður segir. Ég leiddi hlaupið í úrslitunum alveg fyrstu 700 metrana. Þá tók hann fram úr  mjög örugglega og ég átti greinilega ekki séns í hann en kom inn í öðru sæti og var með tímann 2:22,70. Mig vantaði pínulítið upp á að bæta mig. Það munaði ekki nema 24/100 úr sekúndu. Miðað við æfingarnar í vikunni áður var ég svekktur með tímann. Ég hefði viljað bæta mig. Ég er hins vegar sérstaklega ánægður með annað sætið. Það var virkilega gaman.“

Sigurvegarinn endasprettharði bætti mótsmetið og kom í mark á 2:21,00 en sá í 3. sætinu náði 2:24,79.

AfreksfólkFríða Rún Þórðardóttir keppti einnig á mótinu í Flórída og komst á verðlaunapall.

Annar Íslendingur á palli

Fríða Rún Þórðardóttur, var einnig á HM í Flórída og varð heimsmeistari í víðavangshlaupi í 55–59 ára flokki, vann til silfurverðlauna í 3.000 metrum og bronsverðlauna í 1.500 metrum. „Ég er formaður í nefnd á vegum Frjálsíþróttasambandsins sem vinnur að framgangi frjálsíþrótta í eldri aldursflokkum og situr Fríða Rún með mér í henni ásamt tveimur öðrum.“

Hafsteinn, sem hleypur almennt sex daga vikunnar, segir að þessi árangur tryggi að hann muni ekkert fara að hætta að hlaupa þótt hann hafi reyndar ekkert verið að íhuga það. „Maður er í þessu af tveimur ástæðum. Það er annars vegar það að vera í líkamsrækt, sem maður myndi nú gera hvort sem er, og svo hins vegar að stunda áhugamál. Ég grínast stundum með það að ég æfi þrisvar í viku til að halda heilsunni og þrisvar í viku til að stunda áhugamálið.“ 

Framarlega og stundum fyrstur

Hafsteinn segir að þegar hann var 11 til 12 ára hafi tvö bekkjarsystkini sín, sem æfðu frjálsíþróttir, stundum keppt í að hlaupa í kringum skólann í frímínútum. Hafsteinn segir að hann hafi getað hlaupið jafnhratt og þau. „Það var alveg greinilegt að þetta átti vel við mig. Ég fann ekkert fyrir því þótt ég yrði móður og þreyttur; það skipti mig einhvern veginn engu máli. Og það er dálítið svoleiðis enn þá. Þó ég sé alveg að springa úr mæði, þá er það bara þannig og hvað með það?“

Eldri bræður Hafsteins æfðu sem unglingar hlaup á Melavellinum með ÍR. „Þeir létu svo vel af þessu að ég smitaðist bara af þeim í raun og veru og fór 13 ára að fara út á Melavöll á æfingar hjá Guðmundi Þórarinssyni sem var þar þjálfari ÍR til fjölda ára. 

Það kom strax í ljós að ég gat verið framarlega í mínum aldursflokki og stundum fyrstur. Það var eitthvað sem heillaði mig við það; það er alltaf gaman að vera bestur í einhverju.“

Fimm hlaupandi systkiniMynd sem var líklega tekin árið 1977. „Mamma tók myndina eftir að við fimm systkinin af átta lukum keppni í víðavangshlaupi ÍR. Kristberg (látinn), ég, Margrét, Sumarliði og Þorgeir.“

Hafsteinn segist hafa æft stíft þar til hann var 18 ára og að þá hafi hann náð sínum besta tíma  í 800 metrum, eða 1:54,40 mínútum. Þá var hann orðinn svo slæmur í hásin að hann varð að hætta og hann hljóp ekkert í þrjú ár og á þeim tíma fór hann tvisvar í skurðaðgerð vegna þessa. 

„Ég byrjaði svo aftur að hlaupa og náði tveimur góðum árum eftir það. Ég var kominn í lag en náði ekki að bæta mig í 800 metra hlaupi en bætti mig hins vegar í í 1.500 metrum niður í 3:57,9 og prófaði 3.000 metra hindrunarhlaup þar sem ég komst í landsliðið og náði best 9:22,86.

Svo fóru alls konar meiðsli að há mér á sama tíma og stofnun fjölskyldu og vinna fóru að hafa forgang. Ég tók langt hlé hvað varðar hlaupin. Ég var hættur þessu 27 ára gamall.“

Mynd úr startinu í 800 metrum í Flórída.

Byrjar aftur fertugur

Fertugur byrjaði Hafsteinn að skokka svolítið og taka aðeins í lóðin en hann hafði haldið sér í einhverju formi með hjólreiðum og útivist fram að því.

„Smátt og smátt fór ég að hlaupa lengra og fór í skokkhóp ÍR þegar ég var 43 ára. Ég byrjaði að kíkja aðeins á hlaupabrautina þegar innanhússaðstaða var opnuð í Laugardalshöll í kringum 2006. Og þá fékk ég svolítið bakteríuna aftur, að prófa að hlaupa á braut og keppa á brautinni. Og þegar ég var orðinn 48 ára var ég kominn eiginlega á fullt í því.“

„Það er eins og að vera á góðum sportbíl sem fer hratt

Þegar Hafsteinn byrjaði að hlaupa aftur um fertugt var fyrst og fremst um að ræða götuhlaup. „Svo fór ég að skoða úrslit á Evrópumeistaramótum og heimsmeistaramótum í aldursflokknum og sá að ég átti greinilega langmestan sénsinn á að verða framarlega í millivegalengdahlaupum. Svo fannst mér líka bara gaman að geta hlaupið alvöru hratt en þá var maður að hlaupa mikið hraðar heldur en í fimm og tíu kílómetra götuhlaupum. Það er eins og að vera á góðum sportbíl sem fer hratt. Það er mjög skemmtileg tilfinning að finnast maður vera á miklum hraða. Ég hef líka gaman af að æfa með fjölbreyttum hætti; það er að segja að um sé að ræða mikla styrktarþjálfun og síðan spretthlaup og langhlaup í bland. Það þarf að tvinna þessu öllu vel saman. Og liðleikaþjálfun þarf að vera stór partur af því líka til þess að ná að halda sterkum löngum skrefum í svona hröðu hlaupi.“

Hafsteinn lenti í lok mars í öðru sæti í 800 metrum á heimsmeistaramóti í eldri aldursflokkum innanhúss sem fór fram í Flórída í Bandaríkjunum.

Alþjóðleg mót

Hafsteinn fór á Norðurlandameistaramót innanhúss árið 2006 og náði þá að sigra í 1500 metra hlaupi. Það var í fyrsta skipti sem hann fór á alþjóðlegt mót í eldri aldursflokkum. Á Evrópumeistaramóti utanhúss árið 2008 náði hann 7. sæti í 800 metra hlaupi en 5. sæti í 1.500 metra hlaupi á heimsmeistaramóti utanhúss í Kaliforníu árið 2011. Síðan þá hefur hann haldið áfram að taka þátt í alþjóðlegum meistaramótum eins og aðstæður hafa leyft.

„Ég blandaði saman götuhlaupum og brautahlaupum á þessum tíma og hljóp oft fimm og tíu kílómeta í götuhlaupum í keppni þegar ég var um fimmtugt. Það var í uppáhaldi hjá mér að geta tekið þátt í víðavangshlaupi ÍR; mér tókst nú einu sinni að sigra í því en það var 1983 eftir að ég kom til baka eftir hásinameiðslin á sínum tíma. Svo kom í ljós fljótlega eftir að ég var byrjaður að hlaupa aftur í öldungahlaupunum á fimmtugsaldrinum að ég var farinn að verða talsvert sterkari í styttri hlaupum á brautinni en í 5 og 10 kílómetra. Brautahlaupin skiluðu mér miklu framar í úrslitum ef ég bar mig saman við alþjóðlegan standard. Það styrkti mig í þessu fyrir utan það að það er skemmtilegra að æfa fyrir styttri hlaup, eða það sem við köllum millivegalengdahlaup sem eru 800, 1500 og 3000 metra hlaup. Síðan má ekki gleyma því hversu mikið það gefur manni að fylgjast með þeim mikla fjölda eldri þátttakenda sem taka þátt í alþjóðamótunum og verða vitni að þeirri keppnisgleði sem þar skín úr augum allra.“

Hafsteinn náði að setja nokkur Íslandmet í 400 til 3.000 m í aldursflokknum 45–49 ára, ýmist innanhúss eða utanhúss. Sum þeirra standa enn.

SigurreifurEftir verðlaunaafhendingu í Flórída.

Í alvöru keppnisformi

„Árið 2010 var ég kominn í nýjan aldursflokk. Þá var ég orðinn fimmtugur og í fínu formi og fannst sem ég ætti að geta att kappi við þá bestu í Evrópu. Ég náði 3. sætinu í 800 metra hlaupi eftir harða keppni og náði  2:05,78. sem stendur  enn þá sem utanhússmet.“ Hann lenti síðan aftur í þriðja sæti í 1500 metra hlaupi á Evrópumeistaramótinu í 55 ára flokki; hann segir að fyrir utan annað sætið í mars á þessu ári séu þetta helstu sigrarnir síðustu fimmtán árin.

„Þegar ég var á þessum aldri var ég kominn í alvöru keppnisform fyrir brautahlaup. Þetta þróaðist þannig smátt og smátt á kannski fimm árum. Það varð alltaf minni áhersla á götuhlaupin og smátt og smátt meiri áhersla á brautahlaupin. 

Ég var orðinn fljótari og sterkari og réði við að hlaupa á gaddaskóm alveg á fullu, alveg á útopnu, án þess að meiða mig eða finna neitt sérstaklega fyrir því. Þegar maður hvílir sig í tíu ár þá getur það tekið jafnvel sjö til átta ár að ná því aftur vegna þess að vöðvarnir rýrna. 

Ég var kominn í svipaðan pakka og fólk á milli tvítugs og þrítugs hvað varðar álag, meiðsli og allt mögulegt vesen. Ég er eiginlega búinn að missa töluna á því hversu oft ég hef síðan dottið úr keppni vegna þess að ég hef verið að meiða mig. En svo kemur maður til baka og maður heldur sig við þetta og gefst ekkert upp. Maður kannski svissar yfir í hjólreiðar eða einhverja aðra líkamsrækt á meðan maður er meiddur en er samt sem áður með hugann við hlaupin og reynir að byggja sig upp aftur. Þannig að það hafa verið tímabil þar sem það hefur verið vesen á manni.“

Þakkar konunni

Hafsteinn þakkar konu sinni, Sigurrósu Erlingsdóttur, fyrir þann skilning sem hún hefur sýnt þessu áhugamáli hans og að hún hafi stutt hann dyggilega, meðal annars með því að koma með á mót erlendis. 

Þriðji á EvrópumótiFrá Evrópumeistaramótinu 2010 í Nyiregyhaza í Ungverjalandi þar sem Hafsteinn náði 3. sæti í 800 metra hlaupi í flokknum 50-54 ára á tímanum 2:05,80 mín.

Hafsteinn segir, eins og þegar hefur komið fram, að hlaupunum fylgi heilsurækt og svo veita þau honum ómælda ánægju í frítímanum en hann starfar sem kennari við Menntaskólann við Sund.

„Ég hleyp stundum einn og læt æfingatímann algjörlega ráðast af því hvernig vinnan er og hvað er að gerast að öðru leyti en síðan eru fastir tímar tvisvar og stundum þrisvar í viku og þá hitti ég æfingafélagana. Svo hef ég aðstöðu í skólanum þar sem ég kenni og hef ég sparað mikinn tíma með því að fara þangað strax eftir vinnu og fara í styrktaræfingar.“

Finnur ekki fyrir aldrinum á hlaupum

Hafsteinn nýtur leiðsagnar hlaupaþjálfarans Sigurðar P. Sigmundssonar og segist hann æfa með frábærum hlaupahópi hans. Þar eru hlauparar á öllum aldri, meðal annars fjórir á mínum aldri en einnig nokkrir á unglingsaldri og svo allt þar á milli.“

Talið berst að aldrinum en Hafsteinn er 65 ára.

„Þegar ég er að hlaupa þá er tilfinningin alveg sú sama og hún var
Hafsteinn Óskarsson
65 ára afreksmaður í hlaupi

„Ég finn aðeins minni hreyfanleika miðað við áður. Það er að segja að ég finn mest fyrir því að vera stirðari í daglegu lífi þegar ég er að hreyfa mig og beygja. Ef maður þarf eitthvað að vera að vinna á gólfinu eða leika við barnabörnin þá er liðleikinn minni en hann var. Svo þegar ég er að hlaupa þá er tilfinningin alveg sú sama og hún var. Þetta snýst allt um hvað maður setur mikla ákefð í hlaupin. Þó að hraðinn sé minni en hann var þegar ég var yngri þá finnur maður ekkert fyrir því. Maður veit ekkert af því. Það er bara klukkan sem segir það. Þannig að þegar ég hleyp núna á 2:22 mínútum og er í góðu formi og í góðri keppni þá er það nákvæmlega eins og þegar ég hljóp 18 ára á 1:54.“

Fólk yfir fertugt eigi að hlaupa hratt

Hafsteinn er talsmaður þess að fólk sem er komið yfir fertugt og fimmtugt hugi meira að því að styrkja sig og hlaupa hratt og blanda miklu meira sprettum inn í hlaupaþjálfunina. „Það er svolítið um að fólk hlaupi of mikið, of langt og of rólega sem gefur raunverulega ekki eins mikið og það gæti miðað við tímann sem fólk setur í það. Ég myndi segja að það væri betri nýting á klukkutíma að hlaupa í hálftíma og taka svo styrktarþjálfun í hálftíma heldur en að hlaupa bara í klukkutíma. Eða blanda saman mjög hröðum sprettum. Ég er að taka spretti alveg niður í 50 til 100 metra. Og þá er maður að gera allt annað. Þá opnar maður miklu meira mjaðmirnar og maður þarf að teygja sig í skrefin. Það er allt önnur hreyfing og miklu meiri hreyfing sem virkjar margfalt fleiri vöðva.“

Hafsteinn segir að nú sé markmiðið að halda sér meiðslalausum og geta æft þannig að hann geti tekið á á fullu annað slagið. „Það þarf ekki að vera mjög oft á ári. Og það þarf að halda sér gangandi þannig að maður geti verið í þessum fína félagsskap sem eru hlaupafélagarnir. Og svo hitti ég annað slagið þá sem eru í fremstu röð í heiminum.“

Í október verður svo haldið Evrópumeistaramót utanhúss sem Hafsteinn stefnir á að taka þátt í ásamt fleira áhugasömu eldra fólki.

HindrunarhlaupariFriðrik Þór Óskarsson tók þessa mynd af Hafsteini í 3000 metra hindrunarhlaupi í landskeppni Íslands og norðurhluta Noregs, Svíþjóðar og Finnlands (svokölluð Kalottkeppni) í Alta, Noregi, 1983. „Ég náði þar mínum besta tíma, 9:22,86 mín.“

 

 

 

 

 

 

 

Kjósa
6
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.
Tengdar greinar

Hlaupablaðið 2025

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár