Leikflétta Trumps og framtíð Palestínu

Don­ald Trump leik­ur á þjóð­ar­leið­toga Evr­ópu og Mið-Aust­ur­landa, þar sem yf­ir­lýst markmið hans er að skapa frið og til­gang­ur­inn á að helga með­al­ið, sama hvað það kost­ar íbúa Palestínu.

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, hét því að koma á friði fyrir botni Miðjarðarhafs á fyrra kjörtímabili sínu. Hann hefur jafnframt haldið því fram að stríðsátökin í Úkraínu hefðu aldrei átt sér stað ef hann hefði verið forseti og hans fyrsta verk sem endurkjörinn forseti væri að stilla til friðar. Hvernig ber einn valdamesti þjóðarleiðtogi heims sig að? 

Leiðarljós Trumps að eigin sögn er friður í krafti styrks. Það er leiðin til að ná friði að hans mati og leiðin til koma í veg fyrir að Bandaríkin sogist inn í kostnaðarsöm stríðsátök. 

Aðferðarfræði forsetans virðist vera sú að koma öllum fyrst í uppnám með því að skjóta yfir markið með orðum sínum og gjörðum og fá þannig alla til að stökkva upp til handa og fóta. Þarna notfærir hann sér alþjóðlega stöðu BNA sem stórveldi og skapar sér um leið samningsstöðu eða svigrúm til að beita bæði þrýstingi og tilslökunum, þar sem Trump kemur til móts við óskir annarra upp að vissu marki. Hann tekur til sinna ráða án samráðs við aðra og skapar sér þannig forskot sem leiðir til þess á endanum að allt verður eftir hans höfði. 

Fyrsti fundurinn með Netanyahu

Lítum til þróunar mála undanfarið í málefnum Gasa og Úkraínu. Markmið forsetans er að koma á friði sem og endurheimta og draga úr kostnaði bandarískra skattgreiðenda við að tryggja öryggi og varnir í Mið-Austurlöndum og Evrópu. 

Fyrsti þjóðarleiðtoginn sem Trump fundaði með eftir embættistökuna var Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísraels. Hann mætti í eigin persónu í Hvíta húsið og eftir fund þeirra var haldinn blaðamannafundur þar sem Trump kynnti tillögu sína um flutning allra íbúa Gasa yfir til Egyptalands og Jórdaníu. Hann tilkynnti jafnframt að Bandaríkin myndu taka yfir Gasa og reisa þar glæsilegan baðstrandarbæ fyrir fólk alls staðar að úr heiminum. Atburðarásin sem fór af stað í kjölfarið var að bæði Egyptaland og Jórdanía andmæltu harðlega, áttu fund með ráðamönnum í Sameinuðu arabísku furstadæmunum og Sádi-Arabíu, þrýstingur á að Hamas færi frá völdum var aukinn frá einstaka Aarabalöndum og Arababandalaginu (e. Arab League) með þeim rökum að það væri Palestínumönnum og hagsmunum þeirra fyrir bestu, ríkin fjögur leggja fram móttillögu sem felur í sér normalíseringu milli Arabalanda og Ísraels, fullveldi Palestínu, svæðisbundið varnarfyrirkomulag og öryggi fyrir Ísraelsríki (e.  regional defense arrangements and security) og fara að vinna að áætlun um endurbyggingu Gasa undir forystu Sádi-Arabíu, þar sem gert er ráð fyrir áframhaldandi búsetu Palestínumanna á Gasa. Að lokum lítur út fyrir að Hamas-samtökin séu tilbúin að fara frá völdum og gefa þau yfir til heimastjórnarinnar. 

Þrýstingur á Úkraínu

Tillögu Trumps um frið í Úkraínu var lekið. Trump talaði við Valdimir Pútín Rússlandsforseta í síma og eftir það við Volodymyr Zelensky, forseta Úkraínu. Þar hefur Trump hugsanlega rætt við forsetann um aðgengi Bandaríkjanna að auðlindum Úkraínu, gasi og olíu, sem leið fyrir úkraínska ríkið til að endurgreiða fyrir bandaríska hernaðaraðstoð. Það er komið að skuldadögum og samkomulag er nú þegar í höfn. Fyrst eftir þrýsting frá Trump og síðan tilslakanir.  

Nokkru eftir símtal Trumps og Pútíns funda Marco Rubio, bandaríski utanríkisráðherrann og Sergey Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, ásamt fylgdarliði í Sádi-Arabíu til að leggja línurnar fyrir friðarviðræður milli Rússa og Úkraínumanna. Það er gert án allrar aðkomu Úkraínu og Evrópu- og NATO-landa. Val á fundarstað er athyglisvert og bendir til þess að Trump sé að taka upp þráðinn þar sem frá var horfið í lok fyrra kjörtímabils hans, þegar samningur á milli Sádi-Arabíu og Ísraels, með milligöngu Bandaríkjanna, um friðsamlegt stjórnarsamband í anda Abrahams-samkomulagsins var í burðarliðnum. 

Mikilvægar tímasetningar 

Tímasetningar Trumps eru lykilatriði. Fundir með Netanyahu og seinna Pútín voru skömmu áður en öryggisráðstefnan í München fór fram. Allt sem Trump gerir leiðir til þess að ráðamenn í sitthvorum heimshlutanum finna sig knúna til að taka á sig aukna ábyrgð, þegar kemur að því að tryggja frið og öryggi í sínum heimshluta, með tilheyrandi kostnaði fyrir þessi ríki en sparnaði fyrir Bandaríkin. 

Þetta kallast að setja mál á dagskrá. Mest fór þó fyrir umræðu um stöðu varnar- og öryggismála í Evrópu í tengslum við tal Trumps um hlutverk Bandaríkjanna innan NATO og hugmyndir hans um hvernig enda megi stríðsátökin í Úkraínu og stuðla að friði með eftirgjöf til Rússa og í raun til Bandaríkjanna líka. 

Eftir öryggismálaráðstefnuna boðaði Emmanuel Macron Frakklandsforseti til tveggja neyðarfunda vegna Úkraínu sem áttu sér stað um svipað leyti og utanríkisráðherrar Bandaríkjanna og Rússlands funduðu í Sádi-Arabíu. Síðan fór Frakklandsforseti á fund Trumps, fyrstur þjóðarleiðtoga Evrópu. Þar sagði hann að Evrópa myndi standa sig betur varðandi öryggis- og varnarmál. Hver leiðtoginn á fætur öðrum segir slíkt hið sama, sem er á vissan hátt mótsagnakennt, að auknar líkur á friði haldist í hendur við aukna hernaðaruppbyggingu innan Evrópu, samkvæmt kröfu Trumps að því er virðist vera. Draumurinn um frið stuðlar þannig að aukinni hernaðarhyggju.    

Staðan í Palestínu 

Um leið og mikil umræða heldur áfram að fara fram um Úkraínu, öryggis- og varnarmál Evrópu og sambandið við Bandaríkin, hefur minna farið fyrir umræðu um framvindu mála á Gasa og í Palestínu. 

Frá upphafi fyrra kjörtímabils síns hefur Trump sagt að hann myndi koma á friði í Mið-Austurlöndum. Það sé markmiðið og tilgangurinn helgi meðalið, enda má halda því fram með rökum að aðdragandinn að hinni hörmulegu árás Hamas þann 7. október 2023 hafi verið frumkvæði Trumps um hina svokölluðu Abrahams-samninga.

Það eru samningar sem eiga að stuðla að friðsamlegu stjórnmálasambandi milli Arabalanda og Ísraels, eða normalíseringu samskipta. Það sem einkennir samningana er hins vegar að krafan um fullvalda ríki Palestínu er ekki lengur skilyrði fyrir normalíseringu, líkt og verið hefur síðan árið 2002, með tilkomu friðartillögu Arababandalagsins. Þvert á móti fela Abrahams-samningarnir í sér skeytingarleysi gagnvart málstað Palestínumanna. Hvatinn fyrir ríkin sem undirrituðu samningana á tímabilinu 2020 til 2021 var þessu skeytingarleysi yfirsterkari. 

Sem dæmi viðurkenndu Bandaríkin fyrst allra í heiminum yfirráð Marokkó yfir Vestur-Sahara í skiptum fyrir undirritun samningsins. Verðlaunin til Súdans voru að taka þau af svörtum lista yfir ríki sem veita hryðjuverkasveitum stuðning. Þrátt fyrir mótmæli bæði heimastjórnar Palestínumanna og Hamas-samtakanna gegn samningunum þá var haldið áfram veginn. Samningur við Sádi-Arabíu var í farvatninu þegar Hamas-samtökin gerðu árás 2023.

Hugmyndin um flutning Palestínumanna frá Gasa

Eftir að Trump tók aftur við völdum 2025 hefur hann haldið vegferð sinni áfram. Núna þegar Gasa er í rúst er markmiðið enn hið sama, að koma á friði hvað sem það kostar Palestínumenn, virðist vera.

Sem fyrr segir var fyrsti fundur Trumps með erlendum þjóðarleiðtoga með Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísraels. Eftir fund þeirra fór afar vel með þjóðarleiðtogunum tveimur á blaðamannafundi í beinni útsendingu. Trump kallaði Netanyahu alltaf gælunafni hans, Bibi. Að lokum tók hann utan af gjöfinni til hans þegar hann greindi frá tillögu sinni um að allir Palestínumenn á Gasa yrðu fluttir þaðan yfir til Egyptalands og Jórdaníu. Bandaríkin myndu síðan taka landsvæði Gasa yfir, reisa þar glæsilegan strandstað og skapa atvinnu fyrir fólk alls staðar að úr heiminum. Bibi tók vel í hina gölnu hugmynd hins bandaríska bandamanns síns og besta vinar.

Netanyahu hefur síðan haldið hugmynd Trumps á lofti, ásamt nokkrum samstarfsráðherrum og bandaríska utanríkisráðherranum, Marco Rubio. Það gerir hann þrátt fyrir að bæði Egyptar og Jórdanir hafi andmælt þessum fyrirætlunum um leið og þær voru kynntar. 

Konungur Jórdaníu stendur fast á sínu

Abdullah II bin Al-Hussein, konungur Jórdaníu, hefur staðið fast á sínu þó að Trump hafi gefið í skyn, í heimsókn konungsins til Washington D.C., að bandarískur stuðningur við Jórdaníu yrði ella dreginn saman. Lög hafa verið samþykkt af þingheimi Jórdaníu um að óheimilt sé fyrir íbúa Gasa að taka sér varanlega búsetu í landinu. Á sama tíma hefur konungur Jórdaníu reynt að sannfæra Trump um að hugmyndin sé ekki til þess fallin að fá Sádi-Araba til að skrifa undir Abrahams-samkomulag við Ísrael, sem er sameiginlegt markmið Trumps og Netanyahu.

Þrátt fyrir það hefur Trump haldið áfram þeim málflutningi að Palestínumönnum skuli, að minnsta kosti, vera gefinn sá valkostur að yfirgefa Gasa fyrir fullt og allt. Blaðakona hafði síðan eftir Gideon Sa’ar, utanríkisráðherra Ísraels, á öryggisráðstefnunni í München að það sem fólk kallaði Palestínu væri land Ísraelsríkis: „What you call Palestine – this is the land of Israel.“

Þetta eru sömu orð og landtökufólk á Vesturbakkanum og Austur-Jerúsalem notar til að réttlæta rán sitt á landi og yfirtöku bygginga Palestínumanna. Réttlætingin er sú að þau séu eingöngu að taka það sem tilheyrir þeim nú þegar, land Palestínu, Júdea og Samaría. 

Andstaða við tillögu Trumps 

Egyptaland og Jórdanía eru ekki ein á báti í andstöðu við hugmynd Trumps. Arabaríkin öll sem eitt, með Sádi-Arabíu í broddi fylkingar, eru á öðru máli en bandaríski forsetinn. Það sama gildir um þungavigtarmenn í bandarískum stjórnmálum.

Repúblikanamegin hefur öldungadeildarþingmaðurinn Lindsey Graham opinberlega afskrifað fyrirætlanir Trumps. Graham er mikill stuðningsmaður Trumps, en jafnframt áhrifamaður þegar kemur að utanríkis- og þjóðaröryggismálum. Hann hefur sagt að innan öldungadeildarþingsins sé enginn áhugi á yfirtöku Bandaríkjanna á Gaza.

Demókratamegin er það öldungadeildarþingmaðurinn Richard Blumenthal sem telur að Arabaríkin verði að koma með raunhæfa tillögu um hvernig málum á Gasa skuli fyrirkomið.

Þeir voru báðir í þingmannasendinefnd sem átti fund með Benjamin Netanyahu í Tel Aviv, eftir fund hans með Trump í Washington D.C. Eftir fundinn í Tel Aviv var haft eftir Graham að það eina sem Trump hefði komið til leiðar var að Arabaríkin vöknuðu upp og löngu tímabærri umræðu var hrundið af stað. Það væri nú þeirra að finna betri valkost fyrir Gasa en tillögu Trumps.  

Funduðu um framtíð Gasa

Í kjölfarið áttu fulltrúar Sádi-Arabíu, Sameinuðu arabísku furstadæmanna, Jórdaníu og Egyptalands fund til að ræða framtíð Gasa og koma með móttillögu við tillögu Trumps.

Haft var eftir Blumenthal að konungur Jórdaníu hefði sannfært hann um að á leiðinni væri plan sem fæli í sér normalíseringu milli Arabalanda og Ísraels, fullveldi Palestínu, svæðisbundið varnarfyrirkomulag og öryggi fyrir Ísraelsríki (e.  regional defense arrangements and security), eins og fyrr segir. Ef tillagan væri raunsæ væru vatnaskil í uppsiglingu að mati Blumenthal.

Arabaríki hafa einnig verið að vinna að áætlun um endurbyggingu Gasa undir forystu Egyptalands. Hamas-samtökin hafa gefið til kynna að þau séu reiðubúin til að fara frá völdum í kjölfar aukins þrýstings frá leiðtogum í Mið-Austurlöndum. Var meðal annars haft eftir Mohamed bin Zayed, ráðgjafa forseta Sameinuðu arabísku furstadæmanna, og Ahmed Aboul Gheit, framkvæmdastjóra Arababandalagsins, að það væri Palestínumönnum fyrir bestu að Hamas færi frá völdum.

Sakar heimastjórnina um píslarvættavæðingu

Á sama tíma hefur Netanyahu opinberlega verið mótfallinn því að heimastjórn Palestínumanna taki við stjórninni á Gasa, enda lítill sem enginn munur á Hamas og heimastjórninni að hans mati. Máli sínu til stuðnings heldur hann því fram að heimastjórnin ýti undir róttækni með áróðri meðal ungmenna í skólum Palestínu, með píslarvættavæðingu og greiðslum til fjölskyldna þeirra Palestínumanna sem eru fangelsaðir eða drepnir af Ísraelsher.

Forseti Palestínu, Mahmoud Abbas, hefur brugðist við þessum ásökunum með því að samþykkja lög sem afnema greiðslur til fjölskyldna þeirra sem eru fangelsaðir eða drepnir í baráttunni gegn hernáminu. Þrátt fyrir það hefur Netanyahu endurtekið að hann sé hlynntur hugmynd Trumps um að allir íbúar Gasa hverfi þaðan og mótfallinn því að heimastjórn Palestínumanna taki við stjórnartaumunum.

Á sama tíma hefur Times of Israel eftir þremum embættismönnum að forsætisráðherrann hafi sagt síðastliðið sumar að það væri hugsanlega hlutverk fyrir heimastjórnina í Gasa eftir að Hamas-samtökin væru farin frá, sem er í samræmi við hugmyndir Joe Bidens, fyrrum forseta Bandaríkjanna, leiðtoga Mið-Austurlanda og Evrópusambandsins. 

Framtíðin á Gasa og Vesturbakkanum

Sú herkænska að ganga fram af öllum virðist vera að virka til að ná markmiði Trumps og að hluta til markmiðum Ísraelsstjórnar: Arabaríkin eru að koma Hamas frá völdum, koma með tillögur að uppbyggingu á Gasa og hvernig megi tryggja öryggi Ísraels.  

Á sama tíma og leiðtogar Mið-Austurlanda ræða framtíð Gasa og leiðtogar Evrópu ræða framtíð Úkraínu, fer Ísraelsher fram með hörku gegn Palestínumönnum á Vesturbakkanum. Yfirlýstur tilgangur aðgerða hersins er að uppræta hryðjuverkastarfsemi. Nú þegar er búið að rýma þrennar flóttamannabúðir í Jenin, Tulkarem og Nur Shams sem eru eins og hvert annað íbúðahverfi. Um 42 þúsund Palestínumanna eru heimilislausir og hafa að engu að hverfa þar sem herinn hefur einnig verið að jafna heimili fólks við jörðu. Sá fjöldi sem nú er heimilislaus leggst ofan á þann fjölda fólks sem hefur nú þegar verið neytt til að yfirgefa heimili sín í allt að 50 þorpum á Vesturbakkanum í kjölfar ofbeldis og árása vopnaðra landtökumanna. Þær árásir hafa átt sér stað í skugga árásanna á Gasa.

Á sama tíma eru aðgerðir í gangi í Austur-Jerúsalem sem minna óþægilega mikið á bókabrennur á tíma Þýskalands nasismans. Ekki alls fyrir löngu voru tveir bræður, sem reka bókabúðina Education Bookshop í Austur-Jerúsalem, handteknir af óeinkennisklæddum mönnum sem komu í skjóli nætur og lögðu bókabúðina þeirra í rúst um leið og þeir unnu áætlunarverk sitt: fjarlægðu óæskilegar bækur úr hillum búðarinnar. Það er búið að sleppa þeim bræðrum úr haldi gegn tryggingu og mjög ströngum skilyrðum. 

Þetta er eitt. Annað er sá fjöldi fólks á Vesturbakkanum og á Gasa sem er heimilislaust og á um sárt að binda. Um 48 þúsund hafa verið drepin á Gaza frá 7. október 2023 og fram til dagsins í dag. Til viðbótar eru um 112 þúsund særðir. Tölur um mannfall eru frá heilbrigðisráðuneytinu í Gaza, sem talið er áreiðanlegt samkvæmt Sameinuðu þjóðunum en byggt á vanmati samkvæmt læknatímaritinu Lanzet sem telur að að mannfallið sé mun hærra.  

Alls voru 1,9 milljón manns eða 90 prósent íbúa neydd til að yfirgefa heimili sín á flótta undan sprengingunum Ísraelshers. Meirihluti íbúanna hefur snúið aftur til síns heima eftir að vopnahlé komst á. Meirihlutinn hefur hins vegar ekki að neinu að hverfa þar sem um 55 prósent allra bygginga hafa orðið fyrir sprengjuárásum flugvéla og skriðdreka Ísraelshers úr lofti og láði. Yfir 70 prósent heimila fólks hafa verið eyðilögð, meðal annars með jarðýtum. Það varð til þess að bandarísk stjórnvöld frystu innflutning á jarðýtum til Ísraels í lok árs 2024.

Takmarkanir á mannúðaraðstoð

Þrátt fyrir vopnahlé hefur Ísraelsríki haldið áfram að koma í veg fyrir innflutning á tjöldum, sem og gámahúsum, og hlýjum fatnaði, sem veldur dauða fólks og heilsubresti. Slíkar takmarkanir á mannúðaraðstoð brjóta í bága við fyrirskipun Alþjóðadómstólsins í Haag um bráðabirgðaráðstafanir vegna málsóknar Suður-Afríku á hendur Ísraels um þjóðarmorð.

Það sama gildir um allar þær hindranir sem eru í vegi annars konar mannúðaraðstoðar, svo sem takmarkanir á innflutningi byggingarefnis, meðal annars til uppsetningar á salernum. Sjúkdómar breiðast út vegna skólp- og sorpmengunar. Lyf eru af skornum skammti. Um 83 prósent af allri mataraðstoð til Gaza síðastliðið haust komst ekki á áfangastað. Um 94 prósent af vatnsforða Gaza er óhæfur til neyslu. Á fundi öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna í nóvember var talið að hætta væri á allsherjarhungursneyð á Gaza.

Ástandið hefur síður en svo batnað síðan þrátt fyrir vopnahlé og mótmæli fjölda hjálparsamtaka og alþjóðastofnana. Starfsemi Flóttamannaaðstoðar Palestínumanna, UNRWA, er í uppnámi.  Samkvæmt könnun Sameinuðu þjóðanna þá eru um 90 prósent íbúa Gaza reglulega án matar í heilan dag og talið að um 50 prósent íbúa, eða um ein milljón, sé í hættu á að deyja vegna hungurs. Í raun hefur ástandið versnað en ekki batnað samkvæmt Sameinuðu þjóðunum eftir að vopnahlé komst á.

Á sama tíma eru raddir sem kalla eftir innlimun Vesturbakkans háværar. Þar fer fremstur í flokki Israel Katz, varnarmálaráðherra Ísraels, sem stjórnar aðgerðum hersins á Vesturbakkanum og hefur fyrirskipað hernum að undirbúa sig fyrir að veita Palestínumönnum aðstoð við að fara „af sjálfsdáðum“ frá Gasa.

Margir hafa bent á að aðgerðir Pútíns Rússlandsforseta gegn Úkraínu séu atlaga að Stofnsáttmála Sameinuðu þjóðanna og alþjóðakerfinu sem skapað var til að tryggja frið við lok seinni heimsstyrjaldarinnar. Kallað er eftir samstöðu með Úkraínu, enda sé það í þágu þess að standa vörð um alþjóðalög og alþjóðakerfið. Hið sama má svo sannarlega segja um alvarleg brot Ísraelsríkis á alþjóðalögum. Þau kalla á samstöðu með hinu hernumda ríki Palestínu og fólkinu þar.


Höfundur er alþjóðastjórnmálafræðingur
Kjósa
9
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár